18.11.2011 | 08:13
Matthías Á. Mathiesen. Minningarorð
Matthías Á. Mathiesen var vanmetinn stjórnmálamaður. Hann var ræðumaður í meðallagi og ekki alltaf skörulegur. En hann var einn lagnasti stjórnmálamaður, sem ég hef kynnst. Hann kunni leikreglur íslenskra stjórnmála út í hörgul. Hann var prýðilega gefinn, en átti líka auðvelt með að laða til liðs við sig menn, sem voru betur að sér í ýmsum efnum og bættu hann þannig upp. Hann var vingjarnlegur við alla, lága sem háa, og stutt í brosið. Hann var líka varfærinn og slyngur. Þetta olli því, að hann reyndist farsæll stjórnmálamaður ekki síður en vinsæll og hlaut meiri frama en margir höfðu séð fyrir, varð foringi sjálfstæðismanna í stóru kjördæmi og lengi ráðherra.
Matthías varð þjóðkunnur, þegar hann felldi sjálfan forsætisráðherrann, Emil Jónsson, í Hafnarfirði í vorkosningunum 1959. Á meðan Emil flutti ræður niður til Hafnfirðinga, sat Matthías glaðhlakkalegur með kjósendum yfir kaffibolla á vinnustöðum og jafnvel niðri á bryggjusporðum. Engum líkaði illa við þennan elskulega nýútskrifaða lögfræðing, aðeins tuttugu og átta ára. Ekki spillti fyrir, að kona hans, Sigrún Þorgilsdóttir, var áhugasamur stuðningsmaður, rösk og drjúg í kosningabaráttu. Matthías varð fljótt áhrifamikill á þingi. Þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerðist sendiherra í Kaupmannahöfn 1965 í því skyni að undirbúa forsetaframboð, vildi Bjarni Benediktsson gera Geir Hallgrímsson að varaformanni. Þá fóru nokkrir þingmenn með Matthías í broddi fylkingar til Bjarna og sögðu nei. Þeir vildu, að varaformaðurinn kæmi úr þingflokknum og nefndu Jóhann Hafstein. Þótt Bjarni hefði frekar augastað á Geir sem eftirmanni, lét hann undan. Bjarni var parlamentíker, sagði Matthías við mig.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksis 1965 var kosið á milli Styrmis Gunnarssonar og Matthíasar í miðstjórn flokksins, en eftir kosninguna bauð Matthías Styrmi heim til sín um kvöldið, þeir fengu sér smávegis í staupin og urðu góðir vinir. Gerðist Matthías einn af helstu stuðningsmönnum Geirs Hallgrímssonar, en var samt enginn andstæðingur Gunnars Thoroddsens, sem hann kunni vel að meta fyrir gáfur og mælsku. Þegar Geir myndaði ríkisstjórn 1974, þótti Matthías sjálfkjörinn ráðherra. Gegndi hann stöðu fjármálaráðherra af prýði frekar en með tilþrifum næstu fjögur ár. Ég sat á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1978 og fékk að fara með Matthíasi í bíl um kjördæmið. Sá ég þar, hversu góðu sambandi hann var í við almenna flokksmenn. Hann mundi öll nöfn og fylgdist vel með lífi fylgismanna sinna og starfi. Hélt hann vel utan um fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, þar sem hann var nú oddviti.
Matthías varð aftur ráðherra 1983 og fór fyrst með viðskiptamál, þar sem hann steig merkileg skref í frjálsræðisátt, en var síðan utanríkisráðherra og loks samgönguráðherra. Hann sat á þingi til 1991. Matthías hafði konu- og barnalán mikið, en átti síðustu árin við vanheilsu að stríða. Missir okkar er mikill. Íslandi veitir ekki af heiðursmönnum eins og Matthíasi Á. Mathiesen.
(Minningarorð í Morgunblaðinu 17. nóvember 2011.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook