18.5.2011 | 21:01
Svartamyrkur liggur yfir landinu
Ég las á dögunum mjög fróðlega og fjörlega skrifaða bók, Engan þarf að öfunda, eftir bandarískan blaðamann, Barböru Demick. Hún er um daglegt líf í Norður-Kóreu. Höfundurinn hefur starfað fyrir Los Angeles Times í Kína og Suður-Kóreu og auðvitað farið til Norður-Kóreu, þótt hún segi raunar, að erfitt sé að safna þar einhverjum upplýsingum, því að tveir menn fylgist með hverju hennar fótmáli, og á annar um að leið að hafa gætur á hinum og öfugt.
Ég horfi sjálfur jafnan furðu lostinn á fréttamyndir frá Norður-Kóreu í sjónvarpinu. Yfir þeim er einhver óraunveruleikablær. Þær eru eins og úr kvikmynd eftir George Orwell, þar sem allir eiga að elska Stóra bróður. Kommúnistum hefur í Norður-Kóreu tekist að stofna fyrsta konungsríki sitt: Kim Jong-il tók við völdum eftir föður sinn, Kim il-Sung, og talið er, að yngsti sonur Kims Jong-il verði síðan arftaki hans. Orðin, sem áróðursmenn Norður-Kóreu nota um þessa leiðtoga landsins, hljóma mjög skringilega í eyrum venjulegra Vesturlandamanna.
Kafli er um Norður-Kóreu í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi á íslensku og ritstýrði 2009. Þar eru hroðalegar lýsingar á kúguninni í landinu.
Barbara Demick segir öðru vísi frá. Hún einbeitir sér að mannlega þættinum. Hún rekur örlög nokkurra einstaklinga, sem sumir hafa sloppið, jafnvel fyrir hreina tilviljun, frá Norður-Kóreu, en landamærin við Kína eru enn ekki alveg lokuð. Hún segir frá því, þegar hagsýn móðir, frú Song, reynir að hafa nóg í matinn, eftir að hungursneyð skellur á, og hvernig ungir elskendur, Mí-ran og Jung-san, nýta sér myrkrið á kvöldin til að hittast í leyni, því að undir venjulegum kringumstæðum mega þau alls ekki eigast; faðir Mí-ran hafði barist í her Suður-Kóreu. Bregður Barbara Demick upp ógleymanlegum myndum af lífi venjulegs fólks, sem býr við óvenjulegar aðstæður. Erfitt er að leggja frá sér bókina, fyrr en lesandinn veit, hvað verður um allt þetta fólk, sem hann fær áhuga á og samúð með. Klukkan glymur því eins og okkur hinum.
Barbara Demick minnist á myrkrið á kvöldin. Ég sýni stundum nemendum mínum glæru með loftmynd, úr gervitungli, af þessu svæði að næturlagi. Allt er uppljómað í Japan og Suður-Kóreu, og talsvert er af ljósum í Kína og Rússlandi, norðan landamæranna við Norður-Kóreu. En svartamyrkur liggur yfir Norður-Kóreu. Þetta er enn skýrara tákn um kommúnismann en Berlínarmúrinn, sem nú er hruninn.
En hvenær kvikna ljós í Norður-Kóreu? Þótt landið sé örsnautt land og hungurvofan jafnan á næsta leiti, hika leiðtogarnir ekki við að smíða kjarnorkusprengjur og hafa einn fjölmennasta her í heimi undir vopnum. Mörg hundruð þúsund stjórnmálafangar hírast við vondan aðbúnað í þrælabúðum.
En á sama hátt og Berlínarmúrinn átti sína formælendur, hafa nokkrir Íslendingar þegið boð leiðtoga Norður-Kóreu um skoðunarferðir þangað austur.
Birna Þórðardóttir fór sem fulltrúi Æskulýðsfylkingarinnar (þar sem hún starfaði með Má Guðmundssyni, núverandi seðlabankastjóra) á æskulýðsmót í Norður-Kóreu sumarið 1971 og dvaldist þar eystra í fimm vikur. Var hún líklega fyrsti Íslendingurinn, sem þangað hafði komið, eftir að alþýðulýðveldið var stofnað, og hitti hún Kim il-Sung tvisvar að máli. Henni leist vel á sig í landi, þar sem ríkið tók alla framleiðslu til sín, en skammtaði síðan fólki matvæli.
Þetta er mjög nostursamt fólk og minnir helst á iðnar býflugur, sagði Birna í viðtali við Þjóðviljann. Og það, sem slær mann helst í stuttri dvöl, eru framfarir og hin stórkostlega efnahagslega uppbygging, sem átt hefur sér stað í Norður-Kóreu eftir viðbjóðslega eyðileggingu í Kóreustríðinu á árunum 195053. Aðspurð kvað hún dýrkun á Kim il-Sung eðlilega. Þegnar landsins litu á hann sem fyrirmynd svipað og Íslendingar á Jón Sigurðsson. Hún sagði, að Pyongyang væri fögur borg og blessunarlega laus við blikkbeljur, en með því átti hún við einkabíla, sem voru auðvitað ekki leyfðir.
Þrettánda heimsmót æskunnar, sem kommúnistar skipulögðu, var haldið í Norður-Kóreu 1989. Sóttu það fjórir Íslendingar, Jóhanna Eyfjörð, Sveinþór Þórarinsson, Jóhann Björnsson og Guðmundur Auðunsson. Í viðtali við Þjóðviljann viðurkenndu tveir þátttakendur, þau Jóhanna og Sveinþór, að mikil dýrkun virtist í Norður-Kóreu vera á Kim Il Sung. Leiðtogadýrkunin á þó sínar eðlilegu skýringar. Foringjadýrkun hefur löngum loðað við austur-asísk ríki, og nægir þar að nefna dýrkun Japana á keisaranum. Reyndar þarf ekki að fara til Asíu til að finna hliðstæður, þótt séu eins stórkallalegar. Hvernig láta ekki Bretar með konungsfjölskylduna?
Þessa Íslendinga þarf ekki að öfunda af dómgreindarskorti sínum eða ofstæki. Og því síður þarf að öfunda Norður-Kóreumenn af hlutskipti sínu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Facebook