Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var í gær, 16. nóvember 2010. Ég bý enn að því, hversu góða íslenskukennslu ég fékk í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar kenndi Jón S. Guðmundsson mér í þrjá vetur og Helga Kress í einn vetur. Þau voru bæði góðir kennarar. Enn man ég, þegar Helga brýndi fyrir okkur nemendum í fjórða bekk að flakka ekki á milli nútíðar og þátíðar í einni og sömu setningu. Jón útrýmdi villum, ambögum og ensku- og dönskuslettum af miklum dugnaði úr ritgerðum okkar. Hann reyndi að kenna okkur að skrifa einfalt, gott, íslenskt mál. Mótaði hann málsmekk þúsunda nemenda sinna til góðs.

Jón S. Guðmundsson var einn af lærisveinum Sigurðar Nordals, sem var í senn snillingur á íslenska tungu, virtur fræðimaður og vitur hugsuður. Eitt sinn í íslenskutíma í sjötta bekk spurði ég Jón, hverju hin mikla gagnrýni nokkurra íslenskumanna á hendur Sigurði sætti. Hann svaraði með vísu Steingríms Thorsteinssonar:

Eggjaði skýin öfund svört,

upp rann morgunstjarna:

„Byrgið hana, hún er of björt,

helvítið að tarna.“

Ég var svo heppinn, að Jón las yfir fyrir mig í handriti margar bækur mínar og færði þar margt til betri vegar. Ein bókin, sem hann las yfir, er sú, sem nú er komin út eftir fimmtán ára undirbúning, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku. Þar reyni ég að varðveita margt, sem vel hefur verið mælt á íslensku.

Ég hef hins vegar áhyggjur af framtíð íslenskrar tungu. Það kapp, sem áður var lagt á að skrifa hreint og gott mál, virðist vera horfið. Tökum tvö dæmi úr fjölmiðlum síðustu vikur. Talað er um malaríu. Heitir hún ekki mýrakalda á íslensku? Og upphæðir eru tilgreindar í dollurum. Af hverju ekki í Bandaríkjadölum?

Fundir í minni deild, stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs, eru jafnan haldnir á ensku. Ég hef ekki gert athugasemdir við það, því að ég er öðrum þræði þeirrar skoðunar, að Háskólinn eigi að vera alþjóðlegur. En um leið verður hann að vera þjóðlegur. Við höfum ekki ræktað þar þjóðleg gildi nógu vel hin síðari ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband