Athugasemd við sjómannadagsræðu Kára Stefánssonar í Grindavík

Þessi ræða er ekkert annað en lýðskrum. Ég skal reyna að skýra í örstuttu máli, hvers vegna kvótakerfið er í senn réttlátt, arðbært og sjálfbært. Fiskihagfræðin og raunar auðlindahagfræði almennt kennir okkur, að ótakmarkaður (ókeypis) aðgangur að takmarkaðri auðlind hefur í för með sér ofnýtingu hennar. Á einhvern hátt varð að takmarka aðgang að fiskistofnunum á Íslandsmiðum, ella hefðu þeir haldið áfram að vera ofnýttir, eins og þeir sannarlega voru áður fyrr: sextán bátar voru að landa afla, sem átta bátar hefðu hæglega getað landað. Brugðið var á það eðlilega og nánast óumflýjanlega ráð að takmarka aðganginn við þá, sem þegar voru að nýta fiskistofnana, enda hafði það í för með sér minnsta röskun fyrir þá og fyrir þjóðarheildina.

Smám saman kom í ljós, að hagkvæmast var að takmarka aðganginn með aflaheimildum, sem væru varanlegar og framseljanlegar. Þá lenti rétturinn til að veiða smám saman í frjálsum viðskiptum með kvóta í hendur þeirra, sem best voru fallnir til útgerðar sökum áhuga eða útsjónarsemi. Og af því að kvótarnir voru varanlegir (ótímabundnir), fóru útgerðarmenn að hafa áhuga á því að gera auðlindina sem arðbærasta til langs tíma litið, en láta ekki aðeins greipar sópa til skamms tíma. Þeir fóru að hegða sér eins og eigendur, ekki leigjendur, og sættu sig til dæmis við stórkostlega skerðingu á hámarksafla, þegar það var nauðsynlegt.

Þessar miklu breytingar fóru friðsamlega fram. Smám saman minnkaði sóknin niður í það, sem hagkvæmast var, og útgerðarfyrirtækin gátu einbeitt sér að því að veiða sem hagkvæmast upp í sinn kvóta. Fiskveiðarnar urðu líka öruggari og skipin betri. Það er engin tilviljun, að fyrsta árið, þegar enginn drukknaði við veiðar á Íslandsmiðum, var árið 2008. Veiðarnar voru orðnar vel skipulagðar. En var þá einhver réttur tekinn af öðrum Íslendingum en þeim, sem fengu aflaheimildirnar upphaflega í samræmi við aflareynslu? Já, rétturinn til að veiða á núlli, því að fiskihagfræðin kennir okkur, að sókn við opinn (ótakmarkaðan og ókeypis) aðgang aukist, þangað til öllum hugsanlegum gróða hefur verið sóað í sóknarkostnað.

Vissulega græddu útgerðarmenn á þessari breytingu, en sá gróði var ekki tekinn af neinum, heldur myndaðist hann við það, að veiðarnar urðu hagkvæmari, átta bátar fóru að landa afla, sem sextán bátar höfðu áður gert. Og sá gróði skilaði sér auðvitað miklu betur út í þjóðlífið en hann hefði gert, hefði ríkið hirt hann í skatta (auk þess sem hann hefði þá orðið miklu minni). Menn sjá ofsjónum yfir því, að einhverjir seldu sínar aflaheimildir og fóru út úr sjávarútvegi. En það var einn af höfuðkostum kerfisins. Ætlunin var einmitt að minnka sóknina! Menn voru keyptir út úr greininni í stað þess að vera hraktir út úr henni, eins og gerst hefði, hefði til dæmis aðgangur verið takmarkaður með uppboði ríkisins á aflaheimildum, eins og sumir hagfræðingar uppi í háskóla lögðu til og horfðu þá alveg fram hjá hagsmunum þeirra, sem höfðu gert það að ævistarfi sínu að veiða fisk og höfðu lagt mikið fé í kunnáttu og tæki.

Kerfið er réttlátt, vegna þess að réttur var ekki brotinn á neinum og eini rétturinn skertur, sem var rétturinn til að gera út á núlli, og hann er einskis verður, jafnframt því sem tekið var eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra, sem voru að veiðum, þegar kerfið var sett á. Kerfið er arðbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna einbeita sér að því að gera út með sem minnstum tilkostnaði. Og kerfið er sjálfbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna vilja vitanlega fara varlega í meðferð þeirrar auðlindar, sem þeir hafa fengið nýtingarrétt á. Þeir vilja ákveða hámarksafla á hverri vertíð gætilega.

Það er engin tilviljun, að Ísland er eina landið í okkar heimshluta, þar sem sjávarútvegur er arðbær. Alls staðar annars staðar hokrar hann á ríkisstyrkjum. Eina leiðin til að túlka ákvæðið um þjóðareign er, að ráðstafa þurfi auðlindinni þannig, að þjóðin hafi sem mestan hag af henni, þegar til langs tíma er litið, og það er við núverandi fyrirkomulag. Þjóðin hefði ekki hag af því, að stjórnmálamenn og embættismenn fengju fleiri tækifæri, meira fé, til að bora jarðgöng, niðurgreiða nöldurmiðla, fara á Saga Class á ráðstefnur erlendis og reisa fleiri stórhýsi yfir þingið.


Amsterdam, apríl 2023

HHG.20.04.2023Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti ég fyrirlestur 20. apríl 2023 í fallegum fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að ég varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Ég spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði ég, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2023.)


Bloggfærslur 10. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband