Hallað á tvo aðila

Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir tók sæti í Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sagði hún í blaðaviðtali: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Sigríður átti auðvitað við Fjármálaeftirlitið, sem átti samkvæmt lögum að hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem átti að sjá um fjármálalegan stöðugleika.

Með þessum fyrirframdómi varð Sigríður tvímælalaust vanhæf, þótt hún neitaði að víkja, er eftir því var leitað. Nokkrar aðrar ástæður voru til að draga í efa hæfi nefndarmanna. Þegar Björgólfsfeðgar keyptu Landsbankann 2003, var föður Sigríðar, sem hafði verið yfirmaður lögfræðisviðs bankans, sagt upp. Þetta varð fjölskyldunni mikið áfall, eins og heimildir eru til um. Annar nefndarmaður, Tryggvi Gunnarsson, átti son, sem missti við bankahrunið starf sitt í Landsbankanum, og tengdadóttir hans gegndi yfirmannsstöðu í Fjármálaeftirlitinu.

Deila má um, hvort þessar viðbótarstaðreyndir hafi einar sér valdið vanhæfi. En á daginn kom, að rannsóknarnefndin hallaði frekar á Landsbankann en hina viðskiptabankana og á Seðlabankann frekar en Fjármálaeftirlitið. Til dæmis var í skýrslu nefndarinnar rangt farið með nokkrar lánveitingar til Björgólfsfeðga úr bönkum, og sú staðreynd var vandlega falin, að lántökur þeirra í Landsbankanum minnkuðu miklu hraðar árin fyrir bankahrun en lántökur annarra eigendahópa í sínum bönkum.

Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn fann nefndin ekkert athugavert við embættisfærslur seðlabankastjóranna þriggja nema það, að þeir hefðu ekki aflað nægra upplýsinga til stuðnings tveimur ákvörðunum, sem þó voru taldar eðlilegar, að neita Landsbankanum um lausafjárfyrirgreiðslu í ágúst 2008 og Glitni um neyðarlán í september sama ár. En Seðlabankinn hafði ekki aðgang að slíkum upplýsingum, aðeins Fjármálaeftirlitið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.)


Tómlátt andvaraleysi?

Skömmu eftir að Sigríður Benediktsdóttir var í árslok 2008 skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu, sagði hún í bandarísku stúdentablaði: „Mér finnst sem þetta sé niðurstaðan af öfgakenndri græðgi margra sem hlut eiga að máli og tómlátu andvaraleysi þeirra stofnana sem hafa áttu eftirlit með fjármálakerfinu og sjá áttu um fjármálalegan stöðugleika í landinu.“ Sigríður átti við tvær stofnanir, Fjármálaeftirlitið, sem skyldi hafa eftirlit með fjármálakerfinu, og Seðlabankann, sem skyldi vinna að fjármálastöðugleika. Hún hafði þannig fellt dóm fyrirfram. Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, hringdi því í Sigríði 22. apríl 2009 og bað hana að víkja úr nefndinni. Hún neitaði, og Páll glúpnaði.

En Seðlabankinn verður ekki sakaður um „tómlátt andvaraleysi“. Þegar Davíð Oddsson var nýorðinn seðlabankastjóri haustið 2005, varaði hann ráðherrana Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde við því, að bankakerfið gæti hrunið. Það væri orðið stærra en svo, að íslenska ríkið fengi bjargað því í lánsfjárkreppu. Hann stakk upp á því við bankastjóra viðskiptabankanna (eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar), að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi, Glitnir seldi hinn stóra banka sinn í Noregi og Landsbankinn færði Icesave-reikninga í Bretlandi úr útbúi í dótturfélag. Auðvitað gat hann ekki látið áhyggjur sínar í ljós opinberlega. Í nóvember 2007 sagði Davíð þó á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs, að bankakerfið væri „örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma“. Í árslok 2007 varaði hann ráðherrana Geir H. Haarde og Þorgerði K. Gunnarsdóttur enn við hugsanlegu hruni bankakerfisins. Seðlabankinn fékk í febrúar 2008 enska fjármálafræðinginn Andrew Gracie til að gera skýrslu um vanda bankakerfisins, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að það gæti hrunið í október.  

Fram eftir ári 2008 margreyndi Seðlabankinn að gera gjaldeyrisskiptasamninga við aðra seðlabanka, en var víðast hafnað. Bankinn ákvað því að bjarga því sem bjargað yrði með því að takmarka eftir föngum skuldbindingar hins opinbera. Stofnaður var í kyrrþey starfshópur um lausafjárstýringu, sem undirbjó neyðarráðstafanir. Bankinn þurfti að senda einkaþotu eftir fjármálaráðgjöfum J. P. Morgan, svo að þeir gætu sannfært hikandi ráðherra Samfylkingarinnar á næturfundi um þá lausn, sem valin var með neyðarlögunum 6. október 2008. Fátt af þessu vissi Sigríður, þegar hún tilkynnti dóm sinn um „tómlátt andvaraleysi“ í hinu bandaríska stúdentablaði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021.)


Styrmir Gunnarsson

Sá Styrmir Gunnarsson, sem ég kynntist ungur, var ólíkur hinni opinberu mynd af Morgunblaðsritstjóranum, en hann átti að vera klækjarefur með alla þræði í hendi sér. Sá Styrmir, sem ég þekkti, hafði þrjár eiginleika til að bera í meira mæli en flestir aðrir: hann var trygglyndur, vinnusamur og tilfinninganæmur. Hann var um árabil einn nánasti trúnaðarmaður Geirs Hallgrímssonar, enda sagði Geir mér úti í Lundúnum haustið 1981, að hann vildi helst, að Styrmir tæki við formennsku af sér. Er bók Styrmis um átökin í Sjálfstæðisflokknum á áttunda og níunda áratug hin fróðlegasta. En Styrmir var ekki síður tryggur æskuvinum sínum, jafnvel þótt þeir hefðu haslað sér völl annars staðar, og þótti okkur sjálfstæðismönnum stundum nóg um.
Styrmir var afar vinnusamur, vakinn og sofinn á Morgunblaðinu, en um leið jafnan reiðubúinn að eyða löngum tíma í spjalli yfir hádegisverði eða kaffibolla, og kom þá í ljós, hversu áhugasamur hann var um fólk. Hann hugsaði miklu frekar í mönnum en málefnum, fannst mér stundum. Þó var hann eindreginn fylgismaður lýðræðisþjóðanna í Kalda stríðinu og stundaði þá upplýsingaöflun fyrir Vesturveldin, eins og hann lýsir í einni bók sinni. Hann sagði mér, að þeir Matthías Johannessen hefðu ákveðið eftir sigurinn í Kalda stríðinu að beita ekki hinu mikla afli Morgunblaðsins til að gera upp við íslenska kommúnista. Græða þyrfti sár frekar en stækka. En hann efaðist samt stundum um, að sú ákvörðun hefði verið rétt, sérstaklega eftir að hann las bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna.
Styrmir var í þriðja lagi mjög tilfinninganæmur. Hann var í hjarta sínu, fannst mér, enginn sérstakur stuðningsmaður hinna ríku og voldugu, eins og margir héldu, heldur hafði hann óskipta samúð með lítilmagnanum, hver sem hann var. Hann tók alltaf svari smákapítalistanna gegn stórlöxunum. Jafnframt átti hann til mikla blíðu. Við sátum stundum að skrafi á skrifstofu hans á Morgunblaðinu, og var hann þá hinn ákveðnasti, en ef dætur hans hringdu, tók hann alltaf símann og málrómurinn breyttist, röddin lækkaði og mýktist. Hann reyndist fjölskyldu sinni og vinum mjög vel, og hann elskaði land sitt og þjóð fölskvalaust. Hann var þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.
(Minningargrein í Mbl. í dag. Myndin er af dr. Arnóri Hannibalssyni prófessor, Styrmi og dr. Þór Whitehead prófessor í kvöldverðarboði Davíðs Oddssonar til heiðurs utanríkisráðherrum Eystrasaltslandanna 25. ágúst 1991, þegar Ísland varð fyrst landa til að endurnýja viðurkenningu sína á þessum löndum.)
Arnór.Styrmir.Þór.25.08.1991

Bloggfærslur 3. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband