Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.10.2007 | 11:30
Hvar skal mjöllin frá liðnum vetri?
Ja, hvar skal nú mjöllin frá liðnum vetri? orti franska skáldið François Villon: Mais où sont neiges dantan? Snjórinn kemur og fer, hann er í senn árviss og hverfull. Hið sama er að segja um fullyrðingarnar, sem Stefán Ólafsson prófessor skellir fram fyrir hverjar kosningar. Þær eru snjókúlur, sem bráðna. Hér skal ég nefna eitt dæmi til viðbótar öllum þeim, sem ég hef áður bent á. Stefán hélt því fram á fjölmennum baráttufundi í Öskju 3. maí 2006, nokkrum dögum fyrir byggðakosningar, að á Íslandi væri hagur aldraðs fólks lakari en í flestum grannríkjum. Að sögn hans var eitt dæmi þess, eins og Morgunblaðið greindi frá daginn eftir, að samkvæmt nýlegri skýrslu Efnahags- og samvinnustofnunarinnar í París, O. E. C. D., um lífeyrismál gæti íslenskur launþegi vænst þess að fá 66% af atvinnutekjum sínum í lífeyri, en meðaltalið í löndum O. E. C. D. væri 69%. Þetta sýnir því að lífskjör Íslendinga verða samkvæmt þessu undir meðallagi, sagði Stefán.
Villandi tala
Þetta er í meira lagi hæpið. Í fyrsta lagi var talan, sem Stefán nefndi, villandi. Í skýrslu O. E. C. D. höfðu væntanlegar lífeyristekjur hvarvetna verið reiknaðar út fyrir þrjá hópa, lágtekjumenn, meðaltekjumenn og hátekjumenn. Tala Stefáns, 66% af atvinnutekjum, átti aðeins við um meðaltekjumenn. Lágtekjumenn gátu samkvæmt skýrslunni vænst þess að fá 96% af atvinnutekjum sínum. Þetta var hæsta hlutfall á Norðurlöndum og talsvert hærra en meðaltal í löndum O. E. C. D., sem var 91%. Hátekjumenn gátu vænst þess að fá 81% af atvinnutekjum sínum í lífeyristekjur, en meðaltalið í löndum O. E. C. D. var 79%. Af þremur tölum í skýrslunni tók Stefán aðeins þá, sem honum hentaði. Í öðru lagi munu lífeyrissjóðir í mörgum grannríkja okkar fyrirsjáanlega ekki geta staðið undir skuldbindingum sínum ólíkt íslensku lífeyrissjóðunum. Um er að ræða loforð, sem ekki verða efnd. Í þriðja lagi eru lífslíkur Íslendinga hærri en flestra annarra þjóða, svo að samanburður getur verið torveldur (til dæmis ef lífslíkur annarra þjóða hækka til jafns við okkar, svo að minna verður þar til skiptanna). Í fjórða lagi var í skýrslu O. E. C. D. ekki reiknað með lífeyrissparnaði í séreignarsjóðum, sem er verulegur á Íslandi.
Ný skýrsla
Þetta var vorið 2006. Nú er komin út ný skýrsla O. E. C. D. um lífeyrismál, en Stefán Ólafsson þegir þunnu hljóði, enda engar kosningar í bráð. Samkvæmt skýrslunni getur íslenskur lágtekjumaður vænst þess að fá í lífeyristekjur 111% af atvinnutekjum sínum. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall aðeins hærra í Danmörku, en meðaltalið í löndum O. E. C. D. er 84%. Launþegi með meðaltekjur getur á Íslandi vænst þess að fá 84% af atvinnutekjum sínum í lífeyristekjur, og á Norðurlöndum er þetta hlutfall aðeins hærra í Danmörku, en meðaltalið í löndum O. E. C. D. er 70%. Íslenskur hátekjumaður getur vænst þess að fá í lífeyristekjur 80% af atvinnutekjum sínum, og er það hlutfall hið hæsta á Norðurlöndum, en meðaltalið í löndum O. E. C. D. er 61%. Það er því fjarri lagi, sem Stefán Ólafsson fullyrti 2006, að lífskjör íslenskra lífeyrisþega yrðu undir meðallagi innan O. E. C. D. Tölurnar í hinni nýju skýrslu eiga við um árið 2004, og má ætla, að ástandið hafi enn batnað. Auk þess ber sem fyrr að hafa í huga, að lífeyrissjóðir okkar standa betur undir sér en í flestum grannríkjum og að lífeyrissparnaður í séreignarsjóður er hér verulegur.
Batnandi hagur
Ég hef áður vakið athygli á þeirri niðurstöðu norrænu tölfræðinefndarinnar Nososko, að á Norðurlöndum séu lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Íslandi. Fyrir þingkosningarnar 2007 reyndi Stefán Ólafsson árangurslaust að gera þá niðurstöðu tortryggilega. Síðan má minna á, hvílík kjarabót niðurfelling eignarskatts var fyrir lífeyrisþega, sem margir búa í stórum húsum, enda var sá skattur stundum kallaður ekknaskattur. Auðvitað búa einhverjir lífeyrisþegar við þröngan hag, en það breytir því ekki, að kjör þessa hóps eru almennt betri hér en víðast annars staðar og eiga eftir að batna.
Fréttablaðið 5. október 2007.
23.9.2007 | 18:33
Ráðstefna um Írland og Ísland
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.9.2007 kl. 22:27 | Slóð | Facebook
21.9.2007 | 11:50
Hvaðan kom féð?
Maður er nefndur Hernando de Soto. Hann er verkfræðingur frá Perú, en hefur getið sér orð fyrir bók, sem komið hefur út á íslensku og heitir Leyndardómar fjármagnsins. Þar spyr de Soto: Hvers vegna hefur kapítalisminn tekist vel á Vesturlöndum, en mistekist í mörgum þróunarlöndum? Svar hans er: Vegna þess að í þróunarlöndunum er fjármagnið lítt virkt. Erfitt er að stofna fyrirtæki, og margvísleg gæði, sem fátækt fólk nýtir, eru ekki skrásettar eignir þess, veðhæfar og framseljanlegar. Jafnólíkir stjórnmálamenn og Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafa lokið lofsorði á bókina. Kenning de Sotos skýrir vel það, sem hefur verið að gerast á Íslandi síðustu sextán árin. Kapítalisminn hefur tekist hér vonum framar, vegna þess að fjármagn, sem var áður lítt virkt, er skyndilega orðið virkt.
Ófullkominn eignarréttur í þróunarlöndum
Að sögn de Sotos er vandi fátækra þjóða ekki fólginn í skorti á fjármagni. Fólk þar syðra er jafnvinnusamt og sparsamt og Vesturlandabúar. En gæðin, sem það notar, til dæmis jarðir, hús og fyrirtæki, eru sjaldnast skrásettar eignir. Þessi gæði eru því ekki veðhæf, svo að erfitt er að fjármagna breytingar á nýtingu þeirra og umbætur á þeim. Af sömu ástæðu eru þessi gæði ekki framseljanleg nema að litlu leyti. Hin lífræna sköpun, sem einkennir kapítalismann, þrotlaus leit framkvæmdamanna að nýjum nýtingarmöguleikum fjármagns, á sér því lítt stað í þróunarlöndunum. Fjármagnið er rígfast. Straumur þess í hagkvæmustu farvegi er stíflaður. Maður, sem á húskofa í fátækrahverfi í suðrænni stórborg, getur ekki komið þeirri eign sinni í verð. Húskofinn er verðmætur, en verðlaus. Þessi sami maður getur ef til vill lifað af því að selja flíkur á útimarkaði, en ef hann ætlar að stofna saumastofu, þá er það tafsamt og dýrt. Allt þetta er miklu auðveldara á Vesturlöndum. Þar er fjármagn skrásett, veðhæft og framseljanlegt, svo að það hreyfist og vex.
Ófullkominn eignarréttur á Íslandi
Þótt Íslendingar væru tekjuháir allt frá því í upphafi seinni heimsstyrjaldar, var kapítalismi hér miklu vanþróaðri en víða annars staðar á Vesturlöndum, aðallega vegna þess að eignarréttur var ófullkominn. Fiskistofnar á Íslandsmiðum voru til dæmis verðmætir frá náttúrunnar hendi, en verðlausir í skilningi laganna. Aðgangur að þeim var ókeypis, svo að þeir voru ofnýttir. Þeir voru ekki skrásett, veðhæft eða framseljanlegt fjármagn. Hið sama var að segja um ríkisfyrirtæki, til dæmis viðskiptabanka, síldarverksmiðjur og ýmsar aðrar opinberar eigur. Þau gengu ekki kaupum og sölum á markaði, og erfitt var að hagræða í rekstri þeirra. Allir áttu þau (í orði kveðnu), svo að enginn bar ábyrgð á þeim. Þetta var fé án hirðis, eins og Pétur Blöndal alþingismaður kallar það, en hugsunin í þeim orðum er svipuð og í bók de Sotos. Þriðja dæmið er ýmis samvinnufyrirtæki. Þótt látið væri svo heita, að einhverjir aðilar ættu þau, gátu þeir ekki selt hluti sína í þeim eða nýtt þá á neinn skynsamlegan veg. Erfitt var að sameina slík fyrirtæki eða skipta þeim upp, eftir því sem hagkvæmast var hverju sinni.
Einkavæðing í almannaþágu
Það, sem gerðist hér eftir 1991, en hafði auðvitað hafist að nokkru leyti áður, var einkavæðing hinna eigendalausu gæða. Fiskistofnar komust í hendur útgerðarmanna í krafti kvótakerfisins og urðu skrásett, veðhæft og framseljanlegt fjármagn. Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur giskar á, að þetta nýja fjármagn hafi numið um 350 milljörðum króna. Ríkisfyrirtæki voru seld, og um leið og þau komust í hendur nýrra eigenda, tóku þau að bera arð, urðu skrásett, veðhæf og framseljanleg. Að mati Yngva Arnar skapaðist þar um 370 milljarða króna nýtt fjármagn. Í þriðja lagi voru sum samvinnufélög sett á markað, þar á meðal sparisjóðir. Um allt þetta þrennt, fiskistofna, ríkisfyrirtæki og samvinnufélög, gilti, að fjármagn, sem áður hafði verið lítt eða ekki virkt, varð nú virkt og tók að vaxa. Jafnframt efldust lífeyrissjóðir landsmanna stórkostlega. Þetta skýrir það, sem hefur verið að gerast hér síðustu árin, ekki dylgjur Þorvalds Gylfasonar prófessors um rússneska mafíupeninga, sem bergmála í dönskum sorpblöðum. Íslenska efnahagsundrið á sér eðlilegar ástæður. Við getum verið hreykin af kapítalistunum okkar.
Fréttablaðið 22. september 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook
21.9.2007 | 11:38
Íslenska efnahagsundrið
Á ráðstefnu á dögunum um auðsköpun í smáríkjum flutti ég erindi um íslenska efnahagsundrið. Það er jafnsögulegt og hið írska, sem margt hefur verið skrafað um. Ísland var eitt fátækasta land Vestur-Evrópu fram á tuttugustu öld, og var meginástæðan sú, að þróun fiskveiða og myndun þéttbýlis var hvor tveggja hindruð í bændaveldinu. Íslendingar voru síðan hálfdrættingar á við Dani í landsframleiðslu á mann til 1940. Tímabilið 1940-1991 mældumst við að vísu stundum í röð tekjuhæstu þjóða, en tekjur okkar voru að miklu leyti vegna stríðsgróða í heitu stríði eða köldu, sífellt aukinnar hlutdeildar í heildarafla á Íslandsmiðum vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar og jafnvel rányrkju á þessum miðum. Tekjur okkar voru því svipular, enda spáðu virtir hagfræðingar því um 1990, þegar syrti í álinn, að Ísland kynni aftur að verða eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Forsætisráðherra þess tíma talaði beinlínis um, að hann hafnaði vestrænum hagstjórnarhugmyndum. Árið 1991 urðu umskipti. Með peningalegu aðhaldi og í samráði við aðila vinnumarkaðarins tókst að koma verðbólgu niður í hið sama og í grannríkjunum. Með aðhaldi í ríkisfjármálum var þrálátum hallarekstri snúið í afgang, sem notaður var til að grynnka á skuldum hins opinbera. Ýmsir sjóðir voru lagðir niður, en áður hafði biðstofa forsætisráðherra verið full af fólki, sem suðaði um styrki í vonlaus fyrirtæki. Kvótakerfið í sjávarútvegi fékk að vaxa og dafna. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður úr 45% í 18%. Eignarskattur og hátekjuskattur voru felldir niður og tekjuskattur (hlutur ríkisins) á einstaklinga lækkaður um 8%. Aðgangur að Evrópumarkaði var tryggður með samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Fyrirtæki í eigu hins opinbera voru seld fyrir röska 120 milljarða íslenskra króna. Munaði þar mest um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankann og Búnaðarbankann.
Nær samfelldur og ör hagvöxtur hefur verið hér frá 1995, sem hvorki er reistur á stríðsgróða né rányrkju, heldur hagræðingu og auðsköpun. Lífskjör almennings hafa batnað um meira en 50%. Ísland er nú í röð ríkustu og frjálsustu þjóða heims samkvæmt alþjóðlegum mælingum. Tekjuskipting er samt ekki ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Raunar kom í ljós í nýlegri rannsókn Evrópusambandsins, að fátækt er hér einna minnst í Evrópu. Barnabætur til láglaunafólks eru hér miklu hærri en í Svíþjóð (en lægri til hálaunafólks), og á Norðurlöndum eru lífeyristekjur að meðaltali hæstar á Íslandi. Lífeyrissjóðir Ísleninga eru einhverjir hinir öflugustu í heimi. Síðustu ár hafa íslenskir víkingar hafið stórkostlega útrás, keypt fyrirtæki og annað í grannríkjunum, farið fram með verði, en ekki sverði eins og forðum.
Hvað olli íslenska efnahagsundrinu? Festa í peningamálum og ríkisfjármálum, frelsi til viðskipta, myndun einkaeignarréttar á auðlindum, sala ríkisfyrirtækja og skattalækkanir. En ef til vill eru tvær aðrar spurningar nú forvitnilegri. Hvaðan komu íslensku víkingunum fé til að kaupa fyrirtæki sín hér og erlendis? Augljós skýring er auðvitað hinir öflugu lífeyrissjóðir. En önnur skýring ekki síðri er, að fjármagn, sem áður var óvirkt, af því að það var eigendalaust, óskrásett, óveðhæft og óframseljanlegt, varð skyndilega virkt og kvikt og óx í höndum nýrra eigenda. Hér á ég aðallega við fiskistofnana og ríkisfyrirtækin fyrrverandi, en líka ýmis samvinnufélög. Hin spurningin er, hvernig við getum haldið áfram á sömu braut. Svarið er einfalt: Lækkum myndarlega skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Getur norræni tígurinn stokkið fram úr hinum keltneska?
Fréttablaðið 19. september 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 18:22 | Slóð | Facebook
18.9.2007 | 19:27
Írska efnahagsundrið
Það var fróðlegt á dögunum að hlusta á nokkra írska hagfræðinga og stjórnmálamenn lýsa hinum öru framförum síðustu tveggja áratuga í heimalandi sínu, en hér töluðu þeir á ráðstefnu Smáríkjaseturs í Háskóla Íslands um auðsköpun í smáríkjum. Eftir að Írar fengu sjálfstæði 1922, voru þeir lengi ein fátækasta þjóð Vestur-Evrópu. Heimskreppan bitnaði illa á þeim, og eftir stríð hélt fólk áfram að flytjast burt, svo að árið 1961 bjuggu aðeins 2,8 milljónir manna í írska lýðveldinu, en 120 árum áður höfðu íbúar á þessu svæði verið 6,5 milljónir. Í byrjun áttunda áratugar 20. aldar var munur á lífskjörum á Írlandi og Stóra-Bretlandi jafnmikill og í upphafi aldarinnar.
Þetta gerbreyttist í lok níunda áratugar og eftir það. Atvinnulífið óx og lífskjör bötnuðu, svo að landsframleiðsla á mann varð jafnmikil á Írlandi og Stóra-Bretlandi árið 1996. Nú er talað um keltneska tígurinn, eins og rætt var fyrir nokkrum áratugum um Austurálfutígrana fjóra, Singapore, Hong Kong, Suður-Kóreu og Tævan, vegna örra framfara þar eystra. Írar eru orðnir ein tekjuhæsta þjóð Evrópu ásamt íbúum Lúxemborgar, Svisslendingum og Íslendingum. Fólk er tekið að flytjast aftur til landsins, og atvinnuleysi, sem áður var landlægt, er nær horfið.
Hverju geta Írar þakkað efnahagsundur sitt? Sumir halda því fram, að aðildin að Evrópusambandinu 1973 hafi haft sitt að segja, enda hafa Írar þegið ómælda aðstoð úr sjóðum sambandsins. En hvernig stendur þá á því, að framfarir hafa orðið miklu hægari í Portúgal og Grikklandi, sem voru líka fátæk lönd og fengu rausnarlega aðstoð? Og hvers vegna leið hálfur annar áratugur frá inngöngunni í sambandið, áður en írska undursins tók að gæta að marki? Auðvitað var aðildin að Evrópusambandinu til góðs fyrir Íra, af því að þeim opnaðist stór markaður í Evrópu. Þar fengu þeir tækifæri. En úrslitum réð, hvernig þeir nýttu það og héldu á eigin málum.
Í lok níunda áratugar sáu Írar, að þeir yrðu að hætta þrálátum hallarekstri ríkissjóðs. Þeir lækkuðu þess vegna ríkisútgjöld verulega. Jafnframt var stofnaður samráðsvettvangur ríkis, vinnuveitenda og launþega, þar sem náðist samkomulag um skattalækkanir á einstaklinga gegn hóflegri kröfugerð launþegasamtaka. Írar höfðu lengi reynt að laða erlend fyrirtæki að landinu með margvíslegum ívilnunum. Til dæmis höfðu iðnfyrirtæki, sem framleiddu til útflutnings, aðeins þurft að greiða 10% tekjuskatt allt frá 1980. Önnur fyrirtæki greiddu hærri skatt. En þegar komin var á festa í ríkisfjármálum og friður á vinnumarkaði, fjölgaði fyrirtækjum, sem vildu setjast að á Írlandi. Evrópusambandið gerði að vísu athugasemdir við hinn lága tekjuskatt á útflutningsfyrirtæki og kallaði styrk, en þá gripu Írar til þess ráðs að leggja 12,5% tekjuskatt á öll fyrirtæki.
Brendan Walsh, helsti sérfræðingur Íra í skattamálum, sagði á ráðstefnunni í Háskóla Íslands, að ein meginskýringin á írska efnahagsundrinu væri skattalækkanir á einstaklinga og fyrirtæki. Skattalækkanir á einstaklinga í samráði við verkalýðshreyfinguna tryggðu vinnufrið, og skattalækkanir á fyrirtæki löðuðu ný fyrirtæki til landsins og auðvelduðu vöxt þeirra, sem fyrir voru. Beinn aðgangur að Evrópumarkaði og góð menntun Íra (ekki síst kunnátta þeirra í alþjóðamálinu ensku) skiptu auðvitað lika miklu máli. Ástæða er til að óska frændum okkar, Írum, til hamingju með hinn góða árangur sinn. Þeir eru verðugir keppinautar. En skyldi norræna tígrinum, Íslandi, takast að stökkva fram úr hinum keltneska?
Viðskiptablaðið 18. september 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook
7.9.2007 | 10:53
Tekjutenging skynsamleg
Sem betur fer fjölgar þeim óðum, sem taka undir það, að besta kjarabót almennings væri myndarleg lækkun tekjuskatts á einstaklinga. Eðlilegt væri að lækka þann tekjuskatt, sem ríkið tekur til sín, úr 23% í 17%. Slík tekjuskattslækkun myndi fela í sér, að menn greiddu um 30% skatt í heild af tekjum sínum ofan skattleysismarka. Síðan ætti að fella niður lögboðið lágmark útsvars, svo að sveitarfélög gætu keppt í alvöru um að bjóða lágt útsvar. Nú eru kostir þeirra til þess litlir, þó að þar hafi Seltjarnarnes vinninginn undir forystu Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóra.
Skattleysismörk og fjármagnseigendur
Sumir vilja hækka skattleysismörk. Það er óráð. Æskilegt er, að sem flestir greiði tekjuskatt, en ekki, að sumir séu skattfrjálsir og aðrir ekki, því að það freistar þeirra, sem sleppa við skattinn vegna lágra tekna, til að samþykkja hækkun hans. Skattleysismörk eru raunar miklu hærri á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Þau eru til dæmis um 60 þúsund krónur á mánuði í tveimur grannríkjum okkar, Svíþjóð og Írlandi. Hér eru þau nú um 90 þúsund krónur á mánuði og hefðu aðeins þurft að vera 6 þúsund krónum hærri til þess að vera hin sömu (á sambærilegu verðlagi) og árið 1995.
Aðrir benda á, að um tvö þúsund skattgreiðendur hafi ekki aðrar tekjur en fjármagnstekjur, en skattur af þeim er lægri en af atvinnutekjum. Þetta er rétt, en megnið er börn og unglingar, sem njóta vaxta af bankainnstæðum, en stunda ekki venjulega vinnu. Þeir fjármagnseigendur, sem reka fyrirtæki og taka sér arð út úr því, þurfa að reikna sér endurgjald, sem þeir greiða tekjuskatt af, þótt ef til vill sé þetta endurgjald stundum of lágt samkvæmt mati skattstjóra. Hinir eru sárafáir, líklega innan við eitt hundrað alls, sem hafa verulegar tekjur af sölu hlutabréfa, húsaleigu eða vöxtum af innstæðum, en engar atvinnutekjur og þurfa því ekki að greiða tekjuskatt. Þótt smámál sé, er eðlilegt, að þeir reikni sér líka endurgjald (fyrir umsýslu með fjármagn sitt) og greiði tekjuskatt af því. Þá sleppa þeir ekki heldur við að greiða útsvar, enda njóta þeir fullrar þjónustu sveitarfélaga.
Höldum tekjutengingu
Þriðja atriðið, sem þarf að skoða, er tekjutenging bóta. Ísland er frábrugðið öðrum Norðurlöndum í því, að hér eru margvísleg framlög ríkisins til velferðarþjónustu tekjutengd í meira mæli. Til dæmis eru barnabætur til láglaunafólks rausnarlegri hér en annars staðar, en þær skerðast, eftir því sem tekjur hækka. (Þess vegna eru barnabætur að meðaltali lægri hér en annars staðar á Norðurlöndum.) Þetta er eðlilegt. Hvers vegna á að greiða tekjuháu fólki barnabætur? Hið sama er að segja um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann skerðist með auknum tekjum. Það er líka eðlilegt. Ríkið á ekki að greiða auðmönnum ellilífeyri. Þeir geta séð um sig sjálfir.
Hitt er annað mál, að tekjutengingin hefst of snemma og skerðingin er of hæg. Skynsamlegra væri að hefja skerðingu bóta við hærri tekjur og skerða hraðar, svo að tekjuhátt fólk fái hvorki barnabætur né ellilífeyri. Takmarkað fé er til ráðstöfunar í velferðarþjónustu. Mestu máli skiptir, að það sé notað til að aðstoða þá, sem þurfa aðstoð, en ekki til hinna, sem eru aflögufærir. Við Íslendingar ættum að gera nýjan þjóðarsáttmála, þar sem hinir tekjuhærri sætta sig við aukna tekjutengingu gegn því, að skattar á þá og aðra lækki. Þetta ætti að vera sameiginlegt baráttumál frjálslyndra jafnaðarmanna og frjálshyggjumanna. Vonandi fá þau Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir líka öflugan stuðning launþegasamtakanna við þær skattalækkanir, sem þau boðuðu við myndun hinnar nýju stjórnar í vor.
Fréttablaðið, 7. september 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2007 kl. 12:00 | Slóð | Facebook
4.9.2007 | 11:24
Öllum í hag
Í mannlífinu keppir fólk í margvíslegum leikjum, ekki nauðsynlega hvert við annað, heldur að einhverjum markmiðum. Leikjafræði (e. game theory) bregður þess vegna skæru ljósi á sum viðfangsefni okkar.
Þrenns konar leikir
Leikjafræðingar skipta leikjum iðulega í þrennt. Ein tegundin er, þegar hreinn gróði er af leiknum (positive-sum game). Dæmi um það er frjáls viðskipti. Ef einn maður á epli, sem hann þarf ekki, en vantar glóaldin, og annar maður á glóaldin, sem hann þarf ekki, en vantar epli, þá skiptast þeir á þessum ávöxtum. Báðir græða. Annað dæmi er umferðarreglur. Menn koma sér saman um að aka annaðhvort á vinstra vegarhelmingi eins og Englendingar eða hinum hægri eins og við, og umferð verður greiðari. Allir græða.
Önnur tegund leikja er, þegar hvorki er gróði né tap af leiknum sjálfum, heldur græðir einn leikandinn, þegar annar tapar (zero-sum game). Dæmi um það er stöðuveitingar. Einn umsækjandi hlýtur eftirsótta stöðu, en aðrir sitja eftir með sárt ennið. Annað dæmi er valdabarátta. Einn flokkur sigrar í kosningum, annar tapar. Þriðja tegund leikja er, þegar hreint tap er af leiknum, allir verr settir eftir hann (negative-sum game). Skýrasta dæmið um það er stríð milli þjóða. Annað dæmi er kjarabarátta, sem háð er með tíðum og hörðum verkföllum, en skilar aðeins verðbólgu. Þá tapa allir.
Kvótakerfið
Hér hefur verið einstæður stöðugleiki í stjórnmálum frá 1991. Ein ástæðan er, að ríkisstjórnir þessa tímabils hafa leikið tvo leiki af fyrstu tegundinni. Annar leikurinn fólst í kvótakerfinu í sjávarútvegi. Í einföldustu mynd sinni var vandinn sá, að sextán bátar sóttu á fiskimið, sem átta bátar gátu nýtt með gróða. Fækka þurfti bátunum úr sextán í átta. Þetta var gert með því að úthluta til bátanna sextán aflaheimildum eða kvótum, sem nægðu átta þeirra til ábatasams reksturs. Þá keyptu eigendur átta bátanna með betri afkomu kvóta af eigendum átta bátanna með verri afkomu, svo að hinir síðarnefndu hættu veiðum.
Allir græddu. Eigendur átta bátanna með verri afkomu sneru í land með fullar hendur fjár. Það markmið náðist friðsamlega að fækka bátunum úr sextán í átta. Eigendur átta bátanna með betri afkomu héldu áfram veiðum og undu glaðir við sitt. Þjóðin græddi á því, að sjávarútvegur skilaði arði, en var ekki rekinn með tapi eins og víðast annars staðar í heiminum. Ríkið græddi á því, að útgerðarfyrirtæki greiddu skatta.
Einkavæðing
Hinn leikurinn fólst í einkavæðingu. Tímabilið 1991-2007 seldi ríkið fyrirtæki fyrir röska 120 milljarða króna. Þar á meðal voru fyrirtæki, sem okkur finnst nú óskiljanlegt, að ríkið skyldi hafa rekið, til dæmis ferðaskrifstofa og prentsmiðja. Mestu munaði þó um síldarverksmiðjur ríkisins, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Búnaðarbankann, Landsbankann og Símann.
Allir græddu á einkavæðingunni. Seljandinn, sem var ríkið fyrir hönd almennings, fékk í sinn hlut ærið fé, sem var sem betur fer notað til að grynnka á skuldum, meðal annars áföllnum lífeyrisskuldbindingum, sem fyrri ríkisstjórnir höfðu lítt skeytt um. Kaupendur eignuðust fyrirtæki, sem döfnuðu í höndum þeirra, enda fara menn betur með eigið fé en annarra. Starfsfólk naut hærra kaups. Skatttekjur stórjukust af þessum fyrirtækjum.
Skattalækkanir
Báðir þessir leikir voru dæmi um það, þegar gæði færast úr óhagkvæmri nýtingu í hagkvæma. Margt er þar vissulega enn ógert, en fleiri og meiri tækifæri eru í þriðja leiknum, sem felst í skattalækkunum. Þær eru öllum í hag. Reynslan sýnir, að ríkið fær þá í sinn hlut auknar skatttekjur, af því að menn vinna betur, skapa meiri verðmæti og skjóta sér síður undan skattgreiðslum. Almenningur græðir, af því að hann heldur eftir stærri hlut af sjálfsaflafé sínu. Ráðstöfunartekjur hans aukast. Jafnvel þeir, sem háðir eru velferðaraðstoð, græða, því að afkoma ríkisins verður traustari við öflugt atvinnulíf.
Það er umhugsunarefni, að skatttekjur ríkisins á mann eru svipaðar í Sviss og Svíþjóð, þótt skattheimta sé um 30% af landsframleiðslu í Sviss og rösk 50% í Svíþjóð. Skattheimta er hér rösk 40% af landsframleiðslu. Okkur er því óhætt að stefna í átt til Svisslendinga án þess að óttast lægri skatttekjur ríkisins eða skerta velferðaraðstoð. Núverandi ríkisstjórn á leikinn. Ef hún hefur áhuga á að endast, þá á hún að ráðast í djarflegar skattalækkanir. Hún hefur allt að vinna og engu að tapa.
Fréttablaðið 24. ágúst 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2007 kl. 12:02 | Slóð | Facebook
4.9.2007 | 11:16
Stighækkandi tekjuskatt?
Helstu skattafræðingar stjórnarandstöðunnar, Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson, hafa nýlega birt okkur boðskap sinn, Indriði í opinberum fyrirlestri og Stefán í grein í Fréttablaðinu. Þeir gagnrýna báðir skattastefnuna frá 1991 og vilja stighækkandi tekjuskatt. Indriði segir það beint, en Stefán óbeint.
Nú eru skattþrep í raun tvö, 0% skattur að skattleysismörkum, sem eru 90 þúsund króna mánaðartekjur, og 36% skattur á tekjur umfram það. Því hærri tekjur sem menn hafa, því nær eru þeir því að greiða 36% tekjuskatt, en ná samt aldrei því hámarki. Í þessum væga skilningi er tekjuskattur einstaklinga stighækkandi. Stefán vill hins vegar herða á þessu með því að hækka skattleysismörk lágtekjufólks, svo að fleiri greiði í raun 0% tekjuskatt, og lækka í þrepum skattleysismörk hátekjufólks, svo að þeir komist hraðar nær því að greiða í raun 36% tekjuskatt.
Hvernig ber að setja skattleysismörk?
Stefán fullyrðir, að skattleysismörk (sem nú eru 90 þúsund krónur á mánuði) ættu að vera 140 þúsund krónur til að vera jafnhá og 1988, þegar fjölþrepa tekjuskattur var felldur niður. Þetta er rangt. Á verðlagi ársins 2006 voru skattleysismörk ársins 1988 107.129 krónur á mánuði, aðeins röskum 10 þúsund krónum hærri á mánuði þá en nú. Stefán fær tölu sína með því að miða við vísitölu launa, ekki neysluverðs. Heiðarlegra hefði verið að segja beint frá því. Þegar upphæðir eru bornar saman skýringarlaust milli ára, eiga flestir von á því, að þær séu á sambærilegu verðlagi.
Röng hugsun er í því að tengja skattleysismörk við vísitölu launa. Þá er alltaf sami hópur skattfrjáls óháð því, hvort hann er aflögufær eða ekki. Skattleysismörk eiga ekki að segja til um, hvar í tekjustiganum menn eru miðað við aðra, heldur hvað telja má lágmarksframfærslueyri á mann. Þess vegna var rétt að tengja skattleysismörk við vísitölu neysluverðs, eins og gert var um síðustu áramót.
Rökin gegn stighækkandi tekjuskatti
Hagfræðileg rök gegn stighækkandi tekjuskatti þeirra Indriða og Stefáns eru einkum þrenn. Í fyrsta lagi flækir hann skattlagningu. Ef hátekjukona getur skipt mánaðarlaununum milli sín og tekjulágs sonar síns, þá lækka skattgreiðslur hennar. Stundum falla tekjur líka til á einu ári, þótt þeirra sé aflað á tveimur eða fleiri árum. Ef rithöfundur fær eina greiðslu fyrir þriggja ára vinnu, þá verður hann að greiða háan tekjuskatt, en hefði ella verið undir skattleysismörkum og aðeins þurft að greiða 0%. Maður, sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði viljað vinna lengur við tölvuna á hverjum degi og kaupa út matseld og viðhald, hættir við það, því að þá snarhækka skattgreiðslur hans. Það borgar sig ekki fyrir hann að skipta verkefnum milli sín, matsveins og rafvirkja.
Í öðru lagi stuðlar stighækkandi tekjuskattur að ábyrgðarleysi. Þeir, sem ákveða skattinn, bera hann fæstir. Þegar helmingur launþega telur sig skattfrjálsan, freistast hann til að þyngja skattbyrðina á hinum. Þriðju rökin gegn stighækkandi tekjuskatti eru, að við hann dregur úr verðmætasköpun. Þá minnka menn við sig skattlagða vinnu og aðrar tegundir verðmætasköpunar. Fæddir framkvæmdamenn finna kröftum sínum ekki farveg og láta annaðhvort ekki að sér kveða eða flytjast burt. Menn taka síður áhættu, því að ríkið græðir mest á því, þegar vel tekst til, en þeir bera sjálfir tapið, þegar miður gengur. Kakan minnkar eftir því sem gengið er harðar fram í að skipta henni jafnar.
Tilkall fólks til tekna
Heimspekileg rök má einnig leiða gegn stighækkandi tekjuskatti. Þeir Indriði og Stefán eiga erfitt með að sætta sig við, að sumum gangi vel. En eiga menn ekki tilkall til tekna, sem vel eru fengnar? Setjum svo, að þeir Milton Friedman, Indriði og Stefán auglýsi allir fyrirlestra á sama tíma og taki aðgangseyri. Hundrað sinnum fleiri sæki fyrirlestur Friedmans en þeirra Indriða og Stefáns. Hvers vegna á að refsa honum með því að leggja á hann miklu hærri skatt hlutfallslega? Hitt er miklu hyggilegra að breyta ekki skattleysismörkum og lækka tekjuskatt á einstaklinga niður í 30%.
Fréttablaðið 10. ágúst 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2007 kl. 12:00 | Slóð | Facebook
28.7.2007 | 14:33
Fleira ríkt fólk!
Þótt Stefán Ólafsson prófessor hafi verið iðinn að safna gögnum um tekjuskiptingu, hafa honum verið mislagðar hendur um úrvinnsluna. Skömmu fyrir síðustu þingkosningar hélt hann því til dæmis fram með skírskotun til svokallaðra Gini-stuðla, sem mæla ójafna tekjuskiptingu, að ójöfnuður hefði aukist hér langt umfram Norðurlönd og væri orðinn eins mikill og á Bretlandseyjum. En hann hafði reiknað Gini-stuðulinn fyrir Ísland rangt út. Hann átti að sleppa söluhagnaði af hlutabréfum, eins og gert er í alþjóðlegum samanburði, til dæmis í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins. Tekjuskipting er hér svipuð og annars staðar á Norðurlöndum.
Fleiri reikningsskekkjur Stefáns
Um svipað leyti kvartaði Stefán undan því, að fjármagnseigendur greiddu aðeins 10% skatt af tekjum sínum, en launþegar hátt í 40%. Þetta er líka rangt. Fjármagnseigendur greiða í raun 26,2% af tekjum sínum (fyrst 18% tekjuskatt fyrirtækja, síðan 10% fjármagnstekjuskatt af arði út úr fyrirtækinu). Þar eð skattleysismörk eru 90 þúsund krónur á mánuði, greiða launþegar misjafnlega hátt hlutfall af tekjum sínum: Aðili með 90 þúsund króna mánaðartekjur greiðir í raun 0% tekjuskatt; aðili með 180 þúsund krónur greiðir 18% (0% af fyrstu 90 þúsund krónunum og 36% af því, sem umfram er) og svo framvegis. Vegna skattleysismarkanna kemst enginn alveg upp í 36%.
Þriðja reikningsskekkja Stefáns var, þegar hann fullyrti, að tölur norrænu tölfræðinefndarinnar um lífeyristekjur í nýlegri skýrslu væru rangar. Samkvæmt þeim voru lífeyristekjur á mann á Norðurlöndum að meðaltali hæstar á Íslandi árið 2004. Stefán benti hróðugur á, að samkvæmt sömu skýrslu væru lífeyrisgreiðslur á mann á Norðurlöndum að meðaltali næstlægstar á Íslandi. Hann gáði ekki að því, að fyrri talan var um lífeyristekjur á hvern lífeyrisþega, en seinni talan um lífeyrisgreiðslur á hvern mann á lífeyrisaldri. Á Íslandi tóku 26 þúsund manns lífeyri árið 2004, en 31 þúsund manns voru á lífeyrisaldri. Það breytir miklu, hvort deilt er í tölu með 26.000 eða 31.000.
Framlag ríka fólksins
Margt er þó hnýsilegt í gögnum Stefáns. Hann birtir til dæmis á heimasíðu sinni töflur um þróun tekjuskiptingar frá 1995 til 2004. Þar greinast skattgreiðendur í tíu jafnfjölmenna tekjuhópa. Samkvæmt gögnum Stefáns hafa kjör allra tekjuhópa batnað, en kjör hinna tekjuhæstu þó talsvert örar en hinna tekjulægstu. Hér reiknar Stefán líklegast ekki rangt. En þótt kjör hinna tekjulægstu hafi ekki batnað hér eins ört og hinna tekjuhæstu, skiptir það minna máli en hitt, að kjör hinna tekjulægstu á Íslandi hafa batnað miklu örar en kjör hinna tekjulægstu að meðaltali í aðildarlöndum Efnahags- og samvinnustofnunarinnar í París, O. E. C. D. Kjör 10% tekjulægsta hópsins hafa hin síðari ár batnað að meðaltali hér um 2,7% á ári, en um 1,8% í löndum O. E. C. D.
Annað er merkilegt í gögnum Stefáns. Árið 2004 var munur á tekjum 10% tekjulægsta hópsins fyrir og eftir skatt um 100 þúsund krónur á hvern aðila (hjón og sambýlisfólk). Munurinn á tekjum 10% tekjuhæsta hópsins fyrir og eftir skatt var hins vegar um fjórar milljónir króna. Með öðrum orðum námu beinar skatttekjur af tekjulægsta hópnum um 100 þúsund krónum á hvern aðila, en af tekjuhæsta hópnum um fjórum milljónum króna. Um sex þúsund manns voru í hverjum tekjuhóp, svo að 10% tekjulægsti hópurinn lagði samtals fram um 600 milljónir króna í almannasjóði, en 10% tekjuhæsti hópurinn um 24 milljarða króna (en það var 2004 röskur fjórðungur af heildartekjum hins opinbera af tekjuskatti). Á þessu sést vel, hversu mikilvægt efnafólk er. Það leggur miklu meira í almannasjóði.
Allir græða á auðjöfrum
Hugsum okkur, að þessir tíu tekjuhópar yrðu skyndilega ellefu og við bættist hópur með jafnháar tekjur að meðaltali og tekjuhæsti hópurinn (Mónakó yrði til dæmis sýsla á Íslandi). Þá myndu tekjur hins opinbera í einu vetfangi aukast um 24 milljarða króna. En það væru aðeins fyrstu áhrifin. Margt myndi síðan bætast við. Ríkt fólk notar ráðstöfunarfé sitt eftir skatt ýmist til fjárfestingar eða neyslu. Það, sem rennur til fjárfestingar, hleypir fjöri í atvinnulífið. Bankar lána út fé, og fyrirtæki eru stofnuð. Það, sem efnamenn nota í neyslu, hefur einnig sín áhrif. Hús hækka í verði, bílar seljast betur, veitingahús fyllast. Við þetta batna kjör almennings, og hagur ríkissjóðs vænkar. Jafnaðarmenn, sem vilja öflugt velferðarríki, ættu því að fagna, ef og þegar ríkum Íslendingum fjölgar. Það gerist með auknu atvinnufrelsi, ekki síst skattalækkunum.
Fréttablaðið 27. júlí 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.9.2007 kl. 11:29 | Slóð | Facebook
27.7.2007 | 13:01
Skattalækkanir æskilegar — og nauðsynlegar
Íslendingar hafa síðustu sextán árin lækkað skatta, suma verulega, og breytt skattlagningarreglum. Aðstöðugjöld var fellt niður, einnig hátekjuskattur og eignaskattur og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Erfðafjárskattur var lækkaður, en mestu munaði um, að tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður úr 45% árið 1991 í 18% árið 2001 og síðan og tekjuskattur ríkisins úr um 31% árið 1997 í 22,75% árið 2007. Þessar skattalækkanir hafa borið stórkostlegan árangur: Skatttekjur af fyrirtækjum hafa aukist úr röskum tveimur milljörðum 1991 (þegar skatturinn var 45%) í um 34 milljarða 2007 (þegar skatturinn er 18%). Skatttekjur ríkissjóðs af einstaklingum hafa líka aukist stórkostlega. Þá skilar fjármagnstekjuskattur verulegum tekjum í ríkissjóð, en áður gaf fjármagn af sér litlar tekjur, enda lá það mestallt hálfdautt í eigendalausum auðlindum eins og fiskistofnum eða eigenda- og því umhirðulausum ríkis- og samvinnufyrirtækjum.
Hjáróma raddirNokkrar hjáróma raddir hafa þó heyrst gegn skattalækkunum. Sumir halda því fram, að tekjur af fyrirtækjum hafi aukist, af því að margir hafi stofnað einkahlutafélög og telji því ekki fram atvinnutekjur. Þeir segja, að ríkið hafi ekki hækkað skattleysismörk eins hratt og laun hafi hækkað, svo að greiðendum tekjuskatts á atvinnutekjur hafi fjölgað hlutfallslega. Þeir kvarta líka undan því, að fjármagnstekjuskattur sé 10%, á meðan skattur á atvinnutekjur sé samtals 35,78% (22,75% til ríkisins, 13,03 í útsvar).
Þetta er allt rangt. Væri kakan föst stærð, ætti stærri sneið ríkissjóðs af fyrirtækjum að fela í sér minni sneið ríkissjóðs af einstaklingum, en sjá má, að svo er ekki. Tekjur ríkissjóðs af einstaklingum hafa aukist alveg eins og af fyrirtækjum. Það munar ekki mjög mikið um það, að skattleysismörk eru nú ekki eins há hlutfallslega og þegar þau voru hæst. Sennilega er tekjuauki ríkissjóðs af þessu um 5-8 milljarðar króna í hæsta lagi. Í þriðja lagi reikna þessir úrtölumenn rangt út fjármagnstekjuskatt og skatt á atvinnutekjur.
Rétt er að skýra þriðja atriðið nánar. Fjármagnstekjuskattur á mann, sem á og rekur fyrirtæki sitt, er í raun miklu hærri. Fyrst verður hann að reikna sér endurgjald, sem hann greiðir af tekjuskatt. Til dæmis þarf háskólamenntaður viðskiptafræðingur að reikna sér 517 þúsund króna mánaðarlaun. Síðan greiðir hann tekjuskatt fyrirtækja af hagnaði fyrirtækisins, 18%. Þegar þessu er lokið, má hann greiða sér út hagnað, sem hann ber 10% fjármagnstekjuskatt af. Auðvelt er að reikna út, að háskólamenntaður viðskiptafræðingur, sem rekur eigið fyrirtæki og er með eina milljón króna tekjur fyrir skatt, greiðir í raun 28% skatt af þeim.
Úrtölumenn reikna líka skattinn af atvinnutekjunum út rangt. Hann er í raun ekki 36%. Stafar það af skattleysismörkunum, sem eru 90 þúsund krónur á mánuði. Maður með 90 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 0% tekjuskatt. Maður með 180 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 18% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundum sínum og 36% af næstu 90 þúsundum). Maður með 270 þúsund króna mánaðarlaun greiðir í raun 24% tekjuskatt. Og svo koll af kolli. Það er ekki fyrr en komið er upp í tiltölulega há laun, sem fjármagnseigandinn greiðir lægra hlutfall en launþeginn.
Auknar skatttekjur
Því má ekki gleyma, að þeir fjármagnseigendur, sem hafa tekjur af bankainnstæðum eða húsaleigu, hafa þegar greitt tekjuskatt af því fjármagni, sem mynda tekjur þeirra, svo að skatthlutfall þeirra er í raun hærra en 36%. En aðalatriðið er það, að fjármagnstekjuskatturinn hefur frá sjónarmiði skattyfirvalda heppnast mjög vel. Hann gefur af sér tekjur í ríkissjóð, sem áður fengust ekki. Það er eitthvað einkennilegt við það að vilja ólmur hækka hann, sem verða myndi til þess að flæma fjármagn og fyrirtæki úr landi. Í rauninni er brýnt að lækka fjármagnstekjuskatt í þeim skilningi, að hætt verði að innheimta af fyrirtækjum skatt af söluhagnaði af hlutabréfum.
Til þess eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki reglulegar og eiginlegar tekjur fremur en söluhagnaður af öðrum eignum eins og til dæmis húsum. Þetta eru verðbreytingar, ekki tekjur. Verðbreytingar geta líka verið óhagstæðar, hlutabréf eða hús fallið í verði. Á þá á að myndast inneign hjá ríkissjóði? Í öðru lagi er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki skattlagður í langflestum öðrum aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins. Þótt íslensk fyrirtæki geti frestað greiðslu á skatti á söluhagnaði með endurfjárfestingum, vilja þau sum ekki láta slíkar skuldbindingar standa árum saman í ársreikningum sínum. Þau hafa því sum tekið þann kost að færa bækistöðvar sínar til annarra landa, til dæmis Hollands og Noregs. Það á að vera okkur kappsmál að halda í þessi fyrirtæki.
Það er einnig brýnt að lækka tekjuskatt á fyrirtæki, svo að fyrirheit hinnar nýmynduðu ríkisstjórnar þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja verði að veruleika. Við ættum að lækka hann í 10%, því að þá væri hann örlitlu lægri en tekjuskattur á fyrirtæki á Írlandi, sem er 12,5% (en sambærilegur að því leyti, að skattstofninn hér er breiðari). Írar hafa síðustu áratugina tekið risaskref fram á við, ekki síst vegna hagstæðs skattaumhverfis fyrirtækja. Ef við lækkum tekjuskatt á fyrirtæki um 8%, minnka skatttekjur ríkisins ekki um þessi 8%, því að menn nota það, sem sparast, til ýmislegs, sem ber skatt. Gera má ráð fyrir, að um þriðjungur snúi þannig aftur í ríkissjóð. En auk þess stækkar skattstofninn, ef fyrirtæki sjá sér hag í að setjast hér að eins og þau hafa gert á Írlandi, og skattskil batna.
Ekki má gleyma almenningi. Skattalækkun er besta kjarabótin. Til þess að tekjuskattur á góðar meðaltekjur verði svipaður og á fjármagnseigendum þyrfti hann að lækka um tæp 6%, úr 22,75% í 17%. (Auk þess þyrfti að veita sveitarfélögum frelsi til að lækka útsvar eins mikið og þau vilja.) Reynslan af lækkun tekjuskatts á einstaklinga síðustu ellefu árin sýnir, að ekki þarf að óttast stórfellt tekjutap ríkissjóðs af þessu. Í fyrsta lagi myndu menn nota það fé, sem þeir spöruðu sér í skattgreiðslur, í kaup á vöru og þjónustu, sem bæri skatt. Þannig sneru 2% aftur í ríkissjóð nánast þegar í stað. Í öðru lagi myndi fólk auka við sig skattlagða vinnu og tekjur ríkissjóðs við það aukast. Rannsóknir Edwards Prescotts, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sýna, að vinnuframlag og verðmætasköpun fer eftir því, hversu mikið hver viðbótarvinnustund er skattlögð. Í þriðja lagi myndu skattskil batna við lægri skatta.
Allt að vinna
Íslendingar hafa allt að vinna og engu að tapa með því að ráðast í stórfelldar skattalækkanir næstu árin. Við höfum ekki aðeins við að styðjast reynslu okkar sjálfra af vel heppnuðum skattalækkunum, heldur líka reynslu Bandaríkjamanna af svipuðum aðgerðum 1986 og Spánverja 1998, svo að tvö nýleg dæmi séu nefnd. Slíkar skattalækkanir myndu ekki hafa í för með sér minni tekjur ríkissjóðs og minni útgjöld til velferðarmála, heldur myndu skatttekjurnar líklega aukast. Kakan er ekki föst stærð. Úrslitum ræður, hvort bakaríið er vel eða illa rekið. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. En skattalækkanir eru ekki aðeins æskilegar, heldur líka nauðsynlegar í þeirri hörðu samkeppni um fólk og fjármagn, sem háð er nú um allan heim. Lífskjör á Íslandi verða að vera jafngóð eða betri en annars staðar, til þess að við höldum okkar hlut, en breytumst ekki í byggðasafn. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands efnir í samstarfi við ýmsa aðila til ráðstefnu í Þjóðminjasafninu fimmtudaginn 26. júlí klukkan fjögur, þar sem Edward Prescott og fleiri sérfræðingar í skattamálum ræða um skattalækkanir til kjarabóta, og verður fróðlegt að heyra, hvað þeir hafa þar að segja.
Viðskiptablaðið 26. júlí 2007
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2007 kl. 14:50 | Slóð | Facebook