Vinstri stjórn?

IngibjEf stjórnarflokkarnir fá þingmeirihluta í komandi kosningum, þá er eðlilegast, að þeir haldi áfram samstarfi. Það hefur gengið vel. Ef stjórnarandstæðingar verða hlutskarpari, þá munu þeir reyna stjórnarmyndun saman, eins og þeir segjast stefna að. Hvað myndi vinstri stjórn undir forsæti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur gera? Reynum að reikna það út.

° Í fyrsta lagi má styðjast við reynsluna af fyrri vinstri stjórnum á Íslandi. Vinstri stjórnin 1971-1974 skildi eftir sig 50% verðbólgu, en vinstri stjórnin 1980-1983 100% verðbólgu. Vinstri stjórnin 1988-1991 sóaði almannafé í loðdýrarækt og fiskeldi og lét eftir sig stórkostlegan fjárlagahalla.

° Í öðru lagi má styðjast við reynsluna af stjórn Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík 1994-2002. Á sama tíma og ríkið lækkaði skatta verulega, hækkaði R-listinn opinber gjöld í Reykjavík. Útsvar hækkaði úr 9,2% 1994 í 13,03% 2005. Skatttekjur borgarinnar jukust um fjórðung. Á sama tíma og ríkið lækkaði hreinar skuldir sínar úr 172 milljörðum kr. 1997 niður í 45 milljarða kr. 2006, tífölduðust hreinar skuldir borgarinnar, úr röskum 4 milljörðum kr. 1993 í 44 milljarða kr. 2002.

° Í þriðja lagi má styðjast við reynsluna af stjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð, en Samfylkingin vill fara „sænsku leiðina“. Svíar voru löngum ríkasta þjóð Norðurlanda, en eru nú hin fátækasta. Landsframleiðsla á mann í Svíþjóð var 1964 um 90% af landsframleiðslu á mann í Bandaríkjunum, en er nú um 75%. Raunverulegt atvinnuleysi er um 15-17% og bitnar aðallega á æskufólki. Nánast öll ný störf frá 1950 hafa orðið til í opinbera geiranum. Skattheimta nemur um 60% af landsframleiðslu.

° Í fjórða lagi má styðjast við orð Ingibjargar Sólrúnar og annarra forkólfa Samfylkingarinnar. Þau virðast ekki geta á heilum sér tekið, því að í góðæri síðustu tíu ára hefur sumum gengið enn betur en öðrum. Þau tala um, að fjármagnstekjuskattur sé of lágur og auka þurfi framlög til velferðarmála (þótt þau hafi stóraukist síðustu ár). Þau vilja stöðva virkjanir og hafa í hótunum við útgerðarfyrirtæki. Þau virðast ekki hafa neinn áhuga á hagvexti.

Fyrsta verk Ingibjargar Sólrúnar í Stjórnarráðinu verður vitanlega að taka niður málverkin í húsinu af Jóni Þorlákssyni, Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Annað verkið verður að ráða nokkra vildarvini til skrafs og ráðagerða. En umræðustjórnmálin munu ekki reynast ókeypis. Ríkisútgjöld munu stóraukast og skattar hækka. Skatttekjur ríkisins munu minnka vegna aukinnar skattheimtu, því að atvinnulífið mun dragast saman, og þá verða tekin lán, svo að hreinar skuldir ríkisins munu stóraukast.

Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður úr 10% í 20%, en við það hverfur skattstofninn áreiðanlega að mestu leyti, svo að ríkið missir af 15-20 milljarða tekjum á ári. Tekjuskattur á fyrirtæki verður hækkaður úr 18% í 30%, en við það minnka tekjur ríkisins (alveg eins og þær jukust við lækkunina), líklega um 10 milljarða. Sérstakur skattur á útgerðarfyrirtæki verður stórhækkaður.

Þetta verður atvinnulífinu þungbært. Seðlabankinn verður sviptur sjálfstæði og látinn „leysa“ vandann með lánsfjárþenslu. Verðbólga eykst þá í 20-30% að minnsta kosti, en fjöldi fólks mun ekki ráða við afborganir af húsnæðislánum og missa heimili sín. Bankar munu lenda í miklum erfiðleikum. Ríkt fólk hraðar sér til útlanda með fyrirtæki sín og fjármagn (en við það verður tekjuskipting vissulega jafnari). Atvinnuleysi eykst í 10-15%, sérstaklega í röðum æskufólks. Nú eru hreinar skuldir ríkisins á mann um 150 þúsund kr. Þær munu tífaldast, í 1,5 millj. kr. á mann. Skattheimta ríkisins, sem á samkvæmt áætlunum að fara í 32% 2008, mun þess í stað aukast um fjórðung, í 40%, svo að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, mun samtals taka til sín 52% af landsframleiðslu. Ísland mun dragast aftur úr Danmörku og Noregi í almennum lífskjörum og lenda við hlið Svíþjóðar.

Hér hef ég ekki gert annað en reikna framtíðina út eftir fenginni reynslu. Vonandi hef ég rangt fyrir mér. En sporin hræða.

Fréttablaðið 26. janúar 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband