Baráttumál frjálshyggjumanna: Jöfnuður

Síðustu árin hafa vinstri menn leikið algengan leik í stjórnmáladeilum. Þeir hafa tekið falleg orð og gert að sínum. Tvö þessara orða eru „jöfnuður“ og „náttúruvernd“. Ég hef enn ekki hitt neinn þann, sem er hlynntur ójöfnuði og náttúruspjöllum. Menn skiptast miklu frekar eftir því, hvernig þeir skilja þessi fallegu orð og hvaða leiðir þeir sjá greiðfærastar að þeim markmiðum, sem þau fela í sér. Ættu frjálshyggjumenn ekki að nota hugtökin tvö án hiks? Hvers vegna þyrftu þeir að láta vinstri mönnum þau eftir? Guðbrandur biskup Þorláksson benti á það í formála sálmabókar sinnar 1589, að það ynni sannleikanum (sem hann hugði vera) ekkert mein að taka snjallar tungur og mjúkmálar í þjónustu hans. Í sama anda kvaðst klerkurinn Rowland Hill á átjándu öld ekki sjá neina ástæðu til þess, að djöfullinn einokaði öll skemmtilegustu lögin. Það, sem sannara reynist, getur líka verið það, sem betur hljómar. Og vissulega hljóma orðin „jöfnuður“ og „náttúruvernd“ vel. Í þessari grein skýri ég út, hvers vegna frjálshyggjumenn geta með góðri samvisku barist fyrir jöfnuði, en í næstu viku sný ég mér að því, hvers vegna þeir hljóta að styðja náttúruvernd.

Ójöfnuður í sögu Íslendinga

burton-02Orðið „jöfnuður“ kemur víða fyrir í fornum ritum, en þá venjulega í samsetta orðinu „ójafnaðarmaður“. Slíkur maður beitti ofríki eða rangsleitni, viðurkenndi ekki sömu leikreglur og aðrir menn. Grettir Ásmundarson var til dæmis ójafnaðarmaður, en ekki vegna þess að hann væri ríkari en aðrir, því að hann var raunar bláfátækur, heldur af því að hann gekk fram af ofstopa, stofnaði til illinda, neytti aflsmunar. Hrafnkell Freysgoði var líka ójafnaðarmaður, með því að hann taldi ekki jafnmennt með sér og öðru fólki, taldi sig yfir það hafinn, vildi ekki lúta sömu reglum og það. Jöfnuður skilst því best af andstæðu sinni líkt og hugtökin friður, frelsi og réttlæti. Jöfnuður er í hinni upphaflegu og eðlilegu merkingu orðsins, þar sem ójafnaðarmenn fá ekki að vaða uppi og setja samborgurum sínum afarkosti. Í sönnu jafnaðarlandi þurfa borgararnir ekki að hafa jafna hæfileika eða vera með jafnar tekjur, heldur eru þeir eins jafnir borgarar, jafnmiklir borgarar, og verða má. Þar er engum útskúfað, og þótt munur sé á Jóni og séra Jóni, kemur hann aðeins fram á sumum sviðum. Þar lokar engin yfirstétt leiðum fyrir öðrum, þótt vissulega gangi fólki misjafnlega í lífinu. Þar er réttur manna jafn, þótt þeir nái síðan misjöfnum árangri.

Mikill ójöfnuður var í hinni hefðbundnu merkingu á Íslandi fram á 19. öld. Fámennur hópur stórbænda átti nær allar jarðir, sem ekki voru í eigu konungs eða biskupa, og í þennan hóp voru sýslumenn og kirkjuhöfðingjar sóttir. Aðrir voru leiguliðar eða vinnufólk. Hin fámenna valdastétt kom í veg fyrir það með fulltingi konungs, að kapítalismi eða opið hagkerfi gæti myndast á Íslandi, eins og Gísli Gunnarsson prófessor hefur sýnt fram á. Valdastéttin bannaði útlendingum til dæmis vetursetu með Píningsdómi 1490, sem fól í sér, að hér mynduðust ekki þorp við sjávarsíðuna. Ástæðan var, að stórbændurnir óttuðust samkeppni um vinnuaflið. Valdastéttin var að vísu kristin og viðurkenndi framfærsluskyldu við alla, en þar eð landið gat ekki með frumstæðum atvinnuháttum hennar framfleytt nema um 50 þúsund manns, voru sett ströng lög, Stóridómur, undir yfirskini siðavendni til að varna því, að fólk fjölgaði sér án löggildingar. Þessi fámenna valdastétt beitti konungsvaldinu til að halda sjávarútvegi niðri. Á dögum einokunarverslunarinnar var verð á útflutningsafurðum sett með konunglegum verðskrám. Verð á landbúnaðarafurðum var langt undir heimsmarkaðsverði, en verð á sjávarafurðum langt yfir því. Þetta merkti, að einokunarverslunin færði fé úr sjávarafurði í landbúnað. Hún var innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt þess tíma.

Seint á 18. öld hrifust dönsk stjórnvöld af boðskap Adams Smiths um opið hagkerfi og lögðu einokunarverslunina niður. Jarðir biskupsstólanna og síðar konungs voru seldar í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar. Leiguliðar urðu margir sjálfstæðir bændur. Jarðeignir dreifðust á hendur miklu fleiri en áður. Á 19. öld stigu stjórnvöld mörg fleiri skref í átt til atvinnufrelsis. Vistarbandið var leyst og bann fellt niður við hjónaböndum öreiga. Fólk, sem áður hefði fallið úr hungri, streymdi nú að sjávarsíðunni, þar sem þéttbýli myndaðist. Erlent fjármagn kom inn í landið og vann ómælt gagn. Framtaksmenn spruttu upp og létu að sér kveða. Ber nafn Thors Jensens, útgerðarmanns og kaupmanns, þar hæst. Með auknum kapítalisma jókst jöfnuður í landinu. Ekki voru allir þó ánægðir. Vinstri menn eins og Halldór Kiljan Laxness einblíndu á það, að sumir urðu ríkari en aðrir, þótt þeir vildu ekki hverfa til fornra búskaparhátta. Þeir vildu jafna kjörin frekar en fjölga tækifærum fólks til að bæta þau af eigin rammleik. Sumir vinstri menn voru jafnvel andvígir þróuninni úr bændaveldi. Benedikt Jónsson á Auðnum andmælti frjálsri samkeppni og skrifaði fullveldisárið 1918 um hina nýju stétt íslenskra kapítalista, útgerðarmenn og kaupmenn: „Þar hreiðra þeir sig í rekaldinu við röstina og reisa sér mangarabúðir, eða reka sjávarútveg með málaliði, en umhverfis þá raða sér ræflar og auðnuleysingjar, sem áður voru sjálfkjörin hjú á höfuðbólum og höfðingjasetrum í sveitum, en nú draga fram lífið á daglaunavinnu.“

Frá haftabúskap til opins hagkerfis

HermannÞegar haftabúskapur hófst á Íslandi um 1930, jókst ójöfnuður aftur, enda hafði gamla valdastéttin, sem setið hafði yfir hlut alþýðu fyrstu þúsund ár Íslandssögunnar, þá náð kröftum á ný, og var Hermann Jónasson eflaust einn kænasti fulltrúi hennar. Á haftatímanum 1930-1960 urðu menn að sækja um sérstök leyfi til yfirvalda fyrir öllum nauðsynjum, sem flytja þurfti inn. Ef þeir voru ekki þægir þjónar einhvers stjórnmálaflokks, þá fengu þeir ekki heldur lán úr bönkum. Ríkið skammtaði gæði, og þeir, sem höfðu ríkisvaldið hverju sinni, nutu þess. Hugsanlega var tekjuskipting hér jafnari í orði en víðast annars staðar, en það skipti ekki mestu máli, heldur að menn gátu hvorki ráðið því sem neytendur, hvað þeir gerðu við tekjur sínar, né skapað sér sem framleiðendur tekjur í nýjum fyrirtækjum, nema þeir væru einhvers staðar í náðinni. Stórt skref var að vísu stigið í átt að auknum jöfnuði árið 1960, þegar innflutningshöft voru felld niður. Eftir það ákváðu menn sjálfir, hvað þeir keyptu frá útlöndum. En bankarnir voru enn í eigu ríkisins og útflutningsverslun ófrjáls. Þetta myndaði mikinn ójöfnuð, fækkaði tækifærum framtakssamra einstaklinga. Þeir, sem kölluðu sig jafnaðarmenn, gengu eins hart fram í því að vernda sérhagsmuni og fríðindi og aðrir. Nokkrar fjölskyldur réðu lýðræðisflokkunum þremur, en sósíalistar, sem stóðu vissulega utan valdastéttarinnar, áttu sér þann draum heitastan, að allir yrði jafnfátækir, jafnmiklir þrælar ríkisins.

Tímamót urðu 1991, þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína. Þá var sú stefna mörkuð afdráttarlaust að breyta íslenska hagkerfinu í opið, frjálst, vestrænt hagkerfi. Við það minnkaði ójöfnuður stórlega. Í fyrsta lagi var fjáraustri úr opinberum sjóðum hætt, en áður höfðu menn haft misjafnan aðgang að fjármagni úr þeim. Í öðru lagi hjaðnaði verðbólga, en áður höfðu launþegar lítt komið við vörnum gegn henni. Í þriðja lagi voru skuldir ríkisins greiddar niður, en áður hafði þrálát skuldasöfnun falið í sér skattlagningu á komandi kynslóð, sem átti að greiða án þess að eyða. Í fjórða lagi voru lífeyrissjóðir styrktir, svo að þeir eru nú hinir traustustu í Evrópu, en þar eru slíkir sjóðir víða að þrotum komnir, og verða lífeyrisþegar þar austan hafs að treysta á náð og miskunn skattgreiðenda ólíkt því, sem er á Íslandi. Í fimmta lagi hvarf allt atvinnuleysi, en úti í Evrópu skiptist fólk í launþega og atvinnuleysingja, innanbúðarmenn og utangarðsfólk. Ójöfnuður minnkaði líka stórlega á Íslandi, þegar bankar voru seldir, en áður höfðu fulltrúar stjórnmálaflokka ráðið miklu um, hverjir fengu lán. Á verðbólguárunum 1971-1991 jafngilti óverðtryggt lán í rauninni gjöf, og þeir, sem höfðu mest stjórnmálaítök, fengu þessar gjafir. Sala bankanna á þremur árum, frá 1999 til 2002, var eins mikilvæg breyting á íslensku atvinnulífi og sala stóls- og konungsjarða á 18. og 19. öld. Eftir að bankarnir urðu einkafyrirtæki, réðust útlán ekki af fæðingarvottorðum eða flokksskírteinum, heldur greiðslugetu og arðsvon. Bankarnir hófu harða samkeppni, og ein afleiðingin varð, að vextir á húsnæðislánum snarlækkuðu.

Hinn aukni jöfnuður, sem opnun hagkerfisins og fjölgun tækifæra sköpuðu, sést lítt í hagtölum. Af þeim má hins vegar ráða, að tekjuskipting er tiltölulega jöfn á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins, sem Hagstofa Íslands vann að og birtist í febrúar 2007, er tekjuskipting aðeins jafnari í þremur Evrópulöndum, en ójafnari í 27. Fátækt eða hætta á fátækt (sem mæld er með svonefndum lágtekjumörkum) er líka næstminnst hér í allri Evrópu. Ábatinn af framförum síðustu sextán ára hefur dreifst á alla tekjuhópa. Til dæmis hafa kjör tekjulægsta 10% hópsins batnað að meðaltali um 2,7% á ári eftir skatt eftir tölum Stefáns Ólafssonar prófessors, sem lagt hefur fyrir sig rannsóknir á fátækt. Þetta er 50% meira en í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, O. E. C. D., þar sem kjör þessa hóps hafa batnað að meðaltali um 1,8% á ári. Sennilega verður 1991 talið árið, þegar gamla valdastéttin missti alveg tökin á atvinnulífinu. Upp hefur sprottið hópur framtaksmanna, sem stækkað hafa Ísland með því að halda í víking til útlanda. Fyrst skal þar fremsta telja feðgana Björgólf Thor og Björgólf Guðmundsson, en einnig má nefna Baugsfeðga, Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson, Hannes Smárason, Sigurð Einarsson, Pálma Haraldsson, Ólaf Ólafsson, Bakkavararbræður, Ágúst og Lýð Guðmundssyni, og raunar marga aðra. Uppgangur þessara manna sýnir einmitt, að jöfnuður hefur aukist á Íslandi. Allir höfðu sömu tækifæri og þessir menn. Þeir gripu þau.

Vald skapar ójöfnuð

Vald ríkisins skapar ójöfnuð, því að það er alltaf vald sumra yfir öðrum, hvað sem góðum fyrirheitum líður. Frelsi markaðarins skapar hins vegar jöfnuð, þegar það er fullt og jafnt frelsi allra. Þess vegna er þeim, sem eiga undir högg að sækja, meira skjól í markaðinum en ríkinu. Ég var staddur í Suður-Afríku haustið 1987, þegar þar var enn fylgt aðskilnaðarstefnu. Hvítir menn nutu miklu meiri réttinda en þeldökkir. Stjórn þeirra bannaði jafnvel hjónabönd fólks af ólíkum kynþáttum (eins og valdastéttin íslenska bannaði á sínum tíma hjónabönd öreiga, þótt af öðrum ástæðum væri). Einn daginn ók ég ásamt leiðsögumanni fram hjá kvikmyndahúsi. Ég spurði, hvort aðskilnaðarstefnan næði til slíkra fyrirtækja. Svarið var, að reglunum hefði nýlega verið breytt að kröfu kvikmyndahúsaeigenda. Sú spurning kviknaði óðar í huga mér, þótt ég hefði ekki orð á, hvort kvikmyndahúsaeigendurnir hefðu krafist þessarar breytingar, af því að þeim hefði ofboðið misréttið eða af því að þeir vildu fjölga viðskiptavinum. Ég er í litlum vafa um, að síðarnefnda skýringin er rétt. Náungakærleikur er bundinn við náunga okkar, sem við þekkjum og þykir vænt um. Í skiptum ókunnugra manna hrekkur náungakærleikurinn hins vegar skammt. Þar er matarástin gagnlegri leiðarstjarna. Tilhneiging okkar til að skjóta (eða hrækja) á aðra minnkar, ef við sjáum í þeim væntanlega viðskiptavini. Kapítalistar hugsa (ef til vill sem betur fer) aðeins um peninga. Þeir spyrja ekki, hvernig bakarinn er á litinn, heldur hvernig brauðið er á bragðið.

Það liggur í hlutarins eðli, að óvinsælir minnihlutahópar eiga erfitt uppdráttar, hvar sem þeir búa. En á hinum frjálsa markaði geta skipti þeirra við aðra takmarkast við það, sem er hvorum tveggja í hag. Kaupmaðurinn í Feneyjum sagði: „Ég vil semja við ykkur, kaupa við ykkur, ganga með ykkur, ræða við ykkur, og allt það; en ég vil ekki snæða með ykkur, drekka með ykkur, né biðja með ykkur. Hvað er að frétta úr kauphöllinni?“ Milton Friedman nefndi oft annað dæmi. Það var af handritshöfundum í Hollywood, sem lentu á svörtum listum um kommúnista, þegar Joseph McCarthy öldungadeildarþingmaður var hvað aðsópsmestur. Þeir fengu ekki verkefni undir eigin nöfnum, en kvikmyndaverin keyptu af þeim góð handrit, þótt þau væru merkt dulnefnum. Þessi fyrirtæki höfðu meiri áhuga á gæðum handritanna en réttum nöfnum höfundanna. Það er einnig athyglisvert, að í Bandaríkjunum gætir síst fordóma gagnvart þeldökku fólki í tónlist og íþróttum. Það er engin tilviljun. Í þessum tveimur greinum er samkeppni hörð. Atvinnurekendur hafa ekki efni á að neita sér um hæfileika þeldökkra íþróttagarpa eða stórsöngvara. Á frjálsum markaði ber sá, sem mismunar, ekki síður kostnaðinn en sá, sem mismunað er. Öðru máli gegnir í stofnunum ríkisins. Valdsmaður, sem mismunar tveimur umsækjendum um starf, til dæmis vegna fordóma um litarhátt, kynferði eða kynhneigð, ber sjaldnast kostnað af því sjálfur. Í þessum skilningi er jöfnuður líklegri til að vera meiri úti á markaðnum en í stofnunum ríkisins og því meiri sem samkeppni er harðari. Vald skapar ójöfnuð.

En getur frelsi á markaði ekki líka skapað ójöfnuð? Hvað um það, að allir á Óseyri við Axlarfjörð áttu afkomu sína undir Bogesen kaupmanni? Viljum við, að örfáir auðkýfingar ráði öllu? Skáldsaga Laxness um Sölku Völku er að vísu ekki góð heimild um frjálsan markað. Í rauninni var sama hagkerfi á Óseyri og sósíalistar vildu stofna á Íslandi öllu: Þar var allt hagvald á einni hendi og hvergi undankomu auðið. Aðalatriðið er, að menn eigi þess ætíð kost, séu þeir óánægðir, að leita annað með viðskipti sín, hvort sem það er sala á vinnu eða kaup á vöru, og það geta þeir, ef íslenska hagkerfið er opið og beintengt mörkuðum annars staðar, ekki aðeins í Evrópu, heldur líka Vesturheimi og víðar. Frelsi getur skapað ójöfnuð, en aðeins við mjög óvenjulegar aðstæður. Það er hins vegar ekkert undrunarefni, að sami maðurinn og minnkaði vald sitt stórlega, Davíð Oddsson, skyldi sumarið 2004 vera nánast einn um það íslenskra áhrifamanna að hafa áhyggjur af því, að allir fjölmiðlar landsins kynnu að lenda á einni hendi. Þeir, sem hæst hafa venjulega um jöfnuð, vísuðu því harðlega á bug og töluðu eins og þægir þjónar auðsins. Ég skildi vel sjónarmið Davíðs. En ég skil ekki síður þá skoðun margra frjálshyggjumanna, að eina ráðið við frelsinu sé meira frelsi. Markaðurinn geti sjálfur leyst úr slíkum málum. Sem betur fer hugsi flestir kapítalistar aðeins um peninga. Þeir eigi ekki fjölmiðla, nema það borgi sig, og það borgi sig ekki, nema þeir veiti betri þjónustu en keppinautarnir. Misnoti einn þeirra aðstöðu sína, nýti annar sér fyrr eða síðar tækifærið, sem það skapi.

 Opin leið upp á tindinn

Jöfnuður er allt of mikilvægur til að láta hann jafnaðarmönnum einum eftir. Flestir Íslendingar vilja opið skipulag, þar sem menn eru jafningjar í þeim skilningi, að þeir hafa næg tækifæri til að bæta kjör sín, en dramblát yfirstétt situr ekki yfir hlut annarra, um leið og hún veifar fæðingarvottorðum eða flokksskírteinum. Íslensku þjóðinni hefur tekist betur en öðrum að smíða slíkt opið skipulag síðustu sextán árin. Nú skiptir hér meira máli, á hvaða leið menn eru en hvaðan þeir koma. Hér á landi er leiðin opin upp á tindinn. Það er talið fagnaðarefni, ef menn verða ríkir. Flestir Íslendingar geta sofið á næturna, þótt öðrum gangi vel. Reynslan sýnir enn fremur, að við gerum ekki hina fátæku ríkari með því að gera hina ríku fátækari. Aðalatriðið er að fjölga tækifærum, ekki jafna niðurstöður. Heppilegasta ráðið til þess er að halda áfram að lækka skatta, jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga, eins og Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur bent á.

Lesbók Morgunblaðsins 24. mars 2007.


Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband