Vormaður og sálufélag

Coat_of_arms_of_IcelandFyrir nokkrum misserum var gerð könnun um fallegasta orðið á íslensku, og varð „ljósmóðir“ fyrir valinu. Það var eðlilegt. Hvort tveggja er, að orðið sjálft er fallegt og þjált og að mikil birta hvílir yfir merkingarsviði þess: ný börn að koma í heiminn, mikil blessun fámennri þjóð. Hvernig ætti að þýða þetta orð? Hver tunga á sér einmitt orð, sem örðugt er að þýða, vegna þess að merkingarsvið þeirra vísa til sérstakrar sögu og menningar, hugsunarháttar og aðstæðna. Dæmi eru enska orðið „gentleman“ og danska orðið „hygge“. 

Hér bendi ég á tvö önnur sérstök orð í íslensku. Annað er „vormaður“. Það skírskotar til kynslóðarinnar, sem hóf að láta að sér kveða eftir aldamótin 1900 og var ráðin í að koma Íslandi, þá fátækasta landi Vestur-Evrópu, í fremstu röð. Þetta voru vormenn Íslands og auðvitað af báðum kynjum. Þetta voru verkfræðingar, sem lögðu vegi, hlóðu stíflur, smíðuðu brýr, reistu hús og bægðu frá óhreinindum, kulda og myrkri með vatns-, hita- og rafmagnsveitum, læknar, sem skáru burt mein og bólusettu gegn farsóttum, kennarar, sem vöktu áhuga nemenda sinna á sögu Íslands og einstæðum menningararfi og brýndu fyrir þeim að vanda mál sitt, kveiktu í þeim metnað fyrir Íslands hönd, útgerðarmenn, sem ráku vélbáta og togara og öfluðu drjúgra gjaldeyristekna, iðnrekendur, sem veittu fjölda manns atvinnu og skírðu fyrirtæki sín rammíslenskum nöfnum. Orðið „vormaður“ lýsir von íbúanna á norðurhjara veraldar um meiri birtu.

Hitt orðið er „sálufélag“. Í íslenskum þjóðsögum er hermt, að Sæmundur prestur í Odda hafi heyrt í fornum spám, að honum væri ætlað sálufélag með fjósamanni á Hólum. Eitt sérkenni Íslendinga er, að þeir eru miklu fastmótaðri heild en flestar aðrar þjóðir. Stéttamunur er hér minni og kjör jafnari en víðast annars staðar, eins og nýjustu alþjóðlegu mælingar staðfesta. Íslendingar tala ekki ótal mállýskur, og þeir geta hæglega lesið þá tungu, sem töluð hefur verið hér frá öndverðu. Hver maður á því sálufélag við alla aðra Íslendinga, frá fyrstu landnámsmönnunum, Ingólfi Arnarsyni og Hallveigu Fróðadóttur, til þeirra nýfæddu barna, sem ljósmæðurnar taka á móti þessa stundina. Mikill skaði væri að því að rjúfa þetta sálufélag eins og nú er reynt að gera í nafni fjölmenningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. mars 2021.)


Villur Jóns Ólafssonar

Ég hef hér farið yfir ýmsar brellur, firrur, gloppur og skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ýmsar þjóna þær þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli hreyfingarinnar og tengslum við alræðisherrana í Mosku. En sumar villur Jóns virðast engum tilgangi þjóna. Strax í upp­hafi bókarinnar Kæru félaga (bls. 15) segir Jón til dæmis frá för Hend­riks Ottós­sonar og Brynj­ólfs Bjarna­sonar á annað þing Kom­interns 1920: „Ferða­lang­arnir þurftu að fara norður alla Sví­þjóð og yfir landa­mæri Nor­egs til Rúss­lands. Þaðan svo aftur suður á bóg­inn, fyrst til Petr­ograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En sam­kvæmt frá­sögn Hend­riks, sem ástæðu­laust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaup­manna­höfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farar­eyri hjá erind­reka Kom­interns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaup­manna­hafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Múr­m­ansk. Var þetta hin mesta svað­il­för. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landa­mærum Noregs, því að þeir höfðu ekki far­ar­leyfi þang­að, og þaðan til Rúss­lands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þings­ins í Pét­urs­garði, því að það hafði þá verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þing­ið og eru þess vegna ekki á skrá um þingfulltrúa, þótt þeir tækju fullan þátt í störfum þingsins.

Margar villur eru í sömu bók í frásögn Jóns af MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, sem Jón kallar stundum ranglega (bls. 181 og 340) Menningarsamband. Jón segir (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök end­uðu með því að Krist­inn E. Andr­és­son missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“ Þessu var þver­öf­ugt far­ið. Andstæð­ingar Krist­ins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félag­inu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Pet­er­sen og fleiri menn úr Reykja­vík­ur­deild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst rússneska erindreka um, að þeir vissu af fjár­hags­legum stuðn­ingi Moskvumanna við MÍR, varð órói í félag­inu. Beittu for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins sér fyrir því, að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þess­ara manna á aðal­fundi hennar 26. febr­úar 1960. Þeim tókst ætl­un­ar­verk sitt. Varð Árni Böðv­ars­son for­maður félags­deild­ar­innar í stað Sig­ur­vins, og annar banda­maður Krist­ins, Þorvaldur Þór­ar­ins­son, tók sæti í stjórn­inni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Pet­er­sen, skrif­aði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA-skýrsl­unni, sem Jón Ólafs­son vitnar sjálfur í (Rauða bókin (1984), bls. 126). Kristinn E. Andr­és­son og aðrir for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins réðu alla tíð yfir sjálfum heild­ar­sam­tök­un­um, enda varð Krist­inn for­seti MÍR á eftir Hall­dóri Laxness 1968.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. mars 2021.)


Skekkjur Jóns Ólafssonar

Í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er mikið um firrur, gloppur og villur. Þar er líka talsvert um skekkjur, en þær má kalla ástæðulausa ónákvæmni og ómarkvissa frásögn. Jón fer til dæmis iðulega rangt með nöfn bóka og manna. Í Kæru félögum frá 1999 verður Ófriður í aðsigi eftir Þór Whitehead að Óveðri í aðsigi (bls. 330), Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras breytist í Sólmyrkva í Eystrasaltslöndum (bls. 286), Haavard Langseth ummyndast í Haavard Langeseth (bls. 38 og 340), Olav Vegheim í Olaf Vegheim (bls. 23) og William Gallacher í William Callagher (bls. 123, 125 og 334).

Tímatal Jóns er einnig losaralegt. Hann segir, að Langseth hafi komið til Íslands 1928 og 1929 (bls. 38 og 340), en hann kom hvorugt það ár til Íslands, svo að vitað sé, heldur árið 1930. Hann segir, að þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna hafi verið háð í mars 1956 (bls. 175), en það stóð frá 14. til 24. febrúar. Jón segir í Sögu 2007 (bls. 107), að bréf, sem Einar Olgeirsson sendi Komintern, Alþjóðasambandi kommúnista, hafi verið sent snemma í ágúst 1938, en það er dagsett 21. ágúst. Jón segir í Appelsínum frá Abkasíu, að Finnland hafi fengið sjálfstæði 1918 (bls. 285), en það gerðist í desember 1917. Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika. Jón segir á sama stað, að vetrarstríðið hafi hafist haustið 1939, en það hófst um hávetur, í nóvemberlok 1939, eins og nafnið sýnir raunar.

Meinlegasta skekkja Jóns er, þegar hann segir í Kæru félögum frá bréfi, sem sent var frá Íslandi til Stokkhólms í janúar 1921, en undir það er skrifað „Sillinn“. Jón dró þá ályktun (bls. 22), að hér væri á ferð sænski kommúnistinn Hugo Sillén, og væri athyglisvert, hversu snemma erlendir kommúnistar létu sig varða hina íslensku hreyfingu. En bréfritarinn var auðvitað Hendrik S. Ottósson, sem gekk undir nafninu „Sillinn“ meðal vina sinna. Þessi skekkja hefur slæðst inn í bók Þorleifs Friðrikssonar, Við brún nýs dags.

Jón reynir að gera lítið úr slíkum leiðréttingum og kvartar opinberlega undan „smásmygli“ minni og „geðvonsku“. En flestar þessar villur eru ekki meinlausar prentvillur, heldur stafa þær af hirðuleysi. Jón nennir bersýnilega ekki að standa upp frá tölvu sinni og fletta upp í bókum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. mars 2021.


Gloppur Jóns Ólafssonar

mbl_1998_di_769_mi_769_trovÞað má kalla gloppur í verkum fræðimanna, þegar þar vantar mikilvægar staðreyndir, ýmist af vangá eða vanþekkingu, svo að samhengi slitnar. Ein versta gloppan í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er í frásögn hans af fundi Einars Olgeirssonar í Moskvu í október 1945 með Georgí Dímítrov, yfirmanni alþjóðadeildar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna (sem tók við af Komintern, Alþjóðasambandi kommúnistaflokka). Jón segir í bók sinni, Kæru félögum (bls. 141): „Ekki er ljóst af dag­bók­ar­færslu Dimitrovs hvað þeim Ein­ari fór á milli en þó hefur Einar rætt við hann um mögu­leika á við­skiptum land­anna því að Dimitrov hefur skrifað hjá sér að Einar ætli sér næsta dag að hitta Anastas Mikoj­an, utan­rík­is­við­skipta­ráð­herra.“

En sam­kvæmt dag­bók Dímítrovs sjálfs 25. októ­ber 1945 bað Einar „um ráð um afstöðu flokks­ins og rík­is­stjórn­ar­innar til stofn­unar banda­rískra her­stöðva (flug­valla o. sv. frv.) til tjóns fyrir sjálf­stæði Íslands, svo og um íslensk flokks­mál­efn­i“. Auðvitað hlutu þeir Dímítrov og Einar að ræða herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem var mál málanna á Íslandi, en ráðstjórnin í Moskvu var einnig líkleg til að láta sig hana miklu varða. Dagbókarfærsla Dímítrovs kom fram á ráðstefnu, sem haldin var í Reykjavík 1998, ári áður en Jón gaf út bók sína, og vakti mikla athygli. Ég spurði Jón eitt sinn, hvers vegna hann hefði ekki getið um þetta, og kvað hann það hafa verið einfalda yfirsjón. Hvort sem þetta var tilraun til blekkingar eða yfirsjón, var þetta stór galli á bók hans, alvarleg gloppa.

Margar aðrar gloppur eru í verkum Jóns, en hér nefni ég aðeins eina. Hann segir í bók sinni, Appelsínum frá Abkasíu, frá Veru Hertzsch, þýskum kommúnista, sem flust hafði til Moskvu og eignast barn með Benjamín H. J. Eiríkssyni, þegar hann var þar á leyniskóla. Hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst í desember 1937, þegar hún skrifar í bréfi til Benjamíns: „Greve hefur líka verið handtekin.“ Jón segir ekki ljóst (bls. 137), hver Greve væri. En Richard Greve var ritstjóri blaðsins, sem Vera starfaði við, og mynd er af honum og æviágrip í einni þeirra bóka, sem Jón vitnar í, Verra­tene Idea­le eftir Oleg Dehl. Greve var handtekinn í nóvember 1937.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. mars 2021.)


Orðaskipti við Svein Andra

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður sendi mér kalda kveðju á Snjáldru um daginn:

Alþjóð veit að Hannes Hólmsteinn er í senn hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins og gjallarhorn flokksforystunnar. Þegar hann gjammar, er Sjálfstæðisflokkurinn að tjá sig. … Og ef það er einhver sem ekki er starfi sínu vaxinn er það háskólaprófessorinn sem virðist ekki hafa snefil af þekkingu um opinbera stjórnsýslu og málefni lögreglu.

Ég sagði þá:

Ég held þú ættir að eyða minni tíma hér á netinu og meira tíma til að sinna verkefnum þínum sem skiptaráðandi og umboðsmaður fólks, sem þarf á lögfræðiaðstoð að halda. Af fréttum að dæma mörg síðast liðin ár hefur þú því miður ekki gefið þér alveg nógu mikinn tíma í það.

Sveinn Andri sagði þá:

Ég held að þú ættir að eyða minni tíma hér á netinu og einbeita þér að því að sinna öllum nemendunum þínum sem flykkjast í alla kúrsana þína í HÍ sem við skattgreiðendur borgum þér fyrir að sinna. Eða hvað? Er frjálshyggjuprófessorinn á ríkisjötunni kannski ekki með neina kúrsa eða nemendur? Það er kannski skýringin á hvað þú hefur mikinn tíma til að vera á netinu?

Ég svaraði:

Þér til fróðleiks: Ég er nú ekki mikið á Netinu. Þú mátt ekki mæla þetta í tímanum, sem þú notar á Netinu. Ég þarf ekki eins mikinn tíma og þú: það er ekki eins langt í leiðslunum hjá mér og hjá þér, eins og skjólstæðingar þínir hafa því miður kynnst.

Sveinn Andri sagði:

þú ert miklu meira á Netinu en ég. Ég þarf líka að afla mér tekna sjálfur á hinum frjálsa markaði þar sem samkeppni ríkir. Það eru ekki allir jafn heppnir eins og þú að vera áskrifendur að launatékkum frá okkur skattgreiðendum fyrir að gera ekki rassgat.

Ég svaraði:

Annars get ég upplýst fyrir þá, sem áhuga hafa á, hvað ég sé að sýsla (þótt eflaust séu þeir ekki margir), að ég var í árslok 2020 að gefa út 884 bls. bók í tveimur bindum, sem er hægt að hlaða niður ókeypis af netinu: https://newdirection.online/.../twenty_four_conservative... https://newdirection.online/.../twenty_four_conservative... Og fyrir áhugamenn er mér ljúft að upplýsa, að ég skrifa tvisvar í viku í jafnaði fyrir tímaritið The Conservative: https://theconservative.online/columnist/hannes-gissurarson

Ég bætti við:

Annars ertu aðeins að reyna að leiða athyglina frá því, sem forystumaður Viðreisnar gerði og ég benti á: https://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/2210361/
 
Sveinn Andri sagði:
 
Þú ættir að hafa alla athyglina á því hvernig harðlínuöflin undir þinni andlegu forystu hafa leitt til þess að fagnað er og skálað þegar Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir 20% í skoðanakönnunum.
 
Ég svaraði:
 
Núna er ég áhrifalaus, eins og vinstri menn þreytast ekki á að benda á. Þegar ég hafði einhver áhrif í stjórnmálum, var Sjálfstæðisflokkurinn með 35–40% atkvæða og alltaf í stjórn, samfellt í 17 ár. Þú ert sennilega enn lakari í að kenna fólki stjórnmálasögu en í því að gæta hagsmuna skjólstæðinga þinna. — Það er hins vegar athyglisvert og segir sína sögu, að þú skulir ekki treysta þér til að verja forystumann flokks þíns.
 
Sveinn Andri sagði:
 
ef ég færi að kenna stjórnmálasögu fengi ég kannski einhverja nemendur - öfugt við þig. — það þarf nú ekki mikið að verja formann Viðreisnar. Þorgerður Katrín stendur sig vel. Það er merkileg vörnin sem þú tekur upp fyrir þinn formann - varnartaktíkin virðist ganga út á það að ræða ekkert um háttsemi formannsins; frekar verði að hengja sendiboðann sem vakti athygli á því að ráðherra hefði verið á vettvangi þar sem sóttvarnareglur voru brotnar.
 
Ég svaraði:
 
Ég hef ekki undan neinu að kvarta hjá forsvarsmönnum Háskólans (rektor og sviðsforseta), framkoma þeirra hefur verið óaðfinnanleg, en það er meira en skjólstæðingar þínir geta sagt um þig.
 
Sveinn Andri sagði:
 
mínir kúnnar eru hæstánægðir. Afkoma er bezti mælikvarðinn á ánægju viðskiptavina. Þannig eru nú fræðin. Þetta hefur þú aldrei reynt á eigin skinni enda lengst af verið í öruggu skjóli skattgreiðenda. Hvað eru margir nemendur að skrá sig á kúrsa hjá þér?
 
Ég svaraði:
 
Þú afsannar það á hverjum degi hér á Snjáldru, að þér gangi vel í lífinu. Þá værir þú ekki í þeirri allsherjarfýlu út í lífið, sem raun ber vitni. Þú hefur skipað þér í raðir nöldurseggjanna, kverúlantanna, sem tala vel um öll lönd nema sitt eigið og kvarta öllum stundum undan því, sem lítið er og bliknar í samanburði við alla þá erfiðleika, sem sjá má annars staðar. Þú ert eins orðljótur um þína gömlu félaga í Sjálfstæðisflokknum og þú ert blíðmáll við dómarana, sem skammta lögmönnum verkefni.
 
Sveinn Andri sagði:
 
þú verður að fyrirgefa síðbúið svar. Vinnan hefur forgang fram yfir að svara þér. Að vinna fyrir sér er auðvitað ekki konsept sem þú þekkir nema kannski af afspurn og Guði sé lof að þú kennir hvorki markaðs- né rekstrarfræði. En svona til að upplýsa þig þá ganga viðskipti vel þegar veltan er góð og hún skilar hagnaði. En auðvitað skilur þú þetta ekki, maðurinn sem er búinn að vera áratugum saman á spena hjá skattgreiðendum. Og varðandi lífið þá vona ég að ég endi ekki eins og þú; gamall og frústreraður bitur kall. Þú hefur masterað tvennt í gegnum tíðina og ert betri í því en flestir aðrir, en það er að koma þér í mjúkinn hjá peningaöflunum og að komast að ríkisspenann og hins vegar stendur þér enginn framar í geðillskulegum athugasemdum um samborgarana og dylgjum, þar sem sannleikurinn er fullkomið aukaatriði. Enginn er síðan orðljótari en þú um aðra; fáránlegar athugasemdir þínar um lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eru glöggt dæmi um það. En segðu mér hvað ertu að kenna marga kúrsa í Háskóla Íslands, hvar þú ert prófessor og hvað eru nemendur þínir margir? Og hvernig er tilfinningin fyrir jafn gallharðan frjálshyggjumann eins og þig að vera á framfæri skattgreiðenda?
 
Ég svaraði:
 
Ég ætla ekki að fara í keppni við þig um það, hvor okkar sé geðverri eða orðljótari, því að þá keppni get ég ekki unnið.
 
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband