Adam Smith á Íslandi

6.1 Adam_Smith,_1723_-_1790._Political_economist_-_Google_Art_Project copyEinokunarverslunin danska var í raun innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, eins og Gísli Gunnarsson prófessor hefur sýnt fram á: Fé var með ýmsum opinberum aðgerðum fært úr sjávarútvegi til landbúnaðar, en snarminnkaði auðvitað á leiðinni, eins og títt er um slíkt umstang. Með henni voru Íslendingar hraktir inn í fátæktargildru, sem gekk svo nærri þjóðinni, að hún leið næstum því út af á átjándu öld. En hvers vegna ákvað Danastjórn að afnema einokunarverslunina 1787? Eflaust er helsta skýringin, að komið var í öngstræti. En ef til vill gegndu hugmyndir hlutverki líka.

Adam Smith hafði árið 1776 gefið út Auðlegð þjóðanna, öfluga málsvörn verslunarfrelsis. Ein fyrsta þýðing bókarinnar kom út á dönsku árin 1779–1780. Hún var að undirlagi vina Smiths í Danmörku og Noregi, bræðranna Peters og Carstens Ankers og Andreasar Holts. Þeir þrír höfðu í maí 1762 kynnst Smith í Glasgow og endurnýjað þau kynni í Toulouse í mars 1764. Holt var formaður landsnefndarinnar fyrri 1770–1772, sem lagði á ráðin um umbætur á Íslandi. Í október 1780 skrifaði Smith honum, þakkaði fyrir skemmtilegan ferðapistil um Ísland og lýsti yfir ánægju sinni með, að þýðingin skyldi vera komin út.

Þeir Holt og Carsten Anker gegndu báðir embættum í Rentukammerinu (fjármálaráðuneytinu) danska. Þýðandi bókarinnar, Frands Dræbye, starfaði þar einnig. Þegar einokunarverslunin var afnumin, var Holt látinn, en þeir Anker og Dræbye sinntu enn ýmsum verkefnum fyrir Rentukammerið. Þeir voru frjálslyndir umbótasinnar, en fóru gætilega, eins og Smith gerði jafnan sjálfur. Nærtækt er að álykta, að þeir hafi haft einhver áhrif á hina örlagaríku ákvörðun um að létta okinu af Íslendingum 1787. Í sömu mund var einokunarverslun við Finnmörku afnumin. Enn fremur hafði yfirmaður Rentukammersins, Ernst Schimmelmann, kynnst frelsisrökum Smiths á ferðum sínum um Norðurálfuna ungur. (Peter Anker kemur örlítið við Íslandssöguna líka, en í allt öðru máli.)

Vitanlega var afnám einokunarverslunarinnar aðeins skref í rétta átt, en samt mikilvægt. Þjóðin lifnaði við, og fullt verslunarfrelsi fékkst árið 1855. Ef til vill átti Adam Smith einhvern þátt í þessari þróun.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2020.)


Heimur batnandi fer

Haustið 2014 gaf Almenna bókafélagið út bók metsöluhöfundarins Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Ridley er dýrafræðingur að mennt, var um skeið vísindaritstjóri Economist, en situr í lávarðadeild Bretaþings. Hélt hann því fram, að kjör mannkyns hefðu snarbatnað síðustu tvær aldir. Á dögunum birti Ridley grein í Spectator um þróunina á þessum áratug.

Nú hefur í fyrsta skipti í mannkynssögunni hlutfall þeirra, sem búa við sára fátækt, farið niður fyrir 10 af hundraði. Tekjudreifing á heimsvísu hefur orðið jafnari, aðallega vegna þess að í Asíu og Afríku hefur hagvöxtur verið örari en í Evrópu og Norður-Ameríku. Barnadauði hefur aldrei verið minni. Um hungursneyðir heyrist vart lengur. Mýrakalda, lömunarveiki og hjartasjúkdómar eru allt orðið fátíðara.

Nú notar mannkynið minna á mann af alls konar efnum vegna tækniframfara og endurnýtingar. Í Bretlandi minnkaði notkun alls konar efna (lífrænna efna, málma, jarðefna og jarðefnaeldsneytis) á mann um þriðjung tímabilið 2000–2017. Snjallsíminn hefur leyst af hólmi myndavélina, útvarpið, vasaljósið, áttavitann, landabréfið, úrið, geislaspilarann, dagblaðið og spilin. Ljósaperur nota miklu minna rafmagn en áður, skrifstofur miklu minni pappír.

Tækniframfarir í landbúnaði hafa í för með sér, að minna land þarf nú til beitar og ræktunar, og hafa skógar að sama skapi stækkað í vestrænum velsældarlöndum og villidýr snúið þangað aftur. Ridley telur hið mesta óráð að reyna að minnka orkunotkun með því að hækka orkuverð upp úr öllu valdi. Völ sé á nægri ódýrri orku í kjarnorkuverum.

Þess má líka geta, þótt Ridley minnist ekki á það í pistli sínum, að mjög hefur hægt á fólksfjölgun í heiminum. Martröðin um sífellt fleira fólk að eltast við sífellt færri auðlindir á sér litla stoð í veruleikanum. Draumurinn um betra og grænna mannlíf getur hins vegar ræst.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2020.)


Hundur Rousseaus

Svo frægur var árekstur heimspekinganna Karls R. Poppers og Ludwigs Wittgensteins í Cambridge 25. október 1946, að um hann hefur verið skrifuð heil bók, Eldskörungur Wittgensteins (Wittgenstein’s Poker), sem ég hef minnst hér á. Sömu höfundar, David Edmonds og John Eidinow, hafa skrifað bók um annan frægan árekstur, að þessu sinni milli Rousseaus og Humes. Heitir hún Hundur Rousseaus (Rousseau’s Dog).

Þótt sumir teldu Jean-Jacques Rousseau vitring, má efast um það, en hitt er rétt, að hann var sérvitringur. Hann skrifaði bók um uppeldismál, en sendi þau fimm börn, sem hann gat með lagskonu sinni, á munaðarleysingjahæli. Hann kom undantekningarlaust illa fram við þá, sem veittu honum aðstoð í margvíslegum hrakningum hans, og virðist hafa verið haldinn ofsóknaræði og vænisýki. Ég hef bent á það hér, að hann vék að Íslendingum í ritum sínum. Sagði hann þá þeirra, sem sendir væru í nám til Kaupmannahafnar, sakna svo hins náttúrlega lífs ættjarðarinnar, að ýmist vesluðust þeir upp þar ytra eða drukknuðu, þegar þeir reyndu að synda heim!

David Hume var hins vegar raunsær og glaðsinna, lét fátt raska heimspekilegri ró sinni og hrakti hátimbruð hugmyndakerfi með skarplegum rökum, en naut um leið lífsins að spjalli með vinum yfir glasi af víni. Hann var um nokkurt skeið sendiráðsritari í París og var þá hvers manns hugljúfi og kallaður „Le bon David“, sá góði Davíð. Í árslok 1765 var hann að tygja sig til heimferðar, og þá birtist Rousseau í París, en átti á hættu handtöku fyrir skrif sín. Hume aumkvaði sig yfir Rousseau, tók hann með sér yfir Ermarsund í janúar 1766 og kom honum fyrir uppi í sveit. Hafði d’Holbach barón þó varað Hume við því, að hann væri að ala nöðru við brjóst sér.

Í byrjun fór vel á með heimspekingunum, en síðan hljóp hundur í Rousseau. Honum þótti tefjast, að Hume útvegaði sér lífeyri frá konungi, sem hann taldi sig eiga skilið, og komst hann loks að þeirri niðurstöðu, að Hume væri höfuðpaur í samsæri gegn sér. Hume tók því fálega og skrifaði hvert bréfið af öðru sér til varnar. Rousseau flýði loks undan samsærinu aftur yfir Ermarsund, en upplýstir Evrópubúar, sem þekktu báða af bókum þeirra, stóðu á öndinni yfir þessum ósköpum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2019.)


Til hvers eru kosningar?

Íslendingar fylgjast miklu betur með stjórnmálum í Bretlandi og Bandaríkjunum en á meginlandi Norðurálfunnar, og er það eflaust vegna enskunnar, sem við höfum betur á valdi okkar en flest önnur mál, en þessi lönd eru líka nálægt okkur landfræðilega og stjórnmálalega. Bandaríkin hafa við okkur varnarsamning, og Bretland er einn stærsti viðskiptavinur okkar.

Þegar gengið er til kosninga í þessum löndum, spretta iðulega fram spekingar uppi á Íslandi og hneykslast á úrslitum, því að í hvorugu landinu tíðkast hlutfallskosningar. Donald Trump hlaut til dæmis færri atkvæði samanlagt en Hillary Clinton í bandaríska forsetakjörinu 2016. En tilgangur forsetakjörsins var ekki að mæla almennt fylgi frambjóðendanna, heldur kaus hvert af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna kjörmenn sína eftir misjöfnum reglum (sum jafnvel hlutfallskosningu), og síðan valdi kjörmannasamkoma forsetann. Bandaríkin eru ekki eitt kjördæmi, og það væri andstætt eðli þeirra að vera það. Það er bandalag fimmtíu ríkja.

Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi, og það veldur því, að stærsti flokkurinn getur fengið miklu hærra hlutfall á þingi en talið í atkvæðum, eins og gerðist nú í desemberkosningunum 2019. Kerfinu er ekki ætlað að endurspegla heildarfylgi hvers flokks, heldur sendir hvert kjördæmi einn mann á þing. Einn stór kostur er við þetta kerfi. Hann er, að ábyrgð stjórnenda og kostir um að velja verða miklu skýrari.

Tvö lýðræðishugtök eru helst notuð á Vesturlöndum. Annað er, að þingið eigi að endurspegla sem nákvæmast þjóðarviljann. Margvísleg vandkvæði eru á að gera það, en vissulega á þá hlutfallskosning við. Hitt hugtakið er, að lýðræði sé friðsamleg leið til að skipta um valdhafa, séu kjósendur óánægðir með þá. Þar á betur við fyrirkomulagið á Bretlandseyjum, enda á Clement Attlee að hafa sagt, að höfuðkosturinn við lýðræðið væri, að losna mætti við valdhafana án þess að þurfa að skjóta þá.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband