16.6.2015 | 07:08
Andersen skjölin
Hvort sem menn eru sammála Eggerti Skúlasyni um allt í hinni nýju bók hans eða ekki, hljóta þeir að viðurkenna, að hún er vel skrifuð og vel unnin. Eggert hefur talað við fjölda manns og kynnt sér gaumgæfilega helstu heimildir, og texti hans flæðir vel fram. Lesandinn lætur bókina ekki frá sér fyrr en fulllesna.
Eggert vekur athygli á tvennu, sem flestir ættu að geta tekið undir. Annað er, að eftir bankahrunið var skapað víðtækt vald eftirlitsaðila, en þessu valdi var síðan stundum beitt að ósekju gegn saklausum mönnum. Einn þeirra er Ingólfur Guðmundsson útibússtjóri, annar Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS. Þeir voru hraktir úr störfum sínum, líklega báðir að frumkvæði Gunnars Andersens, forstjóra fjármálaeftirlitsins, sem hafði lent í árekstrum við Ingólf, á meðan báðir störfuðu í Landsbankanum, en var líklega að hefna sín á Guðmundi Erni fyrir gagnrýni á starfshætti fjármálaeftirlitsins. Öll gögn sýna, að þeir Ingólfur og Guðmundur Örn höfðu ekkert brotið af sér, og hefur Ingólfur unnið öll þau mál, sem hann hefur höfðað fyrir dómstólum vegna framkomunnar við sig.
Hitt er, að stundum myndast óeðlileg hagsmunatengsl milli blaðamanna og embættismanna. Blaðamennirnir fá upplýsingar, sem ella liggja ekki á lausu og eru oftast bundnar ströngum trúnaði, en embættismennirnir fá jákvæðar umsagnir eða losna að minnsta kosti við neikvæðar umsagnir og gagnrýni. Augljóst er, að þessu var svo farið í dæmi Gunnars Andersens. Sumir blaðamenn fengu upplýsingar frá honum eða einhverjum á hans vegum, og þess í stað skrifuðu þeir af aðdáun um hetjulega baráttu hans gegn spillingu og gerðu honum að öðru leyti hátt undir höfði. Nú eiga lekar eða uppljóstranir vitaskuld stundum rétt á sér, þegar brýnir almannahagsmunir eru í húfi (þótt með því sé ekki sagt, að þeir verði við það löglegir). En stundum eru slíkir lekar ekkert annað en áreitni og innrás inn í einkalíf manna.
Sjálfur sé ég af þessari bók, hvaðan einn leki um mig, sem gera átti mikið mál úr á sínum tíma, er bersýnilega kominn. Og mér finnst furðu sæta, hversu linlega mál Gunnars Andersens var rannsakað. Í nýlegu lekamáli í innanríkisráðuneytinu var lögreglan mjög harðhent, lagði hald á tölvur og fékk útskriftir af símhringingum. En í lekamáli Gunnars Andersens gerðist ekkert slíkt, og var það þó sýnu alvarlegra. Ég á bágt með að trúa, að lekinn, sem Gunnar var beinlínis staðinn að, hafi verið hinn eini, sem hann bar ábyrgð á. Hvers vegna lagði lögreglan ekki hald á tölvur hans og fékk útskriftir af símhringingum? Hvers vegna var málið ekki rannsakað út í hörgul?
15.6.2015 | 19:14
Því hertóku Bretar ekki Ísland?
Anna Agnarsdóttir prófessor hefur sýnt fram á, að breskir áhrifamenn vildu í lok 18. aldar og byrjun hinnar 19. leggja Ísland undir Bretaveldi og að Bretastjórn velti því tvisvar alvarlega fyrir sér.
Síðustu tvo áratugi átjándu aldar sendi John Cochrane, Skoti af aðalsættum, sem bjó um skeið í Kaupmannahöfn, bresku stjórninni ótal tillögur um að leggja undir sig Ísland, og ætlaði hann sjálfum sér þar jarlstign. Taldi hann ótæmandi brennisteinsnámur á Íslandi og gjöful fiskimið undan landi. Landið gæti einnig hentað sem fanganýlenda.
Bretastjórn tók lítið mark á tillögum Cochranes, uns Danir skipuðu sér sumarið 1800 í röð óvinaríkja Breta. Í janúar 1801 bað hermálaráðherrann, Henry Dundas, Sir Joseph Banks, sem hafði ferðast um Ísland 1772, að skrifa skýrslu um Ísland. Sir Joseph kvað ekki eftir miklu þar að slægjast, en þó myndi auka hróður Bretaveldis að frelsa íbúana undan dönskum kúgurum. Skömmu síðar sigraði breski flotinn Dani, og var þá ekki talin þörf á frekari aðgerðum.
Eftir að Bretar réðust á Kaupmannahöfn sumarið 1807 og tóku á sitt vald danska flotann, snerust Danir til fylgis við Napóleon. Þá báðu breskir ráðamenn Sir Joseph Banks aftur um að gera skýrslu um Ísland. Sir Joseph mælti enn með því að leggja Ísland undir Bretaveldi, enda mætti gera það friðsamlega, því að íbúar væru langþreyttir á Dönum. Ekki varð nú heldur úr hertöku. Hvers vegna?
Eins og Anna Agnarsdóttir bendir á, töldu Bretar ekki svara kostnaði að leggja hið hrjóstuga Ísland undir sig, þótt þeir vildu jafnframt koma í veg fyrir, að eitthvert Evrópustórveldanna réði þar. Áhugi þeirra á Íslandi var því neikvæður. Þeir þurftu ekki bein yfirráð yfir landinu, því að breski flotinn réð hvort sem er yfir Norður-Atlantshafi. Bretar vildu ekki heldur styggja Dani, sem voru þeim oftast vinveittir þrátt fyrir Napóleonsstríðin. Þess vegna varð Ísland ekki bresk hjálenda í upphafi 19. aldar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júní 2015.)
14.6.2015 | 22:55
Varð dramb Íslendingum að falli?
Dramb er talið eitt af dauðasyndunum sjö ásamt ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi. Á íslensku er einnig til málshátturinn: dramb er falli næst. Ýmsir íslenskir fræðimenn hafa einmitt gripið til drambs, þegar þeir ræða um bankahrunið haustið 2008. Íslendingar hafi miklast um of, ætlað sér að sigra heiminn, talið sig skara fram úr öðrum þjóðum. Þeir hafi verið á valdi goðsagna um sjálfa sig, sem til hafi orðið í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar. Til dæmis um þetta eru hafðar ræður forseta Íslands við ýmis tækifæri fyrir bankahrunið og skýrslur Viðskiptaráðs og starfshóps forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands (Kristín Loftsdóttir 2015, 910; Vilhjálmur Árnason 2015, 55). Hér skal því haldið fram, að dramb skýri að minnsta kosti ekki bankahrunið og að Íslendingar geti nú sem fyrr borið höfuðið hátt. Vissulega hafi ýmsar goðsagnir sprottið upp úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en helsti leiðtogi hennar, Jón Sigurðsson, hafi verið raunsær framfaramaður og ekki stuðst við þær goðsagnir frekar en þeir stjórnmálamenn, sem lyftu merkinu eftir hann.
Raunverulegar orsakir bankahrunsins
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var ötull stuðningsmaður hinnar svokölluðu útrásar fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008, eins og fram kemur í bók Guðjóns Friðrikssonar (2008) um hann. Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingarnir hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga, sagði Ólafur Ragnar til dæmis á fundi Sagnfræðingafélagsins í ársbyrjun 2006. Lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni, arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf, samfélaginu sem lífsbarátta fyrri alda færði okkur, viðhorfum og venjum sem eru kjarninn í siðmenningu Íslendinga. Menn innan íslenska fjármálageirans viðruðu svipaðar skoðanir. Í skýrslu Viðskiptaráðs um framtíðarsýn frá 2006 var lagt til, að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Setja skyldi markið hærra: Ísland ætti að verða besta land í heimi. Í skýrslu til forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands frá 2008 sagði um sjálfsmynd Íslendinga: Fólk taldi frelsisþrá og athafnagleði hafa fylgt Íslendingum allt frá landnámi. Aðlögunarhæfni og þrautseigja eru talin Íslendingum í blóð borin og hafa gert þjóðinni kleift að lifa af í harðbýlu landi í nábýli við óblíð náttúruöfl. Þessi einkenni endurspeglist í mikilli sköpunargleði, óbilandi bjartsýni og trú á getu úrræðagóðra Íslendinga til að framkvæma hið ógerlega (Vilhjálmur Árnason o. fl. 2010, 173, 187 og 193).
Auðvelt er að vera vitur eftir á. Ýmislegt í yfirlýsingum forsetans og vina hans í fjármálaheiminum virðist kátlegt eftir bankahrunið. En þegar hugsunarhátturinn að baki er skoðaður nánar, sést, að höfundarnir fjölyrða ekki um neina liðna gullöld, heldur telja þeir, að fámennið geti verið styrkur ekki síður en veikleiki og að Íslendingar hafi herst í erfiðri lífsbaráttu fyrri alda. Hvort tveggja er að einhverju leyti rétt, þótt fjölmenni geti líka verið styrkur og aðrar þjóðir hafi margar háð enn erfiðari lífsbaráttu en Íslendingar. En jafnvel þótt þessi hugsunarháttur hafi stundum breyst í hvimleiðan þjóðernishroka, vísa ég því á bug, að hann hafi ráðið úrslitum um bankahrunið. Hvað olli því þá? Sumir svara því til, að á Íslandi hafi verið fylgt óðakapítalisma, sem hafi getið af sér óða kapítalista (Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir o. fl. 2010). En íslenskir bankar lutu sama regluverki og aðrir bankar Evrópska efnahagssvæðisins. Af hverju féllu aðrir evrópskir bankar þá ekki? Og þótt atvinnufrelsi hafi vissulega aukist á Íslandi 19912004, bjuggu margar aðrar þjóðir við frjálsara hagkerfi (Gwartney o. fl. 2005). Af hverju féllu bankar þeirra þjóða þá ekki? Aðrir svara því til, að bankarnir hafi vaxið of hratt og orðið of stórir miðað við Ísland (Páll Hreinsson o. fl. 2014). En bankar vaxa ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir eignast viðskiptavini. Og bankakerfi sumra annarra Evrópuþjóða var hlutfallslega jafnstórt og hið íslenska, til dæmis bankakerfi Skotlands (miðað við Skotland), Sviss og Kýpur. Hvers vegna féllu bankar þar þá ekki? Vegna þess að þeim var bjargað ólíkt hinum íslensku. Sannleikurinn er sá, að hið alþjóðlega bankakerfi riðaði allt til falls haustið 2008, og íslensku bankarnir voru síðan látnir falla ólíkt bönkum annarra landa. Bandaríski seðlabankinn neitaði íslenska seðlabankanum um gjaldeyrisskiptasamninga og aðra aðstoð, sem seðlabankar annarra ríkja fengu (GAO 2011), og breska stjórnin lokaði breskum bönkum í eigu Íslendinga, um leið og öllum öðrum breskum bönkum var bjargað með stórkostlegri opinberri aðstoð. Breska stjórnin gerði síðan illt margfalt verra með því að beita hryðjuverkalögum á Ísland (Hannes H. Gissurarson 2014 og 2015). Hitt er annað mál, að íslensku bankarnir uxu allt of hratt. Ástæðan til þess, að þeir gátu gert það, var hið góða orðspor, sem Íslendingar höfðu aflað sér árin 19912004 vegna festu í peningamálum og fjármálum (Ásgeir Jónsson 2009). Traustið á Íslandi, sem þá myndaðist, færðist yfir á útrásarvíkingana, og þeir misnotuðu það eða ofnotuðu, en þá minnkaði aftur traust á Íslandi, og öll sund lokuðust.
Goðsagnir sjálfstæðisbaráttunnar
Þótt forseti Íslands og útrásarvíkingarnir hafi ekki skírskotað eins títt til liðinnar gullaldar og gagnrýnendur þeirra vilja vera láta, er hitt rétt, að í sjálfstæðisbaráttunni íslensku urðu til goðsagnir. Þær voru í stystu máli, að á þjóðveldistímanum hefðu Íslendingar búið við frelsi og farsæld, síðan verið sviknir í hendur erlends valds, þá tekið við myrkar aldir kúgunar og fátæktar, en Íslendingar risið upp og endurheimt frelsi sitt og farsæld á nítjándu og tuttugustu öld. Málsnjallasti höfundur þessara goðsagna var þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Í kvæðinu Ísland, sem birtist í fyrsta hefti fyrsta árgangs Fjölnis 1834, yrkir hann:
Ísland, farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir,
hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðis hetjurnar góðu
austan um hyldýpis haf hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti,
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almennagjá, alþingið feðranna stóð.
Síðan ber Jónas hina liðnu sælutíð saman við dauflegan nútímann í því skyni að brýna Íslendinga til dáða:
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á Lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir,
svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá.
Þetta kvæði er öllum íslenskum skólabörnum kennt, og þeir Jónas Jónsson frá Hriflu (191516) og Jón Aðils (1915) sömdu snemma á tuttugustu öld vinsælar kennslubækur í sögu, sem höfðu að geyma svipaða skoðun.
Vandalaust er að sýna fram á, að söguskoðun Jónasar Hallgrímssonar, Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Jóns Aðils stenst ekki. Þjóðveldið var enginn sælureitur, þótt þá væru vissulega skapaðar merkilegar bókmenntir, auk þess sem stjórnskipan þjóðveldisins fól í sér hugvitssamlegar tilraunir til að leysa ýmis mál með samningum í stað valdboðs, eins og hagfræðingarnir David Friedman (1979), Þráinn Eggertsson (1992) og Birgir Þór Runólfsson (1993) hafa bent á. Ástæðan til hnignunar atvinnulífs upp úr 1300 var ekki síst, að veður kólnaði og hin viðkvæma náttúra landsins leyfði ekki frekari landnytjar. Enn fremur bættu hinn danski konungur og innlend landeigendastétt gráu ofan á svart, þegar landbúnaður varð með Píningsdómi 1490 hinn eini lögleyfði atvinnuvegur. Íslendingar sultu, þótt gnótt væri fiskjar í sjó. Þeir gátu ekki sest að við sjávarsíðuna og fengið útlent fjármagn til að smíða þilskip, heldur urðu að láta sér nægja öldum saman að róa á opnum árabátum út á mið nokkra mánuði á ári (Gísli Gunnarsson 1987; Þráinn Eggertsson 1995). Þegar úr rættist á nítjándu og tuttugustu öld, var það fremur vegna verslunarfrelsis og fjármagnsmyndunar en vakningar íslensku þjóðarinnar. Það er síðan kaldhæðni örlaganna, að þjóðernisstefna Jónasar Hallgrímssonar og sporgöngumanna hans var ekki sprottin upp úr íslenskum jarðvegi, heldur sköpunarverk þeirra og orðin til fyrir erlend áhrif. Til dæmis var kvæði Jónasar, sem hér var vitnað til, keimlíkt kvæði, sem danska skáldið Adam Oehlenschläger hafði ort um Ísland (Ringler 2002, 103). Annað frægt kvæði Jónasar í anda rómantískrar þjóðernisstefnu, Gunnarshólmi, var svipað kvæði eftir þýska skáldið Adelbert von Chamisso um liðna gullöld Grikkja (Ringler 2002, 142).
Jón Sigurðsson: þjóðrækinn frjálshyggjumaður
Þótt þjóðernisstefna þeirra Jónasar Hallgrímssonar, Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Jóns Aðils hafi frekar verið sköpunarverk þeirra sjálfra (og jafnvel erlendra skálda!) en raunsönn lýsing á eðli og hlutskipti íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd, er hitt hæpið, að íslenskt þjóðerni hafi ekki orðið til fyrr en á nítjándu öld. Nær er að segja, að það sé litlu yngra byggð í landinu. Fyrsta dæmið, sem ég kann, er, þegar Íslendingar tóku í lög seint á tíundu öld, eftir að Haraldur blátönn Danakóngur hafði gert upptækt íslenskt skip, að yrkja skyldi níðvísur um hann jafnmargar nefjum í landinu. Tilfærir Snorri Sturluson (1979, I, 270) eina vísuna í Heimskringlu. Fyrst var orðið íslenskur notað, svo að ég viti, þegar Sighvatur skáld Þórðarson var á ferð í Gautlandi árið 1018. Þá hafði sænsk kona orð á því, að hann var dökkeygur, og kastaði skáldið þá fram vísu um, að augun íslensku hefðu reynst sér vel (Snorri Sturluson 1979, II, 140). Íslendingar gerðu fyrsta milliríkjasamning sinn við erlent ríki 1022, þegar þeir sömdu við Noregskonung um rétt íslenskra manna í Noregi. Í Íslendinga sögum, sem færðar voru í letur á þrettándu og fjórtándu öld eftir munnmælum, var líka talað af tortryggni um konunga og illræðismenn (Vatnsdæla 1939, 31). Þegar Íslendingar tregðuðust til að samþykkja sáttmálann 1262 við Noregskonung, sem Gissur Þorvaldsson hafði forgöngu um, var það vissulega ekki vegna þjóðernisstefnu, heldur almennrar tortryggni í garð konunga, sérstaklega vegna skattheimtugleði þeirra og stríðsfýsi. Þeir vissu, eins og Einar Þveræingur sagði í ræðu þeirri, er Snorri Sturluson lagði honum í munn (1979, II, 2167) gegn erindrekstri Þórarins Nefjólfssonar fyrir Noregskonung, að konungar eru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og er því hyggilegast að hafa engan konung. Smám saman öðluðust Íslendingar vitund um það, að í þjóðararfi þeirra væri eitthvað sérstakt og dýrmætt, og vilja til að varðveita það og verja. Tvö dæmi frá öndverðri sautjándu öld má nefna. Þegar Jón Indíafari Ólafsson (1908, 70) var í danska flotanum, átti hann leið um bjórkrá í Kaupmannahöfn. Þar talaði danskur múrari hátt um það, hvers konar illþýði byggi á Íslandi. Jón vatt sér að honum og spurði, hvort hann hefði komið til Íslands. Múrarinn bað Guð að forða sér frá því að fara í það djöflabæli. Þá rak Jón Indíafari honum tvo vel útilátna kinnhesta. Eftir að múraranum hafði verið fleygt út, lýsti kráreigandinn yfir ánægju sinni með það, hversu drengilega Jón verði föðurland sitt. Mæli ég þó frekar með aðferð Arngríms lærða Jónssonar, sem skrifaði varnarrit um Ísland (1612) gegn rógi og álygum erlendra manna og benti á, að Íslendingar ættu eigin tungu og menningu, sem þeir gætu verið stoltir af.
Sjálfstæðisbaráttan íslenska var hins vegar ekki háð undir merkjum hinnar rómantísku þjóðernisstefnu Jónasar Hallgrímssonar og annarra Fjölnismanna. Hvort tveggja var, að þeir höfðu sáralítið fylgi og að tveir hinir aðsópsmestu þeirra dóu ungir, Jónas og Tómas Sæmundsson. Jónas var mikið skáld, en lítill stjórnmálamaður. Leiðtogi og skilgreinandi sjálfstæðisbaráttunnar var Jón Sigurðsson. Honum verður best lýst sem þjóðræknum frjálshyggjumanni, sem vildi nýta hið besta úr menningu Íslendinga og annarra þjóða. Í Nýjum félagsritum mælti Jón (1843, 523) með sterkum rökum fyrir atvinnufrelsi og frjálsri verslun, enda þekkti hann vel til kenninga Johns Lockes og Adams Smiths um takmarkað ríkisvald og framfarir í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta. Og í Hugvekju til Íslendinga (1848) setti Jón fram rökin fyrir því, að Íslendingar ættu að stjórna sér sjálfir. Þau voru þríþætt. Í fyrsta lagi hefðu Íslendingar játast undir konung 1262 með þeim skilyrðum, að þeir fengju að halda lögum sínum. Þeir hefðu síðan með einveldishyllingunni 1662 afsalað sér þessum umsamda rétti til konungs, og þá hefði sáttmálinn frá 1262 fallið úr gildi. En um leið og konungur afsalaði sér einveldi, tæki sáttmálinn frá 1262 aftur gildi. Ísland hlyti því að taka aftur við stjórn eigin mála, þótt það ætti konung sameiginlegan með Danmörku. Í öðru lagi væru Íslendingar sérstök þjóð með eigin tungu, sögu og menningu, en ekki hluti af Danmörku, og bæri að virða það. Í þriðja lagi væri heppilegast, að þeir, sem hnútum væru kunnugastir, stjórnuðu landinu, en ekki embættismenn í höfuðborg Danmerkur, órafjarri Íslandi. Og Jón gekk lengra. Þegar ákveðið var að skilja að fjárhag Danmerkur og Íslands, reiknaði hann út, að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunarinnar og upptöku jarða kirkna og klaustra (Páll Eggert Ólason 1932 og 1933).
Þjóðrækni í stað þjóðernishroka
Hvers vegna bar Jón Sigurðsson, sem var allra manna raunsæjastur, fram jafnlangsótt rök og að nú væri aftur kominn í gildi sáttmáli allt frá 1262 og að Danir skulduðu Íslendingum auk þess stórfé? Það var áreiðanlega ekki vegna þess, að hann byggist við því, að Danir tækju því vel, enda varð það ekki. Jón bar fram þessi rök vegna þess, að hann vildi ganga uppréttur á fund Dana, ekki með betlistaf. Hann vildi skilgreina samskipti Íslendinga og Dana eins og samskipti tveggja þjóða, þar sem aflsmunur væri að vísu mikill, en enginn eðlismunur: Báðar væru þetta þjóðir með eigin tungu og menningu. En þjóðrækni Jóns var ekki fornaldardýrkun eða söknuður eftir liðinni sælutíð. Hann skrifaði í bréfi til vinar síns (1865): Ég held mikið upp á fornöld vora, en ég vil ekki gjöra oss að apaköttum þeirrar aldar. Jón vildi opna Ísland. Hann var óhræddur við útlendinga. Hann skrifaði í bréfi til bróður síns (1866): Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn. Ég efast um, að Símon Stylites eða Díógenes [kunnir einsetumenn að fornu] hafi verið frjálsari en hver önnur óbundin manneskja. Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis. Jón var maður meðalhófsins, í senn frjálslyndur og íhaldssamur. Þegar skólapiltar í Reykjavík hylltu hann árið 1875, hafði Gestur Pálsson ort kvæði til hans um, að hann þekkti aldrei bönd. En Jón kastaði eindregið frá sér þeim ummælum, að hann hefði aldrei bönd þekkt, að þola stjórn og bönd væri eitt af skilyrðunum fyrir því að geta orðið nýtur maður; bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn (Jón Jakobsson 1911).
Jón Sigurðsson naut víðtæks trausts með þjóðinni, þótt vitanlega væri hann ekki óumdeildur frekar en nokkur annar stjórnmálamaður í lýðræðisríki. Sérstaklega studdu framkvæmdamenn eins og Tryggvi Gunnarsson kaupfélagsstjóri og Þorlákur Ó. Johnsen kaupmaður hann einarðlega. Fyrsti ráðherrann, Hannes Hafstein, fylgdi svipaðri stefnu og Jón. Hannes hafnaði fornaldardýrkun og var áhugasamur um verklegar framfarir, en til þeirra þurfti erlent fjármagn. Hann var hins vegar engin undirlægja útlendinga (Jón Þorláksson 1923). Sömu skoðunar var Jón Þorláksson forsætisráðherra, einn nánasti samstarfsmaður Hannesar. Lítt þekkt, en skýrt dæmi var, þegar leið að Alþingishátíð 1930. Í nefnd um hugsanlega dagskrá þingfundar lagði Jón til, að lýst yrði yfir vilja til að færa út fiskveiðilögsöguna. Ásgeir Ásgeirsson, sem sat með honum í nefndinni, hafnaði því með þeim rökum, að útlendingar kynnu að þykkjast við. Var þá brugðið á það ráð að leggja fyrir þingið ályktun um gerðardómssamninga milli Norðurlanda (Hannes H. Gissurarson 1992, 427). Þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson reyndu ekki fremur en Hannes Hafstein og Jón Þorláksson á undan þeim að ganga í augum á útlendingum, þótt þeir teldu rétt að gæta fyllstu kurteisi í samskiptum við þá. Landið vantaði enn sárlega markaði og erlent lánsfé, og bjuggu þeir Ólafur og Bjarni svo um hnúta ásamt öðrum, að Íslendingar gerðu hagfellda viðskiptasamninga við Breta og Bandaríkjamenn í stríðinu og fengu ríflega Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum eftir stríð. Þeir skömmuðust sín ekki fyrir að gæta af fullri festu hagsmuna þjóðarinnar. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í tvö hundruð mílur hefði aldrei tekist heldur, ef Íslendingar hefðu hugsað um það eitt, hvað fulltrúum annarra þjóða fyndist. Icesave-málið 20082013 væri efni í heila bók, en furðulegt var að heyra suma íslenska fræðimenn mæla gegn því af tillitssemi við útlendinga, að látið yrði reyna fyrir dómstólum á réttindi íslensku þjóðarinnar og skyldur. Þórarinn Nefjólfsson var ef til vill fyrsti erindreki erlends valds á Íslandi, en hann var ekki hinn síðasti.
Íslendingar eiga að bera höfuðið hátt
Vitaskuld gengu forseti Íslands og útrásarvíkingarnir of langt fyrir bankahrun eins og kennslubókahöfundarnir Jónas Jónsson frá Hriflu og Jón Aðils löngu á undan þeim: Þjóðrækni varð stundum í munni þeirra að þjóðernishroka. En óþarfi er að sveiflast öfganna á milli og halda því þá fram, að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum og þurfi að skríða í skjól stærri þjóða. Þegar ég stundaði ungur nám í Oxford-háskóla, var ég iðulega spurður, hversu margir við Íslendingar værum. Ég svaraði því til, að við tækjum gæði fram yfir magn, svo að við værum vel innan við ein milljón talsins. Ég vildi ekki kikna í hnjáliðum, þótt viðmælendur mínir væru komnir af miklu fjölmennari þjóðum, enda breytir það engu um gildi einstaklingsins, og má raunar jafnvel segja, að því fjölmennari sem þjóð er, því minna verði til skiptanna fyrir hvern og einn einstakling af henni. Ekki óraði mig síðan fyrir því þá, að í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þar sem ég átti eftir að kenna, yrðu deildarfundir haldnir á ensku vegna tveggja útlendinga, sem þar störfuðu, og voru báðir fullfærir um að læra íslensku. Háskóli Íslands hafði verið stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911, svo að íslenskt æskufólk gæti lært íslenska sögu, íslensk lög, íslenskar bókmenntir í stað danskrar sögu, danskra laga og danskra bókmennta. Nú hefur enskan tekið við af dönskunni. Þótt fáir tali íslensku í heiminum, er hún og á að vera fullgilt mál á Íslandi, ekki síst í Háskóla Íslands. Í rauninni er ekki aðalatriðið heldur, hvort Íslendingar voru felldir í bankahruninu eða hvort þeir féllu sjálfir. Aðalatriðið er, að þeir standi aftur á fætur, en til þess þurfa þeir vilja til að vera þjóð. Íslendingar eiga ekki aðeins að standa á fætur, heldur að bera höfuðið hátt í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er ekki dramb, heldur eðlilegt og réttmætt stolt.
[Grein í Íslensku leiðinni, blaði stjórnmálafræðinema, 2015.]
Heimildir
Arngrímur Jónsson 1612. Anatome Blefkeniana. Hólar: Biskupsembættið.
Ásgeir Jónsson 2009. Why Iceland? How one of the worlds smallest countries became the meltdowns biggest casualty. New York: McGrawHill.
Birgir Þór Runólfsson [Birgir T. R. Solvason] 1993. Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth. Constitutional Political Economy 5 (1), 97125.
Friedman, D. 1979. Private Creation and Enforcement of Law: A Historical Case. Journal of Legal Studies 8 (2: March), 399415.
GAO 2011. Government Accountability Office. Federal Reserve System. Report to Congressional Adressees. Washington DV: United States Government Accountability Office (July). Sjá http://www.gao.gov/Products/GAO-11-696 [sótt 15. mars 2015].
Gísli Gunnarsson 1987. Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 16021787. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Guðjón Friðriksson 2008. Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál. Reykjavík: Mál og menning.
Gwartney, J., og Lawson, R. 2005. Economic Freedom of the World: 2005 Annual Report. Vancouver BC: Fraser Institute. Sjá líka http://www.freetheworld.com/release_2005.html [sótt 15. mars 2015].
Hannes H. Gissurarson 1992. Jón Þorláksson forsætisráðherra. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Hannes H. Gissurarson 2014. Alistair Darling and the Icelandic Bank Collapse. Þjóðarspegillinn 2014. Rannsóknir í félagsvísindum XV. Stjórnmálafræði. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Sjá http://skemman.is/item/view/1946/20032 [sótt 15. mars 2015].
Hannes H. Gissurarson 2015. The Icelandic 2008 bank collapse: What really happened? Cayman Islands Financial Review 38 (January), 6870. Sjá http://www.compasscayman.com/cfr/2015/01/30/Iceland%E2%80%99s-2008-bank-collapse--What-really-happened/ [sótt 15. mars 2015].
Jón J. Aðils 2015. Íslandssaga. Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.
Jón Jakobsson 1911. Frásögn í bréfi 7. mars. Sjá Bréf Jóns Sigurðssonar. Nýtt safn, xxi. Reykjavík 1933: XX
Jón Ólafsson 19089 [rituð um 1661]. Æfisaga, ritstj. Sigfús Blöndal. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.
Jón Sigurðsson 1843. Um verzlun á Íslandi. Ný félagsrit 3, 1127.
Jón Sigurðsson 1848. Hugvekja til Íslendinga. Ný félagsrit 8, 124.
Jón Sigurðsson 1865. Bréf til Gísla Hjálmarssonar 13. maí. Lbs. 2591 4to.
Jón Sigurðsson 1866. Bréf til Jens Sigurðssonar 3. október. Lbs. 2591 4to.
Jón Þorláksson 1923. Frá fyrstu stjórnarárum Hannesar Hafsteins, Óðinn 19. Endurpr. í Ræðum og ritgerðum, ritstj. Hannes H. Gissurarson, 6669. Reykjavík: Stofnun Jóns Þorlákssonar 1985.
Jónas Jónsson frá Hriflu 191516. Íslandssaga handa börnum, 1.2. bindi. Reykjavík án útg.
Kristín Loftsdóttir 2015. Vikings Invade Present-Day Iceland. Gambling Debt. Icelands Rise and Fall in the Global Economy, ritstj. Gísli Pálsson og E. P. Durrenberger, 314. Boulder, CO: University Press of Colorado.
Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson 2010. Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, 1. bindi, 2. kafli. Reykjavík: Alþingi.
Páll Eggert Ólason 1932. Jón Sigurðsson, IV. bindi. Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag.
Páll Eggert Ólason 1933. Jón Sigurðsson, V. bindi. Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag.
Ringler, D. 2002. Bard of Iceland: Jónas Hallgrímsson poet and scientist. Madison: University of Wisconsin Press.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Robert Wade 2010. Lessons from Iceland. New Left Review 65 (SeptemberOctober), 529.
Snorri Sturluson 1979 [rituð um 1225]. Heimskringla, IIII, ritstj. Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
Vatnsdæla saga 1939 [höf. ók.]. Ritstj. Einar Ól. Sveinsson. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
Vilhjálmur Árnason 2015. Something Rotten in the State of Iceland. Gambling Debt. Icelands Rise and Fall in the Global Economy, ritstj. Gísli Pálsson og E. P. Durrenberger, 4759. Boulder, CO: University Press of Colorado.
Vilhjálmur Árnason, Kristín Ástgeirsdóttir og Salvör Nordal 2010. Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Viðauki 1 við Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 8. bindi. Reykjavík: Alþingi.
Þráinn [Thrainn] Eggertsson 1992. Analyzing Institutional Successes and Failures: A Millennium of Common Mountain Pastures in Iceland. International Review of Law and Economics 12, 423437.
Þráinn [Thrainn] Eggertsson 1995. No experiments, monumental disasters: Why it took a thousand years to develop a specialized fishing industry in Iceland. Journal of Economic Behaviour & Organisation 30, 123.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.6.2015 kl. 10:51 | Slóð | Facebook
14.6.2015 | 06:42
Kvótakerfið er hagkvæmt og réttlátt
Um allan heim eru fiskveiðar reknar með stórkostlegu tapi og víða með ríflegum ríkisstyrkjum. Fiskveiðifloti margra ríkja er miklu stærri en aflinn, sem hann er fær um að landa, og er því sums staðar stunduð rányrkja, veiðar umfram endurnýjunarmátt fiskistofna. Á þessu eru nokkrar undantekningar, aðallega Nýja Sjáland og Ísland, en í báðum löndunum hefur myndast kerfi einstaklingsbundinna, ótímabundinna og framseljanlegra aflakvóta. Hér eru fiskveiðar svo hagkvæmar, að lýðskrumarar vilja gera fiskveiðiarðinn upptækan í nafni þjóðarinnar. Með því myndi aðstaða íslenskra útgerðarfélaga til að keppa við ríkisstyrkt útgerðarfélög erlendis snarversna. Sjávarútvegurinn fleytti okkur yfir erfiðleika áranna eftir bankahrun, og hagsæld okkar er í húfi, haldi hann ekki áfram að vera arðbær. Hér ætla ég að gefnu tilefni að rifja upp helstu rök fyrir kvótakerfinu.
Ofveiðivandinn leystur
Kanadíski hagfræðingurinn H. Scott Gordon (og raunar danskur hagfræðingur löngu á undan honum) útskýrði ofveiðivandann árið 1954. Líkan Gordons sést á línuritinu. Bátar sækja á fiskimið. Afli þeirra og um leið aflatekjur aukast fyrst með hverjum nýjum báti, uns komið er að hámarksafla, sem er í þessu dæmi sett við tíu báta. Eftir það dregur úr aflanum og aflatekjunum við fjölgun báta, og þegar bátarnir eru orðnir sextán (þar sem línurnar skerast), eru heildaraflatekjur orðnar jafnar heildarsóknarkostnaði. Þá eru fiskveiðarnar reknar án gróða, gert út á núlli. Ef sóknin eykst enn frekar, þá er stunduð rányrkja, svo að fiskistofninn getur jafnvel horfið. Nú benti Gordon á, að við ótakmarkaða sókn fjölgaði bátum, uns allur arður af auðlindinni hafði verið étinn upp í kostnaði af sókninni. Þetta var við sextán báta markið. Af línuritinu sést vel, að sextán bátar eru að landa miklu minni afla en miklu færri bátar gætu landað. Um feikilega sóun er að ræða. Verkefnið hlýtur því að vera að fækka bátunum niður í það, sem hagkvæmast er.
Þegar ég dreg þetta línurit upp fyrir nemendur mína, spyr ég iðulega, hversu mikil sókn, eins og hún mælist í fjölda báta, væri hagkvæm. Oft, en ekki alltaf, svarar þá einhver úr hópnum, að það væri við tíu báta, þegar afli og með þeim aflatekjur eru í hámarki. En þetta er rangt svar. Samkvæmt línuritinu er hagkvæmasta sóknin við átta báta, þegar bilið á milli aflatekna og sóknarkostnaðar er mest. Þar er gróðinn, tekjuafgangurinn, mestur. Menn stunda ekki fiskveiðar til að hámarka afla, heldur til að hámarka gróða. Kvótakerfið íslenska var leið til að fækka bátunum sextán í átta. Eigendur þeirra sextán báta, sem voru að veiðum, þegar aðgangurinn að takmarkaðri auðlind var takmarkaður, eins og nauðsynlegt var, fengu framseljanlega og ótímabundna aflakvóta, sem nægðu til að gera út átta báta með gróða, en sextán báta á núlli. Engan höfuðsnilling þarf til að sjá, hvað hlaut að gerast. Eigendur þeirra átta báta, sem aflögufærastir voru eða treystu sér best til að halda áfram veiðum, keyptu kvóta af hinum handhöfunum, sem lögðu bátum sínum og héldu í land, svo að smám saman færðist sóknin í frjálsum viðskiptum niður í hið hagkvæma hámark, átta báta, og fiskveiðiarðurinn, sem áður hafði étist upp í allt of háum sóknarkostnaði, rann nú til útgerðarfélaganna.
Uppboð óhagkvæmt og óréttlátt
Hér er flókin saga einfölduð. Á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldar voru íslensk stjórnvöld og útgerðarfélög ekki að hrinda í framkvæmd neinum fræðikenningum, heldur að þreifa sig áfram með aðferð happa og glappa, allt frá því að kvóti var fyrst settur á síld 1975. Margvísleg mistök voru gerð, og erfitt var að ná samkomulagi innan sjávarútvegsins og á Alþingi. En það tókst, og altækt kvótakerfi hefur staðið frá 1990 og reynst vel. Þeir, sem þurftu að hætta veiðum, af því að fækka þurfti bátum, voru ekki hraktir út úr greininni, heldur keyptir út úr henni. Þeir tveir íslensku hagfræðingar, sem sérhæft hafa sig í fiskihagfræði, prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson og Ragnar Árnason, voru með í ráðum síðasta kastið og lögðu gott til. En þegar á leið, tóku til máls aðrir íslenskir hagfræðingar, sem sögðu sem svo: Vissulega var verkefnið að fækka bátunum úr sextan í átta, eins og sést á línuritinu. En það mátti gera með opinberu uppboði á leigukvótum, þar sem verðið væri svo hátt, að aðeins átta best stæðu útgerðarfélögin gætu leigt sér kvóta, en hin átta yrðu að hætta veiðum vegna vangetu sinnar til að leigja kvóta. Þannig hefði sóknin orðið hagkvæm, farið niður í átta báta, en fiskveiðiarðurinn runnið til þjóðarinnar, eins og vera ber samkvæmt lögum.
Þessi málflutningur var hagfræðilega rangur: Uppboðsleiðin hefði ekki verið Pareto-hagkvæm, sem kallað er, en Vilfredo Pareto var ítalskur hagfræðingur, sem rannsakaði stjórnmálaákvarðanir. Breytingar á kerfi eru taldar Pareto-hagkvæmar, ef enginn tapar á þeim og einhverjir og jafnvel allir græða. Auðvelt er að sjá, að kvótaleiðin endurgjaldslaus úthlutun aflakvóta eftir aflareynslu fullnægði þessu skilyrði. Þeir átta bátseigendur, sem héldu áfram veiðum, græddu. Það gerðu líka þeir átta bátseigendur, sem seldu þeim kvóta sinn og héldu í land. Ríkið græddi, því að skatttekjur þess hækkuðu, og almenningur græddi á arðsömum sjávarútvegi og vexti atvinnulífsins. En uppboðsleiðin fullnægir ekki þessu skilyrði. Ríkið er í raun eini aðilinn, sem þá græðir. Afkoma þeirra átta, sem leigja kvóta á hinu opinbera uppboði, er óbreytt: Þeir greiða til ríkisins svipaðar upphæðir og þeir sóuðu áður í of mikinn sóknarkostnað. Afkoma hinna átta, sem ekki geta leigt kvóta og verða að hætta veiðum, snarversnar hins vegar. Á einum degi verða fjárfestingar þeirra og fyrirætlanir um líf og starf að engu. Þeir eru flæmdir út af fiskimiðunum. Sú er skýringin á því, að víðast, þar sem kvótar hafa verið settir á veiðar, hefur það verið gert með því að úthluta í upphafi framseljanlegum aflakvótum endurgjaldslaust miðað við aflareynslu undanfarinna ára, en ekki með því að leigja þá eða selja á opinberu uppboði. Kvótaleiðin raskar síst högum þeirra, sem stunda þegar fiskveiðar, svo að þeir sætta sig við breytinguna. Ekki þarf að hafa áhyggjur af hinum, sem ekki stunda fiskveiðar, því að hagir þeirra raskast vitanlega ekki við slíka breytingu.
Eðli vandans
Málflutningur þeirra, sem vildu uppboðsleið, var hagfræðilega rangur í öðrum skilningi. Þeir sáu ekki eðli vandans. Hann er, að við ótakmarkaðan aðgang lögðu útgerðarmenn kostnað hver á annan án þess að ætla sér það. Þeir offjárfestu í bátum og gerðu þá út á núlli, svo að fiskveiðiarðurinn ást upp í óhóflegum sóknarkostnaði. Kostnaðurinn, sem eigendur bátanna lögðu hver á annan með því að flykkjast saman á miðin í því skyni að veiða sem mest hver á undan öðrum, hefur í hagfræði verið kallaður utanaðkomandi kostnaður (social cost, externality). Ráðið við honum er að setja skynsamlegar leikreglur, sem koma í veg fyrir slíkan kostnað. Það var gert með kvótakerfinu íslenska. Þess vegna fengu eigendur bátanna einir úthlutað kvótum. Vandinn var þeirra: Hann var fólginn í offjárfestingu, of mörgum bátum. Aðrir aðilar, svo sem fiskvinnslustöðvar og áhafnir fiskiskipa, störfuðu á venjulegum mörkuðum. En með uppboðsleiðinni er þessi vandi ekki leystur fyrir útgerðarmennina. Þeir eru ýmist eins settir eða verr settir en áður. Þeir, sem geta leigt kvóta af ríkinu, eru eins settir: Það fé, sem áður fór í of mikinn sóknarkostnað þeirra, rennur nú í greiðslur til ríkisins. Þeir, sem ekki geta leigt kvóta af ríkinu, eru flæmdir út af miðunum. En til hvers að leysa vandann, ef hann er ekki leystur fyrir þá, sem urðu fyrir honum?
Íslandssagan geymir merkilega hliðstæðu við kvótakerfið. Landnámsmenn slógu eign sinni á jarðir í dölum. Þeir nýttu hins vegar í sameiningu sumarbeit í almenningum upp til fjalla. Þá skapaðist freisting fyrir hvern bónda til að reka of marga sauði á fjall, því að hann hirti óskiptan ávinninginn af feitari sauðum að hausti, en deildi tapinu af lakari grasnytjum almennt með öllum hinum bændunum. En ef ekki var að gert, blasti við ofbeit. Til þess að koma í veg fyrir það voru settar reglur um svokallaða ítölu: Hver bóndi mátti aðeins telja í ákveðinn fjölda sauða á fjall. Þetta var dæmigert kvótakerfi. Hverri jörð fylgdi í raun beitarkvóti í almenningnum, og gekk slíkur kvóti stundum kaupum og sölum. Þráinn Eggertsson prófessor hefur leitt sterk rök að því, að þetta kerfi hafi verið tiltölulega hagkvæmt, þótt vitaskuld væri atvinnulíf þá frumstætt og landkostir ættu eftir að versna vegna kólnunar. Íslandssagan geymir líka eitt víti til varnaðar. Þegar tímamótaverk Gísla Gunnarssonar prófessors um einokunarverslunina dönsku 16021787 er lesið vandlega, sést, að einn megintilgangur þeirrar stofnunar var að innheimta af sjávarútvegi það, sem við myndum kalla auðlindaskatt. Þetta var gert með konunglegum verðskrám, þar sem fiskur var verðlagður langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir talsvert yfir því. Þetta var með öðrum orðum millifærsla úr sjávarútvegi í landbúnað. Þetta var þó ekki hrein millifærsla, því að arður varð fyrir vikið miklu minni en ella í sjávarútvegi. Kakan stórminnkaði við endurskiptinguna, eins og oftast vill verða. Þess vegna sultu Íslendingar heilu og hálfu hungri öldum saman, þótt gjöful fiskimið væru skammt undan landi.
Réttlæti og þjóðareign
Kvótakerfið er hagkvæmt. En er það réttlátt? Þetta kerfi hlyti vitaskuld aldrei náð fyrir augum þýska heimspekingsins Karls Marx, en ein fyrsta ráðstöfunin eftir byltinguna samkvæmt Kommúnistaávarpinu átti að vera að gera allan auðlindaarð upptækan. Vesturlandamenn hafa þó frekar litið til enska heimspekingsins Johns Lockes. Hann taldi myndun séreignar í almenningum réttlætanlega, yrðu aðrir ekki verr settir við það. Þetta á við um kvótakerfið. Sumir svara því að vísu til, að aðrir hafi orðið verr settir við það, því að það feli í sér lokun fiskimiðanna, takmörkun á aðgangi. Nauðsynlegt er þá að skoða aftur línuritið og þá við sextán báta sókn. Eini rétturinn, sem er í raun tekinn af öðrum við myndun kvótakerfisins, takmörkun aðgangs, er rétturinn til að gera út á núlli, rétturinn til að senda sextánda eða sautjánda bátinn á miðin án vonar um nokkurn afrakstur. Sá réttur er einskis virði. Kvótakerfið er því réttlátt eftir hefðbundnum vestrænum réttlætissjónarmiðum. Enginn tapar, og allir græða eitthvað, að vísu misjafnlega mikið í byrjun.
Enn segja sumir, að samkvæmt lögum séu fiskistofnar á Íslandsmiðum þjóðareign. Aftur þarf að hugsa málið út í hörgul. Þetta hlýtur að merkja, að þessi auðlind er ekki ríkiseign, því að ella hefði það vitanlega verið sagt beint í lögum. Eina skynsamlega merkingin, sem má því leggja í þetta lagaákvæði, er, að fara verði með þessa auðlind með hag þjóðarinnar til langs tíma í huga. En hagur þjóðarinnar til langs tíma af fiskistofnunum er, að þeir skili sem mestum arði. Þótt þessi arður myndist fyrst í útgerðarfélögunum, dreifist hann síðan um atvinnulífið með neyslu eða fjárfestingu, auk þess sem útgerðarfélög og eigendur þeirra greiða auðvitað skatta og því hærri sem þeim gengur betur. Reyni ríkið hins vegar að gera þennan fiskveiðiarð upptækan með ofursköttum eða fyrningarleið, þá er hætt við, að við snúum aftur til fyrra ástands, þar sem útgerðarmenn hafa sem leiguliðar ríkisins engu meiri áhuga á hámarksarði til langs tíma af fiskistofnunum en þeir skriffinnar, sem settir yrðu yfir þá. Jafnframt myndi sá arður, sem þó tækist að gera upptækan, minnka enn í meðförum ríkisins, þegar aðsópsmiklir hagsmunahópar kepptu með ærnum tilkostnaði hver um sinn hlut af honum.
Samkeppni við erlenda útgerð
Fjörutíu ár eru liðin, frá því að kvótum var fyrst úthlutað. Þorri útgerðarmanna hefur greitt fullt verð fyrir þá kvóta, sem þeir nýta nú. Álögur á sjávarútveg umfram það, sem aðrir atvinnuvegir búa við og útgerðarfélög í öðrum löndum, væru því í senn óhagkvæmar og óréttlátar. Hið sama er að segja um fyrningarleiðina. Þegar lýðskrumarar vilja gera fiskveiðiarðinn upptækan, verður að minna á, að þessi arður ræðst af tilhöguninni á nýtingu fiskistofnanna. Hann skapast ekki af auðlindinni einni, eins og oft er haldið fram. Væri svo, þá hefði hann auðvitað verið mjög mikill, á meðan fiskistofnarnir voru miklu stærri en nú, á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar. Fiskveiðiarðurinn skapast vegna kvótakerfisins. Frekar ætti því að styrkja þetta kerfi en veikja: Til dæmis ætti að ákveða leyfilegan hámarksafla með hámarksgróða í huga frekar en hámarksafla, og eðlilegt væri að nota veiðigjald til að standa undir kostnaði af rannsóknum og eftirliti í sjávarútvegi og veita útgerðarfélögum þar um leið aukið forræði. Ekki ætti heldur að gata kerfið með strandveiðum eða byggðapottum. Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru vissulega almenningur, sameign þjóðarinnar. En fyrir þjóðina er hagkvæmast og réttlátast að fela aðilum, sem hafa áhuga á, reynslu af og margsannaða getu til útgerðar, að stunda hana og veita þeim framseljanleg og ótímabundin nýtingarréttindi aflakvóta í þessum almenningi. Það er jafnframt nauðsynlegt vegna samkeppninnar á erlendum mörkuðum. Íslendingar fundu á sínum tíma Ameríku, en týndu henni. Nú hafa þeir fundið hagkvæmasta kerfi, sem þekkist í fiskveiðum heims. Það væri sannkölluð þjóðarógæfa, ef þeir týndu því.
(Grein í Morgunblaðinu 21. maí 2015.)
13.6.2015 | 11:10
Rannsóknaskýrsla mín fyrir árið 2014
Við háskólakennarar þurfum að gera rannsóknaskýrslu árlega. Hér er sú, sem ég skilaði fyrir árið 2014, og eru verkin flokkuð eftir eðli þeirra (og kerfi Háskólans). Eins og sést, var ég á ferð og flugi þetta ár, enda hef ég ákveðið að taka meiri þátt í fræðilegum umræðum á alþjóðavettvangi en ég hef löngum gert. Þá skal þess getið, að allt árið vann ég auk þess að skýrslu þeirri á ensku, sem ég er ásamt öðrum að gera fyrir fjármálaráðuneytið, og sjást hennar merki í ýmsum erindum og greinum á árinu.
Bókarkaflar:
The Rise and Fall and Rise of Iceland. Í Gerald Frost (ritstj.). Understanding the Crash, pp. 6481. Budapest: Danube Institute.
Fátækt á Íslandi 19912004. Í Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson (ritstj.). Tekjudreifing og skattar, bls. 6791. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Tímaritsgreinar:
The collapse of the Icelandic Banks. Cambridge Journal of Economics 38, No. 4, July 2014, pp. 987991. doi:10.1093/cje/bet078
Villt sagnfræði eða spillt? Þjóðmál 9, 3 (haust 2014), bls. 2844.
Viðhorf Alistairs Darlings til Íslendinga. Þjóðmál 9, 4 (vetur 2014), bls. 1425.
Greinar í ráðstefnuritum:
Alistair Darling and the Icelandic Bank Collapse. Í Silja Bára Ómarsdóttir (ritstj.). Þjóðarspegillinn 2014. Reykjavík: Félagsvísindastofnun.
Viðskiptasiðferði og eignasala bankanna. Í Auður Hermannsdóttir, Ester Gústavsdóttir og Kári Kristinsson (ritstj.). Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Reykjavík: Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands.
Erindi á alþjóðlegum ráðstefnum:
Explanations of Icelandic Collapse: Neoliberalism or Government Intervention. Association of Private Enterprise Education. Las Vegas 14 April 2014.
The Subjection of Men? Emerging Ideas in Masculinity Research. Masculinity Studies in the North. Nordic Association for Research on Men and Masculinities. 6 June 2014.
Iceland Left Out in the Cold? Workshop on International Political Theory. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 12 August 2014.
The Icesave Dispute. Workshop on International Courts and Domestic Politics. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 14 August 2014.
The Icelandic Welfare State: Nordic or Anglo-Saxon? Workshop on The Welfare State in Transition. NOPSA, Nordic Political Science Association, Gothenburg 14 August 2014.
A Surprise Encounter. The Jewess who became an Icelander and the Nazi who became a communist. 28th Congress of Nordic Historians, Joensuu 16 August 2014.
Spontaneous Evolution: Three Icelandic examples. Economic Freedom Institute Conference, Manhattanville College, NY, 1011 October 2014.
Fyrirlestrar á málþingum og fundum:
The Icelandic Bank Collapse. Lessons for Europe. European Students for Liberty. Berlin 15 March 2014.
The Internet: An Opportunity for Liberty, Not a Threat. Estudantes pela liberdade (Students for Liberty). Porto Alegre 25 May 2014.
The Internet: An Opportunity for Liberty, Not a Threat. Estudantes pela liberdade (Students for Liberty). Curitiba 31 May 2014.
On Thomas Pikettys Capital. European Students for Liberty Conference. Bergen 18 October 2014.
Europe of the Victims. Erindi á ráðstefnu Platform of European Memory and Conscience, Brussels 4. nóvember 2014.
A Latter-Day Jacobin with Data: Reflections on Pikettys Capital. European Students for Liberty. Reykjavik 15 November 2014.
Boðskapur Tómasar Pikettys í Fjármagni fyrir 21. öldina. Erindi á málstofu RNH um tekjudreifingu og skatta 24. nóvember 2014 (ásamt Corbett Grainger og Ragnari Árnasyni).
Why Was Iceland Left Out in the Cold? And Kept There? Institute of Economic Affairs, London, 27 November 2014.
Ritstjóri bókar
Matt Ridley. Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2014. 360 bls.
Ritdómar
A Latter-Day Jacobin with a Lot of Data. Ritd. um Capital in the 21st Century eftir Thomas Piketty. The Journal of Ayn Rand Studies. Vol. 14, 2, December 2014, pp. 281290.
Hann barðist góðu baráttunni. Ritd. um Í köldu stríði eftir Styrmi Gunnarsson. Morgunblaðið 16. desember 2014.
Ræður á fundum
Smallness: Problem or Opportunity? Reflections of an Icelander. Framsókn, Torshavn 22 March 2014.
Erindi um Sjálfstætt fólk eftir Halldór K. Laxness 19. nóvember 2014 á fundi Stúdentakjallarans, Torfhildar, félags bókmenntafræðinema, Menningarfélagsins, nemendafélags framhaldsnema í íslensku og Þjóðleikhússins. Ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur prófessor, Illuga Jökulssyni rithöfundi, Símon Birgissyni dramatúrg og Þorleifi Erni Arnarsyni leikstjóra.
Stuttar greinar í bókum, blöðum og tímaritum
Eftirmáli. Matt Ridley, Heimur batnandi fer, The Rational Optimist. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2014. Bls. 359360.
Líkan Meadows hrundi, ekki heimurinn. Vísbending 32, 2 (14. janúar 2014), bls. 23.
Nokkrar spurningar til dr. Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur. Morgunblaðið 31. janúar 2014.
Eru háskólakennarar í pólitískri krossferð? Morgunblaðið 11. apríl 2014.
Töpuðu Íslendingar hundrað milljörðum á skyndisölu þriggja Glitniseigna? Morgunblaðið 14. mars 2014.
Er ójöfn tekjudreifing stærsta mál samtímans? Morgunblaðið 2. maí 2014.
Kúgun karla? Morgunblaðið 6. júní 2014.
Þegar ljósin slokknuðu. Morgunblaðið 28. júlí 2014.
Sögulegt gildi griðasáttmálans. Morgunblaðið 23. ágúst 2014.
Aldarfjórðungur frá falli kommúnismans. Morgunblaðið 8. nóvember 2014.
Upplýsingamiðlun og álitsgjöf
Viðtal um skyndisölu Glitniseigna í Noregi og Finnlandi við Kára Finnsson í netsjónvarpi Viðskiptablaðsins 14. mars 2014.
Viðtal um skyndisölu þriggja Glitniseigna við Ríkisútvarpið 15. mars 2014.
Viðtal um jafnréttisbaráttuna við Jón Júlíus Karlsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö 6. júní 2014.
Viðtal um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins við Hjört Hjartarson í kvöldfréttum Stöðvar tvö 8. júlí 2014.
Viðtal um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins í Morgunútvarpi Rásar tvö 9. júlí 2014.
Forganga um gjöf fágætra bóka og frumverka um kommúnismann til Þjóðarbókhlöðunnar 23. ágúst 2014.
Viðtal um innflytjendamál við Hjört Hjartarson í fréttum Stöðvar tvö 16. september 2014.
Viðtal um innflytjendamál við Magnús Geir Eyjólfsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð tvö 21. september 2014.
Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu
Kamban, Kress og Lowrie. Morgunblaðið 4. janúar 2014.
Þið eruð ekki þjóðin. Morgunblaðið 11. janúar 2014.
Hverjum Íslandsklukkan glymur. Morgunblaðið 18. janúar 2014.
Ofeldi launað með ofbeldi. Morgunblaðið 25. janúar 2014.
Viðbótarheimild um huldumann. Morgunblaðið 1. febrúar 2014.
Ættjarðarást. Morgunblaðið 8. febrúar 2014.
Um borð í Gullfossi. Morgunblaðið 15. febrúar 2014.
Darling og íslensku risaþoturnar. Morgunblaðið 22. febrúar 2014.
Darling og styrktarmenn Íhaldsflokksins. Morgunblaðið 1. mars 2014.
Jarðálfarnir í Zürich. Morgunblaðið 8. mars 2014.
Bara ef lúsin erlend er. Morgunblaðið 15. mars 2014.
Ólíkt hafast þeir að. Morgunblaðið 22. mars 2014.
Breskir dómarar skeikulir. Morgunblaðið 29. mars 2014.
Tómas og Steinn. Morgunblaðið 5. apríl 2014.
Steinn og stjórnmálin. Morgunblaðið 12. apríl 2014.
Því voruð þið að kjafta frá? Morgunblaðið 19. apríl 2014.
Athugasemd frá dóttur Jóns Óskars. Morgunblaðið 26. apríl 2014.
Jón Óskar og sósíalisminn. Morgunblaðið 3. maí 2014.
Óhæft til birtingar. Morgunblaðið 10. maí 2014.
Áfengiskaup leka. Morgunblaðið 17. maí 2014.
Kúgun karla? Morgunblaðið 24. maí 2014.
Ríkur maður alltaf ljótur? Morgunblaðið 31. maí 2014.
Merkingarþrungnar minningar. Morgunblaðið 7. júní 2014.
Gleymd þjóð. Morgunblaðið 14. júní 2014.
Áttum við að stofna lýðveldi? Morgunblaðið 21. júní 2014.
Raunveruleg tímamót. Morgunblaðið 28. júní 2014.
Bandaríski draumurinn. Morgunblaðið 5. júlí 2014.
Stúlkan frá Ipanema. Morgunblaðið 12. júlí 2014.
Friðarverðlaun Nóbels. Morgunblaðið 19. júlí 2014.
Habsborgarar. Morgunblaðið 26. júlí 2014.
Nordal í stríðsbyrjun. Morgunblaðið 2. ágúst 2014.
Fyrirlestrar í Gautaborg. Morgunblaðið 9. ágúst 2014.
Krossgötur: Mörk og mót. Morgunblaðið 16. ágúst 2014.
Blómið í hóffarinu. Morgunblaðið 23. ágúst 2014.
Lagði Hong Kong undir sig Kína? Morgunblaðið 30. ágúst 2014.
Skjól eða gildra? Morgunblaðið 6. september 2014.
Stefán Ólafsson í París. Morgunblaðið 13. september 2014.
Siðferði og siðleysi. Morgunblaðið 20. september 2014.
Kúba norðursins. Morgunblaðið 27. september 2014.
Er Ísland í Evrópu? Hvaða Evrópu? Morgunblaðið 4. október 2014.
Netið gleymir engu. Morgunblaðið 11. október 2014.
Vetrarstríðið og flokkaskiptingin. Morgunblaðið 18. október 2014.
Vetrarstríðið og kinnhestur Hermanns. Morgunblaðið 25. október 2014.
Einar dansaði við Herttu. Morgunblaðið 1. nóvember 2014.
Brot úr Berlínarmúrnum. Morgunblaðið 8. nóvember 2014.
Steinólfur í Fagradal. Morgunblaðið 15. nóvember 2014.
Frænka Jörundar hundadagakonungs. Morgunblaðið 22. nóvember 2014.
Veruleikinn að baki myndunum. Morgunblaðið 29. nóvember 2014.
Russell á Íslandi. Morgunblaðið 6. desember 2014.
Ferð til Nýju Jórvíkur. Morgunblaðið 13. desember 2014.
Marx og Engels um Íslendinga. Morgunblaðið 20. desember 2014.
Nokkuð að iðja. Morgunblaðið 27. desember 2014.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook
11.6.2015 | 23:39
Nú vill enginn eiga þig
Þegar ekkert tilboð barst í Íslandsverslun 1758, kastaði Eggert Ólafsson fram vísu:
Fyrr þín gæði fýsileg
fjöldi sótti þjóða,
nú vill enginn eiga þig,
ættarjörðin góða.
Skáldið hefur því miður nokkuð til síns máls. Björn Þorsteinsson prófessor gróf upp, að Danakonungar reyndu þrisvar að veðsetja eða selja landið Hinrik VIII. Bretakonungi, en hann hafði ekki áhuga, þótt bresk fiskiskip flykktust þá á fengsæl Íslandsmið. Danakonungur reyndi 1645 að veðsetja Ísland fyrir láni frá Hamborgarkaupmönnum, eins og Laxness fléttar eftirminnilega inn í Íslandsklukkuna. Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland 1814, hirtu þeir ekki um að krefjast Íslands með, þótt fornt norskt skattland væri. Eftir ósigur fyrir Þjóðverjum 1864 í stríði um Slésvík og Holtsetaland veltu Danir því fyrir sér um skeið að bjóða Þjóðverjum Ísland gegn því að halda hluta Slésvíkur.
Þó vildu nokkrir málsmetandi Bretar í upphafi nítjándu aldar, að Ísland yrði hluti Bretaveldis, sérstaklega Sir Joseph Banks, sem komið hafði til Íslands 1772 og var síðan einlægur Íslandsvinur, eins og Anna Agnarsdóttir prófessor hefur rakið. Sir Joseph samdi þrjár skýrslur um Ísland fyrir Bretastjórn, 1801, 1807 og 1813, þar sem hann mælti með því, að Bretar legðu undir sig landið, enda væru Íslendingar langþreyttir á dönskum einokunarkaupmönnum og áfjáðir í að öðlast þá blessun, sem breskt frelsi veitti (partake of the Blessings of British liberty). Bretastjórn fór þó ekki að ráði Sir Josephs, enda vildi hún ekki styggja Dani, auk þess sem breski flotinn réð þá hvort sem er lögum og lofum á Norður-Atlantshafi. Frá Napóleonsstríðunum og fram til 1941 var Ísland á valdsvæði Breta. Eftir það og fram til 2006 var landið á valdsvæði Bandaríkjamanna. En í ljós kom í bankahruninu haustið 2008, að enginn hafði lengur áhuga á Íslandi og örlögum þess. Nú vill enginn eiga þig, ættarjörðin góða.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júní 2015.)
10.6.2015 | 20:57
Vinir í raun
Ísland er lítið land, sem flestum er sama um, en fæstir því þó fjandsamlegir. Slíku landi ríður miklu frekar á því en hinum stærri að eiga vini í háum stöðum erlendis. Þeir geta ráðið úrslitum á ögurstund, því að okkur munar vegna smæðarinnar verulega um það, sem öðrum er útlátalaust. Það ætti því að vera eitt helsta verkefni íslenskra ráðamanna að rækta vináttu við þá erlendu ráðamenn, sem áhuga hafa á Íslandi og getu til liðveislu.
Gott dæmi er til frá fyrri tíð um, hversu miklu máli vinarþel einstaklinga getur skipt Ísland. Haustið 1807 áttu Bretar í stríði við Napóleon, sem Danakonungur fylgdi að málum, og hertóku þeir þau kaupskip frá Íslandi, sem þeir náðu í. Á einu skipanna var Magnús Stephensen háyfirdómari, og komst hann síðan til Kaupmannahafnar. Magnús sá fram á ófremdarástand, einangrun landsins, skort á nauðsynjum, jafnvel hungursneyð.
Magnús mundi nú eftir breskum heldri manni, sem komið hafði til Íslands 1772 og heimsótt föður hans, en Magnús var þá aðeins tíu ára drenghnokki. Þetta var Sir Joseph Banks, forseti Breska vísindafélagsins og góðvinur margra voldugustu manna Bretaveldis. Magnús skrifaði Sir Joseph, sem kannaðist vel við bréfritarann, enda hafði hann skrifast á við föður hans eftir Íslandsförina. Brást Sir Joseph vel við og fékk Breta til að sleppa kaupskipum frá Íslandi.
Sir Joseph Banks átti líka drjúgan þátt í því, að Bretar ákváðu með konunglegri tilskipun 7. febrúar 1810 að skilgreina Ísland sem hlutlaust, vinveitt land, sem nyti verndar Bretaveldis. Líklega er þessi tilskipun einsdæmi: Ísland var hjálenda Danmerkur, sem Bretar áttu í stríði við. Á ögurstund geta vinir í háum stöðum ráðið úrslitum. Sir Joseph Banks var slíkur vinur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. maí 2015. Sú réttmæta athugasemd var gerð við pistilinn í tölvuskeyti til mín, að ekki mætti gleyma hlut Bjarna Sívertsens í að bæta úr nauð Íslendinga. Hann vann af miklum dugnaði að því að leysa vandann. En ekki má heldur gleyma sambandi Magnúsar og Sir Josephs, sem greiddi mjög fyrir málinu. Myndin er af Sir Joseph.)
10.6.2015 | 09:48
Kardínálinn aftur á ferð
Íslenska þjóðveldið er eins og svissneska samveldið merkilegt fyrir það, að það fól í sér sjálfstjórn frjálsra jafningja. Adam frá Brimum sagði fullur aðdáunar, að hjá Íslendingum væru lögin konungur. Eflaust á þessi stjórnmálahugsun rætur að rekja til sjálfstjórnar germönsku ættbálkanna, sem bjuggu norðan Rómaveldis og Tacítus lýsir stuttlega í bók sinni, Germaníu. En suður í álfu voru aðrar stjórnmálahugmyndir á kreiki. Þær voru um það, að menn væru ójafnir og skyldu skiptast í þegna og drottna. Lögin væru ekki sammæli jafningja, heldur fyrirmæli konungs og ráðgjafa hans. Þessar suðrænu hugmyndir sjást vel af ummælum eins helsta sendimanns Rómarpáfa, Vilhjálms kardínála af Sabína, sem staddur var við hirð Hákonar gamla í Noregi 1247. Þegar hann var beðinn að miðla málum á Íslandi, kvað hann ósannlegt, að land það þjónaði ekki undir einhvern konung sem öll önnur lönd í veröldinni.
Vilhjálmur kardínáli kom víðar við en í Noregi til að flytja svipaðan boðskap. Þegar ég var nýlega á ferð í Eistlandi, notaði ég tækifærið til að grúska í gömlum eistneskum sögubókum. Þar rakst ég á frásagnir um ferð Vilhjálms kardínála þangað í erindum páfa. (Hann var þar kallaður Vilhjálmur af Módena, en við þann stað var hann fyrst kenndur.) Var Vilhjálmur staddur í Eistlandi árið 1225-6 og átt þátt í að sætta eistneska þjóðflokka og baltneska baróna af þýskum ættum með því að hvetja Eista til að bera ok sitt af undirgefni og drottnara þeirra til að gæta þess, að þetta ok yrði ekki of þungt, eins og segir í gömlum kirkjusögum. Hér getur að líta hina suðrænu hugmynd um, að frjálsir jafningjar mættu ekki stjórna sér sjálfir, heldur skyldu yfir þá settir aðalsmenn og jafnvel konungar, sem stjórnuðu af Guðs náð og eftir skorðuðu stigveldi. Þegnar ættu að vera hlýðnir, en drottnar mildir. Treysta skyldi á valdið frekar en frelsið.
Íslendingar kannast við annað afbrigði af þessari hugmynd, þegar norskur hirðmaður, Loðinn leppur, reyndi að fá Jónsbók samþykkta á þingi 1281. Bændur voru tregir til og settu ýmis skilyrði, en Loðinn leppur brást þá hinn versti við og sagði búkarla gera sig digra. Þeir ættu að játa Jónsbók óbreyttri, en treysta síðan á náð konungs um einstök atriði, sem þeim þættu miður fara. Og þessar hugmyndir eru enn á kreiki. Þeir, sem vilja aðild að Evrópusambandinu, segja, að við Íslendingar verðum að gangast undir meginreglur þess um óheftan aðgang allra aðildarþjóða að auðlindum okkar, en að við getum síðan treyst því, að tekið verði tillit til svæðisbundinna hagsmuna okkar. Við eigum með öðrum orðum ekki að standa á rétti okkar, heldur treysta náðinni eins og Vilhjálmur af Sabína og Loðinn leppur sögðu forðum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. maí 2015.)
10.6.2015 | 01:57
Brandes og Cobban gera lítið úr Íslendingum
Nokkrir útlendir fræðimenn, sumir jafnvel vinsamlegir Íslendingum, hafa efast um, að þeir fái staðið undir sjálfstæðu ríki. Frægt varð viðhorf danska rithöfundarins Georgs Brandesar. Hann hafði mælt fyrir minni Íslands árið 1900 og sagt, að ekki kæmi að sök, hversu fáir þeir væru. Sauðir væru að vísu fleiri en menn á Íslandi, en svo væri einnig í Danmörku, þótt í öðrum skilningi væri. En þegar Einar Benediktsson krafðist sérstaks fána fyrir Ísland í viðtali við danskt blað 1906, sneri Brandes við blaðinu og skrifaði háðsgrein í Politiken 16. desember um, að Amager ætti að óska eftir sjálfstæði og hafa eigin fána. Margir eru þeirrar skoðunar, að skærlit gulrót á spínatgrænum fánafleti væri einkar þekkileg.
Ef til vill er á vitorði færra, að hinn kunni breski sagnfræðingur Alfred Cobban gerði lítið úr íslensku þjóðríki í bók, sem hann birti 1944 um sjálfsákvörðunarrétt þjóða (National Self-Determination, Oxford University Press). Cobban andmælti þar hugmyndinni um þjóðríkið, að hver þjóð ætti að mynda sjálfstætt ríki. Sérstaklega væri hún óraunhæf, þegar um smáþjóð væri að ræða (bls. 74). Ef við tökum dæmi, er þá raunhæft að trúa því, að orðið verði eða verða ætti við sjálfstæðiskröfum íbúa Wales, Hvíta-Rússlands, Elsass eða Flandurs með viðurkenningu sérstakra ríkja þeirra? Ætti franska Kanada að mynda sérstakt ríki? Myndi Möltubúum vegna betur sem þjóð, ef þeir slitu tengslin við Breta og reyndu að stofna sjálfstætt ríki án nokkurs tillits til fyrirætlana grannríkja við Miðjarðarhaf? Hefur Ísland efni á því að vera án efnahagslegra tengsla við eitthvert stærra og auðugra ríki?
Nú kunna ýmsir að telja Cobban óspámannlega vaxinn, því að Hvíta-Rússland og Malta eru þegar sjálfstæð ríki og öflugar aðskilnaðarhreyfingar starfa í franska Kanada (Quebec) og á Flandri. En auðvitað er Hvíta-Rússland mjög háð Rússlandi, og Malta hefur að miklu leyti afsalað sér fullveldi með aðild að Evrópusambandinu. En þegar Cobban skrifaði þessi orð, hafði Ísland verið fullvalda ríki í 26 ár. Það þurfti auðvitað eins og öll smáríki stuðning, vináttu og viðskipti við stærri þjóðir, en þetta hlaut ekki eins og Cobban virtist gera ráð fyrir að einskorðast við eitthvert eitt ríki, einn ráðríkan Stóra bróður. Jón Sigurðsson svaraði Cobban vel löngu áður í ritgerðinni Um skóla á Íslandi í Nýjum félagsritum 1842 (bls. 146-7): Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2015.)
9.6.2015 | 21:31
Furðuskrif um sjálfstæðisbaráttuna
Svo virðist sem allt megi segja um Íslendinga erlendis. Kristín Loftsdóttir skrifar í nýútkomnu greinasafni um bankahrunið, Gambling Debt, bls. 6-7: Um miðja nítjándu öld var Ísland eitt af fátækustu löndum Evrópu. Þótt það væri fjárhagsleg byrði á Danmörku, hafði það barist fyrir sjálfstæði í heila öld. Lokabaráttan hófst um miðja nítjándu öld undir áhrifum íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, sem mótuðust af þjóðernisstefnu í Evrópu. Á þessum tíma voru miðaldabókmenntir Íslendinga (sögurnar) og tungan helstu þættirnir í því að skapa sérstaka íslenska þjóðarvitund.
Þetta er allt rangt nema það, að Ísland var fátækt. Sjálfstæðisbaráttan hafði ekki staðið í heila öld í kringum 1850, heldur hófst hún um þetta leyti, ekki síst með Hugvekju til Íslendinga eftir Jón Sigurðsson 1848.
Í öðru lagi var Ísland ekki fjárhagsleg byrði á Danmörku, þótt vissulega hafi gjöld danska ríkissjóðsins vegna Íslands verið talsvert hærri en tekjur af landinu um miðja nítjándu öld. En eins og Jón Sigurðsson reiknaði út, hafði Danmörk verið fjárhagsleg byrði á Íslandi vegna einokunarverslunarinnar og eignarnáms konungs á jörðum.
Í þriðja lagi háðu stúdentar í Kaupmannahöfn ekki sjálfstæðisbaráttuna, þótt þeir styddu hana langflestir, heldur meiri hluti Alþingis undir forystu Jóns Sigurðssonar og aðrir stuðningsmenn hans, þar á meðal Tryggvi Gunnarsson og Þorlákur Ó. Johnson.
Í fjórða lagi var sérstök íslensk þjóðarvitund ekki sköpuð á nítjándu öld, heldur hafði hún verið til frá öndverðu. Þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði íslenskt skip upptækt á síðari helmingi tíundu aldar, ortu Íslendingar um hann níðvísur. Þegar sænsk kona hafði orð á því við Sighvat Þórðarson 1018, að hann væri dökkeygari en gerðist í Svíþjóð, orti hann um hin íslensku augu sín. Íslendingar gerðu þegar árið 1022 sáttmála við Noregskonung um rétt sinn í Noregi. Íslendingar litu aldrei á sig sem Norðmenn og því síður Dani.
Í fimmta lagi hafði Arngrímur lærði þegar á öndverðri sautjándu öld bent á, að Íslendingar gætu verið hreyknir af bókmenntum sínum og tungu. Þetta var því ekkert nýtt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. maí 2015.)