Kílarfriður enn í gildi?

Þegar Svíar fengu Noreg í sárabætur fyrir Finnland með friðarsamningnum í Kíl 1814, fylgdu ekki með hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Ísland, Færeyjar og Grænland. Ég hef áður sagt frá skemmtilegri skýringu á því, sem er ekki beinlínis ósönn, en getur samt ekki verið allur sannleikurinn. Hún er, að sænski samningamaðurinn í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú eylönd hafi verið norsk skattlönd. Það kemur fram í bréfi hans til sænska utanríkisráðherrans, sem flýtti sér hins vegar að leiðrétta hann.

Auðvitað getur vanþekking sænsks samningamanns ekki verið fullnaðarskýring. Aðalatriðið hlýtur að vera, eins og prófessor Harald Gustafsson í Lundi hefur bent á, að Svíar ásældust ekki þessi þrjú fjarlægu og fátæku eylönd í Norður-Atlantshafi. Þótt þeir gerðu engar kröfur um þau, fannst hinum slynga danska samningamanni, Edmund Bourke greifa, vissara að setja sérstakt ákvæði í friðarsamninginn um, að eylöndin þrjú fylgdu ekki Noregi.

Þess hefur verið getið til, að Bretar hafi ráðið þessum málalyktum. Þeir hafi ekki kært sig um, að voldugt ríki eins og Svíþjóð réði eylöndunum í Norður-Atlantshafi, sem breski flotinn taldi sitt yfirráðasvæði. Að vísu finnast engar heimildir um þetta, svo að ég viti, en víst er, að áhugi Breta á Íslandi hefur ætíð verið neikvæður: Þeir hafa sjálfir ekki viljað leggja Ísland undir sig, en ekki heldur kært sig um, að önnur ríki Evrópu gerðu það.

Er í Kílarfriðnum 1814 fólgin vísbending til okkar nútímamanna? Ef svo er, þá er hún, að Ísland eigi ekki að reyna að verða hluti af meginlandi Evrópu, heldur miklu frekar halda áfram að vera sérstakt eyland í Norður-Atlantshafi. Það eigi helst heima með öðrum löndum Norður-Atlantshafs, Stóra-Bretlandi, Noregi, Kanada og Bandaríkjunum að ógleymdum Færeyjum, Írlandi og Grænlandi. Var mat Svía fyrir 201 ári rétt?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. maí 2015. Hér að neðan er leiðakerfi Icelandair.)

icelandair-routemap.jpg


Mario Vargas Llosa

vargasllosa.jpgPerúski rithöfundurinn Mario Vargas Llosa, sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2010, var heiðursgestur svæðisþings Mont Pelerin samtakanna í Lima í Perú, sem ég sótti í mars 2015. Þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, og sat ég þar í stjórn 1998–2004, auk þess sem ég skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Vargas Llosa er frábær rithöfundur, en því miður er eftirlætisbók mín eftir hann, Veisla geithafursins (La fiesta del chivo), enn ekki komin út á íslensku.

Vargas Llosa er hávaxinn maður, fríður sýnum, hvíthærður, með afbrigðum höfðinglegur í fasi. Hann er kominn fast að áttræðu, en ber aldurinn vel. Hann flutti ræðu á ráðstefnunni og tók líka þátt í dagskrá utan funda, til dæmis útreiðarferð á búgarði nálægt Lima og dansleik í ráðstefnulok, en þá bauð hispursmær honum upp fyrstum ráðstefnugesta, og lét hann sér það vel líka. Það var fróðlegt að heyra Vargas Llosa lýsa skoðanaskiptum sínum, en hann var kommúnisti ungur, en hefur síðustu fjörutíu árin verið yfirlýstur frjálshyggjumaður. Hann kvaðst hafa verið lestrarhestur alla tíð, en tvær bækur hefðu haft mest áhrif á sig.

Önnur var Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, en hún kom út á íslensku í tveimur hlutum 1941 og 1944. Er löng saga af útkomu hennar, sem ég segi í ritinu Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Vargas Llosa sagðist hafa dáðst að söguhetjunni fyrir eldmóð í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðu.

Hin bókin var Opið skipulag og óvinir þess (The Open Society and Its Enemies) eftir Karl Popper, einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna. Vargas Llosa kvaðst hafa komist í eins konar andlega vímu, þegar hann las hana. Popper færði sterk rök gegn alræðisstefnu Marx og tilraunum til að gerbreyta þjóðskipulaginu í einu vetfangi.

Kjarni frjálshyggjunnar að sögn Vargas Llosa væri umburðarlyndið, sem sprytti af vitundinni um skeikulleika mannanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. apríl 2015. Ég breytti hér bókartitli Vargas Llosa eftir ábendingu Arnar Ólafssonar. Þetta er auðvitað ekki geit, heldur geithafur, sem getur verið táknmynd greddu, eins og allir skilja, sem lesið hafa bókina.)

 


Sjálftaka eða þátttaka?

Þegar ég dvaldist í Perú á dögunum leitaði enn á hugann, hvers vegna sumar þjóðir eru fátækar og aðrar ríkar. Þótt Perúmönnum hafi gengið tiltölulega vel síðasta aldarfjórðung eftir miklar umbætur á öndverðum tíunda áratug tuttugustu aldar, hafa þeir löngum verið fátækir og eru enn. Eitt skynsamlegasta svarið, sem ég hef fundið við þessari spurningu, er í bókinni Þess vegna vegnar þjóðum illa (Why Nations Fail) eftir Daron Acemoglu í MIT og James Robinson í Harvard, sem út kom 2012. Í fæstum orðum er þetta svar, að gæfumun þjóða geri, hvort skipulagið einkennist af sjálftöku (extraction) eða þátttöku (inclusion).

Höfundar bera saman suður- og norðurhluta þorpsins Nogales á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkós. Norðan megin er miklu meiri velsæld. Samt eru íbúar beggja hluta af sama uppruna og steinsnar hverjir frá öðrum. Ástæðan er sú að Bandaríkin byggðust innflytjendum, sem stofnuðu ríki til að tryggja frelsi sitt og fá að stjórna sér sjálfir. Þar er skipulag þátttöku. Í Mexíkó stóð hins vegar fyrst veldi Asteka, og þegar Spánverjar hertóku landið, gerðist ekki annað en það, að gamla valdastéttin, sem hafði kúgað íbúana og arðrænt, þokaði fyrir nýrri valdastétt, sem hélt áfram að kúga íbúana og arðræna. Þar er skipulag sjálftöku. Hið sama gerðist í Perú. Þar stóð veldi Inka, og þeir drottnuðu yfir öðrum íbúum landsins, kúguðu þá og arðrændu. Síðan lögðu Spánverjar Inkaveldið undir sig, og þeir tóku sess Inkanna, reyndu að gera allan umframarð upptækan.

Acemoglu og Robinson vísa þeirri algengu skoðun á bug, að gömlum breskum nýlendum vegni almennt betur en gömlum nýlendum annarra Evrópuþjóða. Benda þeir á, að allur gangur sé á því. Þeim gömlu bresku nýlendum vegni vel, þar sem landið hafi verið að mestu leyti tómt áður, en byggst innflytjendum og búið við bresk lög, til dæmis Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kanada. Þar myndaðist skipulag þátttöku. En öðrum breskum nýlendum vegni miður, til dæmis Indlandi, Ghana og Nígeríu, þar sem bresku nýlenduherrarnir hafi lítt hreyft við sjálftöku hefðbundinna valdastétta. En hvað er til ráða, ef greining Acemoglous og Robinsons er rétt? Það er ekki að reyna að gera hina fátæku ríkari með því að gera hina ríku fátækari, enda mistekst það alltaf, heldur að skapa skilyrði til þess, að allir geti orðið ríkari, líka hinir fátæku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2015.)

hhg_cusco_2015.jpg


Þessi ríkisstjórn gerir það, sem hin vanrækti

Menn geta auðvitað deilt um ýmsar gerðir ríkisstjórnarinnar, en tvö aðalatriði standa upp úr:

  • Fyrrverandi ríkisstjórn lofaði skuldaleiðréttingum og vildi slá „skjaldborg um heimilin“, en lítið varð úr framkvæmdum. Núverandi ríkisstjórn framkvæmdi stórfellda skuldaleiðréttingu, sem gerbreytir efnahag tugþúsunda heimila.
  • Fyrrverandi ríkisstjórn var skipuð vinstri mönnum, sem hnýtt höfðu í útlendinga alla sína stjórnmálatíð. En hún gafst alltaf upp í samningum við útlendinga og það miklu oftar en í Icesave-málinu einu. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar komið fram við útlendinga af kurteisi, en líka af fullkominni festu.

Hinn stígurinn

hhg_lima_2015.jpg

Dreifing eigna og tekna hefur löngum verið mjög ójöfn í Perú, þar sem ég dvaldist nýlega um skeið. Andspænis fámennri yfirstétt af spænskum ættum stendur allur fjöldinn, sem er aðallega kominn af indjánum, en hefur blandast nokkuð evrópskum innflytjendum. Þetta fólk býr í fátækrahverfum umhverfis höfuðborgina Lima og í frumstæðum sveitaþorpum uppi til fjalla og inni í frumskóginum. Eirðarlausir menntamenn hljóta því að telja hér frjósaman jarðveg fyrir byltingarboðskap Karls Marx. Einn þeirra var Abimael Guzmán, heimspekiprófessor og maóisti. Hann skipulagði hryðjuverkahóp seint á áttunda áratug, „Skínandi stíg“ (Sendero Luminoso). Ódæði hans beindust ekki aðeins að stjórnvöldum, heldur líka alþýðufólki, sem talið var þeim hliðhollt. Þeir Guzmán lögðu undir sig afskekkt svæði í Perú og stjórnuðu þar harðri hendi, eins og lýst er í Svartbók kommúnismans. Talið er að þeir hafi alls drepið um þrjátíu þúsund manns.

Árið 1988 gaf verkfræðingurinn Hernando de Soto hins vegar út bókina Hinn stíginn (El Otro Sendero). Þar hélt hann því fram að búa þyrfti alþýðu Perús skilyrði til að brjótast úr fátækt. De Soto sagði snautt fólk ráða yfir talsverðu fjármagni, en þetta fjármagn væri oft „dautt“ í þeim skilningi að það væri ekki skráð, veðhæft eða seljanlegt. Leiðin til bjargálna væri því torfær. Rétta ráðið væri að opna hagkerfi Perús, auðvelda frjáls viðskipti, einfalda reglur um stofnun smáfyrirtækja og viðurkenna eignarrétt fátæks fólks á ýmsum eignum utan hins hefðbundna hagkerfis. Rithöfundurinn Mario Vargas Llosa tók undir með de Soto og bauð sig fram til forseta 1990. Annar frambjóðandi, Alberto Fujimori, sigraði naumlega. Eftir forsetakjörið kvaddi Fujimori de Soto óvænt til ráðgjafar og framkvæmdi nær allar tillögur hans, og hefur síðan verið mikill uppgangur í Perú. Jafnframt herti Fujimori baráttuna gegn Skínandi stíg, og var Guzmán gómaður árið 1992. Hefur síðan verið sæmilegur friður í landinu. Fujimori spilltist hins vegar af valdinu, braut stórlega af sér og situr nú í fangelsi, þótt flestir Perúbúar séu samkvæmt skoðanakönnunum þakklátir honum fyrir að velja hinn stíginn fyrstu árin á forsetastól.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2015.)


Hugleiðingar í Machu Picchu

hhg_machupicchu.jpg

Merkilegt var að koma á dögunum til Perú og skoða fornar Inkaborgir, Cusco, sem var höfuðborg, þegar Spánverjar komu til landsins, og Machu Picchu, hina yfirgefnu og týndu borg uppi í háfjöllum Andes. Sjálfir fundu Spánverjar aldrei Machu Picchu, sem virðist helst hafa þjónað trúarlegum þörfum Inkanna. Rifjaðist nú upp fyrir mér, að ungur las ég í enskri þýðingu rit, sem Ludwig von Mises hafði mælt með, Sósíalistaveldi Inkanna (L'Empire socialiste des Inka) eftir franska lögfræðinginn Louis Baudin, en það kom fyrst út 1928. Baudin lýsti rækilega skipulagi Inkaveldisins: Þar urðu allir að vinna, en einnig var séð fyrir lágmarksþörfum allra. Þéttriðið veganet var lagt um landið og fullar kornhlöður stóðu á vegamótum. Afkomuöryggi var því sæmilegt, en einstaklingsfrelsi ekkert. Inkarnir stjórnuðu harðri hendi. Allir í sömu stöðu urðu að klæðast sams konar fatnaði, trúa á sömu guði og tala sömu tungu. Allir urðu að ganga í hjónaband og eignast börn. Allt frumkvæði var miskunnarlaust barið niður og dauðarefsing lá við flestum brotum. Frjálst starfsval var ekki til og einnig urðu þegnar Inkanna reglulega að vinna það, sem má ýmist kalla þegnskylduvinnu eða þrælkun. Þótt Inkaveldið væri víðlent og voldugt var það frumstætt um margt. Inkarnir höfðu hvorki fundið upp hjólið né nothæft ritmál.

Öndvert við Baudin og von Mises hafa sumir fræðimenn efast um, að kenna megi Inkaveldið við sósíalisma, sem sé miklu nýrra orð og tákni sjálfstjórn og sameign fjöldans, en í Inkaveldinu hafi allt í raun verið í eigu Inkanna. Þar hafi verið fastskorðuð stéttaskipting. Þetta er auðvitað rétt, en þegar einkaeignarréttur er afnuminn hlýtur að myndast skipulag líkt Inkaveldinu. „Hin nýja stétt“ eignast þá í raun gæðin. Og hún stundar víða mannfórnir. Í hreinsunum sínum sendi Stalín héraðsstjórum tilskipanir um að drepa tiltekinn fjölda fólks. Ekki þarf að minna á Maó og Pol Pot. Í ríki Inkanna tóku mannfórnir á sig trúarlega mynd. Ég heimsótti gamalt musteri, sem Inkarnir höfðu reist nálægt Lima, Pachacamac. Í tíð Inkanna var óspjölluðum stúlkum fórnað þar. Þeim voru fyrst gefin deyfilyf og þær síðan kyrktar. Spánverjar lögðu Inkaveldið undir sig 1532. Þeir gengu hart fram, undirokuðu og arðrændu sömu þjóðflokka og Inkarnir. En líklega var stjórnarfar eftir það skömminni skárra en í tíð Inkanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. apríl 2015.)


Var Jón Sigurðsson óbilgjarn?

jo_769_nsigur_sson.jpgMenn kunna að segja, að Jón Sigurðsson, leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, hafi verið óbilgjarn gagnvart Dönum. Þegar stjórnskipan Dana var í deiglu 1848, setti Jón fram þá kenningu, að hún breytti engu fyrir Íslendinga. Þeir hefðu gert sáttmála við konung 1262, þar sem kveðið væri á um réttindi þeirra og skyldur. Þegar Íslendingar hefðu játast undir einveldi 1662, hefði sáttmálinn frá 1262 fallið úr gildi, en hann tæki aftur gildi um leið og konungur afsalaði sér einveldi. Ísland væri þess vegna fullvalda land í konungssambandi við Danmörku.

Danir tóku rökum Jóns fjarri. Hann sat hins vegar í nefnd um fjárhagslegan aðskilnað Danmerkur og Íslands 1862. Aðrir nefndarmenn töldu eðlilegt að ríkissjóður Dana legði Íslendingum til 42 þúsund ríkisdali á ári. En Jóni reiknaðist til, að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunarinnar og upptöku eigna á Íslandi, svo að þeir ættu að greiða Íslendingum 100 þúsund ríkisdali árlega, þegar dregið hefði verið frá framlag til konungs og æðstu stjórnar.

Sumum kann að finnast reikningskrafa Jóns jafnlangsótt og skírskotunin í sáttmálann frá 1262. En hvers vegna bar jafnraunsær maður og Jón fram slík rök? Vegna þess að hann var að reyna að efla sjálfsvirðingu sinnar fámennu, fátæku þjóðar og koma fram af reisn út á við. Íslendingar áttu ekki að leggjast á hnén og biðja auðmjúklega um það, sem þeir þurftu, heldur standa á rétti sínum.

Þetta vissu Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um hervernd. Hið sama var ekki að segja um þá, sem sömdu við Breta í Icesave-deilunni. Þeir fóru ekki að fordæmi Jóns Sigurðssonar, enda runnu öll þeirra vötn til Dýrafjarðar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2015.)


Þorvaldur Íslendingahrellir

Hannes Hafstein sagði í viðtali við Þorstein Gíslason í Lögréttu 20. mars 1915, fyrir réttum hundrað árum: „Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur.“ Flest reynum við að bera höfuðið hátt erlendis þrátt fyrir smæð okkar. Þeir Íslendingar eru þó til, sem nota hvert tækifæri til að gera lítið úr þjóð sinni. Í grein eftir Þorvald Gylfason prófessor um íslenska bankahrunið í ritröð þýskrar háskólastofnunar í janúar 2014 er rauði þráðurinn, að Íslendingar séu spilltir. Eitt dæmi Þorvaldar er þetta: „Eftir endurteknar tilraunir afla nálægt sumum þeirra, sem sæta rannsókn, til að flæma úr starfi glæpamannahrellinn (crime-buster) Gunnar Andersen, forstjóra fjármálaeftirlitsins eftir bankahrun, tókst það 2012.“

Þorvaldur nefnir ekki, að þriggja manna stjórn fjármálaeftirlitsins sagði Gunnari upp. Af þeim voru tvö (Aðalsteinn Leifsson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir) skipuð af ráðherra úr Samfylkingunni og einn (Arnór Sighvatsson) tilnefndur af Seðlabanka Más Guðmundssonar. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi efnahagsmálaráðherra, studdi ákvörðun stjórnarinnar um uppsögn. Menn þurfa fjörugt ímyndunarafl til að telja þessa fjóra einstaklinga alla handbendi fjármálamanna, sem sættu rannsókn.

Þorvaldur nefnir ekki heldur, að stjórnin sagði Gunnari upp vegna upplýsinga um, að hann hefði, þegar hann starfaði í Landsbankanum, verið virkur í að stofna og reka aflandsfélög á Guernsey, en með rekstri þeirra mátti fara í kringum reglur um fjármálafyrirtæki. Þegar fjármálaeftirlitið spurði Landsbankann árið 2001 um erlend umsvif, sá Gunnar um svör og lét þessara aflandsfélaga ógetið.

Við bættist, að Gunnar hafði orðið uppvís að því 2012 að láta lauma í DV upplýsingum um einkahagi alþingismanns. Þegar Þorvaldur skrifaði grein sína í janúar 2014, hafði Gunnar þegar verið sakfelldur í héraðsdómi fyrir þetta brot á bankaleynd. Þess gat prófessorinn ekki einu orði. Skömmu síðar var Gunnar dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir brot sitt. Ef Gunnar var glæpamannahrellir, þá er Þorvaldur Íslendingahrellir, ekki síst þegar hann er kominn út fyrir landsteinana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2015.)


Reductio ad Hitlerum

hitler_495545.jpgNýlega kom út í Bandaríkjunum greinasafn um bankahrunið íslenska, sem Gísli Pálsson og E. Paul Durrenberger ritstýrðu. Í formála víkja þeir að frægu hugtaki Hönnu Arendt, hversdagslegri mannvonsku (banality of evil), sem hún notaði í tilefni réttarhalda yfir Adolf Eichmann í Jórsölum. Síðan segja þeir: „Þó voru Eichmann og hans líkar ekki aðeins að hlýða fyrirmælum. Þeir trúðu í einlægni á þann málstað og það kerfi, sem þeir þjónuðu. Nýfrjálshyggjan er jafnhversdagsleg. Við teljum, að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, með rætur sínar í Bandaríkjunum og hámarki í kröfunni um hröð umskipti, hnitmiðaða og samfellda áróðursvél og framgang Chicago-skólans í hagfræði og kynningu nýfrjálshyggjunnar sem heilsteypts hugmyndakerfis, sé söguleg hliðstæða. Hún virðist eðlileg, enginn virðist ábyrgur, og allir eru aðeins að hlýða fyrirmælum.“

Þeir Gísli segja líka: „Nýfrjálshyggja sækir réttlætingu í „vísindalega“ hagfræði. Samt sem áður hefur hún haft í för með sér ólýsanlegt ofbeldi og eymd um allan heim. Frá sjónarmiði fórnarlambanna séð er þetta vissulega sambærilegt við árásir víkinga. Framkvæmd þessarar hugmyndafræði og almenn viðurkenning hennar, hvort heldur í smáu eða stóru, er skýrt dæmi um hversdagslega mannvonsku.“

Þessari samlíkingu hefur verið gefið sérstakt nafn, „Reductio ad Hitlerum“, Hitlers-aðleiðslan. Er varað við henni í rökfræði. Til dæmis getur verið, að frjálshyggjumaður trúi af sömu ástríðu á málstað sinn og nasisti. En með því er ekkert sagt um, hvort frjálshyggja sé skyld nasisma. Raunar er frjálshyggja eins langt frá nasisma og hægt er að vera, því að kjarni hennar er viðskipti frekar en valdboð. „Tilhneiging þín til að skjóta á náungann minnkar, ef þú sérð í honum væntanlegan viðskiptavin,“ sagði frjálshyggjumaður á nítjándu öld. Frjálshyggja hefur hvergi verið framkvæmd hrein og tær, en samkvæmt alþjóðlegum mælingum eru þau lönd, sem helst nálgast frjálshyggjuhugmyndir um hagstjórn, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland, Bretland og Kanada. Hverjum dettur öðrum í hug en Gísla Pálssyni og E. Paul Durrenberger að bera þau saman við Hitlers-Þýskaland?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2015.)


Sömdu Svíar af sér Ísland?

i_769_sland_hvi_769_tt.jpgMeð ólíkindum er, hversu hljóðlega og átakalaust Ísland fylgdi Danmörku í Kílarfriðnum, sem saminn var 14. janúar 1814, en þá var Danmörk neydd til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð. Með Gissurarsáttmála 1262 höfðu Íslendingar þrátt fyrir allt játast undir Noregskonung, og um skeið á fjórtándu öld var Ísland í konungssambandi við Svíþjóð eina, hvorki við Noreg né Danmörku. Þótt Íslandi væri stjórnað frá Kaupmannahafn, var landið jafnan talið ásamt Grænlandi og Færeyjum til skattlanda Noregskonungs.  

Skýringin er ótrúleg. Samningamaður Dana í Kíl var Edmund Bourke greifi, snjall maður og slægvitur. Hann hafði fengið fullt umboð Friðriks VI. Danakonungs til að láta Noreg allan af hendi. En honum tókst að setja sérstakt ákvæði inn í 4. grein samningsins, þar sem kveðið var á um, að Danakonungur afsalaði sér yfirráðum yfir Noregi öllum til Svíakonungs að Grænlandi, Færeyjum og Íslandi undanskildum. Svo virðist sem samningamaður Svía í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú skattlönd voru í upphafi norsk. Þetta sést af bréfi, sem Wetterstedt skrifaði sænska utanríkisráðherranum í Stokkhólmi tveimur dögum síðar. Það er á frönsku, en kaflinn um Ísland hljóðar svo (í þýðingu úr Skírni 1888): „Þó að Ísland, Grænland og Færeyjar hafi aldrei heyrt til Noregi, þá hefur herra Bourke beðið um, að þeirra væri sérstaklega minnst í 4. grein samningsins, og mér hefur fundist, að ég ætti ekki að neita honum um það.“

Þótt vanþekking hins sænska samningamanns sé hrópleg, er hún áreiðanlega líka dæmi um áhugaleysi Svía á hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi. Ísland þótti svo lítils virði, að hvorki Svíar né Bretar lögðu það undir sig, þótt bæði ríkin hefðu á því færi. En því má velta fyrir sér, hver framvindan hefði orðið, hefðu Svíar tekið við Noregi ásamt fornum skattlöndum þess 1814, en ekki samið þau af sér. Hefði Ísland þá orðið fullvalda ríki í konungssambandi við Noreg 1905, þegar Norðmenn sögðu upp konungssambandinu við Svía?

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2015. Þau Anna Agnarsdóttir prófessor og Björn Bjarnason, fyrrv. menntamálaráðherra, hafa bæði haft samband við mig til að segja, að ef til vill hafi kaupin ekki verið þessi á eyrinni: Bretar hafi ráðið því, að skattlöndin í Norður-Atlantshafi hafi gengið undir Danmörku frekar en Svíþjóð. Er von á ritgerð eftir Önnu um þetta, sem gaman verður að lesa, en fyrir mér er þetta ráðgáta. En myndin í horninu af hinu hrjóstuga landi er: Jeff Schmaltz, MODIS Land Rapid Response Team, NASA GSFC]

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband