Vildi kaupa Ísland

reykjavik_1860s.jpgMaður var nefndur William Henry Seward, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1861–1869 og ötull landvinningasinni. Hann keypti Alaska af Rússaveldi 1867 og samdi við Dani um að kaupa af þeim nokkrar eyjar í Karíbahafi, en öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti ekki þau kaup, svo að ekki varð af þeim fyrr en 1917. Jafnframt hafði Seward hug á því að kaupa Grænland og Ísland af Dönum. Hann sneri sér til áhrifamanns í Washington-borg, Roberts J. Walkers, fyrrverandi fjármálaráðherra. Walker fékk námuverkfræðing, Benjamin M. Peirce (bróður hins kunna heimspekings), til að gera skýrslu um landkosti á Grænlandi og Íslandi eftir tiltækum heimildum.

Þegar upplýst var á Bandaríkjaþingi, að slík skýrsla væri í smíðum, skellihlógu þingmenn. Einn þeirra gerði gys að Seward fyrir að vilja nú kaupa „jarðskjálfta í Karíbahafi og ísbreiður á Grænlandi“. Treysti Seward sér ekki til að bera kaup á Grænlandi og Íslandi upp við þingið, en lét utanríkisráðuneytið prenta skýrsluna vorið 1868.

Í skýrslunni kvað Peirce erfitt að afla upplýsinga um Ísland. Þó væri landið ekki eins hrjóstugt og nafnið veitti vísbendingu um. Það væri grösugt og bæri fjölda sauðfjár. Gjöful fiskimið væru undan landi, sem yrðu mikils virði við betri tækni. Einnig væri verulegt vatnsafl í landinu, þótt það væri ekki nýtt, á meðan iðnaður væri nær enginn. Peirce nefndi einnig, að landið lægi vel við sæsíma milli Vesturheims og Evrópu.

Af frásögnum að dæma væru Íslendingar heiðarlegir, flestir læsir og betur að sér en grannþjóðirnar, en drykkfelldir. Þeir væru mjög stoltir af sögu sinni, tungu og menningu. Óstjórn Dana væri um fátækt þeirra að kenna. „Þeir hlakka til glæsilegrar framtíðar, þegar frjáls og framtakssöm stjórn beinir þeim með fjármagni og dugnaði að því að nýta auðlindir landsins og skipa þann sess meðal þjóða, sem þeim ber“ (A Report on the Resources of Iceland and Greenland, bls. 43).

Í formála lagði Robert J. Walker til, að Bandaríkjastjórn keypti Grænland og Ísland af Dönum. Nefndi hann, að þá myndi fylkin í Kanada ef til vill sjá sér þann kost vænstan að ganga í Bandaríkin. Jón Sigurðsson virtist vera eini Íslendingurinn, sem las skýrsluna, og sagði hann í bréfum, að auðvitað yrði aldrei af slíkum kaupum, en hugmyndin gæti bætt samningsaðstöðu Íslendinga gagnvart Dönum, svo að taka ætti henni vel. Voru þau viðbrögð Jóni lík.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. júlí 2015.)


Útvarpsviðtal um menntamál

Útvarpsviðtal var við mig á Bylgjunni síðdegis miðvikudaginn 1. júlí um menntamál, en ég tel hagnýtar greinar vanmetnar og of marga stunda nám í félagsvísindum og hugvísindum. Auka ætti þar námskröfur, en margir, sem þar séu, fyndu hæfileikum sínum betri farveg annars staðar:


Bækurnar í sumarbústaðinn

Nú eru hinir björtu, löngu dagar sumarbústaðanna. Þar slaka menn á, fara í gönguferðir, spjalla við fjölskylduna og grilla á kvöldin. Jafnframt vilja margir líta í bók, þegar þannig á stendur. Hér eru ráð um fjórar góðar bækur, sem taka mætti með í sumarbústaðinn:

ki_769_raargu_769_nova_ka_769_pa.jpgKíra Argúnova eftir Ayn Rand er skáldsaga um sjálfstæða og hugrakka rússneska konu, sem er í sambandi við tvo menn, Lev og Andrej. Hún á fárra kosta völ, þegar heitar ástríður rekast á erfiðar aðstæður. Sagan gerist í Pétursborg í upphafi þriðja áratugarins, og notast Rand við eigin reynslu: Hún fór frá Rússlandi til Bandaríkjanna 1926 og varð fyrst handritshöfundur í Hollywood, en gaf síðan út nokkrar metsölubækur, sem enn seljast eins og heitar lummur.

Uppsprettan eftir Rand er skáldsaga um bandarískan húsameistara, Howard Roark, sem lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum, hvorki auðjöfra né almúga. Hann er í sambandi við Dominique, sem er raunar líka í sambandi við blaðakóng, Wynand Gail, og fjórða aðalsöguhetjan er dálkahöfundur í blöðum Gails, Ellsworth Toohey. Fyrirmynd Roarks er alkunn, bandaríski húsameistarinn Frank Lloyd Wright, en blaðakóngurinn og dálkahöfundurinn minna á tvo kunna Íslendinga, Wynand Gail á Jón Ólafsson athafnamann og Ellsworth Toohey á Stefán Ólafsson prófessor, enda líkir veruleikinn stundum eftir listinni. 

undirstadan_kapa.jpgUndirstaðan eftir Rand er skáldsaga um Dagnýju Taggart, sem rekur stórfyrirtæki, og mennina í lífi hennar, sem eru margvíslegrar gerðar, en dularfyllstur þeirra er John Galt, sem stjórnvöld vilja ná til. Óvíða kemur greinarmunurinn á afburðamönnum og afætum skýrar fram, munurinn á skapandi einstaklingum annars vegar og þeim, sem gerast sníkjudýr á öðrum, hins vegar. Undirstaðan hefur breytt lífi margra, enda er hún um, hvernig menn geta stækkað af sjálfum sér í stað þess að smækka af öðrum.

Heimur batnandi fer er eftir dr. Matt Ridley, sem var lengi vísindaritstjóri Economist og skrifar nú reglulega í Times um vísindi. Hann er dýrafræðingur að menntun, en hefur skrifað margar bækur um erfðafræði og þróun. Í þessari bók, sem er mjög læsileg, bendir Ridley á, hversu miklar framfarir hafa orðið í heiminum síðustu áratugi: Smitsjúkdómar hafa horfið að mestu, glæpum hefur fækkað, matvælaframleiðsla hefur aukist, hægt hefur á fólksfjölgun, venjulegum neytendum stendur til boða miklu fjölbreyttari og betri vara en áður og svo framvegis.


Þrisvar boðið Ísland

henryviii_online.jpgHinrik VIII af Tudor-ætt er kunnastur fyrir að hafa kvænst sex sinnum og slitið tengsl biskupakirkjunnar við páfadóm. En hann sýslaði einnig talsvert um Ísland, á meðan hann ríkti á Englandi 1509-1547, enda leituðu margir Englendingar hingað norður. Til dæmis er þess getið árið 1528, að 149 fiskiskip sæktu Íslandsmið, en fiskiskipafloti Englendinga var þá um 440 skip. Það er í frásögur færandi, að Danakonungar buðu Hinrik VIII Ísland þrisvar, en hann hafnaði öllum boðunum.

Fyrst sendi Kristján II erindreka til Hinriks árið 1518 og bað um 100 þúsund flórína lán gegn veði í Íslandi og Færeyjum (en flórínur voru gullpeningar, kenndir við borgina Flórens, og hafði hver að geyma 3,54 g skíragulls; miðað við núverandi gullverð næmi þessi upphæð nú um 14 milljónum Bandaríkjadala). Ekki varð af viðskiptunum, en þó voru gerð drög að lánasamningi.

Kristján II var valtur í sessi og varð árið 1523 að flýja ríki sitt. Eitt síðasta verk hans áður var að senda nýjan hirðstjóra til Íslands, Týla Pétursson, sem hafði gegnt embætti hér áður, 1517-1520, og þótt óeirðasamur. Týla kom illa saman við hirðstjórann, sem fyrir var á Bessastöðum, Hannes Eggertsson, en auk þess lék sá grunur á, að Týli ynni að því að koma landinu undir Englandskonung. Var Týli dæmdur óbótamaður á Alþingi um sumarið, og lét Hannes Eggertsson höggva hann þá um haustið. Þegar Hinrik konungur spurði aftöku Týla til Lundúna, tilkynnti hann Kristjáni konungi í desember 1523, að hann hefði alls engan áhuga á því að ríkja yfir þessu landi.

Ári síðar, 1524, reyndi Kristján II aftur að fá lán hjá Hinrik VIII með veði í Íslandi og Færeyjum, en fékk engar undirtektir, enda landflótta.

Einn af eftirmönnum Kristjáns II á konungsstóli í Danmörku, Kristján III, reyndi síðan 1535 að bjóða Hinrik VIII Ísland gegn láni og stuðningi í erjum, sem hann átti þá í, svokölluðu Greifastríði, en Englandskonungur vísaði boðinu á bug. Hinrik VIII hefði viljað eignast virki við Eyrarsund, en hafði alls engan áhuga á hinni hrjóstugu eyju langt út á Atlantshafi, þótt þúsundir þegna hans veiddu þar fisk á hverju ári.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júní 2015.)


Ritdómur minn í European Political Science

Nú hefur ritdómur minn um tvær hrunbækur á ensku birst í vefútgáfu tímaritsins European Political Science og mun síðar birtast í pappírsútgáfu þess. Þær eru Bringing down the banking system eftir Guðrúnu Johnsen og Iceland and the international financial crisis: Boom, bust and recovery eftir Eirík Bergmann.

Ég varð að stytta umsögnina um bók Guðrúnar talsvert frá fyrstu drögum, því að þar var löng upptalning á fjöldanum öllum af villum, sem hafa því miður flækst inn í hana. Bók Eiríks er áreiðanlegri heimild um bankahrunið, þótt auðvitað sé sannleikskjarni í kenningu Guðrúnar um, að íslenskir bankamenn hafi farið allt of geyst. Hún sýnir fram á það í bók sinni, að íslenskir bankar virtust hafa ótakmarkað lánstraust í erlendum bönkum og að hópur íslenskra auðmanna virtist hafa ótakmarkað lánstraust í íslenskum bönkum. Afleiðingin varð ótrúleg lánsfjárbóla árin 2004–2008.

En skýra þarf, hvers vegna íslenskir bankar nutu lánstrausts. Guðrún gefur í skyn eðlilegt svar, sem má líka finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ef grannt er skoðað: Stjórn fjármála og peningamála þótti svo traust árin 1991–2004, að orðspor Íslands varð gott og með því lánstraust íslenskra fyrirtækja. 

Guðrún skýrir hins vegar í raun ekki, hvers vegna fámennur hópur auðmanna undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar virtist njóta ótakmarkaðs lánstrausts í íslensku bönkunum. Ég hygg, að ein meginskýringin sé yfirburðastaða Jóns Ásgeirs í þjóðlífinu, eftir að hann hafði unnið fjölmiðlafrumvarpsmálið með fulltingi forseta Íslands og réð yfir öllum helstu fjölmiðlum landsins, jafnframt því sem allt virtist verða að gulli, sem hann snerti í atvinnulífi og á fjármálamarkaði. Hann virtist vera í senn Hearst blaðakóngur og Soros fjármálasnillingur.

Hér eru tölur úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en þær sýna, hvernig útlán bankanna skiptust á hópana þrjá, sem rannsóknarnefnd Alþingis taldi skipta mestu máli í fjármálalífinu. Þar sést, að Baugsklíkan var í sérflokki:

baugsbo_769_la_jog_1263526.jpg

 

 

 


Áhrifamikill ræðumaður

Á ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, sem ég flutti á fyrirlestur 11. apríl 2015, var líka Daniel Hannan, Evrópuþingmaður Íhaldsflokksins og ritari AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna. Enginn efast um, að hann sé góður ræðumaður. Vald hans á enskri tungu er til fyrirmyndar, eins og hér má sjá:


Gríska kreppan: Við Gylfi og Ragnar

Hér er rætt við okkur dr. Gylfa Magnússon dósent og dr. Ragnar Árnason prófessor um grísku kreppuna og afstöðu Evrópusambandsins:


Drengskapur tveggja Breta

Tveggja viðburða í Háskóla Íslands verður lengi minnst. Hinn fyrri var málþing undir heitinu „Icesave. Ýmis álitaefni“ í hátíðasal 2. apríl 2011, nokkrum dögum fyrir síðari þjóðaratkvæðagreiðsluna um málið. En álitaefnin voru ekki fleiri en svo, að allir frummælendur voru hlynntir Icesave-samningnum: Þórólfur Matthíasson, Gylfi Magnússon, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, Gylfi Zoëga og fleiri. Þegar ég frétti af þessum fundi, bauðst ég skriflega til að hafa framsögu og reifa rökin gegn samningnum. Mér var ekki svarað.

Síðari viðburðurinn var fyrirlestur Davids Milibands um „framtíð Evrópu“ í hátíðasal 26. september 2012. Miliband var utanríkisráðherra Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga haustið 2008 og reynt að svelta þjóðina til að greiða skuld, sem hún hafði ekki stofnað til. Fyrir fyrirlesturinn hafði Miliband tilkynnt í viðtali í Morgunblaðinu, að hann vildi ekki ræða samskipti Íslendinga og Breta haustið 2008. Virtu fundargestir í hátíðasal það og spurðu aðeins meinlausra spurninga, jafnvel kunnir orðhákar eins og Mörður Árnason.

dan-hannan.jpgÞótt sumir Íslendingar hefðu kysst á vöndinn, voru til Bretar, sem töldu ódrengilegt að hafa beitt honum á fámenna og varnarlausa vinaþjóð. Daniel Hannan, rithöfundur og Evrópuþingmaður fyrir Íhaldsflokkinn, skrifaði grein í The Times 15. október 2008, þar sem hann sagði ófyrirgefanlegt að hafa beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Hann benti á, að Gordon Brown hefði réttlætt beitingu þeirra með því, að Ísland ætlaði að hlaupast undan skuldbindingum sínum. En íslenskir ráðamenn hefðu sagst ætla að standa við allar skuldbindingar sínar. Árásin á Ísland væri merki um hugleysi, ekki hugrekki.

conference1_07_10_2013.jpg

Dr. Eamonn Butler, forstjóri Adam Smith-stofnunarinnar og höfundur fjölmargra rita um stjórnmál og efnahagsmál, baðst afsökunar á framkomu Verkamannaflokksstjórnarinnar fyrir hönd breskra Íslandsvina á bloggi sínu á vefsvæði Telegraph 16. október 2008. Hann benti á, að bresk stjórnvöld hefðu að ástæðulausu lokað KSF, dótturfélagi Kaupþings í Lundúnum, því að deilan við íslensk stjórnvöld snerust aðeins um innstæður í útibúi Landsbankans í Bretlandi. Um þá Hannan og Butler á íslenska orðið „drengskapur“ best.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júní 2015. Á neðri myndinni er dr. Eamonn Butler lengst t. v. fremst, á ráðstefnu í Reykjavík 7. október 2013.)


Gunnar Smári: Óvæntur siðapostuli

Þeir Gunnar Smári Egilsson og Jakob Bjarnar Grétarsson veifa sigri hrósandi á Facebook framan í mig einhverjum erlendum blaðagreinum um, að kapítalisminn sé misheppnaður. Ég svaraði þeim þar svo:

baugsbo_769_la_jog.jpg

Ég þarf raunar ekki eitt þúsundustu fréttina gegn kapítalismanum til að sannfæra mig um eitt eða neitt, einhverja misjafnlega nákvæma endursögn á skýrslu. Ég hef reynslu síðustu tvö hundruð ára á Vesturlöndum. Ég hef samanburðinn á Ástralíu (kapítalisma) og Argentínu (populisma), á Singapúr (kapítalisma) og Jamaíku (populisma), á Vestur-Þýskalandi (kapítalisma) og Austur-Þýskalandi (sósíalisma), á Suður-Kóreu (kapítalisma) og Norður-Kóreu (sósíalisma). Og ég hef reynsluna á Íslandi frá 1991 til 2004, þegar ég hafði ef til vill einhver áhrif. Þá bötnuðu lífskjör stórkostlega og frelsi jókst. Þetta var fyrir lánabóluna. Þetta var ekki velmegun tekin að láni.

Árið 2004 var Ísland eitthvert besta land í heimi til að búa í samkvæmt öllum alþjóðlegum samanburðartölum. Síðan náðu auðjöfrarnir völdum þetta ár og stjórnuðu landinu til 2008. Þá tók klíkukapítalisminn við af markaðskapítalismanum. Þá hófst lánabólan, sem síðan sprakk með ósköpum. Einn af helstu pennum auðjöfraklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var einmitt Gunnar Smári Egilsson, sem nú hefur óvænt tekið að sér hlutverk vandlætara og siðapostula yfir kapítalismanum. Við skulum bera saman afkomuna á Íslandi 1991–2004, sem ég legg undir, og afkomu Nyhedsavisen í Danmörku, sem hann getur lagt undir. Tapið á því blaði á aðeins tveimur árum nam um 450 milljónum danskra króna eða um níu milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Þetta var meira en tíu milljónir ísl. kr. á dag!

Við Davíð, Björn og Kjartan héldum upp á myndun ríkisstjórnar Davíðs 30. apríl 1991 á Hótel Holti. Þeir Gunnar Smári og Jón Ásgeir Jóhannesson héldu upp á prentun fyrstu eintakanna af Nyhedsavisen á Café Victor í Kaupmannahöfn 5. október 2006 (og þá var drukkið svo ákaft (ekki þó Gunnar Smári), að hópurinn varð of seinn og missti af því, þegar prentvélarnar voru ræstar). Við Davíð og félagar getum litið stoltir um öxl á árin 1991–2004, áður en klíkukapítalisminn tók völdin á Íslandi. Geta Gunnar Smári og Jón Ásgeir horft stoltir um öxl á árin 2004–2008?


Enn er ég kominn á Youtube

Hér er á Youtube fyrirlestur sá, sem ég flutti í Berlín 11. apríl 2015 á fundi Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta um kynni mín af þremur helstu hugsuðum tuttugustu aldar, þeim Hayek, Popper og Friedman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband