Hæg voru heimatök

Samkvæmt því sem Platón segir, bað einn viðmælandi Sókratesar eitt sinn menn að hugsa sér, hvað þeir myndu gera, bæru þeir hring, sem gerði þá ósýnilega. Taldi hann flesta þá myndu brjóta af sér. Bankahrunið íslenska var um sumt líkt hringnum ósýnilega. Í uppnáminu þá gátu menn gert ýmislegt, sem fáir tóku eftir og hefði líklega ekki verið verið látið óátalið undir öðrum kringumstæðum.

Ég hef opinberlega nefnt nokkur dæmi: Starfsmenn Glitnir Securities í Noregi keyptu fyrirtækið á 50 milljónir norskra króna, þótt bókfært eigið fé þess væri 200 milljónir. Viku síðar seldu þeir helminginn í fyrirtækinu á 50 milljónir. Kaupandinn var verðbréfafyrirtæki með bækistöð á annarri hæð í sama húsi og Glitnir Securities. Hæg voru heimatök. Í Finnlandi keyptu starfsmenn Glitnir banka, sem var finnskt dótturfélag íslenska bankans, á €3.000, þótt eigið fé þess væri bókfært €108 milljónir. Fimm árum síðar seldu kaupendurnir bankann á €200 milljónir. Minna má líka á sölu Glitnir Bank í Noregi og FIH Bank í Danmörku.

Ég rakst í rannsóknum mínum á enn eitt dæmið, sem farið hefur hljótt. Árið 2006 hafði íslenski Glitnir keypt sænska verðbréfafyrirtækið Fischer Securities fyrir 425 milljónir sænskra króna og breytt nafni þess í Glitnir Sverige. Anders Holmgren var ráðinn forstjóri. Þegar Glitnir hrundi, var fyrirtækið auglýst til sölu. Eigið fé þess var þá 190 milljónir króna. Ekki virtist vera völ á sams konar aðstoð frá sænska ríkinu og Carnegie banki fékk skömmu síðar. Samið var um, að HQ banki keypti fyrirtækið á 60 milljónir. Sá banki hét eftir upphafsstöfum stofnenda hans og aðaleigenda, Sven Hagströmer og Mats Qviberg. Forstjóri HQ banka leyndi því ekki í viðtölum við sænsk blöð, að hann væri ánægður með kaupin. Bókfærður hagnaður HQ banka af kaupunum var í árslok 2008 84 milljónir króna. Ekki er síður athyglisvert, að þeir Anders Holmberg, forstjóri Glitnir Sverige, og Qviberg eru mágar, Qviberg kvæntur systur Holmbergs. Hæg voru heimatök.

Ef til vill datt einhverjum í hug annað íslenskt spakmæli, Illur fengur illa forgengur, þegar sænska fjármálaeftirlitið lokaði HQ banka árið 2010 vegna alls kyns fjárglæfra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2017.)


Skipan Landsréttar

Hvorir eiga að hafa úrslitavaldið, sérfræðingarnir eða kjörnir fulltrúar fólksins? Platón hefði sagt: sérfræðingarnir. Frjálslyndir menn segja: kjörnir fulltrúar fólksins þrátt fyrir alla galla lýðræðisins. Þessi ólíku svör endurspeglast í deilunum um skipan Landsréttar. Platóningar vilja ekki, að ráðherra og þing hafi neina aðkomu að vali dómara. Dómarastéttin eigi að velja inn í sig sjálfa. Frjálslyndir lýðræðissinnar vilja hins vegar taka tillit til mats sérfræðinga, en hafa eitthvert svigrúm til að velja eftir eigin dómgreind og sannfæringu. Þeir eru jafnefagjarnir um óskeikulleika einnar nefndar og um óskeikulleika páfans — eða danska kóngsins, sem sagði: „Vi alene vide.“ Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur farið skynsamlega og röggsamlega að.


Frjálshyggja á Íslandi á 19. og 20. öld

Ég birti fyrir skömmu ritgerð í bandarísku tímariti, sögulegt yfirlit um frjálshyggju á Íslandi á 19. og 20. öld. Þar ræði ég um Jón Sigurðsson, Arnljót Ólafsson, Jón Þorláksson, Benjamín Eiríksson, Ólaf Björnsson og Ragnar Árnason, en einnig um Þráin Eggertsson, Birgi Þór Runólfsson, Ásgeir Jónsson, Vilhjálm Egilsson og Tryggva Þór Herbertsson og fleiri og minnist líka á heimsóknir Hayeks, Friedmans og Buchanans til landsins. Einnig var tekið við mig hljóðvarpsviðtal, podcast, af sama tilefni.


Merkilegt skjal úr breska fjármálaeftirlitinu

icesave.jpgTil eru á Netinu fróðleg skjöl um bankahrunið. Eitt þeirra er tilskipun (Supervisory Notice) frá breska fjármálaeftirlitinu, FSA, sem lögð var fyrir útibú Landsbankans í Lundúnum 3. október 2008. Hún var þá trúnaðarmál. Í hana var þó vitnað í skýrslu bankastjóra Landsbankans um bankahrunið frá febrúar 2009, auk þess sem hún var meðal gagna, sem alþingismenn fengu í hendur frá breskri lögmannsstofu í desember 2009.
 
Samkvæmt tilskipuninni átti Landsbankaútibúið í Lundúnum þegar að setja 10% af óbundnum innstæðum á Icesave-reikningum í Bretlandi inn á bundinn reikning í Englandsbanka og meira síðar. Þetta fól í sér, eins og komið hefur fram, að Landsbankinn á Íslandi átti strax að færa 200 milljónir punda til Bretlands. En öðru hefur ekki verið veitt athygli: Jafnframt var lagt blátt bann við því að færa eitthvað af lausafé bankaútibúsins eða öðrum eignum þess í Bretlandi úr landi nema með þriggja daga fyrirvara og skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins. Þótt tilskipunin væri trúnaðarmál, var Barclays-banka skýrt frá henni, en hann sá um allar færslur á Icesave-reikningunum.
 
Þetta seinna atriði er stórmerkilegt. Það sýnir, svo að ekki verður um villst, að óþarfi var að beita hryðjuverkalögunum alræmdu gegn Íslandi, eins og gert var fimm dögum síðar, 8. október. Þeir Alistair Darling fjármálaráðherra og Gordon Brown forsætisráðherra réttlættu beitingu laganna með því að koma yrði í veg fyrir ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. En með tilskipuninni höfðu þeir þegar í höndum tæki, sem til þess dugði.
 
Þegar breskir embættismenn birtust síðan í útibúi Landsbankans í Lundúnum, varð þeim strax ljóst, að ekkert óeðlilegt átti sér þar stað. Því var ákveðið 12. október, að Englandsbanki veitti útibúinu 100 milljón punda lán til að bæta lausafjárstöðuna, á meðan það væri gert upp. Skömmu eftir að breska fjármálaráðuneytið setti íslenskt fyrirtæki á lista um hryðjuverkasamtök, veitti Englandsbanki því þannig stórlán!

(Fróðeiksmoli í Morgunblaðinu 11. júní 2016.)


Merkilegt skjal úr Englandsbanka

Á netinu eru birt ýmis fróðleg skjöl um bankahrunið. Eitt er fundargerð bankaráðs Englandsbanka 15. október 2008, réttri viku eftir að stjórn breska Verkamannaflokksins lokaði tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, um leið og hún kynnti 500 milljarða aðstoð við alla aðra breska banka, jafnframt því sem stjórnin beitti hryðjuverkalögum á Landsbankann (og um skeið á Seðlabankann, Fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið).

Bankaráðið kemst að þeirri niðurstöðu að hin alþjóðlega fjármálakreppa hafi ekki aðeins verið vegna lausafjárþurrðar, heldur líka ónógs eigin fjár fjármálafyrirtækja. Þess vegna hafi hið opinbera víða orðið að leggja slíkum fyrirtækjum til hlutafé. Þetta gerðist á Íslandi í septemberlok 2008, þegar ríkið keypti 75% í Glitni. Bankaráðið bendir líka á að aðallega skorti lausafé í Bandaríkjadölum. Englandsbanki fékk í gjaldeyrisskiptasamningum nánast ótakmarkaðan aðgang að dölum. Veitti hann síðan fjármálafyrirtækjum lán gegn veðum, og var losað um reglur um slík veð, til dæmis tekið við margvíslegum verðbréfum. Hér gekk Englandsbanki enn lengra en Seðlabankinn, sem var þó eftir bankahrunið óspart gagnrýndur fyrir lán til viðskiptabanka.

Fundargerðin er ekki aðeins merkileg fyrir það að Englandsbanki var að gera nákvæmlega hið sama og Seðlabankinn íslenski. Í fundargerðinni víkur sögunni að aflöndum og fjármálamiðstöðvum, og segir þar: „Fækka þarf þeim smáríkjum sem kynna sig sem fjármálamiðstöðvar. Ísland var mjög skýrt dæmi. Vakin var athygli á því að Seðlabankinn íslenski hafði snemma árs sent menn til Englandsbanka. Þeim hafði verið sagt að þeir ættu hið snarasta að selja banka sína. Efnahagsreikningur Íslands væri of stór.“

Bretarnir töluðu að vísu eins og það hefði verið á valdi Seðlabankans að minnka bankakerfið, sérstaklega á tímabili þegar eignir seldust langt undir markaðsverði. En sú er kaldhæðni örlaganna að bankakerfið á Íslandi var svipað að stærð hlutfallslega og bankakerfin í Skotlandi og Sviss. Þeim var bjargað í fjármálakreppunni með því að leggja þeim til pund og dali. Ella hefðu þau hrunið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. maí 2016.)


Dósentsmálið 1937

Séra Sigurður EinarssonDósentsmálið 1937 snerist um það, að Haraldur Guðmundsson ráðherra veitti flokksbróður sínum, séra Sigurði Einarssyni, dósentsembætti í guðfræði, en ekki séra Birni Magnússyni, sem nefnd á vegum guðfræðideildar hafði mælt með, eftir að umsækjendur höfðu gengist undir samkeppnispróf. Fróðlegt er að bera saman kafla um þetta mál í tveimur ritum um Háskóla Íslands. Í Sögu Háskóla Íslands eftir Guðna Jónsson frá 1961 sagði frá dósentsmálinu frá sjónarhorni háskólayfirvalda. Þar eð Björn hefði fengið meðmæli dómnefndar, „hefði mátt ætla, að mál þetta væri klappað og klárt“. En ráðherra hefði skipað Sigurð með tilvísun í álitsgerð frá prófessor Anders Nygren í Lundi, sem hann hefði útvegað sér. Hefði embættisveitingin vakið „í flestum stöðum undrun og gremju“.

Í Aldarsögu Háskóla Íslands frá 2011 benti Guðmundur Hálfdanarson hins vegar á, að Anders Nygren var einn virtasti guðfræðingur Norðurlanda, en einnig kunnur baráttumaður gegn fasisma. Eftir að Guðmundur rannsakaði skjöl málsins, taldi hann ekkert benda til, að Nygren hefði vitað, hverjir umsækjendurnir voru, en hann fékk allar ritgerðir þeirra sendar, eða að íslenskir ráðamenn hefðu verið kunnugir honum. Niðurstaða Nygrens var afdráttarlaus. „Ef hæfileikinn til sjálfstæðrar vísindalegrar hugsunar væri lagður til grundvallar stöðuveitingunni, en það sjónarmið taldi Nygren sjálfgefið að hafa að leiðarljósi við ráðningar háskólakennara, þá þótti honum aðeins einn kandídatanna koma til greina, og það reyndist vera Sigurður Einarsson.“

Ég hafði eins og fleiri talið, að málið lægi ljóst fyrir. Haraldur hefði verið að ívilna flokksbróður, þótt Sigurður væri vissulega rómaður gáfumaður og mælskugarpur. En eftir að hafa lesið ritgerð Guðmundar Hálfdanarsonar finnst mér málið flóknara. Var Haraldur ef til vill líka að leiðrétta ranglæti, sem séra Sigurður hafði verið beittur? Klíkuskapur þrífst ekki aðeins í stjórnmálaflokkum, heldur líka á vinnustöðum. Og hverjir eiga að hafa veitingarvaldið: Fulltrúar þeirra, sem greiða launin, eða hinna, sem þiggja þau?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. maí 2016.)


Nordau á Íslandi

portrait_of_max_nordau.jpgEinn furðulegasti kaflinn í hugmyndasögu áranna kringum aldamótin 1900 er um hina svokölluðu mannkynbóta- eða arfbótakenningu (eugenics), en samkvæmt einni útgáfu hennar varð að koma í veg fyrir, að vanhæfir einstaklingar fjölguðu sér. Einn mannkynbótafræðingurinn var ítalski læknirinn Cesare Lombroso, sem taldi glæpsemi arfgenga og reyndi að finna vísbendingar um, hvernig hún erfðist. Lærisveinn hans, ungverski læknirinn Max Nordau, sem var gyðingur eins og Lombroso (og hét upphaflega Simon Maximilian Südfeld), gaf 1892 út bókina Entartung (Kynspillingu). Þar las hann nokkrum kunnustu rithöfundum norðurálfunnar pistilinn, þar á meðal Henrik Ibsen, Oscar Wilde og Lev Tolstoj. Taldi hann þá úrkynjaða og verk þeirra sjúkleg. Var þessi bók umtöluð um skeið, þótt nú sé hún fallin í gleymsku.

Fram á miðjan aldur trúði Nordau því, að gyðingar gætu samlagast sambýlingum sínum, en eftir málarekstur gegn Alfred Dreyfus í Frakklandi 1894 og æsingar gegn gyðingum skipti hann um skoðun, gerðist einn helsti forystumaður síonista og gekk næstur Theodor Herzl. Kvað hann gyðinga verða að hætta við samlögun og stofna eigið ríki. Hann hugsaði sér það fyrst í Úganda, en síðan í Ísrael. Mælti hann fyrir „vöðvastæltum gyðingdómi“. Nordau fæddist í Pest (austurhluta Búdapest) 1849 og lést í París 1923.

Ungur sótti Nordau þjóðhátíðina á Íslandi 1874 og skrifaði um hana nokkrar greinar í ungversk og austurrísk blöð, og voru þær endurprentaðar í bókinni Vom Kreml zur Alhambra (Frá Kremlkasta til Alhambrahallar) 1880. Nordau var lítt hrifinn af Íslandi, kvað skárra að vera hundur í Pest en ferðamaður á Íslandi. Reykvíkingar væru seinlátir og ógreiðviknir. „Við höfum nú fullkomlega kynnst hinni víðfrægu gestrisni Íslendinga, og ég vil ráða hverjum manni, sem ætlar að ferðast eitthvað á Íslandi, til þess að hafa með sér tjöld, rúmföt og matvæli til þess að geta verið sem óháðastur góðvild Reykjavíkurbúa.“

Nordau taldi almenna deyfð einkenna þjóðina: „Það er einkennilegt fyrir andlega og efnalega vesalmennsku, hjálparleysi og svefn Íslendinga, að fiskveiðar Frakka við strendurnar eru þeim þyrnir í augum og mikið reiðiefni, en þeim dettur aldrei í hug að reyna að keppa við þá. Frakkar raka saman milljónum við Ísland, en landsbúar eru örsnauðir og rétta ekki út hendurnar eftir hinum ótæmandi auð sjávarins. Eftirkomendur hinna djörfustu og þolnustu sjófarenda allra tíma eru engir sjómenn. Þeir kunna hvorki að smíða báta, stýra né sigla.“ En lastið var á báða bóga. Matthías Jochumsson hitti Nordau og taldi hann hrokafullan og hégómagjarnan. Höfðu eflaust báðir eitthvað til síns máls.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. maí 2016.)


Guðmundur Andri: Ekkert skjól í sögunni

Guðmundur Andri Thorsson skrifar greinina „Í aflöndum er ekkert skjól“ í Fréttablaðið í dag. Heitið er sótt með tilbrigðum í kvæði Laxness, eins og allir vita. En Guðmundi láðist að geta þess, að Laxness geymdi sjálfur fé erlendis ólöglega og var raunar dæmdur fyrir. Guðmundur gat þess ekki heldur, að Thorsættin (sem hann er sprottinn af) geymdi líka slíkt fé erlendis, eins og Guðmundur Magnússon upplýsti í bók um ættina. Því síður gat Guðmundur þess nema í mýflugumynd, að hjónin, sem greiða honum fyrir skrifin í Fréttablaðið, Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson, geyma slíkt fé erlendis og það stórfé. Í sögunni er ekkert skjól.


Af hverju afhendir Jóhannes ekki skjölin?

Wikileaks-menn virðast vera hugsjónamenn. Þeir settu þau gögn, sem þeir höfðu komist (áreiðanlega ólöglega) yfir endurgjaldslaust á Netið.

Öðru máli virðist gegna um rannsóknarblaðamanninn Jóhannes Kr. Kristjánsson. Hann fær í hendur gögn (sem áreiðanlega voru illa fengin) um aflandseignir Íslendinga. Hann afhendir ekki yfirvöldum þessi gögn eða stuðlar að birtingu þeirra á Netinu, heldur notar þau í samstarfi við sænska fréttahauka til að egna gildru fyrir forsætisráðherra Íslands. Síðan gerist hann verktaki hjá RÚV við að sýna það, hvernig forsætisráðherrann gekk í gildruna. Hann gerir þessi stolnu gögn með öðrum orðum að féþúfu.

Nú hefur ríkisskattstjóri krafist þessara gagna, eins og lög mæla fyrir um, að hann geti gert. Það hlýtur líka að vera krafa almennings, úr því sem komið er, að þessi gögn séu birt, en óprúttnir menn geti ekki valið úr þeim það, sem þeim hentar, og selt að vild.

Jóhannes, birtu skjölin tafarlaust!


Viljum við þetta fólk til valda?

Nú er góðæri, ör hagvöxtur, sjávarútvegur arðbær, orkulindir að skila tekjum, mannauður að nýtast í ótal smáfyrirtækjum hugvitsamra einstaklinga, ferðamenn að flykkjast til landsins. Og viljum við þá fá þetta fólk til að leggja það í rústir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband