19.11.2011 | 13:01
Góðir dómar
Ég hlýt að vera ánægður með þá dóma, sem birst hafa um bók mína, Íslenska kommúnista 19181998.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, sem gjörþekkir stjórnmálasögu síðustu hálfu aldar, birti umsögn í Morgunblaðinu 13. nóvember 2011, þar sem hann sagði meginniðurstöðu verksins, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu verið erindrekar erlends valds. Það væri staðfest á óyggjandi hátt í bók minni og í hinu mikla verki dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, sem kom út fyrir ári. Styrmir nefndi að vísu, að hann hefði þekkt konu, sem bregður fyrir í bókinni í fremur ógeðfelldu hlutverki, Ragnheiði Möller. Sú söguhetja væri ekki konan, sem hann þekkti. Að lokum sagði Styrmir:
Mér finnst Hannes Hólmsteinn hafa unnið mikið afrek með þessari bók. Það liggur við að það sé veikleiki á bókinni hvað hann gerir lítið af því að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem hann hefur safnað saman, og mundi kannski einhver telja það ólíkt höfundinum, sem er betur þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Myndirnar í bókinni eru stórmerkilegar og frágangur mjög góður.
Það er rétt hjá Styrmi, að ég lagði aðaláherslu á frásögnina sjálfa, ekki á dóma, því að ég lét þá lesendum eftir. Ég dró fram í dagsljósið staðreyndir og reyndi að skipa þeim í rökrænt samhengi í hraðri frásögn.
Eiríkur Jónsson blaðamaður bloggaði um bókina frá öðru sjónarhorni, eins og honum einum er lagið, og sagði meðal annars:
Í raun er þetta frábær bók og þá sérstaklega vegna myndanna sem prýða hverja síðu með myndatextum eins og í dönskum vikublöðum. Svo er gaman að grípa ofan í textann og mannlýsingar Hannesar Hólmsteins sem lýsir ekki bara geðslagi og hugmyndum persónanna heldur líka göngulagi og jafnvel kækjum. Hannes Hólmsteinn skrifar svo lipran texta að engu er líkara en maður sé að lesa danskt vikublað.
Einhverjum kann að þykja hrósið blendið, þegar mér er líkt við danskan vikublaðshöfund, en ég reyndi vissulega að skrifa fyrir almenning, ekki aðeins fræðimenn, og ef Eiríkur hefur rétt fyrir sér, þá hefur það tekist.
Jón Sigurðsson, sagnfræðingur og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, birti umsögn í Fréttablaðinu 18. nóvember 2011, en Jón er öllum hnútum kunnugur í sósíalistahreyfingunni frá þeim tíma, er hann starfaði þar af slíku kappi, að hann var kallaður Jón bolsi. Jón sagði, að bók mín væri læsileg frásögn, prýdd fjölda mynda og krydduð skemmtilegum arfsögnum. Kaflar eru stuttir og efnið streymir létt fram. Þetta er myndarleg bók og vel gerð. Hann bætti við: En í þessari sagnasýningu er lesanda haldið við efnið um leið: við hræðilega alvöru mannkynssögunnar á 20. öld og blóði drifinn hryllingsferil kommúnismans. Hann sagði einnig: Frásögnin er hröð og efnismagn feiknarlegt. Höfundur á létt með að hrífa lesandann með sér.
Jón sagði hins vegar hið sama og Styrmir, að hann hefði sjálfur þekkt aðra og betri hlið á sumum þeim kommúnistum, sem komu við sögu í bók minni. Meðal þeirra mörgu, sem Jón nefndi, var Sigfús Daðason skáld. Margt var áreiðanlega gott um Sigfús, en það breytir engu um það, að hann var einn þeirra, sem tóku þátt í því að reyna að gera lítið úr Borís Pasternak og þagga niður í Arnóri Hannibalssyni, eins og ég rek í bók minni. Það voru einmitt margar hliðar á þessum mönnum, sumar góðar og aðrar miður góðar.
Jón sagði einnig, að hlýðnikenningin hefði ekki verið staðfest í bók minni. Ég setti þar raunar ekki fram neina hlýðnikenningu, heldur lét lesandann sjálfan um að dæma um það, hversu miklu máli náin tengsl íslenskra kommúnista og sósíalista við austantjaldsríkin skiptu. Ég vildi frekar segja sögu, dramatíska, sorglega, persónulega, átakanlega sögu, en predika. Hitt er annað mál, að niðurstaða mín er, að íslenskir kommúnistar hafi hvorki verið betri né verri, meiri né minni, kommúnistar en annars staðar.
18.11.2011 | 08:13
Matthías Á. Mathiesen. Minningarorð
Matthías Á. Mathiesen var vanmetinn stjórnmálamaður. Hann var ræðumaður í meðallagi og ekki alltaf skörulegur. En hann var einn lagnasti stjórnmálamaður, sem ég hef kynnst. Hann kunni leikreglur íslenskra stjórnmála út í hörgul. Hann var prýðilega gefinn, en átti líka auðvelt með að laða til liðs við sig menn, sem voru betur að sér í ýmsum efnum og bættu hann þannig upp. Hann var vingjarnlegur við alla, lága sem háa, og stutt í brosið. Hann var líka varfærinn og slyngur. Þetta olli því, að hann reyndist farsæll stjórnmálamaður ekki síður en vinsæll og hlaut meiri frama en margir höfðu séð fyrir, varð foringi sjálfstæðismanna í stóru kjördæmi og lengi ráðherra.
Matthías varð þjóðkunnur, þegar hann felldi sjálfan forsætisráðherrann, Emil Jónsson, í Hafnarfirði í vorkosningunum 1959. Á meðan Emil flutti ræður niður til Hafnfirðinga, sat Matthías glaðhlakkalegur með kjósendum yfir kaffibolla á vinnustöðum og jafnvel niðri á bryggjusporðum. Engum líkaði illa við þennan elskulega nýútskrifaða lögfræðing, aðeins tuttugu og átta ára. Ekki spillti fyrir, að kona hans, Sigrún Þorgilsdóttir, var áhugasamur stuðningsmaður, rösk og drjúg í kosningabaráttu. Matthías varð fljótt áhrifamikill á þingi. Þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerðist sendiherra í Kaupmannahöfn 1965 í því skyni að undirbúa forsetaframboð, vildi Bjarni Benediktsson gera Geir Hallgrímsson að varaformanni. Þá fóru nokkrir þingmenn með Matthías í broddi fylkingar til Bjarna og sögðu nei. Þeir vildu, að varaformaðurinn kæmi úr þingflokknum og nefndu Jóhann Hafstein. Þótt Bjarni hefði frekar augastað á Geir sem eftirmanni, lét hann undan. Bjarni var parlamentíker, sagði Matthías við mig.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksis 1965 var kosið á milli Styrmis Gunnarssonar og Matthíasar í miðstjórn flokksins, en eftir kosninguna bauð Matthías Styrmi heim til sín um kvöldið, þeir fengu sér smávegis í staupin og urðu góðir vinir. Gerðist Matthías einn af helstu stuðningsmönnum Geirs Hallgrímssonar, en var samt enginn andstæðingur Gunnars Thoroddsens, sem hann kunni vel að meta fyrir gáfur og mælsku. Þegar Geir myndaði ríkisstjórn 1974, þótti Matthías sjálfkjörinn ráðherra. Gegndi hann stöðu fjármálaráðherra af prýði frekar en með tilþrifum næstu fjögur ár. Ég sat á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1978 og fékk að fara með Matthíasi í bíl um kjördæmið. Sá ég þar, hversu góðu sambandi hann var í við almenna flokksmenn. Hann mundi öll nöfn og fylgdist vel með lífi fylgismanna sinna og starfi. Hélt hann vel utan um fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, þar sem hann var nú oddviti.
Matthías varð aftur ráðherra 1983 og fór fyrst með viðskiptamál, þar sem hann steig merkileg skref í frjálsræðisátt, en var síðan utanríkisráðherra og loks samgönguráðherra. Hann sat á þingi til 1991. Matthías hafði konu- og barnalán mikið, en átti síðustu árin við vanheilsu að stríða. Missir okkar er mikill. Íslandi veitir ekki af heiðursmönnum eins og Matthíasi Á. Mathiesen.
(Minningarorð í Morgunblaðinu 17. nóvember 2011.)
17.11.2011 | 06:48
Tók hann við fjárstyrkjum frá KGB?
Einn af þeim, sem aðstoðuðu mig við bókina Íslenskir kommúnistar 19181998, var Ole Sohn, þá þingmaður Sósíalíska þjóðarflokksins danska, nú atvinnumálaráðherra Dana í nýrri vinstri stjórn. Sohn var á sínum tíma formaður danska kommúnistaflokksins og rannsakaði í rússneskum skjalasöfnum örlög landa síns, Arnes Munch-Petersens, sem talsvert er rætt um í bók minni, og skrifaði raunar um þau heila bók. Var Sohn svo vinsamlegur að útvega mér ljósmynd af Arne Munch-Petersen úr skjalasafni leynilögreglu ráðstjórnarinnar, sem þá hét NKVD og síðar KGB. Var hún af því, þegar Munch-Petersen var handtekinn, og birtist í bók minni.
Munch-Petersen sat um skeið á þingi fyrir danska kommúnista. Hann var samstarfsmaður íslenskra kommúnista og kemur margoft fyrir í skjölum þeirra, túlkur Einars Olgeirssonar í Moskvu 1928 og yfirumsjónarmaður danskra og íslenskra kommúnista á fjórða áratug. Það var til dæmis Munch-Petersen, sem tilkynnti íslenskum kommúnistum í Kaupmannahöfn 1934, að nú mættu þeir ekki lengur tala við Stefán Pjetursson, sem hefði verið rekinn úr kommúnistaflokknum. Munch-Petersen var handtekinn í hreinsunum Stalíns, þótt hann væri eindreginn stalínisti, og pyndaður í rússneskum fangelsum, uns hann lést þar úr veikindum og vosbúð 1940.
Þótt góður kunningi íslenskra kommúnista hyrfi skyndilega í Moskvu, spurðu þeir aldrei neinna spurninga um hann. Leiðtogi danskra kommúnista, Aksel Larsen, fékk strax að vita, hvað orðið hefði um Munch-Petersen, en sagði aldrei frá því, ekki einu sinni ekkju Munch-Petersens.
Nú er því haldið fram í Danmörku, að Ole Sohn hafi sem formaður kommúnistaflokksins danska tekið reglulega við fjárstyrkjum frá KGB allt fram til hruns Ráðstjórnarríkjanna 1991. Sohn ber af sér að hafa tekið sjálfur við slíkum styrkjum, en viðurkennir, að hann hafi vitað eitthvað um þá. Níkolaj Sjatskíkh, sem var yfirmaður KGB í Kaupmannahöfn 19841992, fullyrðir hins vegar, að Sohn hafi tekið við fénu eða einhver í umboði hans.
Samskipti okkar Sohns voru hin vinsamlegustu, og óskaði hann mér velfernaðar í bókaskrifum mínum. Mér fannst á bók Sohns um Munch-Petersen, að hann vildi gera yfirbót fyrir baráttu sína í þágu kommúnismans, hvort sem sú tilfinning mín er rétt eða röng.
16.11.2011 | 09:42
Viðtal við mig í Kastljósi
Ég var í Kastljósi Sjónvarpsins miðvikudaginn 9. nóvember 2011 vegna hinnar nýju bókar minnar, Íslenskir kommúnistar 19181998. Upptöku af þættinum má sjá hér. Þar rifjaði ég upp, að bók mín hófst á Grænatorgi í nóvember 1918, þegar þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson lentu í götuóeirðum og urðu kommúnistar, og henni lauk í Havana á Kúbu í nóvember 1998, þegar Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir fóru þangað í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.
Í bókinni kemur fram, að hin íslenska hreyfing, sem oft hafði hamskipti, hét fyrst kommúnistaflokkur, síðan Sósíalistaflokkur og loks Alþýðubandalag, hafði miklu sterkari og nánari tengsl við hina alþjóðlegu hreyfingu en talið hefur verið fram að þessu. Styð ég þessa niðurstöðu rannsóknum í skjalasöfnum og bókasöfnum víða um heim, en í bókinni naut ég góðs af gögnum, sem Arnór Hannibalsson hafði safnað í rússneskum söfnum, og einnig af traustum frumrannsóknum sagnfræðinganna Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar, sem báðir veittu mér aðgang að fjölda merkilegra heimilda.
Leitaðist ég við að vinna úr öllu þessu efni lipran og hnökralausan texta og finna myndir, sem skýrðu það og dýpkuðu í vitund lesandans, en um 500 myndir eru í bókinni.
Margir gamlir fylgismenn þessarar hreyfingar tóku mér ljúfmannlega og greiddu úr spurningum, svo að ofsagt er á visir.is að kommúnistar hafi hunsað mig, þótt vissulega hafi sumir ekki kært sig um að svara mér um ýmis atriði, til dæmis Svavar Gestsson. Líklega kalla fáir sig raunar enn kommúnista.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook
15.11.2011 | 06:40
Viðtal við mig í DV
Föstudaginn 11. nóvember 2011 birtist við mig viðtal í föstum dálki, Innlit, í DV. Þar var rætt við mig um lífið og tilveruna og litið inn á heimili mitt. Ég sagði blaðakonunni, Svövu Jónsdóttur, sem satt var, að síðustu mánuði hefði líf mitt snúist um að ljúka því verki, sem nú er komið út, Íslenskum kommúnistum 19181998. Í þeirri bók, sem dreift hefur verið í búðir, sýndi ég fram á það með ótal heimildum, að kommúnistunum íslensku var alvara með því, sem þeir sögðu. Þeir voru kommúnistar og vildu gera byltingu. Þess vegna voru þeir ekki í sama flokki og íslenskir jafnaðarmenn. Tengsl þeirra við einræðisstjórnir kommúnista náðu miklu lengra og víðar en vitað hefur verið fram að þessu: Þeir tóku við fyrsta fjárstyrkinum frá Moskvu 1919 og fóru í síðustu boðsferðina til kommúnistaríkisins Kúbu 1998.
Kommúnisminn var mannskæðasta stjórnmálahreyfing sögunnar og mun hafa kostað hátt í hundrað milljónir mannslífa. Þessi alþjóðlega hreyfing átti sér öflugt útibú á Ísland, þar sem var fyrst kommúnistaflokkurinn, síðan Sósíalistaflokkurinn og loks Alþýðubandalagið, þótt ekki sé unnt að kalla það hreinræktaðan kommúnistaflokk. En gamli kjarninn í Alþýðubandalaginu, sem kom úr kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, var samt alla tíð ófáanlegur til að gera upp við sovétkommúnismann þrátt fyrir ótal tillögur um það, meðal annars frá þeim Össuri Skarphéðinssyni og Hrafni Jökulssyni, á meðan þeir störfuðu í Alþýðubandalaginu.
12.11.2011 | 11:57
Eiríkur Guðnason: Minningarorð
Í þau átta ár, sem ég var í bankaráði Seðlabanka Íslands, kynntist ég Eiríki Guðnasyni vel. Hann var hógvær maður og dagfarsprúður, glöggur á tölur og þekkti starfsemi seðlabanka út í hörgul, enda starfaði hann í bankanum í fjörutíu ár, frá 1969 til 2009. Ég sat heima hjá honum drykklanga stund þriðjudaginn 25. október 2011, og rifjuðum við upp umsátrið um Seðlabankann strax eftir hrun, en þá héldu bankastjórarnir stundum fundi til að stappa stálinu í starfsfólkið: Davíð Oddsson sagði þá skemmtisögur, Eiríkur greip gítar og söng, og þriðji bankastjórinn, Ingimundur Friðriksson, lék á flygil. Eiríkur fór líka yfir það með mér, hversu fráleitur margvíslegur áróður gegn Seðlabankanum var eftir hrun. Því mætti til dæmis ekki gleyma, að kröfur bankans á viðskiptabankana voru með neyðarlögunum haustið 2008 settar aftur fyrir kröfur innstæðueigenda í því skyni að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Síðan átti Seðlabankinn ekki annan kost en treysta upplýsingum Fjármálaeftirlitsins og viðskiptabankanna sjálfra um eignir þeirra. Hann hlaut að líta svo að þeir ættu við lausafjárskort að etja, ekki eiginfjárvanda. Raunar hefur komið á daginn, að seðlabankar annarra landa lánuðu viðskiptabönkum þar ytra síst gegn traustari eignum í uppnáminu þetta haust. Hefði Seðlabankinn sett strangari skilyrði um skuldabréf íslensku bankanna, meðal annars ástarbréfin svokölluðu, en Seðlabanki Evrópu, hefðu þeir fallið fyrr.
Við Eiríkur ræddum nokkuð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en fulltrúar hans gripu fegins hendi tækifærið eftir hrun til að skjótast til Íslands, enda hafði þetta fólk vantað verkefni árum saman. Hegðaði það sér hér eins og nýlenduherrar. Einn þeirra skundaði til dæmis í Seðlabankann, setti fund með bankastjórunum og þuldi upp fundarefni, og varð þá formaður bankastjórnarinnar að berja í borðið og segja að hér væri sjóðurinn ekki húsráðandi. Sérstaklega var Eiríki þó minnisstætt, þegar fulltrúar sjóðsins kölluðu á hann til að fá skýringar á því, að vextir voru um skeið lækkaðir nokkuð til að reyna að fá hjól atvinnulífsins til að hreyfast. Yfirheyrðu þeir hann nánast á sama hátt og lögreglumenn fanga, sem grunaður er um stórglæp. Eiríkur lýsti einnig síðustu dögunum í Seðlabankanum þegar norskur maður beið í leyni á gistihúsi í Reykjavík eftir því að taka við störfum seðlabankastjóranna þriggja, sem hraktir voru burt með sérstökum lögum. Voru þeir Ingimundur þá látnir gjalda sjúklegs haturs þeirra, sem jafnan höfðu beðið lægri hlut fyrir Davíð Oddssyni í stjórnmáladeilum, en reiddu nú til höggs. Áttu þessir tveir dyggu og samviskusömu seðlabankamenn þessi starfslok svo sannarlega ekki skilið. Síðast, en ekki síst, sagði Eiríkur mér margt merkilegt um viðhorf og framkomu erlendra seðlabankamanna árið 2008, og á það erindi á bækur síðar meir. Þótt Eiríkur væri hress í spjalli okkar þessa síðdegisstund á þriðjudag, bar hann greinileg merki erfiðs sjúkdóms, og sex dögum síðar var hann allur.
(Birt í Morgunblaðinu 9. nóvember 2011.)
9.11.2011 | 08:15
Fyrirlestur um söguskoðanir og sögufalsanir

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook
6.11.2011 | 13:00
Hægri og vinstri
Ég sótti fróðlega fyrirlestra í stjórnmálafræðideild föstudaginn 4. nóvember. Dr. Ólafur Þ. Harðarson opnaði fræðimönnum gagnagrunn, sem hann hefur stofnað, um kosningar allt frá 1983. Er lofsvert, hvernig hann leyfir öðrum aðgang að þessum gögnum. Dr. Hulda Þórisdóttir notaði gagnagrunninn til að setja Íslendinga á sinn stað á hægri-vinstri-kvarðanum. Eva Heiða Önnudóttir kynnti rannsóknir sínar á búsáhaldabyltingunni.
Hvar skilur á milli hægri og vinstri? Hægri menn vilja traustar varnir og lága skatta. Vinstri menn vilja veikar varnir og háa skatta. Mér sýndist rannsókn Huldu staðfesta það. Eva Heiða kallaði óeirðirnar 20082009, sem hrakti ríkisstjórn Geirs H. Haardes frá völdum, búsáhaldabyltinguna. Er ekki nær að kalla hana búsáhaldabarsmíðabyltinguna, því að tilgangur sumra mótmælenda var að þagga niður í kjörnum fulltrúum með hávaða og gera þeim ókleift að gegna trúnaðarstörfum sínum?
5.11.2011 | 11:03
Bók mín væntanleg

Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.11.2011 kl. 13:00 | Slóð | Facebook
3.11.2011 | 09:01
Glúrnar gamlar konur
Í ellefu hundruð ár hafa íslenskar konur helgað sig barneignum og heimilisstörfum, viljugar eða nauðugar, svo að miklu minna liggur eftir þær en karla í bókmenntum og sögu. Þrátt fyrir það lifir á vörum þjóðarinnar margvísleg speki roskinna kvenna.
Fyrsta dæmið, sem ég kann, er af Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, sem segir frá í Landnámu. Hún fór til Íslands og var með Ingólfi fyrsta vetur sinn. Hann bauð að gefa henni úr landnámi sínu Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Hún vildi hins vegar ekki þiggja landið að gjöf, heldur gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.
Annað dæmi er frá 12. öld, þegar Ragna, húsfreyja í Rínansey, sagði við Orkneyingajarl, Rögnvald kala Kolsson: Fár er svo vitur, að allt sjái sem er. Skýrari orðum hefur vart verið komið að skeikulleika manna.
Hin þrjú dæmin, sem ég nefni hér, eru frá öndverðri tuttugustu öld. Sigurður Nordal prófessor átti eitt sinn tal við ónefnda konu á Suðurlandi. Hún sagði um frambjóðanda til þings: Hann verður áreiðanlega kosinn. Hvers vegna? Hann er fyrir neðan öfundina.
Sesselja Sigmundsdóttir, húsfreyja í Rauðbarðaholti í Dölum, bjó á gamals aldri hjá framsóknarmanninum Bjarna Jenssyni í Ásgarði. Þegar leið að þingkosningum 1923 spurði Bjarni: Hvað ætlar þú að kjósa? Sesselja svaraði: Ég kýs hann Bjarna frá Vogi. Bjarni var andstæðingur Framsóknarflokksins og í einu þeirra flokksbrota, sem síðar mynduðu Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni mælti: Er hann eitthvað betri en hinir? Sesselja svaraði: Já, hann heilsaði mér. Hinum sást yfir það. Og þeim getur sést yfir fleira.
Ingileif Steinunn Ólafsdóttir, húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði, hafði að orðtaki: Sofðu, þegar þig syfjar, en vertu aldrei óvinnandi, meðan þú vakir. Hún var amma Kirkjubólsbræðra, sem kunnir voru á sinni tíð, Guðmundar Inga skáldbónda, Halldórs bindindisfrömuðar og Ólafs skólastjóra.
Inga Huld Hákonardóttir átti eitt sinn tal við frænku sína, Elínu Guðmundsdóttur frá Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og hneykslaðist á bruðli stjórnmálamanna með almannafé. Elín svaraði: Já, þeir eru fljótir að eyða því, sem þeir eiga ekki sjálfir.
(Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 29. október og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins, sem er ómissandi á hverju menningarheimili.)