Háskólinn: Björtu hliðarnar

Ótrúlegt var að lesa fréttaskýringu Morgunblaðsins um vinnubrögð Þorsteins Vilhjálmssonar, fyrrverandi prófessors, og félaga hans í siðanefnd Háskóla Íslands. En menn mega ekki fordæma allan skóginn, þótt þeir finni þar eitt fölnað laufblað, eins og Steingrímur skáld Thorsteinsson benti okkur á í fleygri vísu.

Í Háskóla Íslands er fjöldinn allur af vandvirkum, snjöllum, hógværum fræðimönnum, sem stunda merkilegar rannsóknir, vinna gott starf og eru stofnuninni til sóma. Ég nefni hér aðeins fimm:

Dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði. Yfirlitsrit hans um stofnanahagfræði er kennt í háskólum um allan heim. Þegar ég sæki ráðstefnur erlendis, er fyrsta spurningin iðulega: „Hvað er að frétta af Þráni Eggertssyni?“ Þráinn sýndi í skarplegri greiningu á hinni fornu ítölu (beitarréttindum einstakra jarða, eins konar kvóta), hvernig nota má hagfræðina til að varpa ljósi á Íslandssöguna.

Dr. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði. Ragnar er einn virtasti sérfræðingur heims á sviði auðlindahagfræði. Hann hefur sinnt ráðgjöf í mörgum löndum, meðal annars fyrir Alþjóðabankann, og birt tímamótaritgerðir um fiskveiðistjórnun. Raunar hefur Ragnar eins og Þráinn beitt hagfræðinni til að skýra Íslandssöguna. Hann birti eitt sinn skemmtilega ritgerð ásamt konu sinni, dr. Önnu Agnarsdóttur sagnfræðiprófessor, um það, hvers vegna þrælahald hefði lagst hér niður á þjóðveldisöld. (Skýringin var í anda Adams Smiths: Það borgaði sig ekki.)

Dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði. Hann á sér sem kunnugt er fjölmennan og dyggan lesendahóp, enda eru bækur hans vel skrifaðar og vandaðar og efnið undantekningarlaust forvitnilegt. Þór hefur fetað í fótspor Sigurðar Nordals á öndverðri tuttugustu öld og gert sér far um að miðla þekkingu sinni til almennings, án þess að hann hafi þó í neinu slakað á fræðilegum kröfum. Hann býður ekki upp á dauða heilafylli, heldur lifandi skilning.

Dr. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum. Ég skal játa, að ég þekki ekki sérsvið Einars nema af afspurn, en veit, að hann er virtur á alþjóðavettvangi og margverðlaunaður fyrir vísindaleg afrek sín. Jafnframt hafa rannsóknir hans mikið hagnýtt gildi. Einar er líka einn af hinum góðgjörnu og víðsýnu mönnum, sem minna fer fyrir en efni standa til í Háskóla Íslands.

Dr. Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði. Hafliði nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á eðlisfræði hálfleiðara, en sú grein vísindanna er í senn fræðilega forvitnileg og getur verið mjög hagnýt. Hann á ásamt aðstoðarfólki sínu í Háskóla Íslands í samstarfi við fjölda vísindahópa í öðrum löndum, í Frakklandi, Kína og víðar.

Ásamt þessum fimm mönnum, sem ég hef hér nefnt, af því að ég þekki til þeirra, vinnur margt annað afburðafólk að kennslu og rannsóknum í Háskóla Íslands, leggur sig fram og má ekki vamm sitt vita. Við skulum horfa á björtu hliðarnar.


Það sem ég skrifaði fyrir þremur árum í WSJ

Evran er á niðurleið. Evrópusambandið riðar til falls. Írland burðast með þungar bankaskuldir. Grikkland er gjaldþrota, hvort sem tregðast verður við að viðurkenna það eða ekki. Hver ríkisstjórnin af annarri hefur hrökklast frá í Evrópu vegna hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu. En 3. febrúar 2009, strax eftir að Samfylkingin sleit stjórnarsamstarfinu undir forsæti Geirs H. Haardes og hin nýja ríkisstjórn lýsti yfir því, að forgangsverkefni sitt yrði að reka Davíð Oddsson úr sæti seðlabankastjóra, birti ég grein í Wall Street Journal, sem ég lauk svo:

Geir H. Haarde and David Oddsson may be among the first political casualties of the international financial crisis, but they are unlikely to be the last. It looks like other nations are also entering interesting times.

Þessi spá hefur svo sannarlega gengið eftir.


Sjónvarpsviðtalið við mig komið á Netið

Viðtal Björns Bjarnasonar við mig á ÍNN um bókina Íslenska kommúnista 1918–1998 er nú komið á Netið, og má horfa á það hér.

Furðulegar árásir á Þór Whitehead

Eftir hinn einkennilega fund Sagnfræðingafélagsins 23. nóvember, þar sem fjórir fræðimenn gagnrýndu bækur okkar Þórs Whiteheads, án þess að okkur væri boðið að svara, hefur einn framsögumannanna, Jón Ólafsson á Bifröst, veist harkalega á bloggi sínu að Þór Whitehead fyrir óvandaða heimildanotkun.

Þór Whitehead er fullfær um að svara fyrir sig, en ég get ekki orða bundist, þegar hann er sakaður um óvandaða heimildanotkun. Vandvirkari fræðimann hef ég ekki fyrirhitt, og geta nemendur hans í Háskóla Íslands einnig borið um það vitni. Þór hefur ekki aðeins lesið öll þau rit, sem varða rannsóknarefni hans, heldur hefur hann eytt áratugum í að þaulkanna skjalasöfn á Íslandi og í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og víðar, auk þess sem hann á stórt úrklippusafn úr blöðum og tímaritum, sem enn er gagnlegt þrátt fyrir rafræna og þó brigðula útgáfu slíkra verka. Einnig á hann stórmerkilegt safn viðtala við fjölda fólks, sem hann hefur tekið. Lesendur hans vita síðan, að hann leggur alúð við að miðla þessu mikla efni læsilega og lipurlega frá sér í afbragðsbókum, sem allar hafa selst vel.

Ég skal hér nefna þrjár villur, sem Þór Whitehead hefði aldrei gert vegna yfirburðaþekkingar sinnar á skjalasöfnum og aðstæðum og umhverfi íslensku kommúnistanna. Til er skjal frá 1920 í Komintern-safninu, þar sem skrifað er undir „Sillinn“. Kemur þar fram, að bréfritari sé að mynda kommúnistahreyfingu á Íslandi. Jón Ólafsson dró í bók sinni, Kæru félögum, þá ályktun, að sænski kommúnistinn Hugo Sillén hefði skrifað bréfið. Hefði hann komið til Íslands 1920. En þetta er fráleitt af ýmsum ástæðum. Og allir þeir, sem hafa kannað bréf á milli íslensku  kommúnistanna, vita, að Hendrik Siemsen Ottósson gekk undir gælunafninu „Sillinn“. Brynjólfur Bjarnason var kallaður „Billinn“ og Ársæll Sigurðsson „Sælinn“. Þetta var bréf frá Hendrik Ottóssyni.

Annað dæmið er, að Einar Olgeirsson gekk á fund Georgís Dímítrovs, fyrrverandi forseta Kominterns og þá starfsmanns alþjóðadeildar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, í október 1945. Jón Ólafsson segir í bók sinni, að ekki sé ljóst af dagbókarfærslu Dímítrovs, hvað þeim hafi farið á milli. En eins og Þór Whitehead benti á í bók sinni, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, er einmitt ljóst af þeirri færslu, hvað þeim fór á milli. Dímítrov færði inn í dagbók sína, að þeir hefðu rætt um herstöðvabeiðni Bandaríkjamanna (sem sett var fram í októberbyrjun) og innanflokksmál Sósíalistaflokksins íslenska.

Þriðja dæmið er, að fram kemur í gögnum kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, að hann hafi sumarið 1952 veitt Dagsbrún háan styrk, en félagið var þá undir stjórn einbeittra stalínista. Jón Ólafsson getur þess ekki í bók sinni, Kæru félögum, og hafði hann þó kannað gögnin, þar sem þetta kemur fram. Þessa styrkveitingu verður auðvitað að tengja því, að bandarískt varnarlið var nýkomið til Íslands og að Kóreustríðið geisaði enn. Kalda stríðið var í hámarki. Dagsbrún reyndi í hörðu verkfalli, sem gert var nokkrum mánuðum eftir að styrkurinn barst, að stöðva flutninga til og frá bandaríska varnarliðinu. Þessari mikilvægu staðreynd hefði Þór Whitehead ekki sleppt (eins og Jón Ólafsson gerði) úr bók, sem átti að vera um samskipti íslenskra sósíalista og ráðamanna í Moskvu.

Öllum getur yfirsést eitthvað í víðfeðmum fræðum, og öll gerum við auðvitað villur. En missagnir Jóns Ólafssonar eru allar í eina átt. Þær eru fólgnar í að gera lítið úr hinum nánu tengslum íslenskra kommúnista og sósíalista við stjórnina í Moskvu. Hann lætur ekki skipast við leiðréttingar, heldur herðir frekar á.


Molotov á Íslandi

Einn af mörgum fróðleiksmolum í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, er, að Vjatsjeslav Molotov, utanríkisráðherra Stalíns, kom tvisvar leynilega til Íslands í miðju stríði, á leið til og frá Bandaríkjunum, eins og Stöð tvö birti frétt um laugardagskvöldið 26. nóvember. Rakst ég á gögn um þetta í einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar (en þaðan er margt forvitnilegt í bók minni, ekki síður en úr skjalasöfnum þeirra Einars Olgeirssonar, Brynjólfs Bjarnasonar og Kristins E. Andréssonar). Af einhverjum ástæðum birti Tíminn frétt um þessar heimsóknir Molotovs vorið 1942, þótt reynt væri að halda þeim strangleynilegum. Þetta var mikil hættuför, og segir Simon Sebag Montefiore, að Þjóðverjar hafi reynt að ráðast á flugvél Molotovs á heimleið (en þá varð hún að fara nálægt yfirráðasvæði Þjóðverja).

Athugasemd til Þorsteins frá Hamri

Í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918-1998, rek ég mörg dæmi þess, að íslenskir rithöfundar, sem samúð höfðu með sósíalisma, en leyfðu sér að gagnrýna Kremlverja, voru hrakyrtir og þeim útskúfað úr gömlum vinahópum. Má þar nefna Benjamín Eiríksson, Stein Steinarr, Jóhann Hjálmarsson og Arnór Hannibalsson. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur treysti sér af þeim ástæðum ekki einu sinni til að taka að sér verkefni fyrir Almenna bókafélagið, eins og hann trúði framkvæmdastjóra félagsins, Baldvini Tryggvasyni, fyrir.

Sverrir hefur eflaust séð, hvernig fór fyrir skáldinu Jóni Óskari. Hann gaf 1964 út ferðabók hjá Almenna bókafélaginu, þar sem kvartað var lítillega undan því ófrelsi, sem rithöfundar ættu við að búa í Rússlandi. Svo vildi til, að sama ár fékk hann listamannalaun. Óðar hófust gegn Jóni Óskari skrif í dagblaði sósíalista, Þjóðviljanum, eins og ég rek í bók minni. Friðjón Stefánsson sagði til dæmis, að Jón Óskar hefði birt óhróður um Ráðstjórnarríkin. „Og eins og við manninn mælt: Hann skal upp í 18 þúsund króna flokk." Þorsteinn frá Hamri birti í Þjóðviljanum háðkvæði, þar sem hann setti fram sömu tilgátu: Jón Óskar hefði fengið átján þúsund krónur fyrir „sérlegt ferðastjá" sitt. Í endurminningum sínum sagði Jón Óskar, að Þjóðviljinn hefði eftir þetta skrifað gegn sér og sósíalistar hætt að heilsa sér á förnum vegi.

Þorsteinn frá Hamri skrifar nú 22. nóvember athugasemd til mín í Fréttablaðið, þar sem hann sagði háðkvæði sitt frá 1964 ekki hafa beinst að Jóni Óskari, heldur að úthlutunarnefnd listamannalauna, sem hefði fram að þessu sniðgengið Jón Óskar. Þetta er yfirklór. Kvæði Þorsteins var augljós ádeila á Jón Óskar. Ef Þorsteinn frá Hamri var ósammála úthlutunarnefndinni, en ekki Jóni Óskari, af hverju orti hann þá gegn henni, eftir að hún hafði veitt Jóni Óskari laun, en ekki á meðan hún neitaði honum um slík laun?

Og ef Þorsteinn frá Hamri tók undir gagnrýni Jóns Óskars á Ráðstjórnarríkin, hvers vegna þáði hann þá hálfs mánaðar boðsferð þangað haustið 1965, eins og ég skýri frá í bók minni?

(Grein í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011.)


Fundur Sagnfræðingafélagsins gegn bókum okkar Þórs Whiteheads

Sagnfræðingafélagið og Reykjavíkurakademían héldu fund að kvöldi 23. nóvember 2011 undir yfirskriftinni: „Íslensk vinstri róttækni: Hugsjónabarátta eða landráð?“

Sjálf yfirskriftin var að vísu vanhugsuð, því að vitanlega geta menn verið hugsjónamenn um landráð. Til dæmis vildu kommúnistar, á meðan þeir voru upp á sitt besta, gera Ísland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, Sovét-Íslandi, eins og skoðanasystkini þeirra í Eistlandi, Lettlandi og Lithaugalandi gerðu með hjálp Rauða hersins árið 1940. Það var líka Otto Kuusinen hugsjónamál að gera Finnland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, þótt það tækist ekki.

Fundinn sóttu margir gamlir kommúnistar og sósíalistar og sátu þar eftirvæntingarfullir, til dæmis Árni Bergmann, Hjalti Kristgeirsson, Loftur Guttormsson, Þorsteinn Vilhjálmsson og Kjartan Ólafsson. Sagnfræðingafélagið valdi fjóra fræðimenn til að gagnrýna verk okkar Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland. Óskalandið eftir Þór og Íslenska kommúnista 1918–1998 eftir mig, en bauð hvorugum okkar að svara. Ég ákvað þó að sækja fundinn og taka til máls, ef þess þyrfti með.

Framsöguerindin

Skafti Ingimarsson, sem skrifar nú doktorsritgerð um ólíka samsetningu kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins, talaði fyrstur. Hann taldi, að sjónarhorn okkar Þórs á kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn væri of þröngt. Þessir flokkar hefðu aðallega stundað verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu. Óbreyttir fylgismenn þeirra hefðu ekki stefnt að byltingu.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðidoktor og höfundur bókarinnar Óvina ríkisins, tók síðan til máls. Hann svaraði ýmsum athugasemdum, sem Þór Whitehead hafði í Sovét-Ísland. Óskalandið gert við bók hans. Ekki voru þær þó stórvægilegar. Taldi Guðni Þór gera of mikið úr hættunni á kommúnistum á fjórða áratug. Lestur Guðna er aðgengilegur á heimasíðu hans.

Jón Ólafsson, rússneskumælandi heimspekidoktor og höfundur bókarinnar Kæru félaga, var þriðji framsögumaðurinn. Taldi hann Þór Whitehead túlka heimildir úr rússneskum skjalasöfnum djarflega. Aðrar túlkanir væru mögulegar, og sýndu heimildirnar meðal annars, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu ekki alltaf verið sammála Komintern. Sagðist Jón ekki hafa kynnt sér bók mína að gagni, en sér sýndist í fljótu bragði, að hún væri sömu annmörkum háð og bók Þórs.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, sem skrifað hefur doktorsritgerð um kommúnistaflokkinn, steig síðust í pontu. Hún kvaðst hafa mestan áhuga á þjóðernistali íslenskra kommúnista og sósíalista. Þeir hefðu beint sjónum sínum að þeim hópum, sem útundan hefðu orðið í sjálfstæðisbaráttu nítjándu aldar, fátækum verkalýð. Önnur sjónarhorn ættu hins vegar vitaskuld rétt á sér.

Ragnheiður bar af sem framsögumaður, því að hún reyndi af fremsta megni að vera heiðarleg. Hún sá og skildi önnur sjónarmið, þótt hún væri þeim ekki samþykk. (Er hún þó langtengdust gömlu kommúnistunum framsögumannanna, því að hún er stjúpdóttir Svavars Gestssonar.) Guðni, sem venjulega er sanngjarn, var of upptekinn af því að svara Þór Whitehead í deilum þeirra um ýmis smáatriði, aðallega um Drengsmálið og Gúttóslaginn (þar sem mér sýndist Þór þó hafa meira til síns máls).

Spurningar mínar

Ég kvaddi mér fyrstur hljóðs eftir framsöguerindin og spurði hvern ræðumanna einnar spurningar.

Skafta spurði ég: Ég hef aðeins fundið eitt dæmi þess, að Sósíalistaflokkurinn hefði vikið út af línu kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna á starfstíma sínum 1938 til 1968. Það var, að flokkurinn vildi ekki fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, eins og Kremlverjar vildu. Kannt þú fleiri dæmi?

Guðna spurði ég: Í fundarboðinu hér er sagt, að kommúnistaflokkurinn íslenski hafi viljað byltingu „með góðu eða illu“. Hvað er „bylting með góðu“?

(Þá kallaði Guðmundur Jónsson prófessor fram í utan úr sal, að „bylting með góðu“ væri, þegar hún heppnaðist. En ég svaraði á móti: Jafnvel þegar fjöldi manns er drepinn? Er það bylting með góðu? Þá þagði Guðmundur.)

Ragnheiði spurði ég: Þegar Einar Olgeirsson talaði við sendimenn Ráðstjórnarríkjanna í ársbyrjun 1947 og bað þá að gera ekki samninga við íslensk stjórnvöld um að kaupa fisk, hvort talaði Einar þá sem þjóðernissinni eða kommúnisti?

Jón Ólafsson spurði ég: Þú segir í bók þinni um ráðstjórnartengsl íslenskra sósíalista, að ekki sé ljóst af dagbókarfærslum Georgís Dímítrovs, hvað þeim Einari Olgeirssyni fór á milli, þegar Einar hitti hann í Moskvu í október 1945. En af dagbókinni sést glögglega, að þeir Dímítrov og Einar ræddu herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem borist hafði í októberbyrjun, og innri málefni Sósíalistaflokksins íslenska. Hvað veldur þessari missögn þinni?

Svör framsögumannanna

Skafti nefndi í svari sínu ekkert dæmi um það, sem ég bað um, að Sósíalistaflokkurinn hefði í öðrum málum en afstöðunni til Júgóslavíu og Albaníu farið út af línu Kremlverja.

Guðni kvað ef til vill heppilegra að tala um valdatöku með góðu eða illu en nota hugtakið „byltingu með góðu“. (Það er auðvitað alveg rétt. Orðin í fundarboðinu voru bersýnilega skrifuð í flýti og vanhugsuð.)

Ragnheiður sagðist ekki kannast við þetta atvik úr rússneskum skjölum, sem ég nefndi, og vísaði því spurningunni til Jóns Ólafssonar.

Jón Ólafsson sagði, að Einar Olgeirsson hefði talað sem þjóðernissinni, þegar hann hefði beðið sendiherra ráðstjórnarinnar í ársbyrjun 1947 að flýta sér ekki að gera viðskiptasamninga við Íslendinga. Hann kvað það yfirsjón hjá sér, en ekki tilraun til að afveigaleiða lesendur, að hann skyldi ekki hafa fundið dagbókarfærslu Dímítrovs frá 1945 um það, að þeir Einar hefðu rætt saman herstöðvabeiðni Bandaríkjanna og innri málefni Sósíalistaflokksins.

Tóku nú við spurningar frá öðrum fundarmönnum og svör. Gekk það allt skaplega. Loftur Guttormsson sagnfræðiprófessor stóð upp og taldi nauðsynlegt að gera greinarmun á kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, en kvaðst ekki ætla að lesa bók mína. Guðni Th. Jóhannesson hvatti hann hins vegar til þess að lesa bókina, hann gæti áreiðanlega fengið hana lánaða á almenningsbókasafni, ef hann kærði sig ekki um kaupa hana.

Óvænt fundarlok

Þegar leið að fundarlokum, kvaddi sér hljóðs Guðmundur Jónsson sagnfræðiprófessor. Hann gekk að pallborði, þreif þar hljóðnema af frummælendum, tók sér stöðu á miðju gólfi og hóf ræðuhöld gegn mér, þar sem ég sat á fremsta áheyrendabekk. Hann kvað mig umfram allt pólitískan erindreka, en ekki fræðimann. Mér hefði orðið stórlega á í fyrri verkum mínum, eins og alþjóð vissi, og nú væri ég að reyna að fá uppreist æru með hinni nýju bók minni, sem væri umfram allt pólitískt verk, þótt hann hefði ekki lesið hana. Það væri ekki hlutverk Sagnfræðingafélagsins að veita mér slíka uppreist æru, svo að félagið hefði ekki átt að bjóða mér að halda framsögu fyrir skömmu á fundi sínum um misnotkun sögunnar, því að það væru einmitt menn eins og ég, sem misnotuðu söguna. Guðmundi var mikið niðri fyrir, á meðan hann flutti reiðilestur sinn. Skalf hann allur og titraði, og andlitið gekk í bylgjum, jafnframt því sem hann fölnaði og roðnaði á víxl. Ekki hækkaði hann þó róminn, svo að heitið gæti. Allan tímann starði hann á mig með uppglennt augu, svo að helst minnti á saksóknara í réttarhöldum í Moskvu, lafhræddan við Stalín, að lesa yfir sakborningi. Dauðaþögn var í salnum, á meðan Guðmundur talaði, og fóru eflaust sumir hjá sér, en aðrir kímdu á laun, og einhverjum hefur sennilega ekki þótt neitt ofmælt, sem hann sagði.

Ég bað þegar um orðið, þegar sagnfræðiprófessorinn þagnaði, og svaraði á þessa leið: Það er leitt, að þú skulir hvorki hafa lesið bók mína, Guðmundur, þótt þú teljir þig geta flokkað hana til pólitískra verka, né sótt fyrirlestur minn á dögunum, þótt þú fordæmir hann. Í fyrirlestri mínum hjá Sagnfræðingafélaginu fór ég meðal annars yfir það, hvað ég hefði lært af gagnrýninni á fyrsta bindi ævisögu minnar um Halldór Kiljan Laxness. Það er, að einn texti má ekki vera of nálægur öðrum texta úr heimild, þótt ég hefði að vísu verið þar í góðri trú, því að ég hefði lesið mikið lof um það, hvernig Laxness sjálfur hefði tekið texta og notað, til dæmis dagbækur Magnúsar Hjaltasonar í Ljósvíkingnum og frásagnir Ralphs Fox í smásögunni „Temúdsjín snýr heim“. Hitt, sem ég hefði lært, hefði verið að vitna oftar og betur í ýmis smáatriði, sem fræðimenn hefðu fundið inni á söfnum, enda væri sjálfsagt að sýna þeim virðingu, og yrðu ekki margir aðrir til þess.

Sú gagnrýni, sem beint hefði verið að fyrsta verki ævisögu Laxness, hefði ekki heldur komið fram gegn öðru og þriðja bindinu.

Síðan sneri ég mér að Guðmundi Jónssyni og spurði: Þetta hef ég nú lært af mínum mistökum. Hvað hefur þú lært af þínum?

Þá sleit fundarstjóri fundi.


„varð ekki birt“

Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar Daðasonar, mótmælir í Fréttablaðinu 19. nóvember því, sem ég segi um Sigfús í nýrri bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Þar ber ég í lokakafla stuttlega saman Jón úr Vör, sem mótmælti ofbeldisverkum Kremlverja í lok sjötta áratugar, og Sigfús Daðason, sem gerði það ekki. Guðný Ýr kvartar undan því, að ég vitni ekki í heimildir. Það geri ég fyrr í bókinni, enda er þessi umsögn í lokakaflanum aðeins upprifjun á því og tilvísun til þess.

Ég átti sérstaklega við nokkur atriði, sem nefnd eru í bókinni og Guðný Ýr getur því miður ekki um.

Í fyrsta lagi var Sigfús Daðason þá ritstjóri Tímarits Máls og menningar, sem flutti lesendum sínum lof eitt um kommúnistaríkin.

Í öðru lagi starfaði Sigfús Daðason þá hjá bókafélaginu Máli og menningu, sem Kremlverjar héldu beinlínis uppi með fjárstyrkjum, enda var það þeim hliðhollt.

Í þriðja lagi réðst Sigfús Daðason harkalega 1959 á bók Borísar Pasternaks, Sívago lækni, eins og áróðursmenn Kremlverja gerðu þá um allan heim.

Í fjórða lagi gagnrýndi Sigfús Daðason 1961 opinberlega flóttamanninn Tibor Merlay, sem hingað kom til að segja frá kúgun kommúnista í Ungverjalandi.

Í fimmta lagi hafnaði Sigfús Daðason 1963 ritgerðum Arnórs Hannibalssonar í Tímarit Máls og menningar um kúgun kommúnista í Ráðstjórnarríkjunum og þjónkun íslenskra kommúnista við Kremlverja.

Í sjötta lagi neitaði Sigfús Daðason að segja neitt opinberlega 1963 um uppgjör Halldórs K. Laxness við kommúnismann í Skáldatíma, þótt Morgunblaðið leitaði eftir því.

Á sama tíma birti Jón úr Vör magnað kvæði gegn kúgun Kremlverja, „Lítil frétt í blaðinu.“

Ekkja Sigfúsar Daðasonar segir síðan í grein sinni frá því, sem ég vissi raunar fullvel fyrir, að til er handrit að grein eftir Sigfús, þar sem hann andmælir innrás Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968. Á greinina var skrifað „varð ekki birt“. Með þessu staðfestir ekkjan mál mitt, svo að ekki þarf frekar vitnanna við. Sigfús Daðason treysti sér ekki til þess, þótt hann væri ritstjóri Tímarits Máls og menningar, að birta grein eftir sig um innrásina 1968 gegn vilja annarra ráðamanna Máls og menningar.

Það var einmitt gegn slíkri þögn og slíkri þöggun, sem ég samdi bók mína. Grein Guðnýjar Ýrar er frekari staðfesting á því, hversu nauðsynlegt var að ráðast í það verk. Sem betur fer þurfti ekki að skrifa á handritið að bók minni „varð ekki birt“.

(Grein í Fréttablaðinu 22. nóvember 2011.)


Ný dönsk bók staðfestir frásögn mína

Margt er skrifað um undirróður og njósnir hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og þátt Íslendinga í þessu í nýútkominni bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Eftir að ég sendi handritið í prentsmiðju, barst mér ný dönsk bók, Verdensrevolutionens generalstab. Komintern og det hemmelige apparat (Herráð heimsbyltingarinnar. Alþjóðasamband kommúnista og launráð þess), eftir dr. Niels Erik Rosenfeldt. Þar er margt staðfest, sem ég held fram í bók minni.

Eitt er það, að Signe Sillén, eiginkona sænska kommúnistaforingjans og Íslandsfarans Hugos Silléns, sinnti verkefnum fyrir leyniþjónustu Kremlverja á þriðja og fjórða áratug. Munnlegar heimildir, sem dr. Þór Whitehead prófessor lét mig fá, hermdu, að hún hefði um skeið séð um leynilega fjárstyrki til íslenskra kommúnista. Rosenfeldt, sem þaulkannað hefur skjalasöfn í Moskvu, segir, að hún hafi stjórnað leynilegri móttöku- og sendistöð Alþjóðasambands kommúnista í Stokkhólmi.

Annað er, að Lenínskólinn í Moskvu, sem margir íslenskir kommúnistar sóttu, veittu þjálfun í byltingariðju, en af einhverjum ástæðum hafa þeir Jón Ólafsson í Bifröst og Kjartan Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, viljað gera sem minnst úr þeirri staðreynd í umræðum um eðli og hlutverk íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Rosenfeldt segir (bls. 131):

Á námskrá voru meðal annars námskeið í marx-lenínisma, stjórnmálahagfræði, þróun hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og sögu Ráðstjórnarríkjanna og kommúnistaflokksins. En einnig voru haldnar skotæfingar og tilsögn veitt í notkun skotvopna, undirróðri, dulmálssendingum og vopnaðri skæruliðastarfsemi.

Þetta nám var strangleynilegt, og gengu nemendur undir dulnefnum. Hefur mér tekist að hafa uppi á um tuttugu Íslendingum, sem stunduðu þetta nám. En einnig er í bók minni sagt frá nemendum, sem Sósíalistaflokkurinn kom til náms í Ráðstjórnarríkjunum og Mið-Evrópu eftir stríð, og nemendum í flokksskóla Æskulýðsfylkingar Ráðstjórnarríkjanna, Komsomol. Ekki fengu þeir þó neina hernaðarþjálfun, svo að vitað sé.

 


Kollubaninn

Á meðan Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra 1927-1932, beitti hann ákæruvaldinu, sem þá var í höndum ráðherra, óspart gegn andstæðingum. Á síðustu ráðherradögum sínum höfðaði hann til dæmis mál gegn Magnúsi Guðmundssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem tók við ráðuneytinu af honum. (Ákæran snerist um lögfræðilega ráðgjöf Magnúsar í gjaldþrotamáli.)

hermann_1122520.jpgEinn skjólstæðingur Jónasar frá Hriflu, Hermann Jónasson, var lögreglustjóri í Reykjavík og hafði einnig dómsvald þar. Sakfelldi hann Magnús dómsmálaráðherra í nóvember 1932 og dæmdi hann í nokkurra vikna fangelsi upp á vatn og brauð. Magnús sagði þegar af sér ráðherraembætti og beið dóms Hæstaréttar, sem sýknaði hann í árslok 1932.

Rösku ári síðar var Hermann sjálfur kærður fyrir lögbrot. Hefði hann skotið kollu úti í Örfirisey 1. desember 1930, en hún var þá friðuð. Sóru tvö vitni þess eið að hafa séð Hermann skjóta kolluna. Var Hermann sakfelldur í undirrétti, en sýknaður í Hæstarétti. Þá var hann orðinn forsætisráðherra. Í niðurstöðu sinni kvaðst Hæstiréttur vissulega ekki geta gengið fram hjá vitnisburði tveggja eiðsvarinna manna, er séð hefðu Hermann skjóta kolluna, en þennan dag hefði hann verið að skotæfingum, og hefði kollan flogið í veg fyrir skot úr byssu Hermanns!

Hermann kastaði fram þingvísu 1934 með skírskotun til þess, að tvær starfstúlkur þingsins hétu Svanhildur:

Ævi mín var eintóm leit

eftir villtum svani.

En ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.

En Arnór Sigurjónsson botnaði söguna. Í minningargrein um Hermann í Þjóðviljanum 29. janúar 1976 kvaðst Arnór hafa komist að því, að ellefu vindstig hefðu verið í Reykjavík daginn, sem Hermann var sakaður um að skjóta kolluna. Taldi Arnór ógerlegt að skjóta fugla við þær aðstæður og skundaði til Hermanns í því skyni að benda honum á þetta varnaratriði. Hermann hefði þá trúað sér fyrir leyndarmáli: „Ég skaut kolluna, af því mig langaði svo til þess að vita, hvort ég gæti hitt hana á löngu færi í þessu ofsaveðri.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 19. nóvember og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband