31.5.2012 | 14:57
Ætlar Ólafur Arnarson að safna skeggi?
Ég benti á það hér á dögunum, að Ólafur Arnarson hefur skipað sér í lið með Karli Marx og Friðrik Engels. Hann vill gera rentuna af fiskistofnunum upptæka með auðlindaskatti. Marx og Engels skrifuðu í Kommúnistaávarpinu, að ein fyrsta ráðstöfun kommúnista eftir valdatöku þeirra yrði að leggja á skatta til að gera alla rentu upptæka.
Ólafur Arnarson bregst ókvæða við. En annað er líkt með honum og Karli Marx. Hinn síðskeggjaði þýski heimspekingur var sem kunnugt er á framfæri Friðriks Engels á ofanverðri ævinni. Af einhverjum ástæðum hafa marxistar, sem þó eru manna fljótastir til að fullyrða, að hagsmunir ráði hugsjónum, ekki gefið þessu gaum. Þeir hafa ekki rannsakað, að hve miklu leyti skoðanir Marx réðust af skoðunum mannsins, sem hafði hann á framfæri sínu. Íslendingar sögðu að fornu: Sá á hund, sem elur.
Líkt er komið fyrir Ólafi Arnarsyni og Karli Marx. Hann er á framfæri huldumanns, eins og oft hefur komið fram í DV. Sá heitir ekki Friðrik Engels, en ég get mér til um það, að hann heiti Pálmi í Fons. Tel ég auðsætt, að skoðanir Ólafs Arnarsonar ráðist að miklu leyti af skoðunum Pálma í Fons. Hann sé Ólafi eins konar Friðrik Engels.
Ólafur Arnarson velti því fyrir sér, hvort ég væri þöggunarkefli eða gjallarhorn. Það er rétt hjá honum, að ég hef stungið upp í marga. En enginn vafi leikur á því, hvað Ólafur er: Ekki rödd, heldur bergmál, bergmál Pálma í Fons.
Nú er spurningin, hvort Ólafur Arnarson safnar síðu skeggi.
30.5.2012 | 13:14
Laxness og Shakespeare
Tómas Guðmundsson orti, að hjörtum mannanna svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. En líklega samdi William Shakespeare ein frægustu orðin um sameðli mannanna, þegar hann lét kaupmanninn í Feneyjum segja: Hefur Gyðingur ekki augu? hefur Gyðingur ekki hendur, líffæri, sköpulag, skilningarvit, hvatir, ástríður, alinn á sömu fæðu, særður sömu vopnum, haldinn sömu sjúkdómum, græddur sömu lyfjum, vermdur og kalinn af sama vetri og sumri og kristinn maður? Blæðir okkur ekki af stungum? hlæjum við ekki af kitlum? deyjum við ekki af eitri? og hefnum við ekki ranglætis? Ef okkur svipar saman um annað, þá líkjumst við ykkur þar.
Sænska skáldið August Strindberg notaði svipuð ummæli í leikritinu Föðurnum: Já, ég græt þótt ég sé karlmaður. En hefur karlmaður ekki augu? Hefur hann ekki hendur, fætur, skilningarvit, smekk, ástríður? Nærist hann ekki sömu fæðu, særa hann ekki sömu vopn, hitnar honum ekki og kólnar í sama sumaryl og vetrarkulda og konu? Blæðir okkur ekki ef þið stingið okkur? Stöndum við ekki á öndinni ef þið kitlið okkur? Deyjum við ekki ef þið byrlið okkur eitur? Hvers vegna skyldi karlmaður ekki mega kvarta, hermaður ekki mega gráta? Af því að það er ókarlmannlegt! Hvers vegna er það ókarlmannlegt?
Bergmálið frá Shakespeare er sterkt í leikriti Strindbergs, en daufur endurómur af því í leikriti norska skáldsins Henriks Ibsens, Brúðuheimilinu, þegar Nora mælir: Ég trúi því ég sé fyrst og fremst manneskja, maður, ég alveg jafnt og þú eða að minnsta kosti, að ég eigi að reyna að verða það. Ég veit vel, að flestum finnst þú hafa rétt fyrir þér, Þorvaldur, og áreiðanlega stendur eitthvað svoleiðis í bókum. En ég get ekki lengur látið mér nægja það sem flestir segja eða það sem stendur í bókum. Ég verð sjálf að hugsa málin og komast til skilnings um þau.
Og nú hljóta aðdáendur Halldórs Kiljans Laxness á Íslandi að sjá, hvaðan ræða Uglu í Atómstöðinni er ættuð: Ég vil verða maður. Maður, hvernig? Hvorki kauplaus ambátt einsog konur þeirra fátæku né keypt maddama einsog konur þeirra ríku; þaðanaf síður launuð hjákona; og ekki heldur fángi barns sem mannfélagið hefur svarið fyrir. Maður með mönnum: ég veit það er hlægilegt, fyrirlitlegt, svívirðilegt og byltíngarsinnað, að kvenmaður skuli ekki vilja vera einhver tegund ambáttar eða skækju. En ég er nú svona gerð.
Það er skemmtileg tilviljun, að Laxness fæddist á dánardegi Shakespeares, 23. apríl.
27.5.2012 | 21:20
Er Ólafur Arnarson marxisti?
Ólafur Arnarson ræðst harkalega á útgerðarmenn í síðasta pistli sínum á Pressunni. Sakar hann þá um marxisma vegna einfaldrar ábendingar þeirra um það, að verðmæti skapast í útgerð og að hún starfar í samkeppni við erlend fyrirtæki um markaði. Mættu sumir hafa það í huga.
Ólafur hefur ekki lesið fræði sín mjög vel. Það eru þeir, sem nú vilja leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn, sem fylgja Marx. Í Kommúnistaávarpinu 1848 segir, að fyrstu aðgerðir kommúnista eftir valdatökuna verði að leggja á stighækkandi tekjuskatta og gera upptæka alla rentu af auðlindum.
Hugmyndin að baki auðlindaskatti á sjávarútveg er einmitt að gera rentuna af fiskistofnunum upptæka, svo að stjórnmálamenn geti notað hana í atkvæðakaup sín, en þau felast um þessar mundir að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur aðallega í því að bora göt í gegnum fjöll annars vegar og styrkja bjargarlítið fólk hins vegar til að vera áfram bjargarlítið, en þá hefur það síður tilhneigingu til að brjótast út úr fátækt og getur haldið áfram að vera verkefni fyrir stjórnmálamenn eins og hana, sem þrá að gera góðverk á annarra kostnað.
Það er síðan fróðleg saga af því, sem ég hef sagt í sumum bókum mínum, hvernig Marx varð kommúnisti. Það var á ritstjóraferli hans, þegar hann mótmælti tilraunum skógareiganda í Rínarlöndum til að girða af eignarlönd sín, svo að aðrir gætu ekki nýtt þar við.
25.5.2012 | 13:25
Davíð Oddsson og Evrópusambandið
Snjöllustu blaðagreinar, sem birtast í íslenskum blöðum um þessar mundir, eru ritstjórnargreinar Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu. Hann fer á kostum í leiðurum, Staksteinum og Reykjavíkurbréfum, beitir á víxl nístandi háði, leiftrandi gamansemi og sterkum rökum, nýtir þekkingu sína og þjálfun úr áratuga umræðum og baráttu. Í Reykjavíkurbréfi hans 19. maí 2012 segir:
Evran var ekki efnahagslegt fyrirbæri, þótt ekki hafi vantað að hagfræðingar hafi sumir látið sig hafa að fullyrða það. Stofnað var til hennar af hreinum pólitískum ástæðum. Hún átti að þrýsta þjóðunum í átt til eins ríkis og þegar sú gjörð var fullkomnuð átti Evrópa að koma til leiks sem stórríki, sem gæti skákað Bandaríkjunum á heimsvísu. Þetta var tilgangurinn sem helgaði meðulin, sem er nú komið í ljós að höfðu illvígar aukaverkanir. Það mátti bara ekki segja upphátt að þetta væri hið raunverulega markmið. Hvers vegna ekki? Vegna þess að almenningur í álfunni var ekki haldinn þessari glýju. Hann gekk ekki með neina stórveldisdrauma eins og búrókratar í Brussel og litlu leiðtogarnir sem hanga í spottunum þeirra. Þeirra draumur var ekki að stofna til stórríkis 500 milljóna manna þar sem Þýskaland hefði tögl og hagldir. Þjóðirnar voru brenndar í tveimur heimsstyrjöldum og forðuðust eldinn eins og fermt barn prestinn.
Sjálfur hef ég haft tvíræða afstöðu til Evrópusambandsins. Mér finnst það æskilegt, ef það verður opinn markaður, þar sem menn geta skipst á vöru og þjónustu yfir landamæri í frjálsri samkeppni. Mér finnst sambandið hins vegar óæskilegt, ef það verður lokað ríki, girt tollmúrum, virkið Evrópa. Það er mér fagnaðarefni, ef Þjóðverjar og Frakkar hafa slíðrað sverðin eftir margra áratuga stríð og mannfórnir. Það er mér áhyggjuefni, ef Þjóðverjar og Frakkar ætla sér að drottna yfir smáþjóðunum í Evrópu.
Hvort mun Evrópusambandið breytast í ríkjasamband, þar sem samstarfið takmarkast við það, sem er öllum í hag, eða sambandsríki, sem hyggst veita Bandaríkjunum og Kínaveldi samkeppni um það, hvert sé aðsópsmesta stórveldið?
Draumar hafa þrjá eiginleika. Þeir geta ræst. Við getum vaknað af þeim. Þeir geta breyst í martraðir. Vonandi rætist draumurinn um opinn Evrópumarkað. Við verðum hins vegar að vakna af draumnum um, að við skiptum einhverju máli í Evrópusambandinu, og hyggja heldur að eigin málum. Og vonandi breytist draumurinn um Evrópustórveldið ekki í martröð.
18.5.2012 | 02:04
Hvað skyldi Guðmundur Andri skrifa núna? Og Illugi?
Fróðleg er sú frétt, sem mun vera rétt, að meiri hlutinn, þrír af fimm, í stjórn Hörpu hafi viljað ráða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, framkvæmdastjóra hússins. Af einhverjum ástæðum gerðist það þó ekki.
Enginn vafi er á því, að Þorgerður Katrín var að minnsta kosti jafnhæf til starfsins og sá, sem ráðinn var, þótt hér ætli ég síður en svo að lasta þann mann. Þorgerður Katrín er lögfræðingur, reyndur stjórnandi, góður ræðumaður, áhugamaður um íslenska menningu, en með alþjóðlega yfirsýn eftir búsetu erlendis, á besta aldri og hefur aðra þá kosti til að bera, sem þarf í þetta starf.
Hvers vegna var þá gengið fram hjá henni?
Ég man þá tíð, að þeir Guðmundur Andri Thorsson og Illugi Jökulsson náðu varla andanum fyrir hneykslun, ef gengið var fram hjá hæfri konu í trúnaðarstarf. Hvað skyldu þeir skrifa núna?
Eða blessaðar konurnar í Háskólanum, sem dundað hafa sér við það að telja nöfn á konum og körlum í ýmsum störfum? Hvenær mun heyrast í Helgu Kress, Sigríði Þorgeirsdóttur og doktor Sigurbjörgu vegna þessa undarlega máls?
Ég velti því líka fyrir mér, hvort fjölmiðlamenn muni spyrja konurnar tvær, sem eru í forsetaframboði, hvað þeim finnist um þetta.
17.5.2012 | 21:06
Rússagrýlan
Ég hef minnst hér áður á grýlu, sem kaffihúsamönnum í Reykjavík varð tíðrætt um á árum áður, eins og Jón Óskar rithöfundur lýsir í endurminningum sínum. Hún kallaðist Morgunblaðslygin. En til var önnur grýla, sem sömu menn hæddust óspart að: Rússagrýlan, sem ætti sér enga stoð í veruleikanum, enda aðeins Morgunblaðslygi. Fyrst kom orðið fyrir, svo að ég viti, í fyrirsögn leiðara Þjóðviljans 22. mars 1946, en oft eftir það.
Töldu margir, að viðbúnaður við landvinningastefnu Kremlverja væri ekki aðeins ástæðulaus, heldur einnig hlægilegur. Þegar Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, birti sumarið 1968 í blaði sínu dagbókarbrot úr veiðiferðum og lýsti þar áhyggjum af framkomu Kremlverja við Tékkóslóvaka, skrifaði Sverrir Hólmarsson bókmenntafræðingur skopstælingu í Frjálsa þjóð: Nú finn ég á mér, að Rússar eru um það bil að ráðast inn í Tékkóslóvakíu. Guð hjálpi Tékkum.
Dátt var eflaust hlegið á ritstjórnarskrifstofu Frjálsrar þjóðar, þegar þetta birtist þar 15. ágúst 1968. Væntanlega var hláturinn þagnaður fimm dögum síðar, en Rauði herinn rússneski réðst inn í Tékkóslóvakíu aðfaranótt 21. ágúst 1968.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur benti síðan á það í Rétti 1973, að Kremlverjar hefðu aðeins verið uppivöðslusamir í Austur-Evrópu: En hvers vegna hafa þeir haldið sig á þessu tiltölulega litla svæði, ef þeir eru svo útþenslusamir, en ekki ólmast inn í þau mörgu hernaðarlega veiku lönd, sem liggja umhverfis hin víðlendu Sovétríki og hafa þó ekki verið í neinu hernaðarbandalagi við Bandaríkin? Sem dæmi skulu nefnd Indland, Afganistan, Írak, Júgóslavía og Austurríki. Árni svaraði sjálfum sér: Ástæðan er ofureinföld. Það hefur alltaf verið lygi, að árás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi.
Samtök herstöðvaandstæðinga gáfu ritgerð Árna út sérprentaða. Ekki fylgir sögunni, hvort dreifingin var stöðvuð á jólum 1979, þegar Rauði herinn réðst inn í Afganistan.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2012.)
12.5.2012 | 22:34
Gunnar Smári heldur reiðilestur
Ég varpaði hér í bloggi mínu fram spurningu til Össurar Skarphéðinssonar, sem vill skattleggja íslenskan almenning í því skyni að senda fé til suðrænna ríkja, en kallar það þróunaraðstoð. Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Jafnframt setti ég bloggið á Facebook-síðu mína eins og minn er vandi.
Nokkrar athugasemdir voru gerðar við blogg mitt á Facebook. Sigurður Ragnarsson skrifaði til dæmis:
Danska sjónvarpið fór einu sinni til Afríku með manni, sem hafði starfað áratugum saman við danska þróunaraðstoð í nokkrum ríkjum álfunnar. Gömul og tiltölulega ný verkefni voru skoðuð. Allt var ónýtt, hvert og eitt einasta. Ég man sérstaklega eftir snoturri hótelbyggingu, sem því miður var búið að skjóta í tætlur. Mjög dapurlegt. Þetta virðist ekki einu sinni snúast um menningarstig hinna hjálparvana þjóða, því að Danir styrktu fyrir ekki svo löngu með opinberu fé mikla vindmyllugerð í tiltölulega skikkanlegu ríki Austur-Evrópu, og öllum myllunum var komið fyrir í dal, þar sem aldrei hreyfir vind.
Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi útgáfustjóri Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skrifaði langa athugasemd um það óréttlæti, sem Danir hefðu beitt Afríkuþjóðir fyrr á öldum. Andrés Magnússon blðamaður benti þá á, að erfitt væri að rökstyðja skattlagningu á íslenskan almenning með því ranglæti, sem Danir hefðu ef til vill beitt í Afríku. Ég spurði Gunnar Smára sömu spurningar og Össur: Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Hvaða land hefur blómgast á því að þiggja ölmusur og bætur? Þá fékk ég reiðilestur yfir mig:
HHG; þú losnar ekki við að vaska upp með því að gera það illa. Vestræn stjórnvöld beittu lengi þróunaraðstoð fyrir sig í kalda stríðinu; eftir hrun sovétsins var þróunaraðstoð notuð til að neyða ríki til að opna fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja o.s.frv. Það sem þú átt að gera er að þrýsta á um mótun þróunaraðstoðar sem tekur mið af þörfum íbúanna en ekki stjórnvalda á Vesturlöndum eða stjórnvalda í viðkomandi löndum. Það væri bæði þarft verk og gott og færi þér ólíkt betur en að týna [svo] til mistökin sem afsökun fyrir því að réttlætið gangi ekki upp. Þess vegna sé best að sætta sig við óréttinn (eru það ekki rök LÍÚ?).
Hins vegar má vel vera að þú viljir dvelja með öðrum últra-hægri-mönnum í þessum hjákátlega félagslega-Darwinisma; að allar tilraunir mannsins til að jafna óréttláta mismunun séu í fyrsta stað ósiðlegar (hinir sterku eru sterkir vegna þess að það er vilji sögunnar að þeir séu sterkir), annan stað gagnslausar (hinir veiku eru veikir vegna þess að þeir eru lakari og þeir muni alltaf vera það) og í þriðja stað ónáttúrlegar (baráttan er eðli náttúrunnar og sigurvegarar baráttunnar eru jafnframt æðsta sköpun náttúrunnar; með því að pukka undir þá erum við því að þjóna vilja náttúrunnar; allar tilraunir til að raska þessu jafnvægi eru því andstæðar náttúrunni).
En kannski er það rannsóknarefni fyrir þig og efni í nokkrar bækur að telja til glæpi og mannfórnir þessarar heimskulegu heimsýnar; allt frá nýlendutímanum, gegnum útrýmingastefnu nazismans, jöðrunar og mismunun kvenna, svartra, veikra, fatlaðra, samkynhneigðra með tilheyrandi kúgun, fórnun lífsgæða og beinum mannfórnum; allt fram á okkar daga o.s.frv. Hvernig alþjóðleg fyrirtæki tóku yfir kúgun þróunarlanda þegar vestræn ríki urðu að láta af henni; manngerðar hungursneiðar vegna valdabaráttu vestrænna ríkja/fyrirtækja í þessum löndum; að ekki sé talað um þjóðarmorðin á indíánum í Ameríku, þrælahald svartra og óformlegt þrælahald í verksmiðjum, námum og öðrum helvítum víða um heim.
Ég svaraði Gunnari Smára svo:
Gunnar Smári. Það vekur athygli, að þú svarar ekki spurningu minni. Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Hvaða land hefur blómgast á að þiggja ölmusu eða bætur? Ef þú hefur raunverulega áhyggjur af fátækt (m. a. í Þriðja heiminum, en það er líka til fátækt í ríkum löndum), þá reynir þú að skilja þau lögmál, sem gilda um það, hvernig einstaklingar og þjóðir geta brotist úr fátækt í bjargálnir. Þau lögmál eru alþekkt, og ég geri grein fyrir þeim í bókum mínum mörgum, sem þú hefur því miður ekki lesið. Þú ættir að spara þér reiðilesturinn yfir mér og reyna frekar að skilja, hvaða leiðir eru til út úr fátækt: Frjáls markaður, traust, en takmarkað ríkisvald, sem verndar eignarrétt og samningafrelsi, margir gróðamöguleikar, ótal atvinnutækifæri.
Hvort er skynsamlegra að auðvelda fólki að sitja föstu í fátækt (eins og gert væri með fégjöfum til Afríku) eða að auðvelda því að brjótast út úr fátækt (eins og gert væri með því að opna landamæri fyrir fjárfestingum frá Vesturlöndum og vöru frá suðrænum þjóðum)? Hvort er skynsamlegra að gefa fólki fisk, eins og þú virðist vilja, eða kenna því að veiða fisk og tryggja síðan, að það geti selt fiskinn á vestrænan markað? Ef fátæki maðurinn á engan kyrtil vegna þess, að harðstjórinn hrifsar jafnóðum af honum þá kyrtla, sem hann saumar sér eða útvegar á annan hátt, er þá skynsamlegt að senda honum enn einn kyrtilinn, sem lendir síðan beint í klóm harðstjórans? Er ekki skynsamlegra að tryggja frelsi manna til að reka saumastofur í friði fyrir stjórnvöldum, svo að þeir geti saumað sér kyrtla?
Frjálshyggjumenn vilja, að menn geti veitt sér fisk, saumað sér kyrtla og bakað sér kökur við reglur einkaeignarréttar og atvinnufrelsis. Fyrir þeim er verðmætasköpunin aðalatriðið, arðbær útgerðarfélög og bakaríið og saumastofan í fullum gangi. Félagshyggjumenn halda hins vegar, að málin leysist með orðagaldri, reiðilestri, fundahöldum og skattlagningu á þá, sem skapa verðmætin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook
12.5.2012 | 00:51
Spurning til Össurar Skarphéðinssonar
Ég sé, að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vill eyða meira af fé frá íslenskum almenningi í svokallaða þróunaraðstoð. Orðið er að vísu argasta rangnefni, því að reynslan sýnir, að valið er um þróun án aðstoðar (Taívan) eða aðstoð án þróunar (Tansanía).
Með þróunaraðstoð eru tök valdastéttarinnar í viðtökuríkinu oftast styrkt, en sú stétt stendur einmitt iðulega þróuninni fyrir þrifum. Þar sem féð er fengið frá óbreyttum almenningi, reynist þetta vera aðstoð fátæks fólks í ríkum löndum við ríkt fólk í fátækum löndum.
Ég spyr Össur: Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? (Og þá er ekki miðað við einstök verkefni, dropana í hafið, heldur niðurstöður í heilum löndum til langs tíma litið.)
Hún hefur að minnsta kosti ekki tekist á Grænhöfðaeyjum, sem Íslendingar einbeittu sér að um skeið. Það ríki er enn bláfátækt, þótt það hafi þegið einna mestu þróunaraðstoð í heimi miðað við höfðatölu.
9.5.2012 | 16:07
Fall bankanna: Hvað gerðist að tjaldabaki?
Þegar litið er um öxl, sést, að Ísland slapp betur út úr hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu en mörg önnur lönd, ekki síst vegna þess, að hér voru ekki greiddar skuldir óreiðumanna, eins og Davíð Oddsson orðaði það svo eftirminnilega. En dálkahöfundur Viðskiptablaðsins, Óðinn, rifjar í tilefni dómsins yfir Geir H. Haarde upp afar fróðleg atriði um fall bankanna:
Í dómnum er sagt frá því að 20. mars 2008 hafi Jón Steinsson hagfræðingur sent Geir tölvupóst þarsem hann sagði nauðsynlegt að ríkið væri reiðubúið með eitthvert plan ef t.d. einn af stóru bönkunum lenti í verulegum vandræðum. Ríkið þyrfti þá að taka erlent lán til að endurlána þeim banka. Jón sagði jafnframt spurning hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði.
Sama dag sendi prófessor Richard Portes, hagfræðingur sem Verslunarráð hafði ráðið í almannatengsl, tölvupóst sem komið var á framfæri við forsætisráðuneytið. Þar lagði hann til að forsætisráðherra, forstjóri FME og seðlabankastjóri lýstu því yfir opinberlega að bankarnir væru í grundvallaratriðum traustir, öll úrræði Seðlabanka Íslands og íslenska ríkisins stæðu þeim að baki og það yrði ekki látið viðgangast að þeir féllu. Með öðrum orðum áttu íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast bankana að fullu.
Og það voru fleiri hagfræðingar kallaðir til. Utanríkisráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og viðskiptaráðherra héldu fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Gauta Eggertssyni 7. ágúst 2008, eftir að skýrsla Willem Buiters og Anne Sieberts lá fyrir. Í minnispunktum var haft eftir Gauta Eggertssyni að það væri mjög mikils virði að standa við bakið á bönkunum og hættulegt að fara í opinbera umræðu um skiptingu skuldbindinga þ.e. innlenda og erlenda. Haft var eftir Má Guðmundssyni að mikilvægt væri að bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað og væri ódýrara fyrir ríkið að bjarga þeim en að láta þá hrynja. Haft var eftir Friðriki Má að það ætti að bjarga bönkum sem eiga nægar eignir en eiga í lausafjárvanda.
Og ekki létu bankamennirnir sitt eftir liggja í þessum söng. Í fundargerð eftir fund sem bankastjórar Landsbankans áttu með þeim Davíð Oddssyni, Ingimundi Friðrikssyni og Tryggva Pálssyni 31. júlí kemur fram að: Halldór J. Kristjánsson hafi lýst því að hann væri ekki einn þeirrar skoðunar að 20 þúsund sé þjóðréttarleg skuldbinding og Davíð svarað að engin ríkisábyrgð yrði sett nema með lögum. Halldór hafi þá sagt að afla yrði þeirrar heimildar og Davíð svarað aftur með þessum orðum: Eruð þið að safna innlánum án þess að tala við þjóðina um skuldbindinguna? Þið tveir getið ekki gert þjóðina gjaldþrota. Hverju skyldi núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hafa svarað?
Og nú hefur Geir upplýst að José Manuel Baroso hafi hringt í sig í hruninu og lagt hart að honum að gæta hagsmuna kröfuhafa bankanna og fara írsku leiðina.
Hverju skyldu þeir Jón Steinsson, Gauti Eggertsson og Már Guðmundsson nú svara Óðni? Hvort höfðu þeir heldur í huga hagsmuni íslensku þjóðarinnar eða kröfuhafa bankanna?
7.5.2012 | 14:34
Prakkaraskapur Helgu Kress
Ég gat ekki annað en kímt, þegar ég las frétt mbl.is um það, að fullt hefði verið út að dyrum á fyrirlestri Helgu Kress í Háskólanum í dag. Minn gamli kennari og prófarkalesari er alltaf sami prakkarinn. Hún hafði boðað, að í fyrirlestrinum myndi hún gagnrýna nokkur rit, þar á meðal bók Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn. Auðvitað vakti hún með því forvitni margra, enda er Böðvar fyrrverandi eiginmaður hennar og efnið í hinni ágætu skáldsögu hans um sumt sótt í ævi tengdaföður hans, Brunos Kress málfræðings. En Helga tilkynnti áheyrendum, að hún hefði ekki nægan tíma til þess að ræða um þessa bók og nokkrar aðrar, sem minnst hafði verið á í fundarboði, heldur yrði hún að einskorða sig við skáldsögu eftir Hallgrím Helgason.
Og það var ekki nóg með, að Helga gabbaði forvitið fólk til að sækja fyrirlestur sinn, heldur lék hún sér líka að því. Í frétt mbl.is segir: Helga sagði að munurinn á meðferð Halldórs Laxness á persónum sínum væri sá að Halldór skaðaði ekki sínar persónur. Það gerði Hallgrímur á hinn bóginn.
Svo að Halldór Kiljan Laxness skaðaði ekki söguhetjur sínar eða fyrirmyndir þeirra úr veruleikanum? Hvað um Ólaf Kárason Ljósvíking, sem stendur nærri Magnúsi Hj. Magnússyni og myndi teljast barnaníðingur á nútímamáli? Eða Pétur Þríhross, sem á sér augljósa fyrirmynd í Jónasi Jónssyni frá Hriflu? Eða forsætisráðherrann í Atómstöðinni, sem er vitaskuld Ólafur Thors, eins og Einar Olgeirsson og fleiri bentu á? Eða Búa Árland, en heimili hans minnir mjög á heimili Guðmundar Vilhjálmssonar forstjóra, mágs Ólafs Thors? Ekki skal gleyma Ólafi Noregskonungi Haraldssyni í Gerplu, en það tók Sigurð Nordal mörg ár að jafna sig á meðferðinni þar á þessum þjóðardýrlingi Norðmanna. (Um þetta má allt lesa nánar í þremur bindum ævisögu Laxness eftir gamlan nemanda Helgu, Hannes Hólmstein Gissurarson.)
Laxness var að því leyti líkur Dante, að hann notaði einmitt skáldskapinn til að ná sér niðri á andstæðingum sínum. Þetta vissi Helga Kress vel, en hún kaus að gera gys að áheyrendum sínum, koma upp um fáfræði þeirra. Alltaf sami prakkarinn, Helga!