Gunnar Smári heldur reiðilestur

Ég varpaði hér í bloggi mínu fram spurningu til Össurar Skarphéðinssonar, sem vill skattleggja íslenskan almenning í því skyni að senda fé til suðrænna ríkja, en kallar það „þróunaraðstoð“. Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Jafnframt setti ég bloggið á Facebook-síðu mína eins og minn er vandi.

Nokkrar athugasemdir voru gerðar við blogg mitt á Facebook. Sigurður Ragnarsson skrifaði til dæmis:

Danska sjónvarpið fór einu sinni til Afríku með manni, sem hafði starfað áratugum saman við danska þróunaraðstoð í nokkrum ríkjum álfunnar. Gömul og tiltölulega ný verkefni voru skoðuð. Allt var ónýtt, hvert og eitt einasta. Ég man sérstaklega eftir snoturri hótelbyggingu, sem því miður var búið að skjóta í tætlur. Mjög dapurlegt. Þetta virðist ekki einu sinni snúast um menningarstig hinna hjálparvana þjóða, því að Danir styrktu fyrir ekki svo löngu með opinberu fé mikla vindmyllugerð í tiltölulega skikkanlegu ríki Austur-Evrópu, og öllum myllunum var komið fyrir í dal, þar sem aldrei hreyfir vind.

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi útgáfustjóri Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skrifaði langa athugasemd um það óréttlæti, sem Danir hefðu beitt Afríkuþjóðir fyrr á öldum. Andrés Magnússon blðamaður benti þá á, að erfitt væri að rökstyðja skattlagningu á íslenskan almenning með því ranglæti, sem Danir hefðu ef til vill beitt í Afríku. Ég spurði Gunnar Smára sömu spurningar og Össur: Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Hvaða land hefur blómgast á því að þiggja ölmusur og bætur? Þá fékk ég reiðilestur yfir mig:

HHG; þú losnar ekki við að vaska upp með því að gera það illa. Vestræn stjórnvöld beittu lengi þróunaraðstoð fyrir sig í kalda stríðinu; eftir hrun sovétsins var þróunaraðstoð notuð til að neyða ríki til að opna fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja o.s.frv. Það sem þú átt að gera er að þrýsta á um mótun þróunaraðstoðar sem tekur mið af þörfum íbúanna en ekki stjórnvalda á Vesturlöndum eða stjórnvalda í viðkomandi löndum. Það væri bæði þarft verk og gott — og færi þér ólíkt betur en að týna [svo] til mistökin sem afsökun fyrir því að réttlætið gangi ekki upp. Þess vegna sé best að sætta sig við óréttinn (eru það ekki rök LÍÚ?).

Hins vegar má vel vera að þú viljir dvelja með öðrum últra-hægri-mönnum í þessum hjákátlega félagslega-Darwinisma; að allar tilraunir mannsins til að jafna óréttláta mismunun séu í fyrsta stað ósiðlegar (hinir sterku eru sterkir vegna þess að það er vilji sögunnar að þeir séu sterkir), annan stað gagnslausar (hinir veiku eru veikir vegna þess að þeir eru lakari og þeir muni alltaf vera það) og í þriðja stað ónáttúrlegar (baráttan er eðli náttúrunnar og sigurvegarar baráttunnar eru jafnframt æðsta sköpun náttúrunnar; með því að pukka undir þá erum við því að þjóna vilja náttúrunnar; allar tilraunir til að raska þessu jafnvægi eru því andstæðar náttúrunni).

En kannski er það rannsóknarefni fyrir þig og efni í nokkrar bækur að telja til glæpi og mannfórnir þessarar heimskulegu heimsýnar; allt frá nýlendutímanum, gegnum útrýmingastefnu nazismans, jöðrunar og mismunun kvenna, svartra, veikra, fatlaðra, samkynhneigðra með tilheyrandi kúgun, fórnun lífsgæða og beinum mannfórnum; allt fram á okkar daga o.s.frv. Hvernig alþjóðleg fyrirtæki tóku yfir kúgun þróunarlanda þegar vestræn ríki urðu að láta af henni; manngerðar hungursneiðar vegna valdabaráttu vestrænna ríkja/fyrirtækja í þessum löndum; að ekki sé talað um þjóðarmorðin á indíánum í Ameríku, þrælahald svartra og óformlegt þrælahald í verksmiðjum, námum og öðrum helvítum víða um heim.

Ég svaraði Gunnari Smára svo:

Gunnar Smári. Það vekur athygli, að þú svarar ekki spurningu minni. Hvar hefur þróunaraðstoð tekist? Hvaða land hefur blómgast á að þiggja ölmusu eða bætur? Ef þú hefur raunverulega áhyggjur af fátækt (m. a. í Þriðja heiminum, en það er líka til fátækt í ríkum löndum), þá reynir þú að skilja þau lögmál, sem gilda um það, hvernig einstaklingar og þjóðir geta brotist úr fátækt í bjargálnir. Þau lögmál eru alþekkt, og ég geri grein fyrir þeim í bókum mínum mörgum, sem þú hefur því miður ekki lesið. Þú ættir að spara þér reiðilesturinn yfir mér og reyna frekar að skilja, hvaða leiðir eru til út úr fátækt: Frjáls markaður, traust, en takmarkað ríkisvald, sem verndar eignarrétt og samningafrelsi, margir gróðamöguleikar, ótal atvinnutækifæri.

Hvort er skynsamlegra að auðvelda fólki að sitja föstu í fátækt (eins og gert væri með fégjöfum til Afríku) eða að auðvelda því að brjótast út úr fátækt (eins og gert væri með því að opna landamæri fyrir fjárfestingum frá Vesturlöndum og vöru frá suðrænum þjóðum)? Hvort er skynsamlegra að gefa fólki fisk, eins og þú virðist vilja, eða kenna því að veiða fisk og tryggja síðan, að það geti selt fiskinn á vestrænan markað? Ef fátæki maðurinn á engan kyrtil vegna þess, að harðstjórinn hrifsar jafnóðum af honum þá kyrtla, sem hann saumar sér eða útvegar á annan hátt, er þá skynsamlegt að senda honum enn einn kyrtilinn, sem lendir síðan beint í klóm harðstjórans? Er ekki skynsamlegra að tryggja frelsi manna til að reka saumastofur í friði fyrir stjórnvöldum, svo að þeir geti saumað sér kyrtla?

Frjálshyggjumenn vilja, að menn geti veitt sér fisk, saumað sér kyrtla og bakað sér kökur við reglur einkaeignarréttar og atvinnufrelsis. Fyrir þeim er verðmætasköpunin aðalatriðið, arðbær útgerðarfélög og bakaríið og saumastofan í fullum gangi. Félagshyggjumenn halda hins vegar, að málin leysist með orðagaldri, reiðilestri, fundahöldum og skattlagningu á þá, sem skapa verðmætin.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband