31.5.2012 | 14:57
Ætlar Ólafur Arnarson að safna skeggi?
Ég benti á það hér á dögunum, að Ólafur Arnarson hefur skipað sér í lið með Karli Marx og Friðrik Engels. Hann vill gera rentuna af fiskistofnunum upptæka með auðlindaskatti. Marx og Engels skrifuðu í Kommúnistaávarpinu, að ein fyrsta ráðstöfun kommúnista eftir valdatöku þeirra yrði að leggja á skatta til að gera alla rentu upptæka.
Ólafur Arnarson bregst ókvæða við. En annað er líkt með honum og Karli Marx. Hinn síðskeggjaði þýski heimspekingur var sem kunnugt er á framfæri Friðriks Engels á ofanverðri ævinni. Af einhverjum ástæðum hafa marxistar, sem þó eru manna fljótastir til að fullyrða, að hagsmunir ráði hugsjónum, ekki gefið þessu gaum. Þeir hafa ekki rannsakað, að hve miklu leyti skoðanir Marx réðust af skoðunum mannsins, sem hafði hann á framfæri sínu. Íslendingar sögðu að fornu: Sá á hund, sem elur.
Líkt er komið fyrir Ólafi Arnarsyni og Karli Marx. Hann er á framfæri huldumanns, eins og oft hefur komið fram í DV. Sá heitir ekki Friðrik Engels, en ég get mér til um það, að hann heiti Pálmi í Fons. Tel ég auðsætt, að skoðanir Ólafs Arnarsonar ráðist að miklu leyti af skoðunum Pálma í Fons. Hann sé Ólafi eins konar Friðrik Engels.
Ólafur Arnarson velti því fyrir sér, hvort ég væri þöggunarkefli eða gjallarhorn. Það er rétt hjá honum, að ég hef stungið upp í marga. En enginn vafi leikur á því, hvað Ólafur er: Ekki rödd, heldur bergmál, bergmál Pálma í Fons.
Nú er spurningin, hvort Ólafur Arnarson safnar síðu skeggi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook