Eiríkur Guðnason: Minningarorð

Í þau átta ár, sem ég var í bankaráði Seðlabanka Íslands, kynntist ég Eiríki Guðnasyni vel. Hann var hógvær maður og dagfarsprúður, glöggur á tölur og þekkti starfsemi seðlabanka út í hörgul, enda starfaði hann í bankanum í fjörutíu ár, frá 1969 til 2009. Ég sat heima hjá honum drykklanga stund þriðjudaginn 25. október 2011, og rifjuðum við upp umsátrið um Seðlabankann strax eftir hrun, en þá héldu bankastjórarnir stundum fundi til að stappa stálinu í starfsfólkið: Davíð Oddsson sagði þá skemmtisögur, Eiríkur greip gítar og söng, og þriðji bankastjórinn, Ingimundur Friðriksson, lék á flygil. Eiríkur fór líka yfir það með mér, hversu fráleitur margvíslegur áróður gegn Seðlabankanum var eftir hrun. Því mætti til dæmis ekki gleyma, að kröfur bankans á viðskiptabankana voru með neyðarlögunum haustið 2008 settar aftur fyrir kröfur innstæðueigenda í því skyni að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Síðan átti Seðlabankinn ekki annan kost en treysta upplýsingum Fjármálaeftirlitsins og viðskiptabankanna sjálfra um eignir þeirra. Hann hlaut að líta svo að þeir ættu við lausafjárskort að etja, ekki eiginfjárvanda. Raunar hefur komið á daginn, að seðlabankar annarra landa lánuðu viðskiptabönkum þar ytra síst gegn traustari eignum í uppnáminu þetta haust. Hefði Seðlabankinn sett strangari skilyrði um skuldabréf íslensku bankanna, meðal annars „ástarbréfin“ svokölluðu, en Seðlabanki Evrópu, hefðu þeir fallið fyrr.

Við Eiríkur ræddum nokkuð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en fulltrúar hans gripu fegins hendi tækifærið eftir hrun til að skjótast til Íslands, enda hafði þetta fólk vantað verkefni árum saman. Hegðaði það sér hér eins og nýlenduherrar. Einn þeirra skundaði til dæmis í Seðlabankann, setti fund með bankastjórunum og þuldi upp fundarefni, og varð þá formaður bankastjórnarinnar að berja í borðið og segja að hér væri sjóðurinn ekki húsráðandi. Sérstaklega var Eiríki þó minnisstætt, þegar fulltrúar sjóðsins kölluðu á hann til að fá skýringar á því, að vextir voru um skeið lækkaðir nokkuð til að reyna að fá hjól atvinnulífsins til að hreyfast. Yfirheyrðu þeir hann nánast á sama hátt og lögreglumenn fanga, sem grunaður er um stórglæp. Eiríkur lýsti einnig síðustu dögunum í Seðlabankanum þegar norskur maður beið í leyni á gistihúsi í Reykjavík eftir því að taka við störfum seðlabankastjóranna þriggja, sem hraktir voru burt með sérstökum lögum. Voru þeir Ingimundur þá látnir gjalda sjúklegs haturs þeirra, sem jafnan höfðu beðið lægri hlut fyrir Davíð Oddssyni í stjórnmáladeilum, en reiddu nú til höggs. Áttu þessir tveir dyggu og samviskusömu seðlabankamenn þessi starfslok svo sannarlega ekki skilið. Síðast, en ekki síst, sagði Eiríkur mér margt merkilegt um viðhorf og framkomu erlendra seðlabankamanna árið 2008, og á það erindi á bækur síðar meir. Þótt Eiríkur væri hress í spjalli okkar þessa síðdegisstund á þriðjudag, bar hann greinileg merki erfiðs sjúkdóms, og sex dögum síðar var hann allur.

(Birt í Morgunblaðinu 9. nóvember 2011.)


Fyrirlestur um söguskoðanir og sögufalsanir

ka_769_pahhg_1120599.jpgÉg flutti fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu þriðjudaginn 8. nóvember kl. 12.05 í Þjóðminjasafninu um „Söguskoðanir og sögufalsanir“. Þar ræddi ég um nasisma og kommúnisma í sögulegu ljósi og vék að nokkrum íslenskum verkum um kommúnismann. Verður fyrirlesturinn eflaust aðgengilegur innan skamms á vef Sagnfræðingafélagsins, jafnt glærur frá honum sem upptaka af honum, svo sem venja er. Seinna í þessari viku kemur bók mín, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, í bókabúðir.

Hægri og vinstri

Ég sótti fróðlega fyrirlestra í stjórnmálafræðideild föstudaginn 4. nóvember. Dr. Ólafur Þ. Harðarson opnaði fræðimönnum gagnagrunn, sem hann hefur stofnað, um kosningar allt frá 1983. Er lofsvert, hvernig hann leyfir öðrum aðgang að þessum gögnum. Dr. Hulda Þórisdóttir notaði gagnagrunninn til að setja Íslendinga á sinn stað á hægri-vinstri-kvarðanum. Eva Heiða Önnudóttir kynnti rannsóknir sínar á „búsáhaldabyltingunni“.

Hvar skilur á milli hægri og vinstri? Hægri menn vilja traustar varnir og lága skatta. Vinstri menn vilja veikar varnir og háa skatta. Mér sýndist rannsókn Huldu staðfesta það. Eva Heiða kallaði óeirðirnar 2008–2009, sem hrakti ríkisstjórn Geirs H. Haardes frá völdum, „búsáhaldabyltinguna“. Er ekki nær að kalla hana „búsáhaldabarsmíðabyltinguna“, því að tilgangur sumra mótmælenda var að þagga niður í kjörnum fulltrúum með hávaða og gera þeim ókleift að gegna trúnaðarstörfum sínum?


Bók mín væntanleg

ka_769_pahhg.jpgNú er bók mín, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, sem prentuð var í Finnlandi, á leið til landsins, og verður henni væntanlega dreift í bókabúðir um miðja næstu viku. Hún er 624 bls. að stærð með um 500 myndum. Sagan hefst á Grænatorgi í Kaupmannahöfn í nóvember 1918, þegar tveir ungir Íslendingar við nám þar flækjast inn í átök við lögreglu. Henni lýkur í Havana á Kúbu í nóvember 1998, þegar forystusveit Alþýðubandalagsins þiggur heimboð kúbverska kommúnistaflokksins.

Glúrnar gamlar konur

Í ellefu hundruð ár hafa íslenskar konur helgað sig barneignum og heimilisstörfum, viljugar eða nauðugar, svo að miklu minna liggur eftir þær en karla í bókmenntum og sögu. Þrátt fyrir það lifir á vörum þjóðarinnar margvísleg speki roskinna kvenna.

Fyrsta dæmið, sem ég kann, er af Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, sem segir frá í Landnámu. Hún fór til Íslands og var með Ingólfi fyrsta vetur sinn. Hann bauð að gefa henni úr landnámi sínu Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Hún vildi hins vegar ekki þiggja landið að gjöf, heldur „gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“.

Annað dæmi er frá 12. öld, þegar Ragna, húsfreyja í Rínansey, sagði við Orkneyingajarl, Rögnvald kala Kolsson: „Fár er svo vitur, að allt sjái sem er.“ Skýrari orðum hefur vart verið komið að skeikulleika manna.

Hin þrjú dæmin, sem ég nefni hér, eru frá öndverðri tuttugustu öld. Sigurður Nordal prófessor átti eitt sinn tal við ónefnda konu á Suðurlandi. Hún sagði um frambjóðanda til þings: „Hann verður áreiðanlega kosinn.“ Hvers vegna? „Hann er fyrir neðan öfundina.“

Sesselja Sigmundsdóttir, húsfreyja í Rauðbarðaholti í Dölum, bjó á gamals aldri hjá framsóknarmanninum Bjarna Jenssyni í Ásgarði. Þegar leið að þingkosningum 1923 spurði Bjarni: „Hvað ætlar þú að kjósa?“ Sesselja svaraði: „Ég kýs hann Bjarna frá Vogi.“ Bjarni var andstæðingur Framsóknarflokksins og í einu þeirra flokksbrota, sem síðar mynduðu Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni mælti: „Er hann eitthvað betri en hinir?“ Sesselja svaraði: „Já, hann heilsaði mér. Hinum sást yfir það. Og þeim getur sést yfir fleira.“

Ingileif Steinunn Ólafsdóttir, húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði, hafði að orðtaki: „Sofðu, þegar þig syfjar, en vertu aldrei óvinnandi, meðan þú vakir.“ Hún var amma Kirkjubólsbræðra, sem kunnir voru á sinni tíð, Guðmundar Inga skáldbónda, Halldórs bindindisfrömuðar og Ólafs skólastjóra.

Inga Huld Hákonardóttir átti eitt sinn tal við frænku sína, Elínu Guðmundsdóttur frá Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og hneykslaðist á bruðli stjórnmálamanna með almannafé. Elín svaraði: „Já, þeir eru fljótir að eyða því, sem þeir eiga ekki sjálfir.“

(Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 29. október og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins, sem er ómissandi á hverju menningarheimili.)


Evran í nýju ljósi

Martin Wolf og Paul Krugman telja hvorugur evruna henta Íslendingum. Ég
man, hvað Milton Friedman sagði mér fyrir mörgum árum: Evran er tilraun
til að stofna eitt gjaldmiðilssvæði svipað því, sem Bandaríkjadalur nær
yfir, hin fimmtíu ríki Bandaríkjanna. Þessi athyglisverða tilraun
mistekst sennilega, sagði Friedman, af tveimur kerfisbundnum ástæðum.
Hin fyrri er, að evrópskur vinnumarkaður er ekki eins sveigjanlegur um
verð (laun) og hinn bandaríski. Hin síðari er, að vinnuafl er tregari
til að flytjast milli landa í Evrópu í leit að jafnvægi en á milli hinna
fimmtíu ríkja Bandaríkjanna. Fyrr eða síðar verður evran því notuð til að
fullnægja þörfinni fyrir ódýra peninga. Fram að þessu hefur spádómur
Friedmans ekki ræst: Evran virtist vera skilgetið afkvæmi þýska
marksins. Nú kann spádómurinn hins vegar að rætast: Sést ekki ættarmót
grísku drökmunnar á evrunni?

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband