Eiríkur Guðnason: Minningarorð

Í þau átta ár, sem ég var í bankaráði Seðlabanka Íslands, kynntist ég Eiríki Guðnasyni vel. Hann var hógvær maður og dagfarsprúður, glöggur á tölur og þekkti starfsemi seðlabanka út í hörgul, enda starfaði hann í bankanum í fjörutíu ár, frá 1969 til 2009. Ég sat heima hjá honum drykklanga stund þriðjudaginn 25. október 2011, og rifjuðum við upp umsátrið um Seðlabankann strax eftir hrun, en þá héldu bankastjórarnir stundum fundi til að stappa stálinu í starfsfólkið: Davíð Oddsson sagði þá skemmtisögur, Eiríkur greip gítar og söng, og þriðji bankastjórinn, Ingimundur Friðriksson, lék á flygil. Eiríkur fór líka yfir það með mér, hversu fráleitur margvíslegur áróður gegn Seðlabankanum var eftir hrun. Því mætti til dæmis ekki gleyma, að kröfur bankans á viðskiptabankana voru með neyðarlögunum haustið 2008 settar aftur fyrir kröfur innstæðueigenda í því skyni að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Síðan átti Seðlabankinn ekki annan kost en treysta upplýsingum Fjármálaeftirlitsins og viðskiptabankanna sjálfra um eignir þeirra. Hann hlaut að líta svo að þeir ættu við lausafjárskort að etja, ekki eiginfjárvanda. Raunar hefur komið á daginn, að seðlabankar annarra landa lánuðu viðskiptabönkum þar ytra síst gegn traustari eignum í uppnáminu þetta haust. Hefði Seðlabankinn sett strangari skilyrði um skuldabréf íslensku bankanna, meðal annars „ástarbréfin“ svokölluðu, en Seðlabanki Evrópu, hefðu þeir fallið fyrr.

Við Eiríkur ræddum nokkuð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en fulltrúar hans gripu fegins hendi tækifærið eftir hrun til að skjótast til Íslands, enda hafði þetta fólk vantað verkefni árum saman. Hegðaði það sér hér eins og nýlenduherrar. Einn þeirra skundaði til dæmis í Seðlabankann, setti fund með bankastjórunum og þuldi upp fundarefni, og varð þá formaður bankastjórnarinnar að berja í borðið og segja að hér væri sjóðurinn ekki húsráðandi. Sérstaklega var Eiríki þó minnisstætt, þegar fulltrúar sjóðsins kölluðu á hann til að fá skýringar á því, að vextir voru um skeið lækkaðir nokkuð til að reyna að fá hjól atvinnulífsins til að hreyfast. Yfirheyrðu þeir hann nánast á sama hátt og lögreglumenn fanga, sem grunaður er um stórglæp. Eiríkur lýsti einnig síðustu dögunum í Seðlabankanum þegar norskur maður beið í leyni á gistihúsi í Reykjavík eftir því að taka við störfum seðlabankastjóranna þriggja, sem hraktir voru burt með sérstökum lögum. Voru þeir Ingimundur þá látnir gjalda sjúklegs haturs þeirra, sem jafnan höfðu beðið lægri hlut fyrir Davíð Oddssyni í stjórnmáladeilum, en reiddu nú til höggs. Áttu þessir tveir dyggu og samviskusömu seðlabankamenn þessi starfslok svo sannarlega ekki skilið. Síðast, en ekki síst, sagði Eiríkur mér margt merkilegt um viðhorf og framkomu erlendra seðlabankamanna árið 2008, og á það erindi á bækur síðar meir. Þótt Eiríkur væri hress í spjalli okkar þessa síðdegisstund á þriðjudag, bar hann greinileg merki erfiðs sjúkdóms, og sex dögum síðar var hann allur.

(Birt í Morgunblaðinu 9. nóvember 2011.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband