Nýr Blefken?

Arngrimur_laerdiÍslendingar hafa löngum verið viðkvæmir fyrir illu umtali erlendis. Fjögur hundruð ár og einu betur eru frá því, að Ditmar Blefken gaf út rógsrit um þjóðina í Leyden í Hollandi. Þóttist hann þekkja vel til á Íslandi og fræddi umheiminn á ýmsum furðusögum, sennilega með aðstoð hraðlyginna Íslendinga. Arngrímur lærði Jónsson tók þá saman Anatome Blefkeniana (Greiningu á Blefken), sem kom út í Hamborg 1613, og hrakti fullyrðingar Blefkens lið fyrir lið.

Nú er nýr Blefken kominn til sögunnar, þótt hann láti sér nægja stutta grein í breska blaðinu Financial Times 1. júlí. Þar heldur Robert Wade, stjórnmálafræðiprófessor í Hagfræðiskóla Lundúna, því fram, að íslenska hagkerfið standi á brauðfótum. Bankarnir hafi verið seldir óreyndum aðilum, tengdum „íhaldsmönnum“, eins og hann orðar það. Líklega muni ríkisstjórnin brátt springa, þegar Samfylkingin slíti samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Væntanlegur kosningasigur Samfylkingarinnar sé kærkominn, því að þá muni Ísland aftur hverfa í röð norrænna velferðarríkja, sem leyfi ekki fjármagninu að vaða uppi óheftu, eins og verið hafi.

Grein Wades er tímasett, svo að hún komi íslenskum bönkum sem verst í þeim vanda, sem þeir hafa ratað í á lánamörkuðum erlendis (og sést best á háum skuldatryggingarálögum), en auk hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu gjalda íslensku bankarnir þess, hversu hratt þeir hafa vaxið og hversu marga öfundarmenn þeir eiga meðal erlendra keppinauta. Ekki þarf hins vegar að leita lengi að íslenskum heimildarmanni hins nýja Blefkens. Wade endurtekur í meginatriðum það, sem Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hefur skrifað vikulega hér í blaðið síðustu árin.

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor hefur hér í blaðinu 18. apríl hrakið fullyrðingar um það, að Ísland hafi horfið úr röð norrænna velferðarríkja. Hefur Ragnar lagt fram alþjóðlegar mælingar á tekjuskiptingu, sem sýna, að hún er síst ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

Þeir Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessor og Richard Portes, hagfræðiprófessor í Hagfræðiskóla Lundúna, hafa síðan í Financial Times 4. júlí rekið ofan í þá Þorvald og Wade fullyrðingar þeirra um íslenskt efnahagslíf. Þeir benda á, að hreinar skuldir Íslendinga séu stórlega ofmetnar. Eignir hafa aukist ekki síður en skuldir. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru til dæmis einhverjir hinir öflugustu í heimi miðað við höfðatölu, og fjármagn, sem áður lá verðlaust, er nú orðið verðmætt í höndum einkaaðila. Friðrik Már og Wade minna einnig á, að íslensku bankarnir starfa við sömu reglur og hliðstæðar stofnanir annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Þeir halda því fram, að niðursveifla síðustu mánaða sé að miklu leyti eðlileg leiðrétting á (og afleiðing af) þenslu síðustu ára.

Við þetta er að bæta, að Ríkisendurskoðun gerði þrjár rækilegar skýrslur um sölu viðskiptabankanna og komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert væri athugavert við hana. Ég er líka sammála þeim Friðrik Má og Portes um það, að íslenska hagkerfið standi traustum fótum, þegar til langs tíma er litið. Fiskistofnar okkar eru nýttir skynsamlega, gjöfular orkulindir bíða frekari nýtingar, og hagræðing hefur orðið í rekstri fyrirtækja. En á erfiðum tímum má ekkert út af bregða. Þess vegna getur hinn nýi Blefken orðið okkur skeinuhættari en hinn gamli.

Fréttablaðið 11. júlí 2008. 

Tvær stuttar athugasemdir til viðbótar greininni: Í frásögn visir.is af athugasemdum Friðriks Más og Portes sagði, að þeir hefðu svarað „Sir Robert Wade“, en það, sem þeir gerðu, var að ávarpa í lesendabréfi sínu ritstjóra Financial Times með orðinu „Sir“. Bréf þeirra hófst svo: „Sir, Robert Wade ... .“ Í frásögn Ríkisútvarpsins, hljóðvarps, af grein Wades var augljóst, að honum var ruglað saman við Richard Portes. Var Wade sagður sérstakur álitsgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar. Íslenskum fréttamönnum er ekki fisjað saman. Þeir hafa í senn aðlað Robert Wade og gert hann að sérstökum álitsgjafa íslensku ríkisstjórnarinnar (eins og Portes er)! Hvað hefðu þeir gert við hinn gamla Blefken?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband