6.9.2025 | 01:38
Hvað gerir lögreglustjórinn í Reykjavík?
Silja Bára Ómarsdóttir háskólarektor sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 1. september 2025, að hinn 6. ágúst hefði rekist á rétturinn til að mótmæla og rétturinn til að halda fundi. Þá ruddust nokkrir starfsmenn Háskólans með Ingólf Gíslason aðjúnkt í fararbroddi inn á fund um gervigreind og lífeyrismál og gerðu hróp að fundarstjóra og fyrirlesara, svo að ekkert heyrðist í þeim, og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir þeirra til að tala varð eftir tuttugu mínútur að slíta fundi.
Rektor hefur bersýnilega rangt fyrir sér. Þessir óeirðaseggir voru ekki að mótmæla, eins og þeir hafa fullan rétt á. Þeir voru að koma í veg fyrir, að fólk fengi að halda sinn fund í friði og tala þar. Þessir ruddar brutu siðareglur Háskólans, eins og ég benti á í Morgunblaðinu 20. ágúst. En þeir brutu líka landslög, eins og prófessor Davíð Þór Björgvinsson hefur bent á. Í 73. grein stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um tjáningarfrelsi og í 74. grein um fundafrelsi. Í mannréttindasáttmála Evrópu, 10. og 11. grein, er einnig kveðið á um málfrelsi og fundafrelsi.
Óeirðaseggirnir brutu enn fremur 122. grein almennra hegningarlaga, en þar segir, að hver sá, sem hindrar, að löglegur mannfundur sé haldinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, en séu sakir miklar, til dæmis vegna ógnana, fangelsi allt að tveimur árum. Enn fremur segir í þessari grein, að hver sá, sem raski fundafriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.
Það er hlutverk lögreglustjórans í Reykjavík að rannsaka og eftir atvikum ákæra í þessu máli. Hann hlýtur að hefja rannsókn málsins hið bráðasta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2025.)
6.9.2025 | 01:31
Fyrir 86 árum í Moskvu og Reykjavík
Í dag, 23. ágúst, er evrópskur minningardagur um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Þennan dag árið 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála í Moskvu og skiptu mið- og austurhluta Evrópu á milli sín. Stalín hlaut Finnland, Eystrasaltsríkin þrjú, austurhluta Póllands og hluta Rúmeníu, en Hitler vesturhluta Póllands. Hitler réðst á Pólland að vestan 1. september, og þá sögðu Bretar og Frakkar Nasista-Þýskalandi stríð á hendur. Þessi ríki sögðu hins vegar ekki Ráðstjórnarríkjunum stríð á hendur, þegar Stalín réðst á Pólland að austan 17. september. Herir alræðisríkjanna tveggja mættust í Brest-Lítovsk og héldu saman hersýningu 22. september, en upptökur eru til af henni á Youtube.
Griðasáttmálinn olli uppnámi á Íslandi. Kommúnistinn Þórbergur Þórðarson hitti dr. Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg 13. september og sagði: Ef Rússar fara í stríð með nasistum, þá hengi ég mig. Þetta gerði Stalín þó fjórum dögum síðar. Þórbergur reyndi að afsaka sig með því, að Hitler og Stalín væru ekki saman í stríði, þótt þeir hefðu í sameiningu lagt undir sig Pólland. En þegar Hitler sá, hversu grátt her Stalíns var leikinn í Vetrarstríðinu við Finna 19391940, ákvað hann að ráðast við fyrsta tækifæri á Ráðstjórnarríkin, leggja þau undir sig í leiftursókn og neyða með því Breta til friðarsamninga. Honum tókst það ekki, en enginn hefur tölu á því, hversu mörg fórnarlömb alræðisstefnu Hitlers og Stalíns voru á tuttugustu öld. Og nú ógnar öfgaíslam Vesturlöndum á sama hátt og nasismi og kommúnismi áður.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. ágúst 2025.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook
6.9.2025 | 01:29
Gyðingaandúð og gyðingahatur
Ísraelskur fræðimaður á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga átti að flytja erindi í Háskóla Íslands 6. ágúst 2025 um hið forvitnilega fræðasvið sitt. En nokkrir starfsmenn Háskólans undir forystu Ingólfs Gíslasonar aðjúnkts, sem bar aðgöngukort sitt að Háskólanum utan á sér, ruddust inn í fyrirlestrarsalinn í Þjóðminjasafni og öskruðu fyrirlesarann og fundarstjórann niður, svo að þeir gátu ekki talað, og gekk á því í tuttugu mínútur, uns fundi varð að slíta. Þessir óboðnu gestir voru ekki að mótmæla stríðinu á Gasa-svæðinu, eins og þeir hafa fullan rétt á að gera, heldur að svipta fyrirlesarann málfrelsi og takmarka rannsóknafrelsi í Háskólanum.
Þetta gefur hins vegar tilefni til að gera greinarmun á gyðingaandúð og gyðingahatri, sem eru hvort tveggja þýðingar á enska orðinu anti-semitism. Gyðingaandúð er, þegar lagður er annar mælikvarði á gyðinga en aðra. Ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Súdan og enginn segir neitt, en ef tíu óbreyttir borgarar falla í stríði í Ísrael og því er ákaft mótmælt, þá eru mótmælendurnir sekir um gyðingaandúð, valkvæða vandlætingu. Þeim er sama um voðaverk í Súdan (eða Tíbet), en nota tækifærið til að gagnrýna gyðinga í Ísrael.
Gyðingahatur er hins vegar, þegar menn vilja beinlínis útrýma Ísraelsríki. Þeir taka þá ekkert tillit til þess, að Ísrael var hið forna heimkynni gyðinga og að árin fyrir 1945 skiptust ríki heims í þau, sem vildu losna við gyðinga, og hin, sem vildu ekki taka við þeim. Gyðingar áttu því ekki annars kost en stofna eigið ríki. Það var ekki aðeins gyðingaandúð, heldur líka gyðingahatur, sem rak leiðtoga óeirðaseggjanna áfram, því að Ingólfur Gíslason skrifar á Facebook síðu sinni, að Ísrael eigi að fara til helvítis.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. ágúst 2025.)
6.9.2025 | 01:24
Uppgjör Norðmanna við hernámið
Eftir að þýskir nasistar hernámu Noreg 9. apríl 1940, gengu þeir hart fram með aðstoð norskra nasista og meðreiðarsveina þeirra. Í stríðslok var gert upp við þetta fólk, sem talið var hafa svikið föðurlandið. Norðmenn reyndu þó eftir megni að halda sig innan laganna. Til dæmis áttu sér ekki stað neinar fjöldaaftökur án dóms og laga eins og í Frakklandi.
Margt má þó gagnrýna frá lagalegu sjónarmiði í uppgjöri Norðmanna. Til dæmis var það gert refsivert í tilskipun frá norsku útlagastjórninni í miðju stríði að vera flokksbundinn í norska Nasistaflokknum, sem hafði þó verið löglegur stjórnmálaflokkur fyrir stríð. Þetta stríddi gegn skýlausu banni í norsku stjórnarskránni gegn afturvirkum lögum. Fjórir af þrettán hæstaréttardómurum töldu því ekki rétt að beita þessu ákvæði, en aðeins einn virtur lögfræðingur, prófessor emeritus Jon Skeie, andmælti því líka. Allir aðrir lögspekingar þögðu eða samþykktu notkun ákvæðisins með semingi.
Einnig var kveðið á um það í tilskipun frá útlagastjórninni, að félagar í norska Nasistaflokknum væru sameiginlega ábyrgir fyrir öllu því tjóni, sem hernámið hefði valdið Noregi. Þetta stríddi gegn ákvæði í norsku stjórnarskránni um, að ekki mætti svipta menn jörðum eða heimilum, en var auk þess lagalega hæpið, því að engin tengsl voru venjulega milli aðgerða einstaklinga og hugsanlegs tjóns af völdum hernámsins. Þetta ákvæði var þó smám saman mildað.
Í þriðja lagi var dauðarefsing tekin upp aftur á friðartímum, en hún hafði aðeins verið leyfileg á stríðstímum samkvæmt norskum lögum. Sjálfum finnst mér það ekki eins alvarlegt brot á reglum réttarríkisins og hin tvö atriðin, en þetta bar þess þó merki, að aðalatriðið var sefa reiði almennings. Norska uppgjörið, klætt í skikkju laganna, var sú virðing, sem reiðin sýndi lögunum, svo að vikið sé við orðum Wildes.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. ágúst 2025.)
5.9.2025 | 15:32
Cassel á Íslandi
Svíinn Gustav Cassel (18661945) var einn kunnasti hagfræðingur heims á þriðja áratug tuttugustu aldar. Hann skrifaði fræðilegar ritgerðir, aðallega um peningamál og alþjóðaviðskipti, en líka alþýðulegar greinar til varnar atvinnufrelsi, enda mjög ritfær. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, studdist mjög við rannsóknir Cassels á peningamálum, þegar hann skrifaði Lággengið árið 1924, og ræður og greinar Jóns um stjórnmálahugmyndir voru einnig samdar undir greinilegum áhrifum Cassels.
Til dæmis var ræða Jóns, Milli fátæktar og bjargálna, sem hann flutti á fundi Heimdallar 21. mars 1929 og aftur á landsfundi Íhaldsflokksins 6. apríl, að miklu leyti endursögn á snjallri ritgerð eftir Cassel, Fjármagn og framfarir (Kapital och framåtskridande), sem kom fyrst út árið 1920 og var endurprentuð í bók árið 1929. Birtist ritgerð Cassels í íslenskri þýðingu Magnúsar Jónssonar, prófessors og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þremur hlutum í Stefni 1930, en Guðmundur Hannesson prófessor vakti athygli á bók Cassels í Morgunblaðinu í janúar 1930. Höfðu dönsku skattgreiðendasamtökin látið þýða hana og prenta í 30 þúsund eintökum.
Cassel var líka ráðunautur minnihlutastjórnar Framsóknarflokksins í peningamálum árið 1929 og lagði þá eindregið til, að ekki yrði reynt að hækka gengi krónunnar (skráð í gulli) upp i það, sem það var fyrir stríð (eins og Jón Þorláksson vildi gera), heldur festa það á núverandi verði.
Ýmsar greinar birtust eftir Cassel næstu ár, í Stefni 1930 og 1932, Lesbók Morgunblaðsins 1931, Vísi 1936, 1937 og 1939, Frjálsri verslun 1944 og Bankablaðinu 1944. Einnig var iðulega vikið að Cassel í blöðum. Má segja, að hann hafi verið helsti fræðilegi talsmaður frjálshyggju á Íslandi, uns Ólafur Björnsson hóf upp sína raust, og væri vel þess virði að endurprenta greinar hans á bók, því að þær eldast vel.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. ágúst 2025.)
28.8.2025 | 03:44
Hlaðvarp með Gísla Frey
Ég var í hlaðvarpi Gísla Freys Valdórssonar, Þjóðmálum, 27. ágúst 2025, þar sem ég svaraði þeim spurningum, hvað væri frjálshyggja og hverjar væru helstu röksemdirnar fyrir henni. Hvert á hlutverk ríkisins að vera? Hvers vegna ber að styðja einkaeignarrétt? Hvers vegna er eftirsóknarvert, að í landinu sé talsvert af ríku fólki? Hver er leiðin út úr fátækt?
20.8.2025 | 06:54
Heimspekiprófessor hafnar málfrelsi
Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir fimmtíu árum, fyrst í Reykjavík, síðan í Oxford, greindi kennara mína á um margt. En þeir voru allir undantekningarlaust hlynntir málfrelsi og þá líka og raunar ekki síst málfrelsi þeirra, sem þeir voru ósammála. Málfrelsi virtist vera eitt þeirra gilda, sem talin voru sjálfsögð, jafnvel eitt helsta verðmæti vestrænnar menningar, sem verja skyldi með ráðum og dáð. Heimspekin átti umfram allt að vera frjáls rannsókn og rökræða. Til dæmis gerði Páll Skúlason heimspekiprófessor strangan greinarmun á ofbeldi og skynsemi. Ofbeldisseggir vildu ekki ræða mál með rökum. Þeir gátu aðeins steytt hnefa, öskrað, barið mann og annan. Nú er öldin önnur. Finnur Dellsén heimspekiprófessor hafnar málfrelsi, fyrst í færslu á Facebook, síðan í grein í vefblaðinu Vísi.
Ofbeldisseggirnir skertu málfrelsi og rannsóknafrelsi
Tilefni skrifa Finns er, að ísraelskum fræðimanni á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga, hagfræðiprófessornum Gil S. Epstein, var boðið að halda fyrirlestur í Háskóla Íslands 6. ágúst 2025 um hið forvitnilega fræðasvið sitt. Stóð Rannsóknastofnun um lífeyrismál að viðburðinum, sem Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor átti að stjórna. Fimmtán menn, þar á meðal nokkrir starfsmenn Háskólans með Ingólf Gíslason aðjúnkt í fararbroddi, ruddust inn í fyrirlestrasalinn í Þjóðminjasafni með mótmælaspjöld. Þegar fundarstjóri og fyrirlesari reyndu að tala, öskruðu hinir óboðnu gestir á þá, svo að ekki heyrðist mannsins mál. Gekk á þessu í tuttugu mínútur, uns Gylfi sá sér þann kost einan að slíta fundi. Seinna um daginn skrifaði ég á Facebook, að rektor yrði auðvitað að áminna Ingólf fyrir virka tilraun með ofbeldi til að hefta málfrelsi og rannsóknafrelsi innan Háskóla Íslands. Einnig gagnrýndi Kolbeinn H. Stefánsson dósent framferði hávaðaseggjanna og kvað það hugsanlega varða við siðareglur Háskólans.
Þótt Finnur segist vera að svara okkur Kolbeini, gerir hann það ekki. Ég sagði, að um væri að ræða tilraun með ofbeldi til að hefta málfrelsi og rannsóknafrelsi innan Háskóla Íslands. Finnur gerir sér lítið fyrir og endurskilgreinir ágreininginn eins og hann sé um akademískt frelsi háskólamanna, val þeirra á rannsóknarefnum, og skilgreinir slíkt frelsi þröngt sem frelsi frá afskiptum stjórnvalda. Síðan dregur hann þá ályktun af framferði hinna óboðnu gesta í Þjóðminjasafninu, að þeir hafi ekki reynt að hefta akademískt frelsi í þeim skilningi, og má það til sanns vegar færa. En þetta er samt ekkert svar. Aðalatriðið er, að hávaðaseggirnir voru ekki að mótmæla, eins og þeir hafa fullan rétt á að gera, trufli þeir ekki góða allsherjarreglu. Þeir voru að koma í veg fyrir, að fundarstjóri og fyrirlesari á viðburði í Háskólanum fengju að tala. Þeir voru að öskra þá niður, og þeim tókst það. Þeir voru að ógna. Þetta var fullkomið ofbeldi.
Finnur ver framferði ofbeldisseggjanna með því að segja það annað en það var. Ég var ekki aðeins að ræða um akademískt frelsi, heldur einnig og raunar aðallega um málfrelsi. En með framferði ofbeldisseggjanna var málfrelsi háskólamanna ekki aðeins skert, heldur líka rannsóknafrelsi, akademískt frelsi. Einn þáttur í rannsóknafrelsi er einmitt, eins og Finnur hefur raunar sjálfur bent á í fjölda ritgerða, að fræðimenn geti setið saman og rökrætt í ró og næði, eins og ætlunin var að gera á þessum fundi í Þjóðminjasafninu. Orð getur sprottið af orði, nýjar hugmyndir kviknað. Ofbeldisseggirnir komu ekki aðeins í veg fyrir, að Epstein fengi að tala, heldur hindruðu þeir líka frjóa rökræðu við hann um brýn viðfangsefni eins og gervigreind og lífeyrisskuldbindingar, en talið er, að allt að helmingur núverandi starfa í hagkerfum Vesturlanda geti horfið vegna gervigreindar.
Rökin fyrir málfrelsi rifjuð upp
Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir fimmtíu árum, tóku kennarar mínir góð og gild rökin fyrir málfrelsi, eins og John Stuart Mill setti þau fram í öðrum kafla Frelsisins frá 1859. Bönnuð skoðun gæti í fyrsta lagi verið rétt, en með banninu hefði mannkyn verið svipt henni, auk þess sem yfirvöld væru ekki óskeikul. Mörg dæmi væru þess, að yfirvöld hefðu bannað réttar skoðanir, til dæmis þær að jörðin væri í laginu eins og hnöttur og að hún snerist í kringum sólina, en ekki öfugt. Eppur si muove. Í öðru lagi gæti bönnuð skoðun verið röng. En hana ætti samt að umbera, sagði Mill, því að rétt skoðun efldist, þegar hún sætti andmælum og og öðlaðist þá nýtt líf. Benti hann í því sambandi á, að kaþólska kirkjan skipaði jafnan andmælanda, advocatus diaboli, þegar taka skyldi mann í dýrlingatölu, og átti hann að leita að rökum gegn því. Í því sambandi má minna á orð Georges Orwells: Hafi frelsi almennt einhverja merkingu, þá er það rétturinn til að segja fólki það, sem það vill ekki heyra. Í þriðja lagi hélt Mill því fram, að andstæðar skoðanir gætu geymt í sér hvor sinn hluta sannleikans, og væri því hollt að hafa þær báðar í huga. Hvað hefur breyst, frá því að mér var kennt þetta fyrir fimmtíu árum?
Svipuð hugsun og í riti Mills kemur fram í frægum vísuorðum danska skáldsins Grundtvigs árið 1836 um, að málfrelsið væri ekki síður frelsi Loka en Þórs. Með því átti Grundtvig við, að hlusta þyrfti á rök, jafnvel þótt þau kæmu frá alræmdum bragðaref, og reyna að hrekja þau í stað þess að varna honum máls af þeirri ástæðu einni, hver hann væri. Árið 1945 urðu fjörugar umræður um þessi vísuorð í Danmörku, því að kommúnistar vildu banna andlýðræðislegar skoðanir á meðal opinberra starfsmanna. Vildu þeir beinlínis hafna því, að frelsið ætti að vera frelsi Loka ekki síður en Þórs. Hinn virti lagaprófessor Poul Andersen skrifaði þá, að erfitt væri að skilgreina, hvaða skoðanir væru andlýðræðislegar, svo að best væri að halda sig við reglu Grundtvigs, en auðvitað að því tilskildu, að bannað væri að hvetja til ofbeldis eða beita því. Samkvæmt þessu átti tvímælalaust að virða málfrelsi fyrirlesarans, en Ingólfur Gíslason og aðrir upphlaupsmenn höfðu hins vegar ekki rétt á að hvetja til og beita ofbeldi, eins og þeir gerðu.
Rannsóknafrelsi í háskólum
Finnur Dellsén skilgreinir akademískt frelsi furðuþröngt. Það sé aðeins frelsi frá stjórnvöldum. Hér ætla ég ekki að ræða, hvort fulltrúar skattgreiðenda eigi að hafa einhvern íhlutunarrétt um, hvernig opinberu fé sé varið, enda snerist upphlaupið í Þjóðminjasafninu um annað. En margt annað getur beint eða óbeint skert rannsóknafrelsi háskólamanna. Þegar ég settist í félagsvísindadeild, komst ég til dæmis að því, að Evrópusambandið kostaði námskeið um Evrópumál. Hversu líklegt var, að gagnrýni á Evrópusambandið yrði þar sett fram af fullri sanngirni? Ég komst líka að því, að Þróunarsamvinnustofnun greiddi fyrir lokaritgerðir um þróunaraðstoð. Hversu líklegt var, að þar væri haldið á lofti þeirri sennilegu tilgátu, að svokölluð þróunaraðstoð væri oftast aðstoð án þróunar? Ég komst líka að því, að Alþýðusamband Íslands greiddi laun kennarans í námskeiði um vinnumarkaðinn, en hann var yfirlýstur marxisti, stéttabaráttusinni. Hversu líklegt var, að hann kenndi um þá niðurstöðu fjölmargra traustra rannsókna, að kjarabarátta hefði lítil sem engin áhrif á kjarabætur, heldur hlytust þær aðallega af hagvexti? Þess skal þó getið, að öllu þessu hefur verið hætt, og samkennarar mínir létu meira að segja eftir mér að hætta að tala ensku á deildarfundum.
Rannsóknafrelsi háskólamanna er svo sannarlega ekki aðeins frelsi frá stjórnvöldum, eins og Finnur segir. Ég skal nefna fleiri dæmi. Ég hélt erindi á ensku á alþjóðlegri ráðstefnu blaðamanna í Bifröst 1999 og gagnrýndi þar auðjöfur einn, sem átti þá sjónvarpsstöð og blöð. Ég setti útdrátt úr erindinu, auðvitað á ensku, á heimasíðu mína í Háskólanum. Auðjöfurinn ákvað árið 2004 að höfða meiðyrðamál gegn mér fyrir breskum dómstól, því að hann hefði hagsmuna að gæta í Bretlandi. Þótt dómur yfir mér þar ytra væri að lokum ógiltur, kostaði málið mig um 25 milljónir króna þá, en það væru um 70 milljónir króna nú. Alkunna er, að auðjöfrar um heim allan nota hótanir um kostnaðarsamar málsóknir í Bretlandi til að þagga niður í rithöfundum og blaðamönnum. Annar auðjöfur gekk á fund háskólarektors í desember 2009 til að krefjast þess, eins og hann sagði sjálfur blaðamönnum, að ég yrði rekinn frá Háskólanum. Gaf hann mér að sök að hafa á kaffistofu kennara sýnt samstarfsfólki mínu útprentun af vefsíðu, þar sem gagnrýnd var bankafyrirgreiðsla við hann í ljósi þess, að hann var með fjölskyldu sinni langstærsti skuldunautur bankanna fyrir hrun þeirra. Vitaskuld sinnti háskólarektor ekki kröfu auðjöfursins, enda ekki á hans valdi.
Hér hef ég aðeins nefnt nokkur dæmi af eigin reynslu. En ýmsar almennar hættur steðja að rannsóknafrelsi háskólamanna á okkar dögum. Vitað er, að þeir, sem fara yfir umsóknir úr rannsóknasjóðum, hafa gátlista: Er minnst á jafnrétti kynjanna í umsókninni? Eða hlýnun jarðar af mannavöldum? Ef svo er ekki, þá snarminnka líkur á, að umsóknir hljóti náð fyrir augum umsegjanda. Menn með skoðanir, sem eru óvinsælar í háskólaheiminum, eiga iðulega í erfiðleikum með að fá stöður eða styrki, og ritgerðum þeirra er hafnað í fræðitímaritum. Hver rannsóknin af annarri í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós, að í hug- og félagsvísindum eru vinstri sinnaðir háskólakennarar um það bil níu af hverjum tíu, en hægri sinnaðir einn af hverjum tíu. (Enn ein lífsreynslusaga: Þegar ég sótti um styrk í rannsóknasjóð Háskólans til að ganga frá bók minni um Íslenska kommúnista 19181998, var umsegjandi stjúpdóttir kommúnistaforingjans Svavars Gestssonar, og hún lagði auðvitað til, að umsókninni yrði hafnað, sem og varð.)
Skýlaust brot á siðareglum Háskólans
Mér virðist enn fremur einsætt eins og Kolbeini H. Stefánssyni, að þeir mótmælendur í Þjóðminjasafninu, sem starfa við Háskólann, hafi brotið siðareglur hans með framferði sínu í Þjóðminjasafninu, þótt Finnur Dellsén segi það fjarstæðukennt. Þeir komu með ofbeldi í veg fyrir, að fyrirlesari fengi að flytja erindi sitt og fundarmenn eftir það að setjast á rökstóla með honum. Með því brutu þeir til dæmis grein 3.1 í siðareglunum: Við virðum frelsi hvers annars til rannsókna og tjáningar á fræðilegri þekkingu og sannfæringu okkar. Þetta ákvæði hlýtur að eiga við um gestafyrirlesara ekki síður en starfsmenn Háskólans. Óeirðaseggirnir brutu líka grein 4.1: Við sýnum hvert öðru virðingu í framkomu, samskiptum, ræðu og riti og högum skoðanaskiptum á málefnalegan hátt. Enn fremur brutu þeir grein 6.2: Við rýrum ekki orðspor og trúverðugleika Háskólans með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög og reglur eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi.
Forsprakki óeirðanna, Ingólfur Gíslason, bar framan á sér aðgangskort sitt að Háskólanum. Nokkrir aðrir háskólamenn tóku þátt í ólátunum, sem áttu sér stað á venjulegum vinnutíma. Ég legg þó ekki eins mikið upp úr þessum skýlausu brotum á siðareglum Háskólans og hinu, sem er aðalatriði málsins, að þessir óeirðaseggir, hvort sem þeir störfuðu í Háskólanum eða ekki, reyndu beinlínis að svipta aðra málfrelsi og rannsóknafrelsi, og þeim tókst það í þetta sinn. Við það verður ekki unað. Það er beinlínis ískyggilegt, hversu mikið óþol sumir virðast hafa fyrir skoðunum annarra. Enski dómprófasturinn William Ralph Inge sagði: Óvinir frelsisins rökræða ekki, þeir skrækja og skjóta.
Á ekki að hlusta á Ísraelsmenn?
Í færslu sinni á Facebook segir Finnur Dellsén, að mótmælin hafi ekki beinst að Gil S. Epstein fyrir það, að hann sé Ísraelsmaður, heldur fyrir það, að hann hafi óbeint stutt stríðsrekstur Ísraels, því að háskólinn, sem hann starfi við í Ísrael, eigi margvíslega samvinnu við stjórnvöld. Hann hafi líklega tengst stríðsrekstrinum. Í grein sinni á Vísi bætir hann við þeirri röksemd, að fyrirlesarar eigi almennt ekki fortakslausan rétt á því, að menn þegi við boðskap þeirra. Það sé að vísu kurteisi, en hún getið vikið fyrir gildari sjónarmiðum. Eitt af þessum öðrum gildum sem við þurfum að vega á móti akademískri kurteisi er gildi þess að mótmæla hroðaverkum á borð við þjóðarmorðið sem nú er verið að fremja á Gaza fyrir allra augum.
Þessar röksemdir Finns eru í meira lagi hæpnar. Auðvitað voru mótmælendurnir í Þjóðminjasafninu að stöðva fyrirlestur Epsteins, af því að hann var Ísraelsmaður, ekki af því að hann tengdist líklega stríðsrekstri Ísraels beint eða óbeint. Þeir voru að stöðva fyrirlesturinn vegna þess, hver fyrirlesarinn var, en ekki vegna þess hvað hann hafði að segja. Raunar hefur seinna, eftir upphlaupið, fundist færsla á Netinu frá Epstein frá 23. nóvember 2023, þar sem hann bauð sem þáverandi deildarforseti félagsvísindasviðs háskóla síns þeim nemendum sínum, sem kvaddir höfðu verið í skyndingu í herinn vegna nýlegrar árásar Hamas á Ísrael, aðstoð vegna skólagjalda og annars kostnaðar. Ekkert var eðlilegra. Ráðist hafði verið á Ísrael, sem hafði fullan rétt á að verja sig, og deildarforsetinn bar umhyggju fyrir nemendum sínum.
Finnur fer síðan rangt með það, sem gerðist í Þjóðminjasafninu, þegar hann kveður regluna um kurteisi stundum víkja fyrir gildari sjónarmiðum. Það, sem gerðist, var ekki, að menn væru að mótmæla því, sem fyrirlesarinn sagði, heldur að þeir vörnuðu honum að taka til máls. Hann fékk ekki að segja neitt. Auðvitað eiga háskólakennarar ekki ófrávíkjanlegan rétt á því, að þagað sé við boðskap þeirra. En fylgja verður eðlilegum reglum. Þegar ég stundaði nám í Oxford, mótmælti ég stundum í fyrirlestrum boðskap vinstri sinnaðra kennara minna, þeirra Ronalds Dworkins og Amartya Sens, sérstaklega þegar þeir voru að hallmæla Margréti Thatcher og Ronald Reagan. En ég gerði það með því að rétta upp hönd, og þeir gerðu hlé á máli sínu, leyfðu mér að gera athugasemdir, brostu í kampinn og svöruðu síðan. Það er allt annað en að koma beinlínis í veg fyrir, að fundarstjórinn eða fyrirlesarinn fái að segja eitthvað. Í hvert sinn sem Gylfi Zoëga fundarstjóri reyndi að tala, var öskrað svo hátt, að ekki heyrðist mannsins mál. Á þessu gekk í tuttugu mínútur.
Hugtakið þjóðarmorð
Finnur Dellsén heldur því fram, að rétturinn til að mótmæla hroðaverkum á borð við þjóðarmorðið sem nú er verið að fremja á Gaza fyrir allra augum sé mikilvægari en rétturinn til þess, að kurteislega sé hlustað á fyrirlesara frá Ísrael. Enn fer hann rangt með. Menn hafa auðvitað fullan rétt á að mótmæla hernaðaraðgerðum Ísraels á Gasa-svæðinu. En þeir voru ekki að gera það í Þjóðminjasafninu. Þeir voru að svipta mann, sem hvergi kemur nærri þeim hernaðaraðgerðum, svo að vitað sé, málfrelsi, og þeir voru að takmarka rannsóknafrelsi áheyrenda hans, sem ætluðu að rökræða við hann um gervigreind og lífeyrisskuldbindingar. Það vekur hins vegar athygli, að þeir Finnur Dellsén og óeirðaseggirnir í Þjóðminjasafninu hafa hvergi mótmælt kveikjunni að stríðsátökunum, sem var hin villimannslega árás Hamas á Ísrael 7. október 2023, þar sem þeir myrtu börn, nauðguðu konum, drápu 1.200 manns og tóku gísla. Leyndu þeir ekki ódæðum sínum, heldur birtu hróðugir myndskeið af þeim á netinu.
Finnur nefnir orðið þjóðarmorð. Það hugtak varð til eftir seinni heimsstyrjöld. Það hefur ákveðna merkingu, sem er skipulögð útrýming þjóða eða þjóðabrota, þar sem ráðist er á menn fyrir það, hvað þeir eru, en ekki fyrir það, hvað þeir hafa gert. Skýrasta dæmið var tilraun nasista til að útrýma gyðingum. Hamas hefur á stefnuskrá sinni þjóðarmorð, því að þeir vilja útrýma Ísraelsríki. Raunar má segja svipað um yfirráðasvæði Palestínu-Araba á vesturbakkanum, þar sem menn fá sérstök verðlaun, drepi þeir gyðinga, og ef þeir falla sjálfir, þá fá fjölskyldur þeirra eftirlaun. Ísrael verður hins vegar ekki sakað með réttu um þjóðarmorð. Raunar hefur Palestínu-Aröbum fjölgað úr tveimur í fimm milljónir síðustu þrjátíu árin. Átökin á Gasa eru vissulega átakanleg, og margir saklausir óbreyttir borgarar, þar á meðal konur og börn, hafa fallið þar eins og í öllum stríðsátökum, en fleiri en ella hafa fallið á Gasa, af því að Hamas notar óbreytta borgara sem lifandi skildi. Vígamenn þeirra leynast á meðal þeirra.
Aðdragandi stríðsátakanna
Hinn mikli glæpur fyrirlesarans í Þjóðminjasafninu er, að hann er Ísraelsmaður og telur ríki sitt hafa átt rétt á að verja sig gegn hinni hroðalegu árás Hamas 7. október 2023. En auðvitað eiga átökin sér miklu lengri aðdraganda. Í Ísrael eru hin fornu heimkynni gyðinga, en þeir voru hraktir burt í nokkrum lotum, meðal annars eftir ósigur gegn Rómverjum árið 73 e. Kr. og eftir að Arabar hertóku landið árið 638 e. Kr. Gyðingar urðu líka illa úti í krossferðunum, og þegar Tyrkjasoldán lagði landið undir sig árið 1517, bjuggu aðeins nokkur þúsund þeirra þar. Gyðingar dreifðust um allan heim, en sættu víða ofsóknum. Með Upplýsingunni á átjándu öld linnti slíkum ofsóknum nokkuð, en þær hófust aftur seint á nítjándu öld, ekki síst vegna þess að háskólar tóku upp inntökupróf, þar sem gyðingar stóðu sig vel og vöktu öfund annarra. Jafnframt vegnaði þeim víða vel fjárhagslega, eftir að þeir fengu full borgaraleg réttindi, sem enn varð til að auka á öfund annarra. Loks komust sumir forystumenn þeirra að þeirri niðurstöðu, að aðlögun að siðum annarra þjóða væri ætíð dæmd til að mistakast, svo að þeir yrðu að stofna eigið ríki. Fyrstu gyðingarnir til að snúa aftur til Ísraels komu upp úr 1880. Þá var landið strjálbyggt, Arabar hírðust flestir í hreysum í þorpum, og Bedúínar flökkuðu um á úlföldum. Keyptu gyðingarnir sér land og græddu upp eyðimerkur. Smám saman fjölgaði gyðingum í landinu, en það varð umboðssvæði Breta eftir fyrri heimsstyrjöld. Ríki heims skiptust þá í tvennt, þau, sem vildu losna við gyðinga, og hina, sem vildu ekki taka á móti þeim. Voru gyðingar orðnir um þriðjungur landsmanna í lok Seinni heimsstyrjaldar.
Þá lögðu Sameinuðu þjóðirnar til, að landinu yrði skipt í tvö ríki, gyðinga og Araba. Gyðingar samþykktu það, en Arabaríkin ekki, og þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948, réðust fimm Arabaríki á það. Ísrael vann sigur á ofureflinu, en Jórdanía hernam vesturbakka Jórdanár og Egyptaland Gasa-svæðið. 800 þúsund gyðingar flýðu frá Arabaríkjunum til Ísraels og 700 þúsund Arabar frá Ísrael til Arabaríkjanna, sem veittu þeim ekki ríkisborgararétt, heldur geymdu þá í flóttamannabúðum. Margir Arabar urðu þó eftir í Ísrael, og eru þeir nú um tvær milljónir og njóta fullra réttinda. Í sex daga stríðinu árið 1967 hernam Ísrael Gasa-svæðið og vesturbakkann, en veitti síðar báðum svæðunum sjálfstjórn. Árið 2005 hvarf Ísraelsher burt frá Gasa-svæðinu, en íbúarnir kusu ári síðar yfir sig Hamas hryðjuverkasamtökin, sem hafa ekki haldið kosningar eftir það, heldur hafa stjórnað af hörku og meðal annars myrt marga arabíska keppinauta sína um völd. Ísraelsríki hefur hins vegar blómgast og dafnað, meðal annars vegna háþróaðs hugbúnaðargeira.
Hver er undirrótin?
Undirrót vandans er auðvitað, að eftir stríðið 1948 var flóttamönnum frá Ísrael ekki leyft að setjast að í Arabaríkjunum og hefja nýtt líf, heldur voru þeir geymdir í sérstökum búðum, þar sem eina iðja þeirra var að taka á móti matargjöfum og hata Ísrael. Á tuttugustu öld eru því miður mörg dæmi um, að tvær þjóðir hafi ekki unað því að búa saman í einu landi. Tyrkir ráku eina milljón grískumælandi manna burt árið 1922. Eftir Vetrarstríðið 19391940 flúðu 400 þúsund Finnar til Finnlands af þeim svæðum, sem Rússar lögðu undir sig. Tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar frá löndum Mið- og Austur-Evrópu árið 1945. Ein milljón frönskumælandi manna var rekin frá Alsír árið 1962. Allt var þetta sorglegt. En það er aðeins, þegar gyðingar eiga í hlut, að tíminn fær ekki að græða sárin. Hamas hryðjuverkasamtökin nærast á því hatri, sem til varð í flóttamannabúðunum. Þau vilja útrýma Ísrael. Árið 1945 var talið nauðsynlegt að ganga milli bols og höfuðs á nasistum, jafnvel þótt það hlyti að bitna á óbreyttum borgurum í Þýskalandi (en talið er, að allt að þrjár milljónir þeirra hafi fallið í Seinni heimsstyrjöld). Hamas eru engu betri en nasistar, og Ísraelsmenn eru ráðnir í að ganga milli bols og höfuðs á þeim, jafnvel þótt það hljóti að bitna á óbreyttum borgurum, en margir reyna að koma í veg fyrir, að þeir fái að sigra í þessu stríði.
Mannskæð átök eru um allan heim. Um þessar mundir er háð hrottalegt borgarastríð í Súdan, þar sem rösklega ellefu milljónir manna eru innan landsins á flótta undan stríðandi fylkingum, en fjórum milljónum hefur tekist að flýja til grannríkjanna. Uppreisnarherinn reynir skipulega að útrýma Masalítum, sem er minnihlutahópur á Vestur-Darfur svæðinu, og virðist þar vera um tilraun til þjóðarmorðs að ræða. Hvers vegna er sjaldan á þetta minnst, þótt Tómas hafi ort, að hjörtunum svipi saman í Súdan og Grímsnesinu? Ég held, að skýringin sé einföld. Hatrið á Ísrael er trúarlegs eðlis og snýst ekki um neinar staðreyndir eða lögmál. Ísrael er eina vestræna ríkið á þessum slóðum, og þeir Vesturlandabúar, sem hafna heimi sínum, líður illa í eigin landi, telja sig hafa orðið undir í lífinu, hata það þess vegna. Þeirra gömlu draumríki eru horfin. Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur, Kína hafnaði kommúnismanum, og á Kúbu og í Norður-Kóreu stjórnar erfðaaðall, ættirnar Castro og Kim. Palestína er hið nýja draumríki, og barátta Palestínu-Araba gegn Ísrael verður um leið barátta róttækra vinstri manna á Vesturlöndum gegn öllu því, sem þeir hata. Hún verður barátta gegn frjálsum viðskiptum, einkaeignarrétti, takmörkuðu ríkisvaldi, vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda, hagvexti, fólki, sem vegnar vel.
(Grein í Morgunblaðinu 20. ágúst 2025.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:02 | Slóð | Facebook
31.7.2025 | 15:01
Cssel og heimskreppan
Oftast er rætt um þrjár skýringar á heimskreppunni 1929-1933. Ein er kennd við austurríska skólann í hagfræði, að niðursveifla sé jafnan afleiðing fyrri uppsveiflu, sem orðið hafi vegna útlánaþenslu og rangra fjárfestinga. Niðursveiflan sé því aðeins nauðsynleg leiðrétting uppsveiflunnar, og ríkið eigi að láta markaðinn um úrlausnir.
Keynes lávarður setti fram aðra skýringu, að atvinnuleysi gæti verið jafnvægisástand frekar en skammtímafyrirbæri, því að sparnaður skilaði sér ekki allur í fjárfestingar, svo að ríkið yrði með verulegum opinberum framkvæmdum að tryggja fulla atvinnu.
Milton Friedman kom orðum að þriðju skýringunni, að seðlabanki Bandaríkjanna hefði horft upp á það aðgerðalaus, að peningamagn í umferð minnkaði þar í landi um þriðjung árin 1929-1933, en með því hefði hagsveifla niður á við breyst í heimskreppu. Seðlabankar ættu að bæta úr skyndilegum lausafjárskorti með seðlaprentun og kaupum á bankabréfum (eins og gert var í lausafjárkreppunni 2007-2009).
Fæstir vita, að hinn kunni sænski hagfræðingur Gustav Cassel (1866-1945) setti fram fjórðu skýringuna: Kreppuna mætti rekja til þess, að seðlabankar hefðu eftir stríð snúið aftur á gullfót, en safnað til sín gulli og geymt í sjóði, og við það hefði peningamagn í umferð dregist saman og valdið verðhjöðnun og að lokum heimskreppu. Engin mótsögn er milli skýringa Cassels og Friedmans, þar sem Cassel lýsti því aðallega, hvað hleypti kreppunni af stað árin 1929-1930, en Friedman hinu, hvernig hún snarversnaði með gjaldþrotahrinu bandarískra banka og minnkun peningamagns í umferð af þeim sökum árin 1930-1933.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2025.)
31.7.2025 | 14:57
Röng hagfræði
Danski hagfræðingurinn Jens Warming, sem fyrstur greindi ofveiðivandann í sjávarútvegi, var hallur undir georgisma, kröfuna um, að ríkið gerði alla auðlindarentu upptæka, því að eigendur auðlinda sköpuðu hana ekki, heldur náttúran og almenningur í sameiningu. Hann var þó nógu mikill hagfræðingur til að sjá, að skárra væri að leyfa rentunni að renna til einstaklinga en að hún færi í súginn í of miklum kostnaði. En furðulegt er að sjá nokkra íslenska hagfræðinga halda uppi merki georgismans í sjávarútvegi. Hagfræði þeirra er af mörgum ástæðum röng.
1. Þegar miðunum var lokað var valið um að úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu eða bjóða þær upp. Fyrri leiðin var Pareto-hagkvæm, enginn skaðaðist á henni, og sumir græddu. Uppboð hefði hins vegar gert skip, veiðarfæri og veiðikunnáttu þeirra, sem hefðu orðið frá að hverfa í uppboðinu, verðlaust í einni svipan.
2. Enginn réttur var tekinn af öðrum með því að loka miðunum og úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu annar en rétturinn til að gera út á núlli, en Warming sýndi einmitt fram á, að við opinn aðgang hlyti sókn að aukast upp að því marki, að öll auðlindarenta færi í súginn.
3. Það er álitamál, hvort rentukenning Ricardos standist, eins og Frank H. Knight benti á. Breytilegt er, hversu mikið auðlind getur gefið af sér. Eigendur eiga sinn þátt í að skapa rentuna.
4. Ef útgerðarmenn geta gengið að því vísu, að þeir eigi aflaheimildirnar, þá hafa þeir hag af því, að auðlindin, fiskistofnarnir, skili hámarksarði til langs tíma litið. Ef þeir þurfa að leigja þær af ríkinu, þá hafa þeir ekki lengur þennan hag og hegðun þeirra breytist til hins verra.
5. Útgerðarmenn eru líklegri en stjórnmálamenn og skriffinnar til að ávaxta fiskveiðirentuna skynsamlega. Hún stækkar hraðar í meðförum þeirra. Almenningur nýtur síðan góðs af í fjárfestingum þeirra og neyslu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2025.)
31.7.2025 | 14:53
Thorens-kastali, júlí 2025
Thorens-kastali stendur hár og gnæfur í Suðaustur-Frakklandi, skammt frá landamærum Svisslands og Ítalíu, við gamlan þjóðveg, gegnt Alpafjöllum. Þar var haldinn sumarháskóli hugveitunnar New Direction í Brussel dagana 30. júní til 4. júlí, sem fimmtíu ungmenni hvaðanæva úr Evrópu sóttu, og talaði ég þar um um norrænar rætur frjálshyggjunnar.
Ég rakti tvær stjórnmálahugmyndir í verkum Snorra Sturlusonar, að valdhafinn verði að hafa umboð þjóðarinnar og að hún megi setja hann af, virði hann ekki hin gömlu, góðu lög, sem myndast hafi við sammæli kynslóðanna. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar fornu hugmyndir í kerfi til réttlætingar byltingarinnar blóðlausu í Bretlandi 1688.
Ég minnti á, að 1765, ellefu árum áður en Adam Smith gaf út sitt mikla rit um auðlegð þjóðanna, hafði finnskur prestur sænskumælandi, Anders Chydenius, sett fram svipaða hugmynd um verðmætasköpun í krafti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, en Chydenius var einnig ötull baráttumaður fyrir málfrelsi og trúfrelsi.
Ég lýsti síðan kenningum danska skáldsins og prestsins Nikolais F.S. Grundtvigs, sem taldi brýnt, þegar Danakonungur afsalaði sér valdinu til þjóðarinnar árið 1848, að þjóðin hlyti fræðslu og menntun, bændur lærðu að vera ábyrgir þátttakendur í lýðræðisríkinu, og það gætu þeir gert í lýðháskólum. Grundtvig var frjálslyndur þjóðernissinni, en þjóðernishyggja hans fól ekki í sér yfirgang eða áreitni í garð annarra þjóða eða þjóðabrota.
(Fróðleiksmoli í Morgnblaðinu 5. júlí 2025.)