Gamansemi Grundtvigs um Íslendinga

standard_N-f-s-grundtvig-portræt.v1Einn merkasti Dani allra tíma var Nikolaj F. S. Grundtvig, prestur, sálmaskáld, fornfræðingur, þýðandi, skólamaður, stjórnmálakappi og þjóðmálafrömuður. Hann lagði líklega mest allra af mörkum við að skilgreina og jafnvel skapa danska þjóðarsál, en tvær göfugustu birtingarmyndir hennar voru, þegar öll danska þjóðin tók höndum saman árið 1943 um að bjarga dönskum Gyðingum undan hrammi nasista og þegar Danir skiluðu árið 1971 og lengi eftir það Íslendingum fornum handritum, sem þeir höfðu þó fengið löglega.

Á dögum Grundtvigs var Slésvíkurmálið eitt erfiðasta úrlausnarefni Dana. Konungur Dana var jafnframt hertogi Slésvíkur og Holtsetalands. Holtsetaland var í þýska ríkjasambandinu, en Slésvík ekki. Holtsetaland var alþýskt, en um helmingur Slésvíkurbúa talaði dönsku og hinn helmingurinn þýsku. Palmerston lávarður, forsætisráðherra Breta, andvarpaði, þegar minnst var á Slésvíkurmálið: „Það eru ekki nema þrír menn, sem hafa skilið það, Albert drottningarmaður, sem er látinn, þýskur prófessor, sem gekk síðan af vitinu, og ég, og ég hef gleymt öllu um hana.“ Grundtvig vildi leysa málið með því að skipta Slésvík eftir vilja íbúanna, en fékk dræmar undirtektir landa sinna, sem vildu óðfúsir innlima Slésvík alla, líka svæði þýskumælandi manna. Eitt sinn sagði Grundtvig þó í gamni við prófessor Carsten Hauch: „Væri ekki ráð að flytja Slésvíkinga til Íslands og Íslendinga til Slésvíkur? Þá yrði langt í það, að Íslendingarnir yrðu fyrir þýskum áhrifum, og þeir gætu orðið traustir landamæraverðir.“

Auðvitað sagði Grundtvig þetta í gamni. Slésvíkurmálinu lauk í bili árið 1864 með því, að Prússar og bandamenn þeirra lögðu undir sig Slésvík og Holtsetaland eftir blóðuga bardaga við Dani. (Um þetta hafa verið gerðir áhrifamiklir sjónvarpsþættir undir nafninu 1864.) En raunar leystist málið að lokum eins og Grundtvig vildi, þegar íbúar Norður-Slésvíkur greiddu atkvæði um það árið 1920, hvort þeir yrðu í Danmörku eða Þýskalandi, og völdu hinir dönskumælandi Slésvíkingar Danmörku, svo að landamærin færðust friðsamlega suður á bóginn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband