Landsfeður, leiðtogar, fræðarar, þjóðskáld

JonSigurdssonAnthony D. Smith, sem var sérfræðingur um þjóðernismál, skilgreindi þjóð sem heild með eigið nafn og afmarkað landsvæði, þar sem íbúar deila arfleifð minninga, goðsagna, tákna, verðmæta og hefða, halda uppi sérstakri menningu og fara eftir sömu lögum og venjum. Samkvæmt því voru Íslendingar þegar á þjóðveldisöld sérstök þjóð. Smith sagði einnig, þegar um þjóðlega vakningu væri að ræða, eins og víða varð á nítjándu öld, að þá spryttu upp landsfeður (eða landsmæður), sem vitnað væri til, leiðtogar, sem veittu forystu, fræðarar, sem settu saman bækur, og þjóðskáld, sem legðu heildinni orð á tungu. Í Frakklandi væri til dæmis Jóhanna af Örk landsmóðirin, Napóleon leiðtogi, Michelet fræðari og Hugo þjóðskáld. Það er umdeilanlegt (Napóleon var ekki einu sinni Frakki!), og enn umdeilanlegri er kenning Smiths um Noreg: Snorri og Ólafur Tryggvason væru landsfeður, Bjørnson leiðtogi, Wergeland fræðari og Ibsen þjóðskáld. Snorri var Íslendingur, og Ólafur helgi er almennt talinn hinn norski landsfaðir. 

Þótt Smith nefndi ekki Ísland, er ábending hans skemmtileg. Hverjir myndu hér gegna þessum hlutverkum? Þeir Þorgeir Ljósvetningagoði og Einar Þveræingur væru landsfeðurnir, því að þeir lýstu sérstöðu Íslendinga í frægum ræðum. Leiðtoginn væri Jón Sigurðsson, sem taldi Ísland hvorki vera skattland, hjálendu né nýlendu, heldur sérstakt land í konungssambandi við Dani. Fræðarinn væri Sigurður Nordal, sem reyndi markvisst að skilgreina og jafnvel skapa séríslenska menningu. Þjóðskáldið væri Jónas Hallgrímsson, sem endurnýjaði íslenska tungu, þótt tvö helstu kvæði hans í anda rómantískrar þjóðernishyggju ættu sér erlendar fyrirmyndir: „Ísland“ var keimlíkt kvæði eftir Adam Oehlenschläger og „Gunnarshólmi“ kvæði eftir Adelbert von Chamisso. En dæmi Jónasar sýnir best, að þjóðernishyggja og alþjóðahyggja þurfa ekki að vera andstæður. Erlend áhrif geta frjóvgað og auðgað þjóðlega menningu. Best fara þeir að ráði sínu, sem eru þjóðræknir heimsborgarar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. mars 2023. Teikningin af Jóni Sigurðssyni er eftir Gunnar Karlsson.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband