19.12.2022 | 20:54
Tjörvi Schiöth um landsdómsmálið
Þórarinn Hjartarson tók við mig hressilegt viðtal í hlaðvarpi sínu, og er helmingurinn aðgengilegur án endurgjalds, en hinn helmingurinn krefst áskriftar. Þar ber Þórarinn upp ýmis sjónarmið vinstri manna. Þegar hann vakti athygli á þessu á Facebook-vegg sínum, kom fram maður að nafni Tjörvi Schiöth og sagði:
Hver nennir að hlusta á HHG nema hörðustu hægrimenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins?
Ég svaraði:
Þetta á ekki að snúast um manninn, heldur um röksemdirnar, sem hann færir fram.
Tjörvi svaraði:
Það hafa allir heyrt þínar röksemdir margoft áður. Þú ert búinn að vera að halda þeim fram í hartnær 30 ár.
Þá svaraði ég:
Þessi bók er ekki um stjórnmálaskoðanir mínar, sem ég hef haldið fram í fimmtíu ár, ekki þrjátíu, heldur um landsdómsmálið, og þar bendi ég á ýmsar áður ókunnar staðreyndir og sjónarmið. Meðal annars held ég því fram, að lögmál réttarríkisins hafi verið brotin: In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn (vafi hafi verið á túlkun stjórnarskrárákvæðis, sem Geir var talinn brjóta); Nullum crimen sine lege, enga sök án laga (lögum var beitt afturvirkt til að geta sakað Geir um vanrækslu); Ne bis in idem, ekki aftur hið sama (rannsóknarnefnd Alþingis hafði rannsakað sum ákæruatriðin og ákveðið að gera þau ekki að ásökunarefnum). Jafnframt leiði ég rök að því, að einn dómandinn í Hæstarétti hafi tvímælalaust verið vanhæfur af mörgum samverkandi ástæðum, en tveir aðrir líklega einnig vanhæfir. Þetta er ekkert, sem ég hef sagt í þrjátíu ár, ekki einu sinni í þrjú ár, heldur í fyrsta skipti í þessari bók.
Í Facebook-síðu sinni segist Tjörvi þessi stunda nám í hugmyndasögu í Háskóla Íslands. En hann virðist ekki hafa neinn áhuga á hugmyndum, heldur búa í einhverjum bergmálsklefa. Með því þrengir hann auðvitað eigin sjóndeildarhring. Um slíka menn orti Steinn Steinarr:
Þá brá ég við
og réði mann til mín
sem múraði upp í gluggann.
Það er greinilega múrað upp í alla glugga í bergmálsklefanum hjá Tjörva.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Facebook