Lilja Rafney um landsdómsmálið

Lilja Rafney Magnúsdóttir var einn þeirra þingmanna, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde fyrir landsdómi. Hún vildi ekkert við mig tala, þegar ég skrifaði bók mína um landsdómsmálið, en hún skrifaði nýlega athugasemd í umræðum á Facebook-vegg Stefáns Pálssonar, sem hafði haldið því fram, að ákæran hefði ekki verið neitt sérstakt kappsmál Vinstri grænna:

Góð greining á veruleikanum á þessum tíma Stefán Pálsson Þar sem ég sat með Atla í viðkomandi þingnefnd og öll rök færustu lögspekinga sem komu fyrir nefndina voru skýr að mál viðkomandi ráðherra ættu að fara í réttan farveg sem lög um ráðherraábyrgð gera ráð fyrir það er Landsdóm. Margir hafa lagt lykkju á leið sína til að endurskrifa söguna í pólitískum tilgangi því miður.

Ég svaraði henni:

Það var auðvitað furðulegt, eins og ég bendi á í bók minni, að þið í þingmannanefndinni skylduð bæta við þremur sakarefnum (stjórnarskrárbroti fjögurra ráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu á sakamannabekk og Icesave-málinu hjá Árna M. Mathiesen) án þess að gera neina rannsókn á þeim. Rannsóknarnefnd Alþingis hafði einmitt tekið allt þrennt til athugunar og horfið frá ásökunum um þau. Af hverju bættuð þið þeim við og með hvaða rökum? Og það voru ekki „öll rök færustu lögspekinga“, að það ætti að ákæra. Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, taldi ekki forsendur til að ákæra, og í rauninni staðfesti landsdómur með sýknudómum sínum um öll efnisleg atriði álit hans, en ekki hinna „lögspekinganna“, sem gáfu ykkur ráð. Og það er eins og ekkert ykkar hafið veitt því athygli, að ákúrur eða ásakanir rannsóknarnefndarinnar um vanrækslu voru með skírskotun til laga, sem sett voru EFTIR bankahrunið, með öðrum orðum afturvirkt, sem er brot á lögmálum réttarríkisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband