22.10.2022 | 13:17
Minningardagur um fórnarlömb
Árið 2009 samþykkti þing Evrópusambandsins, að 23. ágúst yrði árlegur minningardagur fórnarlamba alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma. Sumir fræðimenn hafa að vísu andmælt því, að kommúnismi skuli lagður að jöfnu við nasisma. Hann hafi aðeins miðað að því að útrýma stéttaskiptingu án þess nauðsynlega að útrýma einstaklingum úr þeim stéttum, sem áttu að hverfa. Nasisminn hafi hins vegar miðað að því að útrýma einstaklingum, sem fæddir voru inn í hópa eins og gyðinga og sígauna. En þessi munur er fræðilegur frekar en raunhæfur. Lítið barn, sem Stalín lét svelta til bana í Úkraínu, af því að það var komið af sjálfseignarbændum (kúlökkum), átti ekki síður heimtingu á að lifa en lítið barn af gyðingaættum, sem Hitler lét myrða í gasklefunum í Asuchwitz. Líklega féllu um 100 milljónir manns á tuttugustu öld af völdum kommúnista og um 20 milljónir af völdum nasista.
Dagurinn 23. ágúst var ekki valinn af neinni tilviljun. Þennan dag árið 1939 voru hakakrossfánar dregnir að hún á Moskvuflugvelli, og lúðrasveit lék þýska þjóðsönginn, Deutschland über alles, um leið og utanríkisráðherra Hitlers, Joachim von Ribbentrop, steig út úr flugvél sinni. Hann var kominn til að undirrita griðasáttmála, sem Stalín og Hitler höfðu gert, en með honum skiptu þeir á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Í hlut Stalíns komu austurhluti Póllands, Finnland, Eystrasaltsríkin og Moldova (þá nefnd Bessarabía), en í hlut Hitlers vesturhluti Póllands, jafnframt því sem hann fékk frjálsar hendur í Mið-Evrópu. Finnar vörðust hins vegar svo snarplega, að Stalín hætti við að innlima landið og gerði við þá friðarsamninga, þar sem þeir urðu að láta af hendi talsverð landsvæði. Sannaðist þar eins og fyrri daginn, að sagan er stundum hliðholl bestu skyttunum frekar en fjölmennustu hersveitunum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. ágúst 2022. Myndin er af undirritun griðasáttmálans.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook