22.10.2022 | 13:12
Dagar í Tbílísí
Dagana 11.15. ágúst dvaldist ég í Georgíu, mestallan tímann í höfuðborginni, Tbílísí. Mér varð þá hugsað til annars ferðalangs á þessum slóðum, Halldórs Kiljans Laxness, en hann hélt þar ræðu á rithöfundaþingi 27. desember 1937. Hann varð mjög hrifinn afKasakaskáldi, sem kynnt var fyrir honum á þinginu og hét Dzhambúl. Hann lofaði hinn tæra skáldskap Dzhambúls og sneri kvæðabálki eftir hann, þar sem sagði meðal annars:
Stalín, þú ert hinn voldugi faðir Dzhambúls.
Þetta er auðvitað raunhæf lýsing á miðstýrðum áætlunarbúskap, þar sem þeir, sem semja áætlanirnar, ákveða fyrir þjóðina, hvað hún geti og þurfi. Þeir eru söngvarar þjóðvísunnar. En Dzhambúl var ekkert annað en trúður, sem lék á dombru, og kvæðin fyrir hann voru sett saman á skrifstofu kommúnistaflokksins, eflaust yfir vænum skammt af vodka. Seinna áttu Guðmundur Böðvarsson og Thor Vilhjálmsson líka eftir að láta blekkjast af þessum samsetningi.
Eitt kvöldið sat Laxness veislu aðalritara kommúnistaflokksins á staðnum, Lavrentíj Bería. Að henni lokinni gengu Laxness og nokkrir aðrir rithöfundar á gistihús sitt skammt frá. Á leiðinni sáu þeir nokkur tötrum klædd flökkubörn sofa á gangstétt. Tilkynnt hafði verið opinberlega nokkrum árum áður, að engin flökkubörn væru lengur í Rússlandi, og hafði Laxness endurtekið það í bók um fyrri för sína í austurveg. Nú sagði einn ferðafélagi hans við leiðsögukonuna: Það sváfu flökkubörn þarna á götunni. Leiðsögukonan svaraði: Það eru engin flökkubörn lengur til hér í landi. Laxness þagði, yppti öxlum, sneri heim til Íslands og hélt áfram að reka áróður fyrir stalínisma.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. ágúst 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Facebook