Saga sigurvegaranna?

Á Söguþingi 2012 kvartaði Skafti Ingimarsson undan því, að ég hefði í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, verið að skrifa sögu sigurvegaranna í Kalda stríðinu og afgreitt íslenska kommúnista (og vinstri sósíalista) sem erindreka erlends valds. Skilja þyrfti íslenska kommúnista í stað þess að fordæma þá. Þetta er hæpið. Skökku skyti við, ef sagnfræðingar færu að skrifa sögu seinni heimsstyrjaldarinnar af skilningi og samúð með málstað nasista, enda komst Nürnberg-dómstólllinn að þeirri niðurstöðu, að samtök þeirra hefðu verið glæpsamleg.

Þó er sannleikskjarni í kvörtun Skafta. Auðvitað þarf að skýra, hvers vegna íslenskir kommúnistar náðu yfirhöndinni í baráttu við jafnaðarmenn árin 1937–1942 ólíkt því, sem gerðist í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, þar sem jafnaðarmenn voru miklu öflugri en kommúnistar. Ég reyni þetta í nýrri bók minni, Communism in Iceland, 1918–1998, og hef raunar áður vikið að málinu hér í Fróðleiksmolum.

Ein algeng skýring er hæfir leiðtogar. En ég fæ ekki séð, að leiðtogar kommúnista, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, hafi verið miklu hæfari en leiðtogar Alþýðuflokksins á þessum tíma, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Guðmundsson og Emil Jónsson, þótt eflaust hafi það spillt fyrir Alþýðuflokksmönnunum þremur, að þeir gegndu allir háum embættum, á meðan kommúnistarnir þrír lögðu sig alla í baráttuna.

Önnur skýring er afleikir andstæðinganna: Vinstri jafnaðarmenn á Íslandi hafi undir forystu Héðins Valdimarssonar verið einu norrænu jafnaðarmennirnir, sem tóku samfylkingarboði kommúnista upp úr 1935, en þegar Héðinn hafi viljað snúa aftur í árslok 1939, hafi Alþýðuflokkurinn ekki viljað taka við honum. Benjamín Eiríksson, vinur Héðins, hélt þessu fram við mig og benti á, að sænskir jafnaðarmenn hefðu fagnað endurkomu þeirra Zeths Höglunds og Fredriks Ströms, eftir að þeir misstu trúna á kommúnismann. Eflaust var Héðinn of trúgjarn og Alþýðuflokksforystan of óbilgjörn, en ég held samt, að þessi mistakakenning dugi lítt, enda gerðu leiðtogar kommúnista margvísleg mistök líka. Fleiri skýringa er þörf, þótt eitthvað sé til í þessum tveimur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. febrúar 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband