Lausnir Úkraínudeilunnar

Um þessar mundir takast Rússar og Úkraínumenn á. En þarf aflsmunur að ráða? Sagan geymir dæmi um friðsamlegar lausnir sambærilegra átaka.

Einn vandinn er, að í Austur-Úkraínu vilja rússneskumælandi menn vera í Rússlandi, en úkraínskumælandi menn vera í Úkraínu. Hér kemur danska lausnin til greina. Þjóðverjar tóku Slésvík af Dönum 1864, en í Norður-Slésvík var fjöldi manns dönskumælandi. Eftir ósigur Þjóðverja í heimsstyrjöldinni fyrri var íbúum svæðisins leyft að ráða hlutskipti sínu. Norður-Slésvík var skipt í tvo hluta. Í nyrðri hlutanum greiddu 75% kjósenda atkvæði með því að sameinast Danmörku. Í syðri hlutanum greiddu 80% kjósenda atkvæði með því að vera áfram í Þýskalandi. Farið var eftir þessum úrslitum og landamærin færð til friðsamlega. Mætti ekki færa landamæri Úkraínu og Rússlands til á sama hátt með samþykki og atbeina allra aðila?

Annar vandi er, að á Krímskaga kann meiri hluti íbúanna að vilja vera í Rússlandi, eins og Pútín heldur fram. En minnihlutahópar Úkraínumanna og Tatara búa líka á skaganum og eiga sinn rétt. Hér kemur svissneska lausnin til greina: að skipta Krím upp í sjálfstjórnareiningar, eins og kantónurnar í Sviss, og koma þannig í veg fyrir, að meiri hluti geti beitt minni hluta ofríki.

Þriðji vandinn er, að Úkraína vill vera vestrænt ríki, en Kremlverjar mega ekki heyra á það minnst, að það gangi í Evrópusambandið eða Atlantshafsbandalagið. Hér kemur íslenska lausnin til greina: að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu án þess að ganga í Evrópusambandið. Með því væru kostir frjálsra viðskipta og alþjóðlegrar verkaskiptingar nýttir án víðtækra stjórnmálaskuldbindinga. Því er að vísu haldið fram, að EES-ríkin hafi ólíkt ESB-ríkjunum engin áhrif á löggjöf um Evrópumarkaðinn. En í ESB eru smáríkin líka áhrifalaus. Frakkar og Þjóðverjar ráða þar öllu. Úkraína er eins og Ísland á jaðri Evrópu og á því frekar heima í EES en ESB.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband