17.2.2022 | 08:16
Frelsiskvöldverðurinn 2021
Atlas Network eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana um heim allan, sem kanna möguleika á sjálfsprottnu samstarfi í stað valdboðs að ofan, verðlagningar í stað skattlagningar. Breski athafnamaðurinn Sir Antony Fisher kom samtökunum á fót árið 1981, en hann hafði ungur hrifist af frelsisboðskap ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks og stofnað hina áhrifamiklu Institute of Economic Affairs í Lundúnum árið 1955. Samtökin halda árlega uppskeruhátíð hugmynda, Freedom Dinner, og sat ég hann í Miami í Florida-ríki 14. desember.
Hinn heimsfrægi perúski rithöfundur Mario Vargas Llosa, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2010, afhenti verðlaun, sem ætluð eru ungum blaðamanni, og hlaut þau Carla Gloria Colomé fyrir skrif sín um fjöldamótmæli Kúbverja síðast liðið sumar gegn kúgunarstjórn kommúnista, sem hafa á hálfri öld breytt Kúbu í eitt fátækasta land Rómönsku Ameríku. Í frelsiskvöldverðinum söng kúbverski rapparinn Yotuel lagið Patria y Vida, sem er baráttusöngur mótmælendanna.
Atlas Network veitir árlega sérstaka viðurkenningu þeirri stofnun innan samtakanna, sem þykir hafa tekið merkilegast frumkvæði. Er þessi viðurkenning kennd við fjárfestinn Sir John Templeton og nemur 100 þúsund Bandaríkjadölum. Nú fékk hana Centre for Civil Society í Nýju Delí fyrir viðleitni við að tryggja og auka frelsi og starfsöryggi indverskra götusala, en þótt þeir veiti nauðsynlega þjónustu, hafa afskiptasöm yfirvöld iðulega torveldað starfsemi þeirra.
Þriðju verðlaunin, sem veitt voru í frelsiskvöldverðinum, voru Sir Antony Fisher Achievement Award, og hlaut þau að þessu sinni dr. Tom Palmer, sem sér um alþjóðatengsl hjá samtökunum. Tom er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann hefur oft komið hingað til lands, en hann er áhugamaður um íslenskar fornbókmenntir. Í snjöllu þakkarávarpi sagði hann: Sætasti sigur okkar í rökræðu er ekki að yfirbuga andstæðinginn, heldur að hlusta á hann sex mánuðum eða sex árum seinna endurtaka röksemdir okkar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. janúar 2022.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook