Rússar loka Memorial-stofnuninni

Hæstiréttur Rússlands samþykkti 28. desember síðast liðinn kröfu ríkissaksóknara landsins um að loka Memorial-stofnuninni rússnesku, en tilgangur hennar er að halda á lofti minningu fórnarlamba kommúnismans og annarra alræðishreyfinga tuttugustu aldar. Var það haft að yfirvarpi, að stofnunin væri tengd erlendum aðilum. Saksóknari kvað stofnunina líka halda því ranglega fram, að Ráðstjórnarríkin hefðu verið hryðjuverkaríki, jafnframt því sem hún dreifði rógi um Föðurlandsstríðið mikla 1941–1945.

Memorial-stofnunin talar fyrir munn þeirra, sem varnað hefur verið máls. Nú reyna hins vegar Pútín og samstarfsmenn hans að falsa söguna, hylja slóð glæpanna. Ráðstjórnarríkin voru einmitt hryðjuverkaríki. Það var eðlismunur á einræði Rússakeisara og alræði kommúnista. Á tímabilinu frá 1825 til 1905 var 191 maður tekinn af lífi af stjórnmálaástæðum í Rússaveldi. Kommúnistar drápu margfalt fleiri fyrstu fjóra mánuðina eftir valdarán sitt í nóvember 1917. Talið er, að samtals hafi um tuttugu milljónir manna týnt lífi í Ráðstjórnarríkjunum af völdum þeirra, auk þess sem tugmilljónir manna hírðust árum saman við illan aðbúnað í þrælakistum norðan heimsskautsbaugs.

Það er síðan umhugsunarefni, að Rússar skuli kalla þátttöku sína í seinni heimsstyrjöld „Föðurlandsstríðið mikla“. Þess ber að minnast, að það var griðasáttmáli Stalíns og Hitlers, sem hleypti styrjöldinni af stað, en hann var undirritaður í Moskvu 23. ágúst 1939. Fram í júní 1941, þegar Hitler rauf sáttmálann og réðst á Rússland, voru þeir Stalín bandamenn. Eftir að Hitler lagði Frakkland að velli sumarið 1940, börðust Bretar einir (ásamt samveldislöndunum) gegn alræðisstefnunni. Þá voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Evrópu, Írland, Bretland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss.

Böðlarnir mega ekki fá að drepa fórnarlömb sín tvisvar, í seinna skiptið með þögninni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. janúar 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband