Málfrelsi og samfélagsmiðlar

Á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um netfrelsi í Róm 10.–12. desember rifjaði ég upp rökin fyrir mál- og hugsunarfrelsi. Bönnuð skoðun gæti verið rétt, og þá missir mannkynið mikils. Hún gæti verið röng, en þá er mönnum hollt að spreyta sig á því að hrekja hana. Og bönnuð skoðun gæti verið að sumu leyti rétt og að sumu leyti röng. En síðasta áratug hafa komið til sögu tveir öflugir samfélagsmiðlar, Facebook og Twitter, sem hafa skert málfrelsi notenda sinna verulega. Þeir takmörkuðu til dæmis mjög svigrúm til að segja fréttir af afritaðri tölvu Hunters Bidens forsetasonar og til að láta í ljós þá skoðun, að kórónuveiran væri upprunnin í kínverskri tilraunastofu. Nokkrum dögum áður en Donald Trump lét af forsetaembætti, lokuðu bæði fyrirtækin jafnvel reikningum hans.

Sagt er á móti, að þetta séu einkafyrirtæki og megi setja reglur um, hverjum þeir hleypi að. Réttur minn til að segja skoðun mína feli ekki í sér skyldu þína til að hlusta á mig eða hleypa mér að tækjum þínum. En í Róm hélt ég því fram, að vegna einokunaraðstöðu sinnar og eðlis væru þessi fyrirtæki almannamiðlar (common carriers) svipað og einkavegir, gistihús og símafyrirtæki. Þótt vegur sé í einkaeigu, má eigandinn ekki banna konum að aka um hann (eins og gert var í Sádi-Arabíu). Gistihús má ekki neita þeldökkum mönnum um afgreiðslu (eins og gert var í Suður-Afríku). Símafyrirtæki má ekki mismuna eftir trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Samkvæmt bandarískum lögum bera Facebook og Twitter ekki ábyrgð á því, hvað menn segja á þeim. En ef þeir taka upp ritskoðun, eins og þeir eru að gera (og þá aðallega á hægri mönnum), þá er eðlilegt, að þeir taki á sig slíka ábyrgð. Annaðhvort verða þeir að vera opnir og ábyrgðarlausir eða lokaðir og ábyrgir þeirra orða, sem á þeim falla.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. desember 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband