Hver var Snorri?

Ég tók þátt í skemmtilegri málstofu Miðaldastofu í Háskóla Íslands 2. desember um Snorra Sturluson. Þar skýrði ég, hvers vegna ég skipaði Snorra fremst í nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, ásamt heilögum Tómasi Akvínas. Ástæðan er sú, að þeir komu báðir orðum að kenningum, sem John Locke kerfisbatt síðar, þegar hann þurfti að færa rök fyrir byltingunni blóðlausu á Bretlandi 1688. Þessar kenningar voru, að konungar væru seldir undir sömu lög og aðrir og að setja mætti þá af, ef þeir virtu ekki þessi lög. Heimskringlu Snorra má lesa sem viðvörun við konungum, og kemur það skýrast fram í ræðu Þorgnýs lögmanns yfir Svíakonungi og ræðu Einars Þveræings á Alþingi. Raunar gengur Einar Þveræingur svo langt að segja, að Íslendingum sé best að hafa engan konung. Jafnframt benti ég á, að Egill Skallagrímsson væri einn fyrsti raunverulegi einstaklingurinn í mannkynssögunni, og á ég þá við, að hann stígur út úr móðu fjölskyldu, ættbálks og héraðs, reisir konungi níðstöng, steytir hnefa framan í goðin og á sér auðugt tilfinningalíf.

Sverrir Jakobsson sagnfræðiprófessor var andmælandi minn og flutti mál sitt með ágætum. Hann tók undir með mér um stjórnmálahugmyndirnar í Heimskringlu, en gerði aðallega ágreining um tvennt. Í fyrsta lagi væri alls óvíst, að Snorri hefði samið Egils sögu, eins og ég gengi að vísu. Í annan stað hefði Snorri í eigin lífi hegðað sér eins og konungsmaður frekar en andstæðingur konungs. Þótt ég telji sennilegt, að Snorri hafi samið Egils sögu (eins og flestir fornfræðingar), ætla ég ekki að hætta mér út í deilur um það. En ég lét hins vegar í ljós þá skoðun, að aðalheimildarmaðurinn um Snorra, frændi hans Sturla Þórðarson, væri hlutdrægur. Treysta ætti honum varlega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. desember 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband