28.6.2021 | 07:58
Hreyfing og flokkur þjóðernissinna
Sagnfræðingarnir Ragnheiður Kristjánsdóttir og Pontus Järvstad draga upp ranga mynd af fasisma á Íslandi í framlagi til bókarinnar Anti-Fascism in the Nordic Countries, sem kom út hjá Routledge árið 2019. Þau tala í fyrsta lagi um nasisma, ekki fasisma, en í þágu efnislegrar umræðu er eðlilegast að hafa orðið nasisma aðeins um hið þýska afbrigði fasismans.
Í öðru lagi segja þau Ragnheiður og Pontus, að Þjóðernishreyfing Íslendinga, sem stofnuð var vorið 1933, hafi verið fasistaflokkur. En Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur, sem rannsakað hefur þessa sögu manna mest, segir réttilega í Sögu 1976, að Þjóðernishreyfingin hafi ekki verið hreinræktaður fasistaflokkur, heldur sambland íhalds- og fasistaflokks.
Í þriðja lagi klofnaði einmitt Þjóðernishreyfingin fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1934. Margir félagar hennar töldu Sjálfstæðisflokkinn skárri kost en vinstri flokkana, og tóku tveir þeirra sæti á lista flokksins. Við það vildu hinir eiginlegu fasistar í Þjóðernishreyfingunni ekki sætta sig og stofnuðu Flokk þjóðernissinna, sem bauð fram í bæjarstjórnarkosningum 1934 og 1938 og í alþingiskosningum 1934 og 1937, en hlaut sáralítið fylgi.
Þjóðernishreyfingin var leyst upp vorið 1934, enda hafði hún frekar verið málfundafélag en stjórnmálaflokkur. Hins vegar má vissulega telja Flokk þjóðernissinna fasistaflokk, þótt stækur andkommúnismi sameinaði aðallega félagana. En þau Ragnheiður og Pontus horfa fram hjá því aðalatriði, að Flokkur þjóðernissinna var stofnaður í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Spaugilegt dæmi um viðleitni þeirra til að spyrða Sjálfstæðisflokkinn saman við þennan fylgislitla fasistaflokk er, þegar þau nefna, að fyrsti formaður verkamannafélags sjálfstæðismanna, Óðins, hafi áður verið í Flokki þjóðernissinna. Þau vita líklega ekki, að þessi maður, Sigurður Halldórsson, hafði enn áður verið í kommúnistaflokknum!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júní 2021.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Facebook