17.4.2021 | 09:38
Þráinn Eggertsson

Önnur ritgerð Þráins birtist í Journal of Economic Behavior and Organization árið 1996. Hún er um þá ráðgátu, hvers vegna Íslendingar sultu öldum saman heilu og hálfu hungri, þótt hér væri gnótt fiskjar. Þráinn telur skýringuna vera, að konungur og fámenn stórbændastétt hafi í sameiningu þrengt að sjávarútvegi, sem var að öðru óbreyttu arðbærasti atvinnuvegurinn. Konungur óttaðist, að ella gengi landið undan honum, eins og lá við að gerðist á ensku öldinni svokölluðu, fimmtándu öld. Hann kaus frekar litlar skatttekjur en engar. Stórbændurnir vildu hins vegar ekki missa vinnuaflið að sjávarsíðunni. Útlendingum var því bönnuð veturseta, og landsmenn urðu að vera vistaðir á einhverju hinna fimm þúsund býla landsins og gátu aðeins stundað fiskveiðar í hjáverkum. Með konunglegum tilskipunum var verð á fiski fært langt niður frá markaðsverði, en verð á landbúnaðarafurðum að sama skapi fært upp. Afleiðingin var, að Ísland festist í fátæktargildru, sem það losnaði ekki úr, fyrr en yfirvöld í Kaupmannahöfn höfðu skilið kenningu hagfræðinnar um kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Þráinn Eggertsson er einn fremsti fulltrúi þeirrar rannsóknarhefðar á Íslandi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook