Orðaskipti um skotárásir

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði á Facebook:

Örsaga úr hversdeginum #107: Með skotárásum á starfsstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra og fjölskyldu hans er endanlega ljóst að við verðum öll að staldra nú við og taka okkur taki í opinberri umræðu og því hvernig við tölum um hvert annað. Þetta mun annars enda með ósköpum. Viðbjóðurinn sem vellur um skólpleiðslur kommentakerfanna, hrakyrðin og hótanirnar eru daglegt brauð. Við höfum séð í Bandaríkjunum hvernig fer þegar öfgafólk stendur upp frá lyklaborðinu og lætur verkin tala. Sem opinber persóna til margra ára, þekki ég vel hvernig það er í lenda í þessari hakkavél. Að fá nafnlausar hótanir og níðpósta. Lesa ógeðsleg ummæli frá einhverju fólki sem þekkir mann ekki neitt og veit ekkert hvað það er að tala um. Íslenskir stjórnmálamenn hafa mátt þola þetta, jafnvel umsátur um heimili sín án þess að nokkuð væri aðhafst. Ekkert okkar á að sætta sig við þetta og við eigum ekki að umbera þetta sem samfélag. Hingað og ekki lengra.

Ég er auðvitað sammála honum, en skrifaði athugasemd:

Þetta er ekkert nýtt. Menn fá nafnlaus níð- og hótunarbréf, og skotið er í rúður hjá þeim og jafnvel veist að þeim á almannafæri. Það, sem er nýtt, er að hlaupa með þetta í fjölmiðla, en á því nærast ofbeldisseggirnir. Það á í kyrrþey að kippa þeim úr umferð.

Þá skrifaði Egill Helgason:

Þetta er nú skrítið og svo eru einhverjir furðufuglar að læka þetta – að eigi að þegja um það ef skotið er úr byssum á skrifstofur stjórnmálaflokka eða bifreiðar stjórnmálamanna? En ef skotið er á heimili þeirra - má þá segja frá því?

Ég svaraði:

Það er dálítið einkennilegt að sjá umræðustjóra Ríkisútvarpsins, sem kostað er af almannafé og menn geta ekki sagt upp áskrift að, afgreiða hér venjulegt fólk, kjósendur og skattgreiðendur, sem furðufugla. Hjá BBC í Bretlandi gilda strangar reglur um, hvað umræðustjórar á vegum þess mega segja opinberlega. Menn eiga ekki að geta dregið óhlutdrægni þeirra í efa. Tvö dæmi um hlutdrægnina í Sífri Egils: 1) Þeir tveir hagfræðingar íslenskir, sem hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu, Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson, eru aldrei boðnir í þáttinn, en þar er hins vegar Þorvaldur Gylfason (jaðarmaður, fékk 2,45% í kosningum) fastagestur, en hann lætur m. a. að því liggja, að þeir Nixon og Bush hafi ráðið Kennedy bana og að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp einn turninn í New York í september 2001. 2) Náungi, sem var slíkur aðdáandi Elvis Presleys, að hann tók upp nafn hans, fullur heiftar í garð Kaupþings, af því að hann var rekinn frá Singer & Friedlander í Lundúnum, var látinn bölsótast yfir Ármanni Þorvaldssyni í einum þættinum, en Ármann hefur aldrei fengið tækifæri til að svara fyrir sig. Hverjir eru furðufuglarnir?

Sverrir Herbertsson, sem ég þekki nú raunar ekki, gerði líka réttmæta athugasemd:

Er ekki verið að meina að ofbeldiseggirnir nærist á athyglinni sem þeir fá í fjölmiðlum.

Ég svaraði honum líka:

Jú, nákvæmlega. Lögreglan hefur alltaf ráðlagt mönnum, sem fyrir þessu verða (og ég er einn þeirra, meðal annars skotför í glugga), að hafa ekki hátt um það. Ástæðan til þess, að ég segi þetta núna og fer þannig ekki eftir þessum ráðleggingum, er, að ég er alls ekki lengur opinber persóna, heldur aðeins meinlaus grúskari á Þjóðarbókhlöðunni. En athyglin er það súrefni, sem þessir ofbeldisseggir nærast á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband