Nokkrar fleiri villur í bók Kjartans um kommúnista

Draumar_og_veruleiki_72_TilnefningÍ ritdómi mínum í Morgunblaðinu 10. desember 2020 um bók Kjartans Ólafssonar, Drauma og veruleika (í næsta bloggi hér á undan) nefndi ég nokkrar villur í bókinni. Þær eru margar fleiri, þótt ég vildi ekki eyða of miklu rými í að telja þær upp. Hér eru nokkrar, flestar smávægilegar, ef  bókin verður einhvern tíma endurprentuð (en eitthvað er líka af stafvillum, sem ég hirti ekki um að leiðrétta):

Lærimeistari Einars Olgeirssonar í Berlín hét Duncker, ekki Duncher (bls. 21).

Höfuðborg Eistlands heitir Tallinn, ekki Tallin (bls. 24).

Samband ungra kommúnista var ekki stofnað 12.–16. nóvember 1924 (bls. 27), þótt það þing þess hafi verið nefnt stofnþing. Sambandið var stofnað í febrúar 1924 í kyrrþey.

Stjórn SUK, sem Kjartan nefnir (bls. 27), var ekki fyrsta stjórn Sambandsins, heldur önnur. Í fyrstu stjórninni frá því í febrúar 1924 voru Hendrik S. Ottósson, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Jón Brynjólfsson, Guðmundur Sveinsson og Haukur S. Björnsson. Fljótlega settust þó Brynjólfur Bjarnason og Ársæll Sigurðsson í stjórnina í stað Hendriks og Jóns.

Í annarri stjórninni var enginn Þórarinn Pétursson (bls. 27). Kjartan hlýtur að eiga við Þorstein Pétursson, sem sat í stjórninni.

Maður í annarri stjórninni og síðar forseti SUK hét Sigurgeir Björnsson, ekki Siggeir (bls. 27).

Nathan Friedmann var ekki munaðarlaus (bls. 30), þegar hann kom til Íslands. Hann átti móður á lífi og raunar ættingja í Sviss.

Ólafur Friðriksson hafði ekki forgöngu um fyrstu kröfugönguna 1. maí 1923 (bls. 32), þótt hann væri formaður undirbúningsnefndar. Það var Hendrik Ottósson, sem bar fram tillögu um kröfugöngu á fundi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík í aprílbyrjun.

Í sambandi ungra kommúnista voru ekki tvö félög (bls. 32), heldur þrjú, í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Tvö hin síðarnefndu voru hins vegar vissulega nafnið eitt.

Kjartan nefnir Verklýðssamband Norðurlands Verkalýðssamband (bls. 59, 87 og víðar). Þetta er auðvitað smáatriði, en í umsögn í Tímariti Máls og menningar 1993 um rit eftir Árna Snævarr um íslenska kommúnista var sérstaklega fundið að því, að hann hefði ranglega kallað málgagn þeirra Verkalýðsblaðið, ekki Verklýðsblaðið. Leyfi ég mér því að nefna þetta.

Garnaslagurinn í Reykjavík var ekki haustið 1930, heldur 11. desember (bls. 85).

Einn af böðlum Stalíns hét Lazar Kaganovítsj, ekki Lazsar (bls. 118).

Kjartan hefur eftir Arnóri Hannibalssyni (bls. 120), að óvíst sé, hver Stefánsson sé, sem Komintern hafi valið í stjórnmálanefnd (miðstjórn) kommúnistaflokksins 1934, en ég bendi á í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, að þetta var Benedikt Stefánsson, mágur Hjalta Árnasonar.

Kjartan segir, að fyrsta íslenska sendinefndin hafi farið til Ráðstjórnarríkjanna haustið 1931 (bls. 126), en fyrr á árinu höfðu þeir Stefán Ögmundsson og Haraldur Bjarnason raunar farið saman þangað austur í boðsferð. Enn fremur höfðu þrír fulltrúar frá Íslandi setið verkalýðsmót í Moskvu 1930 og síðan ferðast suður á bóginn.

Finnland hlaut ekki sjálfstæði árið 1918 (bls. 201), heldur í desember 1917.

Kjartan segir, að kröfugöngur hafi verið farnar í Reykjavík 1. maí ár hvert allt frá 1923 (bls. 228), en þær lágu niðri í nokkur ár frá 1927.

Mynd af Laxness að halda ræðu 1. maí (bls. 322) er frá 1936, eins og ég get um í bók minni, ekki 1937.

Á einum stað (bls. 25) segir Kjartan réttilega, að FUK hafi verið stofnað 23. nóvember 1922 (á ársafmæli svokallaðs Drengsmáls), á öðrum (bls. 31) ranglega, að það hafi verið stofnað 3. nóvember.

Kjartan er maður háaldraður og gerði eflaust sitt besta, enda er bók hans skrifuð af heiðarleika og einlægni, og auðvitað gjörþekkir hann sögu Sósíalistaflokksins á sjötta og sjöunda áratug, þegar hann starfaði þar. Þar eru miklu færri villur en í fyrri hlutanum. En útgefandinn hefði átt að fá einhvern vandvirkari mann en Jón Ólafsson til að fara yfir handritið. Og sá yfirlesari hefði haft gott af því að skoða bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna betur en þeir Kjartan og Jón gera, en raunar er ekki minnst á bók Snorra, Roðann í austri, í bók Kjartans. Hefur Snorri þó gert rækilegar frumrannsóknir á sögu kommúnistahreyfingarinnar, og er mér ánægja að segja frá því, að bráðlega er væntanlegt hjá Almenna bókafélaginu tveggja binda verk Snorra um kommúnistahreyfinguna íslensku. Fer hann þar í saumana á ýmsum álitamálum.

Ég sleppti líka í ritdómi mínum hugleiðingum um aðgang að heimildum, en um það mál má margt segja. Kjartan hefur haft aðgang að heimildum, sem ekki voru tiltækar, þegar ég skrifaði bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, aðallega fróðlegum bréfum Stefáns Pjeturssonar til Einars Olgeirssonar, en einnig að önnur skjölum, sem hann segir geymd á góðum stað. Breyta þessar heimildir þó engu um  bók mína. Kjartan segir líka frá skjölum, sem hafi horfið, og er á honum að skilja, þótt hann segi það ekki beint, að Einar Olgeirsson hafi fjarlægt þau úr skjalasafni Sósíalistaflokksins. Mér er sagt, að enn sé talsvert af slíkum skjölum í vörslu einkaaðila. Er þetta mál allt hið dularfyllsta, en ráðlegt að segja sem minnst um það að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband