9.12.2020 | 05:21
Erlendur Haraldsson
Erlendur Haraldsson sálfræðiprófessor bar ekki með sér að vera ævintýramaður. Hann var hávaxinn og beinn í baki, fríður sýnum, grannvaxinn og samsvaraði sér vel. Ungur hafði hann mikið svart hár, sem hann skipti í miðju, en með árunum þynntist það og gránaði, en hvarf þó ekki. Erlendur var hógvær og prúður í framkomu og virtist jafnvel vera hálfgerður meinlætamaður: hann var grænmetisæta og drakk aðeins blátært vatn, hvorki kaffi né áfenga drykki. En þar átti við sem annars staðar, að hann var ekki allur, þar sem hann var séður, því að hann neitaði sér síður en svo um ástir kvenna. Og þótt hann væri sjálfur óáleitinn, sýndi hann festu og röggsemi, þegar að honum var sótt á deildarfundum, en við kenndum um árabil saman í félagsvísindadeild Háskólans. Mættu þar orðskáustu menn deildarinnar fullkomnum jafnoka, og höfðum við hin gaman af.
Því segi ég, að Erlendur hafi verið ævintýramaður, að hann var einn víðförlasti Íslendingur sinnar tíðar og lenti ósjaldan í hremmingum. Frægast var, þegar hann lagði leið sína til Kúrdistan árið 1962. Hann hafði kynnst nokkrum Kúrdum í Berlín, þar sem hann stundaði nám, fyllst áhuga á sjálfstæðisbaráttu þessarar aðþrengdu fjallaþjóðar og ákveðið að fara austur. Í Bagdad náði hann sambandi við neðanjarðarhreyfingu Kúrda, sem kom honum inn í Íran, og þaðan laumaðist hann til íraska Kúrdistan. Á heimleiðinni handtók íranska lögreglan hann, en hann slapp úr haldi hennar og gaf út bókina Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan árið 1964. Var hún þýdd á þýsku tveimur árum síðar. Erlendur varð góður vinur margra helstu leiðtoga Kúrda.
Í fræðunum var Erlendur líka ævintýramaður, því að í sérgrein sinni valdi hann sér afar óvenjulegt viðfangsefni, hið yfirskilvitlega. Hann skrifaði margar bækur um rannsóknir sínar á yfirnáttúrlegum fyrirbærum, og hafa þær komið út á helstu heimstungum, en líklega seldist best rit, sem hann samdi um indverska trúarleiðtogann Sai Baba, en af töfrabrögðum (eða brellum?) hans ganga ótrúlegar sögur. Segir Erlendur frá þessu öllu í endurminningum sínum, Á vit hins ókunna, en þær komu út hjá Almenna bókafélaginu árið 2012. Í rannsóknum sínum slakaði Erlendur þó aldrei á vísindalegum kröfum. Áhugi hans á Kúrdum og val viðfangsefna í sálfræði sýndu, hversu óhræddur hann var við að fara ótroðnar slóðir, um leið og hann var jafnan varfærinn og vandvirkur. Hugur hans var alla tíð opinn, eins og sönnum vísindamanni sæmir. Hef ég fyrir satt, að erlendis sé hann einn nafnkunnasti prófessor Háskóla Íslands. Að honum er sjónarsviptir.
(Minningargrein í Morgunblaðinu 9. desember 2020.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook