Orð Hayeks staðfest

17.10 Hayek á fyrirl. 5.4Einar Már Jónsson fornfræðingur minnist á mig í pistli sínum á Stundinni 3. desember 2020, og er ekki nema sjálfsagt, að ég svari honum stuttlega. Hann telur, að frjálshyggjumenn hafi gert gagnbyltingu í hugmyndaheiminum, náð hinu andlega forræði, sem ítalski marxistinn Antonio Gramsci taldi mikilvægast. Þeir hafi nú að vísu misst þetta andlega forræði, en haldi enn völdum víðast á Vesturlöndum og noti tækifærið til að einkavæða allt, sem þeir geta, með misjöfnum árangri.

Það er rétt, að sósialistar misstu sitt andlega forræði um og upp úr 1980. En hvers vegna var það? Ástæðurnar voru tvíþættar. Í kommúnistaríkjunum höfðu þeir fylgt stefnu, sem ekki gekk upp, sameign á framleiðslutækjunum og miðstýringu atvinnulífsins. Þegar árið 1921 hafði Ludwig von Mises bent á, að allsherjarskipulagning atvinnulífsins hlyti að mistakast, því að frjáls markaður með fjármagn (framleiðslutækin) væri ómissandi. Hayek, sem Einar Már gerir að goði frjálshyggjumanna, hafði síðan komið orðum að tveimur voldugum hugmyndum, að dreifing þekkingar krefjist dreifingar valds og að samkeppni á markaði sé þrotlaus þekkingarleit. Það er aðeins með samkeppni á markaði sem við komumst að því, hvar hæfileikar manna nýtast öðrum til heilla. Hrun Ráðstjórnarríkjanna varð um leið hrun vinnubúðasósíalismans.

Á Vesturlöndum höfðu sósíalistar horfið frá kröfunni um sameign á framleiðslutækjunum og studdu blandað hagkerfi, sem kallað er. Þar var aðalmarkmiðið full atvinna í anda Johns Maynards Keynes. En upp úr 1970 kom í ljós, að sú stefna gekk ekki heldur upp. Ríkið gat ekki til lengdar örvað atvinnulífið með því að dæla peningum í það. Valið var ekki um atvinnuleysi eða verðbólgu, heldur fór atvinnuleysið saman við verðbólguna. Þetta skildi Margrét Thatcher í Bretlandi, og hún hvarf frá þessari stefnu, þótt það kostaði hörð átök við verkalýðsfélög, sem snerust til varnar úreltum framleiðsluháttum og reyndu með ofbeldi að hindra fólk í að vinna, til dæmis námumenn og prentara. Thatcher taldi, að það væri ekki ríkisins að tryggja fulla atvinnu, heldur yrðu menn að semja um kaup og kjör á frjálsum markaði. Ríkið átti ekki að reka atvinnufyrirtæki með stórfelldu tapi (sem þannig sogaði til sín fé úr arðbærari framkvæmdum). Hinum megin Norðursjávarins, í Svíþjóð, höfðu sósíalistar gengið mjög langt í að hækka skatta og auka ríkisafskipti, en um 1990 varð ljóst, að komið var í óefni. Framkvæmdamenn höfðu flúið skattáþjánina í Svíþjóð, og einu nýju störfin voru í opinbera geiranum. Sátt varð smám saman um það í Svíþjóð að hverfa af þessari braut, lækka skatta og veita framkvæmdamönnum og frumkvöðlum aukið svigrúm. Með stefnubreytingunum í Bretlandi og Svíþjóð hrundi vöggustofusósíalisminn.

Sósíalisminn hafði mistekist, jafnt í austri sem vestri. En hafði frjálshyggjan tekist? Einar Már notar sömu samtalstækni og aðrir sósíalistar. Hann segir sögur, aðallega af vondum frjálshyggjumönnum. En sögur sanna ekkert, enda eru þær oft ónákvæmar. Gera þarf almennan samanburð á hagkerfum til að komast að einhverjum niðurstöðum um kosti þeirra og galla. Þetta hefur hópur vísindamanna gert allt frá 1996 með vísitölu atvinnufrelsis, Index of Economic Freedom. Þeir hafa smíðað vísitölu, sem sett er saman úr mörgum þáttum, til dæmis hversu traustur einkaeignarrétturinn er, hversu stöðugt peningakerfið er, hversu frjáls utanríkisviðskipti eru og hversu háu hlutfalli landsframleiðslu einstaklingarnir ráðstafa sjálfir. Gera þeir nákvæma grein fyrir forsendum sínum í skýrslum, sem birtast árlega. Þeir hafa sífellt reynt að endurbæta mælingu sína og notast eftir föngum við opinberar, viðurkenndar hagtölur, en reyna að forðast matskenndar stærðir.

Niðurstöðurnar eru svo sannarlega merkilegar. Í nýjustu skýrslunni, sem birtist í september 2020, fyrir tveimur mánuðum, og tekur til ársins 2018, kemur fram eins og oft áður, að sterk fylgni og raunar órúlega sterk fylgni er milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara. Sé þeim 162 löndum eða svæðum, sem mælingin nær til, skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá er landsframleiðsla á mann árið 2018 í frjálsasta fjórðungnum að meðaltali $44.198 (kaupmáttarleiðréttir dalir frá 2017), en í ófrjálsasta fjórðungnum að meðaltali $5.754. En hvað um hina fátækustu? Í frjálsasta fjórðungnum voru meðaltekjur fátækustu 10% $12.293, en í ófrjálsasta fjórðungnum voru þær $1.558. Ég vek sérstaklega athygli á einu. Meðaltekjur fátækasta tíunda hluta þjóðarinnar í frjálsasta fjórðungnum voru tvöfalt hærri en allar meðaltekjur í ófrjálsasta fjórðungnum. Orð Hayeks um sköpunarmátt og leiðréttingarmátt dreifstýringar í atvinnulífi, um kerfi séreignar, samkeppni og takmarkaðs ríkisvalds, hafa svo sannarlega verið staðfest.

Mæling þessa hóps vísindamanna, sem tengdir eru Fraser-stofnuninni í Vancouver í Bresku Kolumbíu, sýnir líka, að atvinnufrelsi hefur almennt aukist í heiminum síðustu áratugi. Í þeim skilningi að minnsta kosti hefur frjálshyggjan sigrað, hvað sem líður andlegu forræði hennar. Það er síðan enginn vafi á því, hvað almenningur myndi kjósa, ef og þegar hann getur kosið með fótunum. Hann myndi kjósa kapítalisma, betri lífskjör, fleiri tækifæri. Hann fer frá Kína til Hong Kong, frá Norður-Kóreu til Suður-Kóreu, frá Mexíkó (þar sem auðlindir eru í ríkiseign) til Texas (þar sem auðlindir eru í einkaeign), frá Kúbu til Flórida, frá Venesúela til Íslands. Ef Einar Már bendir réttilega á, að maðurinn lifi ekki af brauði einu saman, þá er svarið, að maðurinn verði að minnsta kosti að hafa brauð til að lifa. Við kapítalisma starfa mörg blómleg bakarí, en við sósíalisma eru jafnan langar biðraðir eftir því litla brauði, sem er á boðstólum, eftir að valdastéttin hefur hirt sitt.

(Grein í Stundinni 4. september 2020. Myndin er af Hayek á Íslandi 5. apríl 1980.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband