Hrollvekja Tocquevilles

Franski heimspekingurinn Alexis de Tocqueville er einn fremsti frjálshyggjuhugsuður Vesturlanda. Hann reyndi að skýra, hvers vegna bandaríska byltingin 1776 hefði heppnast, en franska byltingin 1789 mistekist. Skýringin var í stystu máli, að Bandaríkjamenn byggju við sérstakar aðstæður, gnótt af ónumdu landi og fjarlægð frá hugsanlegum árásaraðilum, en þeir nytu líka hins breska stjórnfrelsisarfs síns og hefðu verið nógu hyggnir til að skipta valdinu vandlega á milli margra aðila. Jafnframt væru þeir trúaðir og félagslyndir, og það héldi valdafíkn og sérhagsmunastreitu í skefjum. Þess vegna hefði Bandaríkjamönnum tekist að sameina jafnræði og frelsi. En hvað ættu frjálslyndir menn að óttast?

Svar Tocquevilles í riti hans, Lýðræði í Vesturheimi, er frægt. „Ég sé fyrir mér múg óteljandi manna, sem allir eru svipaðir og jafnir og önnum kafnir við að afla þeirra lítilmótlegu og lágkúrulegu gæða,  sem þeir fylla með sálir sínar. Hver og einn þeirra gengur einn sér og lætur sér fátt um örlög annarra finnast. Sjóndeildarhringur hans takmarkast við börn og vini. Þótt meðbræður hans séu nálægt, veitir hann þeim ekki eftirtekt. Hann kemst í snertingu við þá án þess að finna fyrir þeim. Hann er aðeins til í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Og eigi hann fjölskyldu, þá á hann að minnsta kosti ekki lengur ættjörð.“

Tocqueville heldur áfram: „Yfir þessum skara rís risastórt, stjórnlynt yfirvald, sem sér eitt um að fullnægja þörfum þeirra og velja þeim brautir í lífinu. Það er altækt, smámunasamt, reglubundið, forsjált og milt. Það myndi líkjast föðurvaldi, væri verkefni þess að búa menn undir fullorðinsár, en það hefur annað tilgang og ólíkan, að hindra að þeir komist úr bernsku. Það hefur ekkert á móti því, að menn gleðjist, að því tilskildu, að þeir hugsi ekki um annað á meðan. Þetta vald vinnur fúslega að slíkri hamingju, en það heimtar að fá eitt að skammta hana og skipuleggja. Það gætir öryggis manna, stjórnar framleiðslu þeirra, ræður kjörum þeirra, skiptir með þeim arfi. Hvað er þá eftir annað en taka af þeim ómakið við að hugsa og lifa?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband