Heimur batnandi fer

Haustið 2014 gaf Almenna bókafélagið út bók metsöluhöfundarins Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Ridley er dýrafræðingur að mennt, var um skeið vísindaritstjóri Economist, en situr í lávarðadeild Bretaþings. Hélt hann því fram, að kjör mannkyns hefðu snarbatnað síðustu tvær aldir. Á dögunum birti Ridley grein í Spectator um þróunina á þessum áratug.

Nú hefur í fyrsta skipti í mannkynssögunni hlutfall þeirra, sem búa við sára fátækt, farið niður fyrir 10 af hundraði. Tekjudreifing á heimsvísu hefur orðið jafnari, aðallega vegna þess að í Asíu og Afríku hefur hagvöxtur verið örari en í Evrópu og Norður-Ameríku. Barnadauði hefur aldrei verið minni. Um hungursneyðir heyrist vart lengur. Mýrakalda, lömunarveiki og hjartasjúkdómar eru allt orðið fátíðara.

Nú notar mannkynið minna á mann af alls konar efnum vegna tækniframfara og endurnýtingar. Í Bretlandi minnkaði notkun alls konar efna (lífrænna efna, málma, jarðefna og jarðefnaeldsneytis) á mann um þriðjung tímabilið 2000–2017. Snjallsíminn hefur leyst af hólmi myndavélina, útvarpið, vasaljósið, áttavitann, landabréfið, úrið, geislaspilarann, dagblaðið og spilin. Ljósaperur nota miklu minna rafmagn en áður, skrifstofur miklu minni pappír.

Tækniframfarir í landbúnaði hafa í för með sér, að minna land þarf nú til beitar og ræktunar, og hafa skógar að sama skapi stækkað í vestrænum velsældarlöndum og villidýr snúið þangað aftur. Ridley telur hið mesta óráð að reyna að minnka orkunotkun með því að hækka orkuverð upp úr öllu valdi. Völ sé á nægri ódýrri orku í kjarnorkuverum.

Þess má líka geta, þótt Ridley minnist ekki á það í pistli sínum, að mjög hefur hægt á fólksfjölgun í heiminum. Martröðin um sífellt fleira fólk að eltast við sífellt færri auðlindir á sér litla stoð í veruleikanum. Draumurinn um betra og grænna mannlíf getur hins vegar ræst.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2020.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband