1.12.2019 | 08:11
Svör til Kristjóns Kormáks á Fréttablaðinu
Ég fæ oft skrýtin bréf, en það, sem ég fékk á laugardagskvöldið 30. nóvember, var líklega eitt hið skrýtnasta, sem ég hef fengið lengi. Kristjón Kormákur Guðjónsson, sem var á DV, en er nú kominn á Fréttablaðið, skrifaði kl. 22:32:
Heill og sæll Hannes. Hef samband við þig frá Fréttablaðinu. Ég tók eftir að Gunnar Smári Egilsson var að gagnrýna það harðlega að þú væriri [svo] skrifa dóm um bók Øygard. Gunnar Smári segir: Mogginn fékk Hannes Hólmstein til að skrifa ritdóm um Í víglínu íslenskra fjármála, bók Svein Harald Øygard um Hrunið sem Hannes og félagar bjuggu til. Hannes var ekki hrifinn af bókinni. Nokkur fjöldi tekur undir með honum í þeirri gagnrýni. Mig langaði að senda þér línu og spyrja hvað þér finnst um þennan málfutning [svo]. Þá liggur beinast við að spytja [svo] hvort þú sért vanhæfur til að fjalla um verkið? Þú ert til dæmis mjög góður vinur Davíðs, fyrrverandi seðlabankastjóra, og um það hefur verið fjallað í fjölmiðlum og þá vitnað í verk Øygard um að örlög Íslands hafi til dæmis ráðist á fundi bankastjóra heima hjá Davíð. Í ljósi tengsla þinna er þá ekki frekar óheppilegt að þú skrifir dóm um verkið sem er síðan birt í blaði sem vinur þinn, ritstjóri og fyrrverandi seðlabankastjóri stýrir? Nú er ég búinn að lesa dóminn, en í styttra máli, hvað finnst þér helst vanta í verkið og eins, hvað er vel gert? Væri afar þakklátur ef þú hefðir tök á að svara þessu, hvort sem það væri skriflega eða í gegnum síma. Kveðjur góðar, Kristjón Kormákur
Ég hlýt að svara þessu svo:
Það hefur alveg farið fram hjá mér, ef Gunnar Smári Egilsson er orðinn einhver yfirdómari um það, hverjir mega og hverjir mega ekki skrifa ritdóma í Morgunblaðið. Ég viðurkenni hins vegar, að hann er alger afreksmaður í því að setja blöð á höfuðið, og skiptir þá ekki máli, hvort er góðæri eða kreppa. Honum tókst til dæmis að tapa sjö milljörðum króna fyrir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni á Nyhedsavisen í Danmörku og skapa fjandsamlegt andrúmsloft í garð Íslendinga á Norðurlöndum, eins og lesa má um í bók nokkurra danskra blaðamanna, Alt går efter planen, Það er allt á áætlun. Ég viðurkenni líka, að Gunnar Smári er afkastamaður á skoðanir ekki síður en gjaldþrot. Einn daginn er hann leigupenni auðjöfranna með fimm milljónir króna á mánuði, annan daginn hefur hann forystu um Sósíalistaflokk, sem ætlar að leggja alla auðjöfra að velli með ofursköttum. Einn daginn er hann í múslimafélagi Íslands, annan daginn vill hann, að Ísland gangi í Noreg sem 21. fylkið. Einn daginn hleypur hann frá ógreiddum launum starfsfólks síns, annan daginn er hann skyndilega orðinn verkalýðsforkólfur. Hvað kemur næst?
Ég skal hins vegar reyna að svara þér efnislega. Gunnar Smári Egilsson segir, að við höfum búið til hrunið. Þetta er enn fráleitara en þær skoðanir, sem þessi landsfrægi blaðafellir hefur sett fram um ýmislegt annað og getið er hér að ofan. Bankahrunið íslenska var angi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem skall fyrr og harðar á Íslandi en öðrum löndum, af því að við vorum óvarin, ein og óstudd og áttum ekki lengur neina volduga vini. Bankar um allan heim áttu í miklum erfiðleikum með að afla sér lausafjár og hefðu margir fallið, hefði bandaríski seðlabankinn ekki hlaupið undir bagga með seðlabönkum ýmissa landa, þar á meðal í Svíþjóð og Sviss. Eitt rannsóknarefni mitt var: Hvers vegna fengu þessi ríki aðstoð, sem Íslandi var neitað um? Ég reyni eftir megni að svara þeirri spurningu í skýrslum, sem ég skrifaði, fyrst fyrir New Direction í Brüssel, síðan fyrir fjármálaráðuneytið á Íslandi. Annað rannsóknarefni mitt var: Hvers vegna beittu Bretar þessari hörku í viðureign við Íslendinga, en til dæmis ekki Þjóðverjar, þótt aðferðir við innlánasöfnun íslenskra banka væru hinar sömu í báðum löndunum? Ég sýni fram á það í skýrslum mínum, að þessi harka var tilefnislaus, og varpa fram tilgátu um, hvaða stjórnmálahvatir liggi henni að baki.
Sú staðreynd, að ég sat í bankaráði Seðlabankans í átta ár og er í góðu sambandi við seðlabankastjórana fyrrverandi, þá Davíð Oddsson og Ingimund Friðriksson, og var í góðu sambandi við Eirík Guðnason, sem nú er því miður látinn, auðveldar mér einmitt að dæma um bók Øygards, en torveldar ekki, því að ég var nálægt atburðunum og þekki til þeirra, en ekki fjarlægur þeim. Til dæmis segir Øygard frá fundi, sem haldinn var heima hjá Davíð Oddssyni vorið 2006. Ég hef rætt við alla þá, sem voru á fundinum, og hef frásögn mína af honum eftir þeim öllum. Øygard veit ekki, hvað hann er að tala um, þegar hann víkur að þessum fundi. Þar var ekki minnst einu orði á innlánasöfn bankanna eða Icesave-reikningana. Og eftir þennan fund fóru bankarnir í það að reyna að lengja í lánalínum, þótt það gengi misjafnlega vel.
Þú segist hafa lesið ritdóm minn. Þá ættir þú ekki að þurfa að spyrja mig, hvað sé vel gert í bók Øygards og hvað sé miður vel gert. Það kemur þar skýrt fram. En ég get endurtekið það hér. Øygard er bersýnilega hlýtt til Íslendinga og hefur lagt sig fram í starfinu sem seðlabankastjóri, og fyrir bókina hefur hann talað við fjölda manns (þótt furðulítið sé á því að græða). Hann hefur líka rétt fyrir sér um það, að varnargarðshugmyndin (ring fencing) var mjög mikilvæg: að verja ríkið og þjóðina með varnargarði (neyðarlögunum) og láta hinn erlenda hluta bankanna sigla sinn sjó. Øygard vildi eflaust vel. En hann endurtekur ýmsar missagnir um hrunið, eins og ég bendi á, meðal annars af ókunnugleika á íslenskum aðstæðum. Það sést líka á listanum um viðmælendur í lok bókar hans, að hann hefur talað við marga í Hrunmangarafélaginu, sem ég kalla svo. Það er fólk, sem taldi sig vanmetið fyrir bankahrunið, en spratt þá upp og ætlaði að gera sér mat úr bankahruninu og sagði: Nú get ég. En það fór fyrir Hrunmangarafélaginu eins og Hörmangarafélaginu forðum, að það hefur aðallega selt gallaða vöru, og fór það hinar háðulegustu hrakfarir í Icesave-deilunni og í þingkosningunum 2013. Skýringar þess á bankahruninu standast ekki skoðun.
Ég skal nefna nokkur dæmi.
- Sagt er, að bankahrunið hafi orðið vegna nýfrjálshyggju og óðakapítalisma. En bankar í mörgum frjálsari hagkerfum féllu ekki, og Ísland var síður en svo með frjálsara hagkerfi en grannlöndin.
- Sagt er, að bankahrunið hafi orðið vegna gallaðs regluverks. En regluverkið á fjármálamörkuðum var hið sama á Íslandi og í öðrum aðildarríkjum EES.
- Sagt er, að íslenska bankakerfið hafi verið orðið of stórt. En hafa verður í huga, að það var 7,4 sinnum landsframleiðsla, en bankakerfið á Kýpur áttföld landsframleiðsla, í Sviss tíföld landsframleiðsla og í Skotlandi tólfföld landsframleiðsla.
- Sagt er, að bankahrunið hafi orðið vegna útþenslu bankanna. En bankar þenjast ekki út af sjálfum sér, heldur af því að þeim tekst að afla sér viðskiptavina, sem vilja ýmist lána þeim fé eða taka fé að láni frá þeim. It takes two to tango. Auðvitað hegðuðu íslensku bankarnir sér glannalega og tóku allt of mikla áhættu, sérstaklega í ljósi þess að sú áhætta gat færst yfir á saklaust fólk, sparifjáreigendur og allan almenning í landinu. En það tókst einmitt með varnargarðshugmyndinni að minnka áhættuna fyrir almenning: dreginn var varnarhringur í kringum ríkissjóð, greiðslumiðlunina og sparifjáreigendur, en kröfuhafar bankanna og hluthafar í þeim voru látnir sæta afgangi.
- Sagt er, að eignasöfn íslensku bankanna hafi verið lakari en hliðstæð eignasöfn erlendra banka. Þeir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson komast að annarri niðurstöðu í vandaðri bók um málið, og ein vísbending er sterk: Þeir bankar í eigu Íslendinga, sem gerðir voru upp sæmilega eðlilega erlendis, Heritable og KSF í Bretlandi, áttu í raun og veru fyrir skuldum. Þeir voru ekki gjaldþrota.
- Sagt er, að íslensk stjórnvöld hafi verið andvaralaus. Það á að minnsta kosti ekki við um Seðlabankann, þar sem ég þekkti til. Seðlabankastjórarnir þrír vöruðu hvað eftir annað við útþenslu bankanna, þar sem íslenska ríkið hefði ekki burði til þess að bjarga þeim, ef illa færi. Þeir fengu Andrew Gracie, sérfræðing Englandsbanka, til að gera skýrslu um málið í febrúar 2008, og í kyrrþey undirbjuggu þeir varnargarðshugmyndina, jafnframt því sem þeir reyndu að útvega lausafé frá útlöndum, en komu nánast alls staðar að lokuðum dyrum. Össur Skarphéðinsson viðurkenndi einmitt í yfirheyrslum hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, að Davíð Oddsson varpaði fram varnargarðshugmyndinni á hinum fræga ríkisstjórnarfundi 30. september 2008. En Össur og aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar máttu ekki heyra á neitt minnst, sem Davíð sagði, svo að Seðlabankinn varð að kaupa flugvél undir sérfræðinga JP Morgan, sem sannfærðu þá loks um varnargarðshugmyndina aðfaranótt 6. október. Starfsfólk Seðlabankans og viðskiptaráðuneytisins vann þá dag og nótt og stóð sig frábærlega.
En nú langar mig til að spyrja þig, Kristjón Kormákur, sem blaðamann: Skiptir engu máli í þínum huga, að Øygard var settur seðlabankastjóri þvert á skýrt ákvæði stjórnarskrárinnar um, að embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar? Skiptir engu máli, að skipulögð var fjölmiðlaherferð eftir bankahrunið gegn þeim einu, sem höfðu varað við og gert ráðstafanir, sem voru seðlabankastjórarnir og aðstoðarfólk þeirra? Er það ekki ósanngjarnt í ljósi sögunnar? Skiptir ekki máli, að Bandaríkjamenn neituðu okkur um aðstoð, sem aðrar Norðurlandaþjóðir þurftu og fengu? Skiptir ekki máli, að Bretar felldu síðasta bankann, sem stóð eftir, Kaupþing, með því að loka dótturfélaginu í Lundúnum, en við það röknuðu upp samningar, svo að Kaupþing gat ekki haldið áfram rekstri? Skiptir ekki máli, að Bretar beittu hryðjuverkalögum að óþörfu á Íslendinga? Af hverju hafa blaðamenn eins og þú ekki flutt neinar fréttir af niðurstöðum í skýrslu minni um, hvers vegna Bandaríkjamenn neituðu okkur um aðstoð og hvers vegna Bretar lokuðu KSF (sem var alls ekki gjaldþrota) og hvers vegna þeir beittu hryðjuverkalögunum? Af hverju hafið þið flutt sáralitlar fréttir af því, hversu grátt íslensku bankarnir voru leiknir á Norðurlöndum eftir bankahrunið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook