Sturla gegn Snorra

Snorri Sturluson hefur ekki notið sannmælis, því að andstæðingur hans (og náfrændi), Sturla Þórðarson, var oftast einn til frásagnar um ævi hans og störf. Sturla fylgdi Noregskonungi að málum og virðist hafa verið sannfærður um, að Íslendingum væri best borgið undir stjórn hans. Íslendinga saga hans var um land, sem vart fékk staðist sökum innanlandsófriðar, og í Hákonar sögu Hákonarsonar dró höfundur upp mynd af góðum konungi, sem ekkert gerði rangt.

Snorri hafði aðra afstöðu. Samúð hans var með friðsælum og hófsömum stjórnendum frekar en herskáum og fégjörnum, eins og sést til dæmis á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra og Orkneyjarjarlanna tveggja, Brúsa og Einars, í Heimskringlu. Snorri hagaði hins vegar jafnan orðum sínum hyggilega, svo að lesa þarf á milli lína í lýsingu hans á Ólöfunum tveimur, Tryggvasyni og Haraldssyni, sem boðuðu kristni og nutu þess vegna hylli kirkjunnar. Sagði hann undanbragðalaust frá ýmsum grimmdarverkum þeirra, svo að sú ályktun Einars Þveræings á Alþingi árið 1024 blasti við, að best væri að hafa engan konung.

Á þrettándu öld rákust jafnframt á tvær hugmyndir um lög, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor hefur greint ágætlega. Hin forna, sem Snorri aðhylltist, var, að lög væru sammæli borgaranna um þær reglur, sem ýmist afstýrðu átökum milli þeirra eða jöfnuðu slík átök. Þetta voru hin „gömlu, góðu lög“, og þau voru umfram allt hemill valdbeitingar. Nýja hugmyndin var hins vegar, að lög væru fyrirmæli konungs, sem þegið hefði vald sitt frá Guði, en ekki mönnum, og beitt gæti valdi til að framfylgja þeim. Þegar sendimaður Noregskonungs, Loðinn Leppur, brást á Alþingi árið 1280 hinn reiðasti við, að „búkarlar“ gerðu sig digra og vildu ekki treysta á náð konungs, var hann að skírskota til hins nýja skilnings á lögum.

Og enn rekast hugmyndir Snorra og Sturlu á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband