31.8.2019 | 08:00
Falsfréttir um regnskóga
Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En þar segir Jón Már Halldórsson líffræðingur um regnskógana í Amasón: Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku. Fréttamenn hafa síðustu daga vitnað í þessa speki í tilefni skógarelda þar syðra.
Auðvitað eru regnskógarnir ekki lungu jarðar, eins og líffræðingurinn ætti manna best að vita. Með lungunum öndum við að okkur súrefni og öndum síðan frá okkur koltvísýringi. En tré og aðrar plöntur í regnskógum og annars staðar gefa frá sér súrefni og taka til sín (binda) koltvísýring. Verkan þeirra er því þveröfug við verkan lungna.
Hvaðan fær líffræðingurinn það síðan, að 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi? Raunar virðist enginn vita, hvernig þessi tala komst á kreik, en hún er röng. Jafnvel umhverfisöfgamaður eins og Michael Mann (sem haldið hefur fyrirlestra í Háskóla Íslands) viðurkennir, að innan við 6% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi. Talan lækki, játar Mann, ef í stað skóganna er settur þar niður annar gróður, til dæmis nytjajurtir, en þær framleiða vitaskuld einnig súrefni með ljóstillífun. Raunar er líklegast, þar sem tré í skógi geta rotnað eða eyðst á annan hátt og þannig tekið til sín súrefni, að engin (eða sáralítil) nýmyndun súrefnis eigi sér þar stað. Líffræðingurinn ætti einnig að vita, að megnið af nýmyndun súrefnis í jarðarhjúpnum á sér stað í sjávargróðri, aðallega svifþörungum.
Það er líka rangt, að skógareldarnir í Amasón séu óvenjumiklir þetta árið. Þeir eru í meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár og raunar talsvert minni en skógareldar, sem geisa um þessar mundir í Afríku og Asíu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook