13.7.2019 | 08:11
Ekki er allt sem sýnist
Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.
Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.
Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk. Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 19241927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 19171920, og safnað skuldum.
Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg. Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:16 | Facebook