8.6.2019 | 12:57
Upp koma svik um síðir
Vorið 2003 var stutt í þingkosningar. Helsta kosningamál Samfylkingarinnar var, að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, væri harðstjóri, sem sigaði lögreglunni á óvini sína. Fréttablaðið, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þótt leynt færi, birti frétt 1. mars um, að stjórn Baugs hefði á öndverðu ári 2002 óttast aðgerðir Davíðs, nokkrum mánuðum áður en lögregla gerði húsrannsókn hjá fyrirtækinu vegna kæru starfsmanns (en sannleiksgildi kærunnar var síðar staðfest af dómstólum). Hafði fundargerðum stjórnarinnar verið lekið í Fréttablaðið. Jón Ásgeir, aðaleigandi Baugs, birti þá yfirlýsingu um, að lekinn væri ekki frá sér. Ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, staðfesti þá yfirlýsingu opinberlega. En fáir hafa veitt því athygli, að höfundur fréttarinnar hefur upplýst málið. Reynir Traustason segir beinlínis í bók sinni, Afhjúpun, sem kom út árið 2014, að þessi yfirlýsing sé ósönn (97. bls.). Það merkir auðvitað á mannamáli, að lekinn var frá Jóni Ásgeiri.
Vorið 2009 var aftur stutt í þingkosningar. Þá birti Stöð tvö, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL Group árið 2006, en það var síðasta ár án takmarkana á styrkjum til stjórnmálaflokka. Allir flokkar flýttu sér þá að upplýsa um styrki frá fyrirtækjum það ár. Samfylkingin sagðist (í Fréttablaðinu 11. apríl) hafa fengið 36 milljónir í styrki yfir 500 þúsund krónur frá fyrirtækjum, en Sjálfstæðisflokkurinn kvaðst hafa fengið 81 milljón í styrki yfir eina milljón. Kjósendur gengu með þessar upplýsingar inn í kjörklefann og veittu Sjálfstæðisflokknum ráðningu. En í janúar 2010 birtist skýrsla Ríkisendurskoðunar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2006. Í ljós kom, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þetta ár fengið samtals 104 milljónir króna, sem er í góðu samræmi við veittar upplýsingar, því að munurinn fólst í smærri styrkjum en einni milljón. En Samfylkingin, hafði þá fengið samtals 102 milljónir króna frá fyrirtækjum. Aldrei hefur verið veitt nein skýring á þessu hróplega misræmi. Í Morgunblaðinu 12. janúar 2006 hafði einn samkennari minn, Margrét S. Björnsdóttir, einmitt skrifað: Það getur verið hætta á að orðtakið; æ sér gjöf til gjalda, eigi við í einhverjum tilvikum og því mikilvægt að öll stærri framlög séu opinber.
Æ sér gjöf til gjalda, sagði Margrét. Upp koma svik um síðir, segjum við hin.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Facebook