4.5.2019 | 10:19
Piketty um borð í Titanic
Tómas Piketty, helsti spekingur jafnaðarmanna um þessar mundir, hefur miklu meiri áhyggjur af auðmönnum en fátæklingum. Hann vill ekki aðeins dalina upp, heldur líka fjöllin niður, eins og Jón Trausti hefði orðað það. Í bók sinni, Fjármagni á 21. öld, víkur Piketty að feigðarför farþegaskipsins Titanic árið 1912 og segir, að stéttaskiptingin um borð hafi endurspeglað stéttaskiptinguna í Bandaríkjunum. Þótt hinn ógeðfelldi Hockley hafi verið hugsmíð James Camerons, hefði hann getað verið til.
Líking Pikettys er hæpin. Farþegar um borð í skipi hafa keypt miða hver á sitt farrými, svo að segja má, að þeir verðskuldi hver sinn stað. Líklega voru miðarnir á þriðja farrými á Titanic einmitt ódýrari, af því að gestirnir á fyrsta farrými greiddu hátt verð fyrir sína miða. Farþegar á skipi geta sjaldnast flust milli farrýma. En í Bandaríkjunum fyrir 1914 braust fjöldi manns með dugnaði og áræðni úr fátækt í bjargálnir, eins og dæmi margra örsnauðra innflytjenda sýndi.
Hinn ógeðfelldi Hockley var ekki til. Hann var hugsmíð. En margir raunverulegir auðmenn voru farþegar á Titanic. Tveir þeirra, Benjamin Guggenheim og John Jacob Astor IV, neituðu að fara um borð í björgunarbáta, fyrr en allar konur og börn hefðu komist þangað. Báðir fórust með skipinu. Ida og Isidor Strauss, sem áttu vöruhúsakeðjuna Macys, voru einnig farþegar. Ida neitaði að stíga niður í björgunarbát án manns síns. Hún vildi eins og Bergþóra forðum heldur deyja í faðmi manns síns.
Fátækur skipverji, George Symons, varð hins vegar alræmdur, þegar honum var falin umsjá björgunarbáts, sem tók fjörutíu manns. Hann hleypti þangað sex öðrum skipverjum og fimm farþegum af fyrsta farrými, en lagði síðan frá. Fátækir menn þurfa ekki að vera betri en ríkir. Manngæska skiptist eftir öðru lögmáli en andstæðurnar auður og ekla.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook