Piketty: Er velmegun af hinu illa?

ThomasPikettyUm þessar mundir er Tómas Piketty helsti spámaður jafnaðarmanna. Boðskapur hans í bókinni Fjármagni á 21. öld vakti mikla athygli árið 2014: Þar eð arður af fjármagni vex oftast hraðar en atvinnulífið í heild, verða hinir ríku sífellt ríkari og öðlast óeðlileg ítök. Óheftur kapítalismi leiðir til ójafnari dreifingar tekna og eigna en góðu hófi gegnir. Vitnar Piketty í rækilegar rannsóknir á tekju- og eignaþróun víða á Vesturlöndum. Hann vill bregðast við með alþjóðlegum ofursköttum, 80% hátekjuskatti og 5% auðlegðarskatti.

Piketty virðist hafa miklu meiri áhyggjur af auðlegð en fátækt, þótt flest teljum við fátækt böl og velmegun blessun. Og einn galli á kenningu Pikettys blasir þegar við. Hann undanskilur það fjármagn, sem ef til vill er mikilvægast, en það er mannauður (human capital). Það felst í þekkingu manna, kunnáttu, þjálfun og leikni. Þótt menn eigi misjafnlega mikið af mannauði, dreifist hann eflaust jafnar um atvinnulífið en annað fjármagn.

Enn fremur verður að minna á, að nú á dögum er verulegt fjármagn í höndum lífeyrissjóða frekar en einkaaðila. Eignir lífeyrissjóða námu árið 2017 til dæmis 183% af landsframleiðslu í Hollandi og 152% á Íslandi.

Þegar Piketty fullyrðir, að óheftur kapítalismi leiði til ójafnrar tekjudreifingar, horfir hann líka fram hjá þeim ríkisafskiptum, sem auka beinlínis á hana. Eitt dæmi er tollar og framleiðslukvótar, sem gagnast fámennum hópum, en bitna á neytendum. Þá má nefna ýmsar opinberar takmarkanir á framboði vinnuafls, sem gera til dæmis læknum, endurskoðendum, hárgreiðslumeisturum og pípulagningamönnum kleift að hirða einokunarhagnað. Þriðja dæmið er skráning einkaleyfa og vernd höfundarréttar: Auður Bills Gates myndaðist ekki síst vegna einkaleyfa, og Agatha Christie og J.K. Rowling urðu ríkar af höfundarrétti. Minna má og á niðurgreidda þjónustu við efnað fólk, sem umfram aðra sækir tónleika og sendir börn sín í háskóla. Tekjudreifingin verður líka ójafnari við það, er eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja fá að hirða gróðann, þegar vel gengur, en senda skattgreiðendum reikninginn, þá er illa fer, eins og sást erlendis í síðustu fjármálakreppu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. apríl 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband